Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér vitið ekki daginn né stundina“

„Þér vitið ekki daginn né stundina“

„Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ – MATT. 25:13.

1-3. (a) Hvaða dæmi auðvelda okkur að skilja lærdóminn sem draga má af tveim dæmisögum Jesú? (b) Við hvaða spurningum þurfum við að fá svör?

ÍMYNDAÐU þér að hátt settur maður biðji þig að aka sér á mikilvægan fund. Rétt áður en þú leggur af stað til að sækja hann uppgötvarðu að bíllinn er að verða bensínlaus. Þú þarft að skreppa frá til að kaupa bensín. Á meðan þú ert í burtu kemur maðurinn sem þú áttir að aka. Hann lítur í kringum sig en sér þig hvergi. Hann getur ekki beðið svo að hann biður einhvern annan að aka sér á fundinn. Stuttu seinna kemurðu á staðinn en uppgötvar þá að maðurinn er farinn. Hvernig yrði þér innanbrjósts?

2 Hugsaðu þér nú að þú sért hátt setti maðurinn og hafir valið þrjá færa menn til að taka að sér mikilvægt verkefni. Þú skýrir fyrir þeim hvað þeir eigi að gera og allir þrír taka það fúslega að sér. Þegar þú kemur aftur nokkru síðar uppgötvarðu að aðeins tveir þeirra hafa gert það sem þú baðst þá um. Sá þriðji fer aftur á móti að afsaka sig en sannleikurinn er sá að hann reyndi ekki einu sinni að sinna verkefninu. Hvað ætli þér fyndist um það?

3 Í dæmisögunum um meyjarnar tíu og um talenturnar lýsir Jesús svipuðum aðstæðum og gert er hér að ofan. Báðar fjalla þær um tíma endalokanna og lýsa hvers vegna sumir andasmurðir kristnir menn eru trúir og hyggnir en aðrir ekki. * (Matt. 25:1-30) Jesús benti á lærdóminn sem draga má af dæmisögunum og sagði: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina“ – það er að segja hvenær Jesús fullnægir dómi yfir heimi Satans. (Matt. 25:13) Leiðbeiningar Jesú eiga fullt erindi til okkar. Af hverju er það okkur til góðs að halda vöku okkar eins og hann hvatti til? Hverjir hafa reynst viðbúnir? Og hvað þurfum við að gera til að halda vöku okkar?

ÞAÐ ER TIL GÓÐS AÐ HALDA VÖKU SINNI

4. Hvers vegna þurfum við ekki að vita nákvæmlega hvenær endirinn kemur, til að halda vöku okkar?

4 Stundum er mikilvægt að vita hvað klukkan er. Þeir sem vinna í verksmiðju, eiga tíma hjá lækni eða ferðast með strætisvagni þurfa til dæmis að passa að vera ekki seinir. Það getur hins vegar verið truflandi eða beinlínis hættulegt fyrir slökkviliðsmann, sem er að berjast við eld, eða björgunarsveitarmann að störfum á hamfarasvæði að fylgjast með klukkunni. Þá er miklu mikilvægara að einbeita sér að verkefninu en að vita hvað klukkan er. Það hefur aldrei legið meira á en nú að boða fólki hvað það þurfi að gera til að hljóta hjálpræði, því að endirinn er í nánd. Við þurfum ekki að horfa á klukkuna til að halda vöku okkar sem kristnir menn. Reyndar eru að minnsta kosti fimm ástæður fyrir því að það er okkur til góðs að vita ekki nákvæmlega daginn né stundina sem endirinn kemur.

5. Hvernig getur það að vita ekki daginn né stundina dregið fram hvað býr í hjarta okkar?

5 Í fyrsta lagi er gott að vita ekki hvenær endirinn kemur vegna þess að þá höfum við tækifæri til að sýna hvað býr í hjarta okkar. Jehóva sýnir okkur mikla virðingu með því að leyfa okkur að ákveða sjálf hvort við þjónum honum. Við hlökkum vissulega til þess að lifa af endalok þessa heims en við þjónum ekki Jehóva bara til að hljóta eilíft líf, heldur af því að við elskum hann. (Lestu Sálm 37:4.) Við njótum þess að gera vilja hans og vitum að hann kennir okkur það sem gagnlegt er. (Jes. 48:17) Okkur finnst boðorð hans ekki þung. – 1. Jóh. 5:3.

6. Hvernig er Jehóva innanbrjósts þegar við þjónum honum af kærleika og hvers vegna?

6 Í öðru lagi er gott að vita ekki daginn né stundina vegna þess að það gefur okkur tækifæri til að gleðja hjarta Jehóva. Þegar við þjónum honum af því að við elskum hann en ekki vegna þess að endirinn er nærri eða aðeins vegna launanna leggjum við honum lið við að afsanna tilhæfulausar lygar óvinarins Satans. (Job. 2:4, 5; lestu Orðskviðina 27:11.) Við vitum að Satan hefur valdið ómældum þjáningum og sorgum og það gleður okkur að styðja drottinvald Jehóva og hafna Satan sem stjórnanda.

7. Hvers vegna heldurðu að það sé æskilegt að vera fórnfús?

7 Í þriðja lagi er gott að þjóna ekki með ákveðinn dag í huga því að það er okkur hvatning til að vera fórnfús. Við erum ekki þeir einu sem trúa að heimurinn geti ekki staðið miklu lengur í núverandi mynd. Sumir sem þekkja ekki Guð óttast að stórkostlegar hamfarir geti orðið þá og þegar og segja við sjálfa sig: „Etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum við!“ (1. Kor. 15:32) En við erum ekki óttaslegin. Við hugsum ekki bara um að fullnægja eigin löngunum. (Orðskv. 18:1) Við afneitum sjálfum okkur og notum fúslega tíma okkar, krafta og annað sem við eigum til að koma fagnaðarerindinu um ríki Guðs á framfæri. (Lestu Matteus 16:24.) Við höfum ánægju af því að þjóna Guði, ekki síst með því að hjálpa öðrum að kynnast honum.

8. Hvaða dæmi sýnir að við þurfum að reiða okkur algerlega á Jehóva og orð hans?

8 Í fjórða lagi er gagnlegt að vita hvorki daginn né stundina vegna þess að það hjálpar okkur að reiða okkur algerlega á Jehóva og fara eftir orði hans. Það er áberandi tilhneiging í fari ófullkominna manna að treysta á sjálfa sig. Páll hvatti alla kristna menn til að gæta sín og sagði: „Sá er hyggst standa gæti því vel að sér að hann falli ekki.“ Hann nefnir að 23.000 Ísraelsmenn hafi óhlýðnast Jehóva og dáið skömmu áður en Jósúa leiddi þjóð Guðs inn í fyrirheitna landið. „Allt þetta . . . er ritað til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir,“ segir Páll. – 1. Kor. 10:8, 11, 12.

9. Hvernig getur mótlæti styrkt trú okkar og sambandið við Jehóva?

9 Í fimmta lagi er það okkur til góðs að vita ekki hvenær endirinn kemur af því að það gefur okkur tækifæri til að læra af erfiðleikum og styrkja trúna. (Lestu Sálm 119:71.) Síðustu dagar þessa heims eru erfiðir. (2. Tím. 3:1-5) Margir í heimi Satans hata okkur svo að við megum búast við að vera ofsótt vegna trúarinnar. (Jóh. 15:19; 16:2) Ef við erum auðmjúk og leitum leiðsagnar Jehóva í prófraunum leyfum við honum að slípa okkur og styrkjum trúna, rétt eins og málmur hreinsast í eldi. Við gefumst ekki upp heldur eignumst nánara samband við Jehóva, jafnvel enn nánara en við héldum okkur geta átt. – Jak. 1:2-4; 4:8.

10. Undir hvaða kringumstæðum virðist tíminn fljótur að líða?

10 Tíminn getur verið misfljótur að líða. Hann virðist fljúga þegar við erum önnum kafin en einblínum ekki á klukkuna. Ef við erum upptekin af spennandi verkefnum í þjónustu Jehóva má vel vera að endirinn komi fyrr en okkur grunar. Flestir hinna andasmurðu eru okkur góð fyrirmynd að þessu leyti. Við skulum nú rifja stuttlega upp hvað gerðist eftir að Jesús tók við völdum sem konungur árið 1914 og skoða hvernig sumir hinna andasmurðu voru viðbúnir en aðrir ekki.

HINIR ANDASMURÐU SÝNA AÐ ÞEIR ERU VIÐBÚNIR

11. Af hverju héldu sumir hinna andasmurðu upp úr 1914 að Drottni hefði seinkað?

11 Leiðum hugann aftur að dæmisögum Jesú um meyjarnar tíu og um talenturnar. Ef meyjarnar eða þjónarnir í dæmisögunum hefðu vitað hvenær von væri á brúðgumanum eða húsbóndanum hefðu þau ekki þurft að halda vöku sinni. En þau vissu ekki hvenær hann kæmi þannig að þau þurftu að vera viðbúin. Hinir andasmurðu höfðu vitað lengi að árið 1914 myndi marka þáttaskil í sögunni en skildu ekki til hlítar hvað myndi gerast það ár. Þegar framvinda mála varð ekki eins og þeir væntu héldu sumir að brúðgumanum hefði seinkað. Bróðir nokkur sagði síðar: „Sum okkar héldu í fullri alvöru að við færum til himna í fyrstu vikunni í október [1914].“

12. Hvernig reyndust flestir hinna andasmurðu trúir og hyggnir?

12 Þú getur rétt ímyndað þér hve letjandi það hlýtur að hafa verið að búast við endalokum sem urðu svo ekki. Auk þess þurftu þjónar Guðs að þola töluvert mótlæti á stríðsárunum. Boðunarstarfið stöðvaðist að mestu leyti. Það var rétt eins og hinir andasmurðu hefðu sofnað. En árið 1919 voru þeir vaktir af svefni. Jesús var kominn til að skoða hvernig ástandið væri í andlegu musteri Guðs. Sumir stóðust ekki skoðunina og fengu því ekki að halda áfram í þjónustu konungsins. Þeir voru eins og fávísu meyjarnar af því að þeir höfðu ekki gætt þess að fylla á lampana með andlegri olíu. Og þeir voru eins og lati þjónninn að því leyti að þeir voru ekki fúsir til að færa fórnir í þágu Guðsríkis. Flestir hinna andasmurðu sýndu hins vegar óhagganlega hollustu og sterka löngun til að þjóna húsbóndanum, meira að segja á stríðsárunum þótt erfitt væri.

13. Hvernig hugsuðu hinir andasmurðu upp úr 1914 og hver er afstaða þeirra núna?

13 Í febrúar 1916 stóð eftirfarandi í Varðturninum: „Þau okkar sem hafa rétta afstöðu til Guðs verða ekki fyrir vonbrigðum með neitt sem hann gerir. Við óskuðum ekki að vilji okkar fengi framgang. Þegar við uppgötvuðum að við gerðum okkur rangar væntingar í október 1914 fögnuðum við því að Drottinn skyldi ekki breyta áætlun sinni til að þóknast okkur. Við vildum ekki að hann gerði það. Við óskum þess einungis að fá að skilja áætlanir hans og vilja.“ Andasmurðir þjónar Drottins sýna enn þessa auðmýkt og hollustu. Þeir halda því ekki fram að þeir fái innblástur frá Guði en eru staðráðnir í að vinna það verk sem Drottinn hefur falið þeim hér á jörð. Og „mikill múgur“ fólks af,öðrum sauðum‘, sem vonast eftir að lifa að eilífu á jörð, líkir eftir árvekni þeirra og kostgæfni. – Opinb. 7:9; Jóh. 10:16.

VERUM VIÐBÚIN

Aflaðu þér andlegrar fæðu jafnvel við erfiðar aðstæður.

14. Hvers vegna er það til góðs að nýta sér andlegu fæðuna sem trúi og hyggni þjónninn sér okkur fyrir?

14 Guð hefur falið hinum trúa og hyggna þjóni að útbýta andlegri fæðu. Þeir sem tilheyra múginum mikla nýta sér hana. Þannig líkja þeir eftir hinum andasmurðu og sýna að þeir halda vöku sinni. Það er eins og þeir séu einnig að fylla á lampa sína með andlegri olíu frá orði Guðs og anda hans. (Lestu Sálm 119:130; Jóhannes 16:13.) Þar af leiðandi eru þeir líka viðbúnir að Kristur komi og hafa styrk til að þjóna honum jafnvel við erfiðustu aðstæður. Lítum á dæmi. Í einum af fangabúðum nasista höfðu bræðurnir aðeins eina biblíu til að byrja með. Þeir báðu Jehóva að gefa sér meiri andlega fæðu. Skömmu síðar uppgötvuðu þeir að bróður, sem var nýkominn í búðirnar, hafði tekist að smygla inn nokkrum nýjum eintökum af Varðturninum sem hann faldi í tréfæti sínum. Meðal þeirra sem lifðu af fangabúðavistina var andasmurður bróðir sem hét Ernst Wauer. Hann sagði síðar: „Það var einstakt að upplifa hvernig Jehóva hjálpaði okkur að leggja á minnið styrkjandi efni greinanna.“ Síðan sagði hann: „Núna er svo auðvelt að ná í andlega fæðu. En kunnum við alltaf að meta hana? Ég er sannfærður um að Jehóva muni blessa ríkulega þá sem treysta honum, eru trúir og nærast við borð hans.“

15, 16. Hvaða umbun hlutu hjón sem lögðu hart að sér í boðunarstarfinu og hvað geturðu lært af þeim sem gera það?

15 Aðrir sauðir eru önnum kafnir í þjónustunni og styðja bræður Krists dyggilega. (Matt. 25:40) Ólíkt illa og lata þjóninum í dæmisögu Jesú eru þeir fúsir til að færa fórnir og leggja hart að sér í þágu Guðsríkis. Jon og Masako eru dæmi um það. Þau voru hikandi í fyrstu þegar þeim var boðið að starfa meðal kínverskumælandi fólks í Kenía. En eftir að hafa íhugað aðstæður sínar og lagt málið fyrir Jehóva í bæn ákváðu þau að flytja.

16 Þau hlutu ríkulega umbun erfiðis síns. „Það er hreinlega frábært að starfa hérna,“ segja þau. Meðal annars komu þau af stað sjö biblíunámskeiðum og margt spennandi gerðist í boðunarstarfinu. „Við þökkum Jehóva á hverjum degi fyrir að leyfa okkur að vera hér,“ segja þau. Margir fleiri hafa auðvitað sýnt að þeir eru ákveðnir í að þjóna Guði af öllum kröftum, óháð því hvenær endirinn kemur. Hugsaðu um allar þær þúsundir sem hafa setið Gíleaðskólann og gerst trúboðar og þá sem hafa flust að eigin frumkvæði til annarra landa þar sem vantar fleiri boðbera. Þú getur fengið innsýn í þjónustu þeirra sem gera það með því að lesa greinina „Þau buðu sig fúslega fram – í Ekvador“ en hún birtist í Varðturninum 15. júlí 2012. Þegar þú lest ummæli boðbera sem þjóna erlendis skaltu velta fyrir þér hvernig þú getir gert enn meira í þjónustunni, Guði til lofs og sjálfum þér til gleði.

ÞÚ ÞARFT LÍKA AÐ HALDA VÖKU ÞINNI

Tíminn er fljótur að líða þegar við erum önnum kafin í þjónustu Guðs.

17. Af hverju hefur það verið til góðs fyrir okkur að vita ekki daginn né stundina?

17 Það hefur augljóslega verið okkur til góðs að vita ekki daginn né stundina sem endirinn kemur. Við erum hvorki svekkt né vonvikin heldur finnum við til enn nánari tengsla við Jehóva, ástríkan föður okkar, þegar við erum önnum kafin að gera vilja hans. Þeir sem leggja hönd á plóginn og láta ekkert trufla sig í þjónustu Krists uppskera ríkulega gleði. – Lúk. 9:62.

18. Hvers vegna viljum við ekki bregðast trausti Jehóva og Jesú?

18 Dómsdagur Guðs nálgast óðfluga. Við viljum ekki valda Jehóva eða Jesú vonbrigðum. Þeir hafa trúað okkur fyrir afar mikilvægu verkefni núna á síðustu dögum. Við erum þakklát fyrir að þeir skuli sýna okkur þetta traust. – Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:12.

19. Hvernig getum við verið viðbúin?

19 Hvort sem við eigum þá von að lifa á himnum eða í paradís á jörð skulum við vera ákveðin í að vera trú og halda áfram að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. Við vitum ekki nákvæmlega hvenær dagur Jehóva rennur upp. En þurfum við að vita það? Við getum verið viðbúin og ætlum að vera það. (Matt. 24:36, 44) Við erum sannfærð um að við verðum aldrei fyrir vonbrigðum svo framarlega sem við treystum fullkomlega á Jehóva og leitum fyrst ríkis hans. – Rómv. 10:11, NW.