Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers konar hugarfar sýnir þú?

Hvers konar hugarfar sýnir þú?

„Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með anda yðar.“ – FÍLEM. 25.

1. Hvaða von lét Páll í ljós í bréfum til trúsystkina sinna?

Í BRÉFUM sínum til trúsystkina lét Páll postuli nokkrum sinnum í ljós þá von að Guð og Kristur hefðu velþóknun á þeim anda sem ríkti í söfnuðunum. Til dæmis skrifaði hann söfnuðinum í Galatíu: „Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með anda yðar, bræður mínir og systur. Amen.“ (Gal. 6:18) Hvað átti hann við þegar hann talaði um „anda yðar“?

2, 3. (a) Hvað átti Páll stundum við þegar hann notaði orðið „andi“? (b) Hvaða spurninga gætum við spurt varðandi hugarfar okkar?

2 Þegar Páll notar orðið „andi” í þessu samhengi á hann við hugarfar eða hugsunarhátt, það afl sem fær fólk til að tala eða hegða sér á ákveðinn hátt. Sumir eru að eðlisfari mildir, tillitssamir, góðviljaðir, örlátir og fúsir til að fyrirgefa. Í Biblíunni er farið fögrum orðum um ,hógværan og hljóðlátan anda‘. (1. Pét. 3:4) En fólk getur líka verið kaldhæðið, ágjarnt, móðgunargjarnt eða ósamvinnuþýtt. Og það sem verra er, sumir eru spilltir, óhlýðnir eða sýna jafnvel af sér uppreisnaranda.

3 Þegar Páll notar orðalag eins og: „Drottinn sé með þínum anda,“ var hann að hvetja trúsystkini sín til að líkja eftir Kristi og tileinka sér hugarfar sem Guð hefur velþóknun á. (2. Tím. 4:22; lestu Kólossubréfið 3:9-12.) Við ættum að spyrja okkur: Hvers konar hugarfar sýni ég? Hvernig get ég þóknast Guði betur? Get ég stuðlað enn betur að jákvæðum anda í söfnuðinum? Lýsum þessu með dæmi: Hvert einasta blóm í stórri blómabreiðu á sinn þátt í fegurð heildarinnar. Erum við eitt af „blómunum“ sem stuðla að fegurð safnaðarins í heild? Við ættum sannarlega að leitast við að vera það. Nú skulum við kanna hvernig við getum tamið okkur hugarfar sem Guð hefur velþóknun á.

FORÐUMST ANDA HEIMSINS

4. Hvað er ,andi heimsins‘?

4 Í Biblíunni segir: „Við höfum ekki hlotið anda heimsins heldur andann sem er frá Guði.“ (1. Kor. 2:12) Hvað er ,andi heimsins‘? Það er andinn sem er nefndur í Efesusbréfinu 2:2. Þar er talað um að safnaðarmenn hafi, áður en þeir gerðust kristnir, lifað „samkvæmt aldarhætti þessa heims að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú verkar í þeim, sem ekki trúa“. Þetta ,loft‘ er andi heimsins, það er að segja hugarfar fólks í heiminum almennt, og það umlykur okkur eins og loftið sem við öndum að okkur. Það er alls staðar og birtist oft í því útbreidda viðhorfi að fólk eigi að gera eins og því sýnist og að maður eigi að berjast fyrir rétti sínum. Þetta hugarfar er einkennandi fyrir ,þá sem ekki trúa‘ og tilheyra heimi Satans.

5. Hvers konar hugarfar sýndu sumir Ísraelsmenn?

5 Þetta hugarfar er ekki nýtt af nálinni. Kóra gerði uppreisn gegn forystu Ísraelsmanna á dögum Móse. Hann beindi spjótum sínum sérstaklega að Aroni og sonum hans en þeir voru prestar þjóðarinnar. Kannski horfði hann á galla þeirra. Eða kannski sakaði hann Móse um frændhygli – að skipa ættingja sína í ábyrgðarstöður. Hvað sem því líður er ljóst að Kóra fór að sjá hlutina frá sjónarhóli manna. Hann virti ekki þá sem Jehóva hafði skipað til forystustarfa heldur sagði umbúðalaust: „Þið ætlið ykkur um of . . . Hvers vegna hefjið þið sjálfa ykkur yfir söfnuð Drottins?“ (4. Mós. 16:3) Datan og Abíram kvörtuðu undan því að Móse ,létist vera konungur yfir þeim‘. Þegar Móse sendi eftir þeim svöruðu þeir með hroka: „Við förum hvergi.“ (4. Mós. 16:12-14) Jehóva var greinilega ekki sáttur við þetta hugarfar og tók alla uppreisnarmennina af lífi. – 4. Mós. 16:28-35.

6. Með hvaða hætti sýndu sumir á fyrstu öld slæmt hugarfar og hver kann að hafa verið ástæðan?

6 Á fyrstu öld voru einnig dæmi um menn sem gagnrýndu þá sem falin var forysta í söfnuðinum. Þeir ,mátu að engu drottinvald‘. (Júd. 8) Sennilega fannst þeim að þeir ættu sjálfir að fá meiri ábyrgð. Þeir reyndu að fá aðra upp á móti þeim sem voru útnefndir til að fara með forystuna og lögðu sig fram um að sinna henni vel. – Lestu 3. Jóhannesarbréf 9, 10.

7. Hvaða hugarfar þurfum við að varast?

7 Svona hugarfar á auðvitað ekki heima í kristna söfnuðinum. Við þurfum að gæta okkar að fara ekki að hugsa þannig. Öldungar safnaðarins eru ekki fullkomnir frekar en öldungar á dögum Móse eða Jóhannesar postula. Safnaðaröldungar geta gert mistök sem hafa áhrif á okkur persónulega. Ef það gerist ætti enginn í söfnuðinum að láta anda heimsins ráða ferðinni og heimta „réttlæti“ eða að „eitthvað sé gert í málinu“. Það má vel vera að Jehóva kjósi að horfa fram hjá minni háttar mistökum. Getum við ekki gert það líka? Sumir sem hafa drýgt alvarlega synd hafa ekki viljað ræða við nefnd öldunga sem var falið að hjálpa þeim. Þeim var kannski í nöp við einhvern af öldungunum og notuðu það sem afsökun. Það má líkja þeim við sjúkling sem þiggur ekki meðferð af því að honum líkar ekki við lækninn.

8. Hvaða biblíuvers geta hjálpað okkur að sjá öldunga safnaðarins í réttu ljósi?

8 Til að forðast þetta hugarfar er gott að minna sig á að í Biblíunni er Jesú lýst þannig að hann hafi „í hægri hendi sér sjö stjörnur“. Stjörnurnar tákna andasmurða umsjónarmenn og í víðari skilningi alla umsjónarmenn safnaðanna. Jesús getur stýrt ,stjörnunum‘ í hendi sér að vild sinni. (Opinb. 1:16, 20) Hann er höfuð safnaðarins og fylgist náið með öldungaráðum safnaðanna. „Augu hans [eru] eins og eldslogi“ og ef öldungur þarf að fá leiðréttingu sér Jesús til þess að hann fái hana þegar hann telur það tímabært. (Opinb. 1:14) Við sýnum þeim sem eru útnefndir af heilögum anda tilhlýðilega virðingu með því að bíða eftir að Jesús taki á málinu. Páll skrifaði: „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát. Þeir vaka yfir sálum ykkar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlát til þess að þeir geti gert það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri ykkur til ógagns.“ – Hebr. 13:17.

Hvaða áhrif hefur það á viðbrögð þín við leiðbeiningum að hugleiða hlutverk Jesú?

9. (a) Á hvað reynir ef bróðir eða systir fær leiðréttingu? (b) Hvernig er best að bregðast við leiðréttingu?

9 Það reynir einnig á hvort bróðir eða systir hafi rétt hugarfar ef þau þurfa að fá leiðréttingu eða eru leyst frá ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Öldungar vöruðu ungan bróður vinsamlega við að spila ofbeldisfulla tölvuleiki. Því miður brást hann illa við og þar sem hann uppfyllti ekki lengur hæfniskröfur Biblíunnar fékk hann ekki lengur að starfa sem safnaðarþjónn. (Sálm. 11:5; 1. Tím. 3:8-10) Í framhaldi af því lét bróðirinn óspart í ljós að hann væri ósammála ákvörðun öldunganna. Hann skrifaði deildarskrifstofunni mörgum sinnum til að finna að öldungunum og hvatti jafnvel aðra í söfnuðinum til að gera það líka. En það er verr farið en heima setið ef við stofnum friði alls safnaðarins í hættu þegar við reynum að réttlæta gerðir okkar. Það er miklu betra að líta á leiðréttinguna sem tækifæri til að horfast í augu við veikleika sína og bæta ráð sitt með ró og stillingu. – Lestu Harmljóðin 3:28, 29.

10. (a) Hvað má læra af Jakobsbréfinu 3:16-18 um rétt og rangt hugarfar? (b) Hvaða áhrif hefur það að hegða sér í samræmi við ,spekina sem að ofan er‘?

10 Í Jakobsbréfinu 3:16-18 er að finna góðar leiðbeiningar til safnaðarins um hvað sé rétt eða rangt hugarfar. Þar stendur: „Hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns spilling. En sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.“ Ef við hegðum okkur í samræmi við ,spekina sem að ofan er‘ sýnum við af okkur góða eiginleika og stuðlum að góðu andrúmslofti í söfnuðinum.

SÝNUM VIRÐINGU Í SÖFNUÐINUM

11. (a) Hvað forðumst við ef við sýnum rétt hugarfar? (b) Hvað getum við lært af Davíð?

11 Við skulum hafa hugfast að Jehóva hefur falið öldungunum það verkefni að vera hirðar safnaðarins. (Post. 20:28; 1. Pét. 5:2) Þess vegna ættum við að virða fyrirkomulag Guðs, hvort sem við erum sjálfir öldungar eða ekki. Ef við höfum rétt hugarfar gerum við okkur ekki óþarfa áhyggjur af því hvort við gegnum ábyrgðarstarfi. Þegar Sál Ísraelskonungur taldi sér standa ógn af Davíð fór hann að líta hann „öfundaraugum“. (1. Sam. 18:9) Svo rangsnúið var hugarfar hans að hann vildi drepa Davíð. Það er miklu betra að líkja eftir Davíð en hafa óhóflegar áhyggjur af stöðu sinni eins og Sál. Davíð virti þá sem Guð hafði skipað til ábyrgðarstarfa þrátt fyrir allt óréttlætið sem hann mátti þola. – Lestu 1. Samúelsbók 26:23.

12. Hvernig getum við stuðlað að einingu í söfnuðinum?

12 Ólíkar skoðanir geta stundum valdið pirringi í söfnuðinum, jafnvel meðal öldunganna. Í þessu sambandi getum við sótt góð ráð til Biblíunnar. „Keppist um að sýna hvert öðru virðingu“ og „oftreystið ekki eigin hyggindum“, segir þar. (Rómv. 12:10, 16) Í stað þess að halda því fast fram að við höfum á réttu að standa ættum við að viðurkenna að oft geta fleiri en eitt sjónarmið verið rétt. Við stuðlum að einingu safnaðarins með því að reyna að skilja sjónamið annarra. – Tít. 3:1, 2.

13. Hvað ættum við að gera eftir að hafa látið álit okkar í ljós og hvaða dæmi lýsir því vel?

13 Er þá rangt að láta skoðun sína í ljós ef manni finnst eitthvað þurfa leiðréttingar við í söfnuðinum? Nei, það má sjá af máli sem kom upp á fyrstu öld og olli miklum ágreiningi. Bræðurnir ákváðu „að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings“. (Post. 15:2) Þessir bræður höfðu eflaust sína skoðun á málinu og ákveðna hugmynd um hvernig mætti taka á því. En eftir að hver og einn hafði lýst skoðun sinni og tekin hafði verið ákvörðun undir leiðsögn heilags anda héldu þeir ekki áfram að viðra sín eigin sjónarmið. Þegar söfnuðunum hafði borist bréf með úrskurði í málinu „urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun“ og „styrktust í trúnni“. (Post. 15:31; 16:4, 5) Eftir að við höfum vakið athygli öldunganna á ákveðnu máli ættum við sömuleiðis að eftirláta þeim að skoða það og ákveða hvernig eigi að taka á því.

SÝNUM RÉTT HUGARFAR Í SAMSKIPTUM VIÐ AÐRA

14. Hvernig hægt er að sýna rétt hugarfar í samskiptum við aðra?

14 Í samskiptum við aðra gefast ótal tækifæri til að sýna rétt hugarfar. Við getum öll látið gott af okkur leiða ef við erum fús til að fyrirgefa þegar aðrir gera eitthvað á hlut okkar. Í orði Guðs segir: „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ (Kól. 3:13) Orðin „ef einhver hefur sök á hendur öðrum“ gefa til kynna að það geti verið gild ástæða til að vera pirraður út í aðra. En í stað þess að láta galla annarra fara í taugarnar á okkur og raska friði safnaðarins ættum við að reyna að líkja eftir Jehóva, fyrirgefa fúslega og halda áfram að þjóna honum í sameiningu.

15. (a) Hvað má læra af Job um fyrirgefningu? (b) Hvernig getur bænin hjálpað okkur að sýna rétt hugarfar?

15 Það má læra sitthvað um fyrirgefningu af Job. Þremenningarnir, sem þóttust ætla að hughreysta hann, særðu hann á marga vegu. En Job bað fyrir vinum sínum og það auðveldaði honum að fyrirgefa þeim. (Job. 16:2; 42:10) Það getur breytt afstöðu okkar til annarra að biðja fyrir þeim. Ef við biðjum fyrir bræðrum okkar og systrum eigum við auðveldara með að sjá þau sömu augum og Jesús gerir. (Jóh. 13:34, 35) Við ættum einnig að biðja Jehóva að gefa okkur heilagan anda. (Lúk. 11:13) Andi hans hjálpar okkur að sýna kristna eiginleika í samskiptum við aðra. – Lestu Galatabréfið 5:22, 23.

STUÐLUM AÐ GÓÐUM ANDA Í SÖFNUÐINUM

16, 17. Hvers konar hugarfar ætlar þú að temja þér?

16 Söfnuðurinn nýtur góðs af ef hver og einn setur sér það markmið að stuðla að góðu andrúmslofti. Eftir að hafa lesið þessa grein komumst við kannski að þeirri niðurstöðu að við getum lagt okkur enn betur fram um að hafa uppbyggileg áhrif á söfnuðinn. Ef svo er ættum við ekki að hika við að nota orð Guðs til að gera sjálfsrannsókn. (Hebr. 4:12) Páli var mikið í mun að vera til fyrirmyndar í söfnuðinum og hann sagði: „Ég er mér ekki neins ills meðvitandi en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.“ – 1. Kor. 4:4.

17 Við stuðlum að heilnæmum anda í söfnuðinum með því að leitast við að breyta í samræmi við spekina að ofan, taka sjálf okkur ekki of hátíðlega né gera okkur áhyggjur af eigin stöðu. Ef við erum fljót til að fyrirgefa og hugsum jákvætt um aðra eigum við góð samskipti við trúsystkini okkar. (Fil. 4:8) Við getum treyst að Jehóva og Jesús hafi velþóknun á ,anda okkar‘ ef við gerum það. – Fílem. 25.