Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Úr sögusafninu

,Boðskapurinn bar af öllu því sem menn höfðu áður heyrt‘

,Boðskapurinn bar af öllu því sem menn höfðu áður heyrt‘

„Í HVAÐ á að nota allt þetta?“ spurði George Naish og benti á 18 metra langa trjáboli sem staflað var við hergagnabúr í Saskatoon í Saskatchewanfylki í Kanada. Honum var sagt að timbrið hefði verið notað til að reisa merkjaturna í fyrri heimsstyrjöldinni. „Mér flaug í hug hvort hægt væri að nota þetta timbur til að reisa útvarpsturna,“ sagði bróðir Naish síðar, „og þar með kviknaði hugmyndin að útvarpsstöð á vegum safnaðarins“. Aðeins ári síðar, 1924, hóf útvarpsstöðin CHUC útsendingar. Hún var ein af fyrstu útvarpsstöðvunum í Kanada þar sem trúarlegt efni var til umfjöllunar.

(1) Útvarpsstöð í Edmonton í Albertafylki. (2) Bróðir skiptir um útvarpslampa í sendibúnaði útvarpsstöðvarinnar í Toronto í Ontariofylki.

Kanada er svipað að stærð og öll Evrópa og því hentaði mjög vel þar í landi að boða trúna í útvarpi. „Vegna útvarpsstöðvanna náði sannleikurinn til margra sem við gátum ekki heimsótt,“ segir Florence Johnson sem vann við stöðina í Saskatoon. „Og þar sem útvarp var nýjung á þessum tíma fannst fólki spennandi að hlusta á allt sem var útvarpað.“ Árið 1926 starfræktu Biblíunemendurnir (eins og Vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma) útvarpsstöðvar í fjórum borgum í Kanada. *

(3) Hljóðver CHUC í Saskatoon í Saskatchewanfylki.

Hvað hefðirðu heyrt ef þú hefðir stillt inn á þessar útvarpsstöðvar? Fólk úr söfnuðinum á staðnum söng við undirleik hljóðfæraleikara eða jafnvel lítillar hljómsveitar. Bræðurnir héldu auðvitað líka ræður og stýrðu umræðum um biblíutengt efni. Amy Jones, sem tók þátt í þessum umræðum, segir að þegar hún kynnti sig í boðunarstarfinu hafi húsráðendur stundum sagt: „Já einmitt, ég heyrði í þér í útvarpinu.“

„Álagið vegna símhringinga var svo mikið að það lamaði nánast útvarpsstöðina.“

Biblíunemendur í Halifax á Nova Scotia hófu útsendingu þátta sem voru með nýstárlegu sniði. Þetta voru spjallþættir þar sem hlustendur gátu hringt inn og spurt spurninga sem Biblían veitir svör við. „Þessir þættir urðu geysivinsælir,“ skrifaði bróðir einn. „Álagið vegna símhringinga var svo mikið að það lamaði nánast útvarpsstöðina.“

Viðbrögð fólks við boðskap biblíunemendanna voru misjöfn, rétt eins og hjá Páli postula. (Post. 17:1-5) Sumir sem hlustuðu kunnu að meta boðskapinn. Þegar Hector Marshall heyrði biblíunemendurna minnast á bókaröðina Studies in the Scriptures í útvarpinu pantaði hann sex bindi. Hann skrifaði síðar: „Ég hélt að bækurnar myndu koma að gagni þegar ég kenndi í sunnudagaskólanum.“ En þegar hann var búinn með fyrsta bindið ákvað hann að segja skilið við kirkjuna sína. Hann fór í staðinn að prédika kappsamlega og hann þjónaði Jehóva af trúfesti allt fram á dauðadag árið 1998. Ein ræða, sem var útvarpað, hét „Guðsríki, von mannkyns“. Daginn eftir að ræðan var flutt sagði J. A. MacDonald ofursti við bróður á austurhluta Nova Scotia: „Íbúar á Bretonhöfðaey hlustuðu í gær á ræðu með boðskap sem bar af öllu því sem menn höfðu áður heyrt í þessum hluta heims.“

Prestar kristna heimsins voru hins vegar reiðir. Nokkrir kaþólikkar í Halifax hótuðu að sprengja útvarpsstöðina sem Biblíunemendurnir fengu að senda út frá. Árið 1928 tilkynnti ríkisstjórnin fyrirvaralaust, að áeggjan trúarleiðtoga, að Biblíunemendurnir myndu ekki fá framlengd leyfi til að starfrækja útvarpsstöðvar. Bræður og systur svöruðu með því að dreifa ritinu Who Owns the Air? (Hver ræður yfir öldum ljósvakans?). Í þessu riti var óréttlætinu, sem þeir sættu, mótmælt. Embættismenn neituðu samt sem áður að framlengja leyfi Biblíunemendanna fyrir útsendingunum.

Dró þetta kjarkinn úr þeim litla hópi sem þjónaði Jehóva í Kanada? „Til að byrja með leit vissulega út fyrir að óvinurinn hefði unnið mikinn sigur,“ viðurkennir Isabel Wainwright. „En ég vissi að Jehóva hefði getað komið í veg fyrir þetta ef það hefði þjónað markmiðum hans. Þetta hlaut því að þýða að við ættum nú að huga að annarri og enn betri leið til að koma fagnaðarerindinu um Guðsríki á framfæri.“ Í stað þess að einblína á útvarpssendingar til að boða trúna einbeittu biblíunemendurnir í Kanada sér að því að heimsækja fólk til að hitta það í eigin persónu. Á sínum tíma áttu þessar útvarpssendingar þó stóran þátt í að koma á framfæri ,boðskapnum sem bar af öllu því sem menn höfðu áður heyrt‘. – Úr sögusafninu í Kanada.

^ gr. 4 Bræður í Kanada keyptu einnig útsendingartíma á almennum útvarpsstöðvum til að prédika með þessum hætti.