Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notaðu orð Guðs þér og öðrum til góðs

Notaðu orð Guðs þér og öðrum til góðs

„Fyrirmæli þín eru rétt um eilífð.“ – SÁLM. 119:144.

1. Hvers vegna verðum við að treysta orði Guðs fullkomlega?

 ÞEGAR safnaðaröldungar kanna hvort biblíunemandi geti byrjað að fara í boðunarstarfið spyrja þeir sig hvort orð hans beri með sér að hann trúi að Biblían sé innblásið orð Guðs. * Sá sem vill verða boðberi fagnaðarerindisins þarf að vera fullkomlega sannfærður um það, og hið sama er að segja um alla þjóna Guðs. Ástæðan er sú að við getum hjálpað öðrum að kynnast Jehóva og hljóta hjálpræði með því að treysta á orð hans og nota það í boðunarstarfinu.

2. Hvers vegna ættum við að ,halda stöðulega við það sem við höfum numið‘?

2 Páll postuli benti á að orð Guðs væri ákaflega mikilvægt þegar hann skrifaði Tímóteusi: „Halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á.“ Páll er hér að tala um biblíusannindi sem urðu til þess að Tímóteus trúði fagnaðarerindinu. Þessi sannindi hafa haft sömu áhrif á okkur og veita okkur „speki til sáluhjálpar“. (2. Tím. 3:14, 15) Við notum oft versið á eftir til að benda fólki á að Biblían sé innblásin af Guði, en við getum líka haft margs konar gagn af þeim sjálf. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16.) Við skulum nú brjóta versið til mergjar og styrkja trúna á að allt sem Jehóva kennir sé rétt. – Sálm. 119:144.

„NYTSÖM TIL FRÆÐSLU“

3-5. (a) Hvernig brást mannfjöldinn við ræðu Péturs á hvítasunnu og hvers vegna? (b) Af hverju tóku margir í Þessaloníku við sannleikanum? (c) Hvað vekur athygli margra þegar við boðum fagnaðarerindið?

3 Jesús sagði við Ísraelsmenn að hann myndi senda til þeirra „spámenn, spekinga og fræðimenn“ og átti þar við lærisveina sína sem boðuðu fagnaðarerindið. (Matt. 23:34) Hann hafði kennt þeim að nota Ritninguna þegar þeir boðuðu trúna. Pétur postuli var einn þeirra. Hann ávarpaði mikinn mannfjölda í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33 og vitnaði í nokkur vers í Hebresku ritningunum. Þegar menn heyrðu Pétur skýra versin „var sem stungið væri í hjörtu þeirra“. Margir iðruðust synda sinna og leituðu fyrirgefningar Guðs. Um þrjú þúsund manns tóku kristna trú þann dag. – Post. 2:37-41.

4 Páll postuli boðaði líka fagnaðarerindið og ekki aðeins í Jerúsalem. Hann ræddi til dæmis við Gyðinga sem dýrkuðu Guð í samkunduhúsi í borginni Þessaloníku í Makedóníu. Þrjá hvíldardaga „ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum, lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir“ að Kristur hefði þurft að þjást og rísa upp frá dauðum. Það varð til þess að „nokkrir þeirra [Gyðinganna] létu sannfærast og . . . auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja“. – Post. 17:1-4.

5 Það vekur athygli margra hve færir þjónar Guðs eru í að nota Biblíuna. Húsráðandi í Sviss hlustaði á eina af systrum okkar lesa biblíuvers. „Frá hverjum eruð þið?“ spurði hann. „Við erum vottar Jehóva,“ svaraði hún. „Já, auðvitað,“ sagði hann. „Þið eruð þeir einu sem banka upp á hjá fólki til að lesa upp úr Biblíunni.“

6, 7. (a) Hvernig geta þeir sem kenna í ríkissalnum notað Biblíuna sem best? (b) Af hverju er ákaflega mikilvægt að nota Biblíuna vel þegar við kennum biblíunemendum?

6 Hvernig getum við notað Biblíuna enn betur þegar við kennum? Ef þú færð það verkefni að flytja ræðu í ríkissalnum skaltu vitna beint í Biblíuna. Í stað þess að endursegja mikilvæga ritningarstaði eða lesa þá af útprentun eða spjaldtölvu skaltu fletta upp í Biblíunni og lesa upp úr henni. Og hvettu áheyrendur til að fylgjast með í biblíunni sinni. Útskýrðu versin og bentu á hvernig þau geti styrkt samband okkar við Jehóva. Notaðu tímann til að útlista orð Guðs í stað þess að bregða upp flóknum líkingum eða segja frásögur til þess eins að kitla hláturtaugarnar.

7 Hvað þurfum við að hafa hugfast þegar við höldum biblíunámskeið? Þegar við kennum fólki þurfum við að gæta þess að hlaupa ekki yfir versin sem er vísað til í námsefninu. Við ættum að hvetja nemandann til að lesa biblíutextana og hjálpa honum að skilja þá. Hvernig? Ekki með því að flytja hálfgerða fyrirlestra til að skýra versin heldur með því að hvetja nemandann til að tjá sig um þau. Í stað þess að segja honum hverju hann eigi að trúa eða hvað hann eigi að gera getum við spurt markvissra spurninga til að hjálpa honum að draga réttar ályktanir. *

„NYTSÖM TIL . . . UMVÖNDUNAR“

8. Í hvaða innri baráttu átti Páll?

8 Yfirleitt hugsum við sem svo að það sé verkefni safnaðaröldunga að vanda um við aðra. Og það er vissulega hlutverk þeirra að „ávíta brotlega“ og vanda um við þá. (1. Tím. 5:20; Tít. 1:13) En það er líka nauðsynlegt að ávíta sjálfan sig. Páll var góður þjónn Guðs og varðveitti hreina samvisku. (2. Tím. 1:3) Hann skrifaði engu að síður: „Ég sé annað lögmál í limum mínum og það stríðir gegn lögmáli hugar míns, hertekur mig undir lögmál syndarinnar.“ Við skulum kynna okkur samhengi þessara orða. Þá skiljum við betur í hvers konar baráttu Páll átti. – Lestu Rómverjabréfið 7:21-24.

9, 10. (a) Hvaða veikleika átti Páll hugsanlega við að stríða? (b) Hvernig barðist Páll líklega gegn syndinni?

9 Hvers konar veikleika átti Páll við að stríða? Hann segir það hvergi beinlínis en í bréfi til Tímóteusar lýsir hann sjálfum sér þannig að hann hafi verið mikill ruddi. (1. Tím. 1:13) Áður en hann tók kristna trú hafði hann barist af heift gegn kristnum mönnum. Hann segist hafa ,ætt freklega gegn þeim‘. (Post. 26:11) Páll hafði greinilega verið skapofsamaður. Hann lærði að hafa stjórn á skapi sínu en stundum hlýtur það að hafa kostað hann harða baráttu að halda aftur af orðum sínum og tilfinningum. (Post. 15:36-39) Hvað hjálpaði honum?

10 Páll lýsir í bréfi til safnaðarins í Korintu hvernig hann ávítaði sjálfan sig. (Lestu 1. Korintubréf 9:26, 27.) Hann sló engin vindhögg í baráttunni gegn syndugum tilhneigingum sínum. Að öllum líkindum hefur hann leitað eftir ráðleggingum í Biblíunni, beðið Jehóva um hjálp til að fara eftir þeim og gert sitt ýtrasta til að bæta sig. * Við getum dregið lærdóm af honum vegna þess að við eigum í sams konar baráttu við veikleika okkar.

11. Hvernig getum við prófað okkur hvort við göngum á vegi sannleikans?

11 Við megum aldrei vera andvaralaus gagnvart veikleikum okkar heldur þurfum við að ,prófa okkur‘ í sífellu til að fullvissa okkur um að við göngum á vegi sannleikans. (2. Kor. 13:5) Þegar við lesum biblíutexta eins og Kólossubréfið 3:5-10 getum við spurt okkur hvort við leggjum okkur fram um að deyða syndugar tilhneigingar eða hvort siðferðisþrekið fari minnkandi. Hvað gerirðu ef þú ferð óvart inn á vefsíðu með siðlausu efni? Lokarðu henni strax? Eða leitarðu kannski uppi slíkar vefsíður? Ef við förum eftir leiðbeiningum Biblíunnar í slíkum málum hjálpar það okkur að ,vaka og vera allsgáð‘. – 1. Þess. 5:6-8.

„NYTSÖM TIL . . . LEIÐRÉTTINGAR“

12, 13. (a) Hvað er fólgið í því að leiðrétta og hvernig getum við líkt eftir Jesú? (b) Hvernig eigum við alls ekki að leiðrétta aðra?

12 Gríska orðið, sem er þýtt ,leiðrétting‘, merkir að ,bæta, laga, koma aftur í rétt horf‘. Stundum þurfum við að leiðrétta þá sem misskilja orð okkar eða verk. Trúarleiðtogar Gyðinga fundu að því að Jesús legði lag sitt við tollheimtumenn og bersynduga. Hann svaraði þá: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið hvað þetta merkir: Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.“ (Matt. 9:11-13) Hann skýrði orð Guðs með þolinmæði og vinsemd fyrir öllum. Hann kenndi fólki að Jehóva væri „miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur“. (2. Mós. 34:6) Margir trúðu fagnaðarerindinu vegna þess að Jesús lagði sig fram um að leiðrétta rangar hugmyndir.

13 Við ættum að líkja eftir Jesú þegar við reynum að hjálpa öðrum. Ef við erum í æstu skapi gætum við hreytt út úr okkur: „Ég þarf sko að leiðrétta þig.“ En það er ekki í anda leiðbeininganna í 2. Tímóteusarbréfi 3:16. Samkvæmt Biblíunni höfum við ekki leyfi til að skamma fólk. Hörð gagnrýni getur verið jafn særandi og „spjótsstungur“ og er sjaldan til góðs. – Orðskv. 12:18, Biblían 1981.

14-16. (a) Hvernig geta öldungar leiðrétt með þolinmæði og vinsemd? (b) Af hverju er mikilvægt að foreldrar noti biblíulegar aðferðir til að leiðrétta börnin?

14 Hvernig getum við þá leiðrétt með þolinmæði og vinsemd? Hugsum okkur hjón sem rífast oft. Þau biðja öldung í söfnuðinum um aðstoð. Hvað ætti hann að gera? Hann rökræðir við þau út frá meginreglum Biblíunnar en gætir þess að taka ekki afstöðu með öðru hvoru þeirra. Hann gæti stuðst við ábendingar í 3. kafla bókarinnar Farsælt fjölskyldulíf – hver er leyndardómurinn? Þegar þau ræða málin er hugsanlegt að hjónin átti sig á að þau geti fylgt ákveðnum leiðbeiningum betur. Að einhverjum tíma liðnum ætti öldungurinn að spyrja hjónin hvernig þeim gangi og bjóða fram meiri aðstoð ef þörf er á.

 15 Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum ef þau þurfa á leiðréttingu að halda? Segjum sem svo að þú eigir dóttur á unglingsaldri og óttist að hún sé komin í vafasaman félagsskap. Byrjaðu á því að afla þér upplýsinga. Ef það er ástæða til að hafa áhyggjur gætirðu talað við dóttur þína. Þú gætir ef til vill notað efni í 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga. Dagana á eftir ættirðu síðan að vera meira með henni en endranær. Þú getur líka veitt athygli hvað hún er að hugsa þegar hún tekur þátt í boðunarstarfinu eða slakar á með fjölskyldunni. Dóttir þín skynjar umhyggju þína ef þú sýnir þolinmæði og hlýju. Þá er líklegra að hún fari eftir leiðbeiningum þínum og taki ekki óviturlegar ákvarðanir.

Foreldrar geta forðað börnunum frá miklum erfiðleikum ef þeir leiðrétta þau hlýlega með hjálp Biblíunnar. (Sjá  15. grein.)

16 Við getum á sama hátt uppörvað þá sem hafa áhyggjur af heilsunni, eru niðurdregnir eftir að hafa misst vinnuna eða eiga erfitt með að meðtaka eitthvað sem kennt er í Biblíunni. Það er öllum þjónum Jehóva til góðs að nota orð hans til að leiðrétta með þolinmæði og vinsemd.

„NYTSÖM TIL . . . MENNTUNAR Í RÉTTLÆTI“

17. Hvers vegna ættum við að vera þakklát fyrir ögun Jehóva?

17 „Um stundar sakir virðist allur agi . . . ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.“ (Hebr. 12:11) Flestir sem hafa alist upp í trúnni viðurkenna að ögun foreldranna hafi verið þeim til góðs. Og ef við þiggjum ögun Jehóva fyrir atbeina öldunganna hjálpar það okkur að halda okkur á veginum til lífsins. – Orðskv. 4:13.

18, 19. (a) Hvers vegna er nauðsynlegt að fara eftir Orðskviðunum 18:13 til að geta agað „í réttlæti“? (b) Hvernig bregst hinn brotlegi oft við þegar öldungar aga með hógværð og kærleika?

18 Það er list að veita áhrifaríka ögun og Jehóva segir að öll menntun og ögun þurfi að fara fram „í réttlæti“. (2. Tím. 3:16) Við ættum því að hafa meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi. Eina þeirra er að finna í Orðskviðunum 18:13. Þar segir: „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ Ef einhver í söfnuðinum hefur verið sakaður um alvarlega synd þurfa öldungarnir að rannsaka málið vel til að þekkja alla málavexti. (5. Mós. 13:15) Þá fyrst geta þeir agað „í réttlæti“.

19 Safnaðaröldungum er einnig sagt í Biblíunni að leiðrétta trúsystkini með hógværð. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:24-26.) Sá sem syndgar getur vissulega kastað rýrð á Jehóva og sært aðra sem hafa ekkert til saka unnið. En öldungur gerir engum gagn með því að ávíta hann reiðilega. Þegar öldungar líkja eftir gæsku Guðs má vel vera að þeim takist að leiða hinn brotlega til iðrunar. – Rómv. 2:4.

20. Hvaða meginreglum ættu foreldrar að fylgja þegar þeir aga börnin?

20 Foreldrar þurfa að fara eftir meginreglum Biblíunnar til að ala börnin upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) Segjum sem svo að faðir fái að vita að sonur hans hafi gert eitthvað af sér. Hann ætti þó ekki að aga drenginn fyrr enn hann hefur heyrt fleiri hliðar á málinu. Og heiftarleg reiði á ekki heima í kristinni fjölskyldu. Jehóva er „mjög miskunnsamur og líknsamur“ og foreldrar ættu að líkja eftir honum þegar þeir aga börnin. – Jak. 5:11.

ÓMETANLEG GJÖF JEHÓVA

21, 22. Hvernig hugsarðu um orð Jehóva þegar þú lest Sálm 119:97-104?

21 Guðrækinn maður lýsti einu sinni ástæðunni fyrir því að hann elskaði lög Jehóva. (Lestu Sálm 119:97-104.) Hann varð vitur, hygginn og skynsamur af því að íhuga þau. Með því að fylgja ráðum Guðs forðaðist hann þá ,lygavegi‘ sem aðrir villtust út á sér til tjóns. Hann hafði mikla ánægju af því að lesa og hugleiða Ritninguna og naut góðs af því sem Guð kenndi honum. Hann var staðráðinn í að hlýða Guði alla ævi.

22 Meturðu Biblíuna mikils? Með hjálp hennar lærirðu að treysta að Jehóva láti vilja sinn ná fram að ganga. Innblásin ráð Jehóva forða þér frá syndugu líferni sem leiðir til dauða. Og með því að nota Biblíuna fagmannlega geturðu hjálpað fólki að komast inn á veginn til lífsins og fylgja honum. Við skulum nota ,sérhverja ritningu‘ sem best við getum þegar við þjónum alvitrum og kærleiksríkum Guði okkar, Jehóva.

^ Sjá bókina Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva, bls. 80.

^ Jesús spurði oft þegar hann kenndi: „Hvað virðist ykkur?“ og beið síðan eftir svari. – Matt. 18:12; 21:28; 22:42.

^ Í bréfum Páls er að finna sterka hvatningu til að berjast gegn veikleikum sínum. (Rómv. 6:12; Gal. 5:16-18) Það er rökrétt að ætla að hann hafi sjálfur fylgt þeim leiðbeiningum sem hann gaf öðrum. – Rómv. 2:21.