Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu góður fagnaðarboði

Vertu góður fagnaðarboði

„Ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína.“ – 2. TÍM. 4:5.

1. Hvers vegna má kalla Jehóva mesta fagnaðarboðann?

 FAGNAÐARBOÐI flytur gleðitíðindi. Jehóva Guð er fyrsti fagnaðarboðinn og sá mesti. Eftir að foreldrar mannkyns höfðu gert uppreisn flutti hann þegar í stað þau gleðitíðindi að höggorminum, það er að segja Satan djöflinum, yrði útrýmt. (1. Mós. 3:15) Í aldanna rás innblés Jehóva trúum þjónum sínum að lýsa því hvernig nafn hans yrði hreinsað af röngum sakargiftum, hvernig tjónið, sem Satan olli, yrði að engu gert og hvernig mennirnir gætu endurheimt það sem Adam og Eva glötuðu.

2. (a) Hvaða hlutverki gegna englar í boðun fagnaðarerindisins? (b) Hvaða fyrirmynd gaf Jesús boðberum fagnaðarerindisins?

2 Englar eru líka fagnaðarboðar. Sjálfir flytja þeir gleðifréttir og aðstoða einnig mennina við það. (Lúk. 1:19; 2:10; Post. 8:26, 27, 35; Opinb. 14:6) Erkiengillinn Míkael er einn þessara engla. Meðan hann var á jörðinni sem Jesús Kristur setti hann okkur fullkomið fordæmi og helgaði sig því að útbreiða fagnaðarerindið. – Lúk. 4:16-21.

3. (a) Hvert er fagnaðarerindið sem við flytjum? (b) Hvaða spurningar eru áhugaverðar fyrir okkur sem boðum fagnaðarerindið?

3 Jesús sagði lærisveinum sínum að þeir ættu að boða fagnaðarerindið. (Matt. 28:19, 20; Post. 1:8) Páll postuli skrifaði Tímóteusi, samverkamanni sínum: „Ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína.“ (2. Tím. 4:5) Hver er fagnaðarboðskapurinn sem fylgjendur Jesú flytja fólki? Meðal annars sá hughreystandi sannleikur að Jehóva, faðirinn á himnum, elski okkur. (Jóh. 3:16; 1. Pét. 5:7) Kærleikur Jehóva Guðs birtist ekki síst fyrir milligöngu ríkis hans. Þess vegna fögnum við því að geta sagt fólki að allir geti orðið vinir Guðs ef þeir lúta ríki hans, hlýða honum og gera rétt. (Sálm. 15:1, 2) Jehóva ætlar að útrýma öllu ranglæti og þjáningum. Hann eyðir líka sársaukanum sem fylgir minningunni um þjáningar fyrri tíma. Hvílíkar gleðifréttir! (Jes. 65:17) Þar sem við erum fagnaðarboðar skulum við leita svara við tveim mikilvægum spurningum: Af hverju er áríðandi fyrir fólk nú á tímum að heyra fagnaðarerindið? Og hvernig getum við verið góðir fagnaðarboðar?

HVERS VEGNA ÞARF FÓLK AÐ HEYRA FAGNAÐARBOÐSKAPINN?

Áhrifaríkar spurningar hjálpa fólki að átta sig á hvers vegna það trúi því sem það trúir

4. Hvaða ósannindi eru stundum sögð um Guð?

4 Hugsaðu þér að einhver fullyrði að faðir þinn hafi yfirgefið ykkur fjölskylduna og að þeir sem segjast þekkja hann haldi því fram að hann sé dulur, afskiptalítill og grimmur. Það er jafnvel reynt að telja þér trú um að hann sé dáinn og það sé því til einskis að reyna að hafa upp á honum. Margir hafa heyrt svipaðar sögur um Guð. Þeim er kennt að hann sé leyndardómur, að ekki sé hægt að kynnast honum eða að hann sé grimmur. Sumir trúarkennarar fullyrða til dæmis að Guð refsi ranglátum með því að kvelja þá að eilífu. Aðrir kenna Guði um þjáningarnar sem fylgja náttúruhamförum. Því er haldið fram að hamfarirnar séu refsing frá Guði, þó svo að bæði réttlátir og ranglátir týni lífi.

Spurningar opna huga þess og hjarta svo að það verði móttækilegt fyrir sannleikanum

5, 6. Hvaða áhrif hafa þróunarkenningin og falskar trúarkenningar haft á fólk?

5 Sumir staðhæfa að Guð sé ekki til. Lítum á þróunarkenninguna í því sambandi. Margir sem hampa henni fullyrða að lífið hafi kviknað af sjálfu sér án þess að nokkurt hugvit búi að baki. Þeir halda því fram að enginn skapari sé til. Sumir segja jafnvel að maðurinn sé eins og hvert annað dýr þannig að það sé engin furða að hann sýni oft af sér dýrslega hegðun. Þeir halda því fram að hinir sterku séu einfaldlega að fylgja svokölluðum náttúrulögmálum þegar þeir kúga þá sem veikari eru. Það er því ekkert undarlegt að margir skuli telja að ranglætið eigi eftir að fylgja mönnunum alla tíð. Þeir sem trúa á þróun eiga sér því enga raunverulega von.

6 Enginn vafi leikur á að þróunarkenningin og falskar trúarkenningar eiga sinn þátt í þeim hörmungum sem mannkynið hefur mátt þola á síðustu dögum. (Rómv. 1:28-31; 2. Tím. 3:1-5) Það eru engin varanleg gleðitíðindi fólgin í þessum kenningum mannanna. Páll postuli talar um að þær hafi haft þau áhrif að ,skilningur fólks sé blindaður og það sé fjarlægt lífi Guðs‘. (Ef. 4:17-19) Þróunarkenningin og falskar trúarkenningar hafa auk þess tálmað fólki að taka við fagnaðarerindinu sem á upptök sín hjá Guði. – Lestu Efesusbréfið 2:11-13.

Spurningar kenna einnig því að draga réttar ályktanir

7, 8. Hver er eina leiðin til að skilja fagnaðarerindið til hlítar?

7 Til að sættast við Guð þarf fólk að sannfærast um að hann sé til og að það sé ærin ástæða til að eignast vináttusamband við hann. Við getum hjálpað fólki að kynnast honum með því að hvetja það til að virða fyrir sér sköpunarverkið. Fólk skynjar visku og mátt Guðs með því að skoða sköpunarverkið með opnum huga. (Rómv. 1:19, 20) Við getum notað bæklinginn Var lífið skapað? til að benda fólki á verk skaparans og reyna þannig að vekja lotningu fyrir honum. Sköpunarverkið eitt og sér svarar þó ekki áleitnustu spurningum lífsins eins og: Hvers vegna leyfir Guð að mennirnir þjáist? Hvað ætlast hann fyrir með jörðina? Er Guði annt um okkur sem einstaklinga?

8 Eina leiðin til að skilja til hlítar fagnaðarerindið um Guð og fyrirætlun hans er að kynna sér Biblíuna vel. Það er mikill heiður að fá að hjálpa fólki að fá svör við spurningum sínum. En það er ekki nóg að miðla upplýsingum. Til að ná til hjartna fólks þurfum við að sannfæra það. (Post. 28:23, 24) Við getum náð betri árangri ef við líkjum eftir Jesú. Hvers vegna var Jesús jafn sannfærandi og raun ber vitni? Meðal annars vegna þess að hann kunni að beita spurningum á áhrifaríkan hátt. Hvernig getum við líkt eftir honum?

GÓÐIR FAGNAÐARBOÐAR KUNNA AÐ BEITA SPURNINGUM

9. Hvað þurfum við að gera til að geta hjálpað fólki að eignast samband við Guð?

9 Hvers vegna ættum við að líkja eftir Jesú og beita spurningum þegar við boðum fagnaðarerindið? Tökum dæmi: Læknir segir þér að hann hafi góðar fréttir að færa. Hann geti læknað þig af sjúkdómi þínum ef þú gengst undir skurðaðgerð. Þú trúir honum ef til vill. En myndirðu gera það ef hann hefði ekki spurt þig einnar einustu spurningar varðandi heilsufar þitt? Líklega myndirðu ekki treysta honum. Hversu fær sem læknirinn er þarf hann að spyrja þig um sjúkdómseinkennin og hlusta á svör þín áður en hann getur veitt þér læknishjálp. Til að hjálpa fólki að taka við fagnaðarerindinu um ríkið þurfum við sömuleiðis að læra að beita spurningum á áhrifaríkan hátt. Við getum ekki aðstoðað fólk fyrr en við höfum fengið skýra mynd af trúarskoðunum þess.

Til að ná til hjartna fólks þurfum við að sannfæra það.

10, 11. Hverju gætum við áorkað með því að líkja eftir kennsluaðferð Jesú?

10 Jesús vissi að vel valdar spurningar hjálpa kennara að kynnast nemanda og fá nemandann til að tjá sig. Þegar hann vildi brýna fyrir lærisveinunum að sýna auðmýkt byrjaði hann á því að vekja þá til umhugsunar með spurningu. (Mark. 9:33) Hann kenndi Pétri að hugsa út frá meginreglum með því að spyrja hann spurningar og bjóða upp á tvo svarmöguleika. (Matt. 17:24-26) Öðru sinni spurði Jesús viðhorfsspurninga til að draga fram hvað lærisveinarnir voru að hugsa. (Lestu Matteus 16:13-17.) Með spurningum sínum og kennslu miðlaði Jesús ekki aðeins upplýsingum heldur náði líka til hjartna fólks svo að það breytti í samræmi við fagnaðarerindið.

11 Við áorkum að minnsta kosti þrennu þegar við líkjum eftir Jesú og beitum spurningum á fagmannlegan hátt. Við uppgötvum hvernig best sé að leiðbeina fólki, getum haldið samræðum áfram þó að fólk komi með mótbárur og getum kennt öðrum svo að þeir nái rótfestu í sannleikanum. Við skulum nú líta á þrjú dæmi um áhrifaríkar leiðir til að nota spurningar.

12-14. Hvernig geturðu hjálpað unglingi að verða öruggari þegar hann segir frá fagnaðarerindinu? Nefndu dæmi.

12 Dæmi 1: Segjum að þú eigir barn á unglingsaldri sem hefur áhyggjur af því hvort það geti varið trú sína á sköpun í skólanum. Þú vilt eflaust hjálpa unglingnum að segja óhikað frá fagnaðarerindinu. Gætirðu líkt eftir Jesú og spurt unglinginn nokkurra viðhorfsspurninga í stað þess að gagnrýna hann eða ráðleggja honum strax hvað hann geti gert? Hvernig gætirðu borið þig að?

13 Þú gætir byrjað á því að lesa nokkrar greinar upp úr bæklingnum Var lífið skapað? Síðan gætirðu spurt unglinginn hvaða rök honum þyki sterkust. Hvettu hann til að hugleiða hvers vegna hann sé sannfærður um að til sé skapari og hvers vegna hann langi til að gera vilja Guðs. (Rómv. 12:2) Láttu barnið þitt vita að það þurfi ekki endilega að nota sömu rök og þú.

14 Bentu syni þínum eða dóttur á að nota svipaða aðferð í umræðum við bekkjarfélaga. Unglingurinn gæti sem sagt bent á ákveðnar staðreyndir og síðan spurt leiðandi spurninga eða viðhorfsspurninga. Hann gæti til dæmis beðið bekkjarfélagann að lesa textann á bls. 11 í bæklingnum Var lífið skapað? Sonur þinn eða dóttir gæti síðan spurt: „Ertu sammála því að margar af hönnunarlausnum náttúrunnar skari langt fram úr þeim lausnum sem menn hafa fundið?“ Bekkjarfélaginn svarar sennilega játandi. Þá mætti spyrja hann: „Hvernig heldurðu að tilviljunarkennd þróun hafi getað hannað flókna hluti sem mennirnir geta aðeins líkt eftir að takmörkuðu leyti?“ Þið getið æft ykkur af og til þannig að unglingurinn verði öruggari þegar hann ræðir við aðra um trú sína. Ef þú kennir honum að beita spurningum á áhrifaríkan hátt hjálparðu honum að vera góður fagnaðarboði.

15. Hvernig mætti beita spurningum til að ná til trúleysingja?

15 Dæmi 2: Þegar við göngum í hús hittum við fólk sem efast um tilvist Guðs. Við hittum kannski mann sem segist vera trúlaus. Í stað þess að láta samtalið enda þar gætum við spurt með háttvísi hve lengi hann hafi verið trúlaus og hvað hafi orðið til þess. Eftir að hafa hlustað á svör mannsins og hrósað honum fyrir að hugleiða þetta mál vel, gætum við spurt hann hvort hann sé mótfallinn því að lesa rit sem færi rök fyrir því að lífið sé skapað. Ef viðmælandinn er þokkalega víðsýnn svarar hann sennilega að það geri ekkert til að kíkja á slíkar röksemdir. Við gætum þá boðið honum bæklinginn Var lífið skapað? Háttvísar spurningar, sem eru bornar fram í vinsamlegum tón, geta verið eins og lykill að hjarta viðmælandans og gert hann móttækilegan fyrir fagnaðarerindinu.

16. Hvers vegna ættum við ekki að láta nægja að biblíunemandi lesi svörin upp úr námsritinu?

16 Dæmi 3: Þegar við höldum biblíunámskeið gætum við látið nægja að nemandinn lesi svörin upp úr námsritinu. Ef við gerum það er hins vegar óvíst að hann taki framförum. Hvers vegna? Vegna þess að ef nemandinn les upp svörin án þess að hugleiða efnið er harla ólíklegt að hann verði rótfastur í trúnni. Þegar hann verður fyrir mótlæti gæti farið fyrir honum eins og jurt sem skrælnar í sólarhitanum. (Matt. 13:20, 21) Til að það gerist ekki þurfum við að spyrja nemandann hvað honum finnist um það sem hann er að læra. Og reyndu að finna út hvort hann sé sammála því sem þið eruð að fara yfir. Fáðu hann til að útskýra hvers vegna hann sé sammála því eða ósammála. Hjálpaðu honum síðan að hugleiða það sem segir í Biblíunni þannig að hann læri að draga réttar ályktanir. (Hebr. 5:14) Ef við beitum spurningum á áhrifaríkan hátt eru góðar líkur á að nemandinn nái rótfestu í trúnni og haggist ekki þegar hann verður fyrir mótlæti eða reynt er að villa um fyrir honum. (Kól. 2:6-8) Hvað fleira getum við gert til að vera dugandi fagnaðarboðar?

GÓÐIR FAGNAÐARBOÐAR HJÁLPAST AÐ

17, 18. Hvernig geta tveir boðberar unnið saman þegar þeir boða fagnaðarerindið?

17 Jesús sendi lærisveina sína tvo og tvo saman til að boða Guðsríki. (Mark. 6:7; Lúk. 10:1) Páll postuli talar um samþjóna sína sem höfðu ,barist með honum við boðun fagnaðarerindisins‘. (Fil. 4:3) Þjónar Guðs höfðu þetta fordæmi í Biblíunni að leiðarljósi árið 1953 þegar þeir hófust handa við að veita markvissa þjálfun í boðun fagnaðarerindisins.

18 Segjum að þú sért að ganga í hús með öðrum votti. Hvernig getið þið unnið saman? (Lestu 1. Korintubréf 3:6-9.) Flettu upp í biblíunni þinni þegar félagi þinn les upp vers. Hlustaðu á það sem félagi þinn og húsráðandinn segja. Fylgstu vel með samræðunum ef ske kynni að þú þyrftir að leggja orð í belg og aðstoða félaga þinn við að svara mótbáru. (Préd. 4:12) Gættu þín þó á einu: Láttu ekki undan freistingunni að grípa fram í fyrir félaga þínum þegar hann er að skýra málin. Ákafi þinn gæti verið letjandi fyrir félaga þinn og ruglað viðmælandann í ríminu. Í vissum tilvikum getur þó verið viðeigandi að blanda sér í umræðurnar. En ef þú ákveður að leggja orð í belg skaltu ekki gera það nema einu sinni eða tvisvar í samtalinu og vera stuttorður. Leyfðu starfsfélaga þínum síðan að taka upp þráðinn að nýju.

19. Hvað skulum við hafa hugfast og hvers vegna?

19 Hvernig getið þið notað tímann meðan þið gangið milli húsa? Væri ekki þjóðráð að hjálpast að og ræða hvernig megi kynna boðskapinn enn betur? Gætið þess að vera ekki neikvæðir þegar þið talið um fólkið sem býr á svæðinu. Og fallið ekki í þá gildru að finna að öðrum boðberum. (Orðskv. 18:24) Við skulum hafa hugfast að við erum eins og brothætt leirker. En Jehóva hefur sýnt okkur einstaka góðvild með því að fela okkur þann fjársjóð að boða fagnaðarerindið. (Lestu 2. Korintubréf 4:1, 7.) Við skulum því öll sýna að við kunnum að meta þennan fjársjóð með því að gera okkar ýtrasta til að vera góðir fagnaðarboðar.