Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu „kostgæfinn til góðra verka“?

Ertu „kostgæfinn til góðra verka“?

„Jesús Kristur . . . gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann . . . hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.“ – TÍT. 2:13, 14.

1, 2. Hvaða heiður hafa vottar Jehóva hlotið og hvernig líturðu á verkefnið sem þú hefur fengið?

 MARGIR álíta það mikinn heiður að fá umbun fyrir merkan árangur á einhverju sviði. Sumir hafa beitt sér fyrir því að sætta stríðandi hópa og hlotið friðarverðlaun Nóbels að launum. En það væri þó margfalt meiri heiður að vera sendur sem fulltrúi eða erindreki Guðs til að hjálpa fólki að eiga frið við skapara sinn.

2 Við sem erum vottar Jehóva höfum hlotið þennan einstaka heiður. Undir handleiðslu Guðs og Krists hvetjum við fólk til að „sættast við Guð“. (2. Kor. 5:20) Jehóva Guð hefur falið okkur það verkefni að laða fólk til sín. Þess vegna hafa milljónir manna í meira en 235 löndum eignast gott samband við Guð og eiga von um eilíft líf. (Tít. 2:11) Við hvetjum alla sem vilja til að þiggja ókeypis lífsins vatn. (Opinb. 22:17) Það má réttilega kalla okkur ,kostgæfin til góðra verka‘ vegna þess að við höfum yndi af því að þjóna Jehóva og leggjum okkur fram af brennandi áhuga. (Tít. 2:14) Við skulum nú kanna hvernig við getum laðað fólk til Jehóva með því að vera kostgæfin til góðra verka. Við gerum það meðal annars með því að boða fagnaðarerindið.

LÍKTU EFTIR KOSTGÆFNI JEHÓVA OG JESÚ

3. Hverju getum við treyst í ljósi þess sem stendur í Jesaja 9:6?

3 Í Jesaja 9:6 er sagt frá því sem stjórn sonar Guðs áorkar, og síðan er bætt við: „Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.“ Með vandlætingu er átt við kostgæfni eða brennandi áhuga. Þessi orð bera með sér að Jehóva er annt um að mennirnir hljóti hjálpræði. Það gefur því augaleið að við ættum að boða ríki hans heilshugar og af kappi. Þannig endurspeglum við kostgæfni Jehóva Guðs enda erum við samverkamenn hans. Boðum við fagnaðarerindið af kappi eftir því sem aðstæður okkar leyfa? – 1. Kor. 3:9.

4. Hvernig var Jesús fylgjendum sínum fyrirmynd um að boða fagnaðarerindið af kostgæfni?

4 Jesús var líka kostgæfinn og boðaði fagnaðarerindið af miklu kappi. Þrátt fyrir hatramma andstöðu hélt hann áfram að boða ríki Guðs ötullega allt þar til jarðlífi hans lauk. (Jóh. 18:36, 37) Þegar styttist í að hann fórnaði lífi sínu einbeitti hann sér enn meir að því að hjálpa fólki að kynnast Jehóva.

5. Hvað gerði Jesús, samanber dæmisöguna um fíkjutréð?

5 Haustið 32 sagði Jesús dæmisögu um mann sem átti fíkjutré í víngarði sínum en tréð hafði engan ávöxt borið í þrjú ár. Víngarðsmanninum var sagt að höggva tréð en hann bað um frest til að mega gefa því áburð. (Lestu Lúkas 13:6-9.) Þegar Jesús sagði þessa dæmisögu voru lærisveinar hans enn frekar fáir. En eins og dæmisagan ber með sér notaði Jesús þann stutta tíma sem eftir var – um hálft ár – til að herða á boðuninni í Júdeu og Pereu. Fáeinum dögum áður en Jesús dó grét hann yfir samlöndum sínum sem tóku ekki við boðskap hans. – Matt. 13:15; Lúk. 19:41.

6. Hvers vegna ættum við að herða á boðuninni?

6 Í ljósi þess hve endalokin eru nærri er rík ástæða til að herða á boðuninni. (Lestu Daníel 2:41-45.) Það er ólýsanlegur heiður að mega vera vottur Jehóva. Við erum þeir einu sem benda á raunverulega lausn á vandamálum mannkyns. Dálkahöfundur minntist fyrir nokkru á spurninguna: „Hvers vegna þarf gott fólk að þjást?“ og sagði að það væri ekki til neitt svar við henni. Það er skylda okkar sem erum kristin að segja öllum, sem heyra vilja, frá því hvernig Biblían svarar slíkum spurningum. Við höfum ærna ástæðu til að vera „brennandi í andanum“ þegar við boðum fagnaðarerindið. (Rómv. 12:11) Með blessun Jehóva getum við hjálpaði fólki að kynnast honum og læra að elska hann.

VIÐ HEIÐRUM JEHÓVA MEÐ ÞVÍ AÐ VERA FÓRNFÚS

7, 8. Hvernig heiðrum við Jehóva með fórnfýsi okkar?

7 Páll postuli þurfti að þola ýmislegt í þjónustu sinni, meðal annars ,andvökur og sult‘. (2. Kor. 6:5) Trúsystkini okkar færa áþekkar fórnir í þjónustu Jehóva, þeirra á meðal fórnfúsir brautryðjendur sem láta boðunina ganga fyrir öðru þó að þeir þurfi líka að vinna fyrir sér. Okkur verður kannski líka hugsað til trúboðanna sem færa miklar fórnir til að geta boðað trúna meðal fólks á erlendri grund. (Fil. 2:17) Og hvað um safnaðaröldungana sem eiga stundum svefnlausar nætur og sleppa máltíðum til að geta annast sauði Jehóva? Þá eru ónefndir hinir öldruðu og heilsutæpu sem leggja sig fram við að sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Það er ákaflega hvetjandi að hugsa til þess hve fúsir þessir þjónar Guðs eru til að færa fórnir í þjónustu sinni við hann. Það fer ekki fram hjá fólki utan safnaðarins hvernig við lítum á boðunina.

8 Í lesandabréfi í dagblaðinu Boston Target í Lincolnshire í Bretlandi sagði: „Trúfélögin eru að missa traust fólks . . . Hvað eru prestarnir að gera alla daga? Þeir fara að minnsta kosti ekki út meðal fólksins eins og Kristur gerði . . . Vottar Jehóva er eina trúfélagið sem virðist láta sér annt um fólk. Þeir fara út meðal fólks og boða sannleikann af heilum hug.“ Við heiðrum Jehóva Guð með fórnfýsi okkar í heimi þar sem sjálfsdekrið er allsráðandi. – Rómv. 12:1.

Það er eftir okkur tekið þegar við boðum fagnaðarerindið.

9. Hvað getur verið okkur hvatning til að vera kostgæfin til góðra verka og iðin að prédika fagnaðarerindið?

9 En hvað er til ráða ef okkur finnst við ekki vera eins kappsöm í boðuninni og áður? Þá væri gott að hugleiða hverju Jehóva áorkar með því að láta boða fagnaðarerindið. (Lestu Rómverjabréfið 10:13-15.) Til að hljóta hjálpræði þarf fólk að ákalla nafn Jehóva í trú en fólk gerir það ekki nema við prédikum fyrir því. Þessi vitneskja ætti að vera okkur hvatning til að vera kostgæfin til góðra verka og iðin að prédika fagnaðarerindið um ríkið.

GÓÐ HEGÐUN LAÐAR FÓLK AÐ GUÐI

Við vitnum um trú okkar með því að vera heiðarlegir og duglegir starfsmenn.

10. Hvernig löðum við fólk að Jehóva með því að hegða okkur vel?

10 Þótt það sé mikilvægt að vera kostgæfin þegar við boðum trúna nægir það ekki eitt sér til að laða fólk að Guði. Góð hegðun okkar er ekki síður mikilvæg í því efni. Páll benti á hve miklu máli það skipti að breyta vel þegar hann skrifaði: „Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti.“ (2. Kor. 6:3) Við prýðum kenningu Guðs með því að vera uppbyggileg í tali og hegða okkur vel. Þá gerum við það aðlaðandi í augum fólks að tilbiðja Jehóva. (Tít. 2:10) Við heyrum oft dæmi um að fólk laðist að sannleikanum þegar það sér okkur líkja eftir Kristi.

11. Hvers vegna ættum við að íhuga hvaða áhrif hegðun okkar hefur á aðra?

11 Við gerum okkur grein fyrir að við getum haft góð áhrif á fólk með verkum okkar en hið gagnstæða getur líka gerst. Hvort sem við erum á vinnustað, heima eða í skóla gætum við þess að gefa engum tilefni til að finna að boðun okkar og breytni. Ef við syndguðum af ásettu ráði myndi það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir okkur. (Hebr. 10:26, 27) Þetta ætti að vera okkur hvatning til að hugleiða og gera að bænarefni hvernig við hegðum okkur og hvaða áhrif það hefur á fólk. Siðferði þessa heims er á niðurleið og einlægt fólk sér æ betur „muninn . . . á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki“. (Mal. 3:18) Góð breytni okkar á drjúgan þátt í því að fólk sættist við Guð.

12-14. Hvaða áhrif getur það haft á aðra að sjá okkur standast trúarprófraunir? Nefndu dæmi.

12 Í bréfi til safnaðarins í Korintu nefndi Páll að hann hefði mátt þola þrengingar, andstreymi, barsmíðar og fangavist. (Lestu 2. Korintubréf 6:4, 5.) Ef við erum þolgóð í prófraunum getur það verið fólki hvatning til að taka við sannleikanum. Lítum á dæmi: Fyrir nokkrum árum var reynt að stöðva starfsemi votta Jehóva á ákveðnu svæði í Angóla. Tveim skírðum vottum og 30 áhugasömum, sem sóttu samkomur, var safnað saman. Íbúum á svæðinu var síðan smalað saman til að horfa á andstæðingana hýða saklaust fólkið til blóðs. Konum og börnum var ekki einu sinni hlíft. Andstæðingarnir ætluðu sér að hræða fólk svo að enginn þyrði að hlusta á votta Jehóva framar. En eftir þessa opinberu hýðingu komu margir úr byggðarlaginu til vottanna og báðu um aðstoð við biblíunám. Boðunin hélt áfram, það fjölgaði í söfnuðinum og Jehóva blessaði þjóna sína.

13 Þetta dæmi sýnir vel hve víðtæk áhrif við getum haft á aðra með því að hvika ekki frá meginreglum Biblíunnar. Vel má vera að hugrekki Péturs og hinna postulanna hafi orðið öðrum hvatning til að sættast við Guð. (Post. 5:17-29) Hver veit nema skólafélagar okkar, vinnufélagar eða ættingjar taki við sannleikanum þegar þeir sjá að við erum staðföst í trúnni þrátt fyrir andstöðu?

14 Það líður ekki sá dagur að bræður okkar og systur séu ekki ofsótt einhvers staðar í heiminum. Svo dæmi sé tekið eru um 40 bræður í fangelsi í Armeníu vegna þess að þeir neita að gegna herþjónustu. Líklegt er að tugir bætist við á næstu mánuðum. Í Erítreu sitja 55 þjónar Jehóva í fangelsi og sumir þeirra eru komnir á sjötugsaldur. Í Suður-Kóreu eru um 700 vottar í fangelsi vegna trúar sinnar. Bræður okkar þar í landi hafa mátt búa við þetta ástand síðastliðin 60 ár. Við skulum biðja þess að trúfesti ofsóttra bræðra og systra í ýmsum löndum verði Jehóva til lofs og hjálpi þeim sem elska réttlætið að taka við sannleikanum. – Sálm. 76:9-11.

15. Lýstu með dæmi hvernig heiðarleiki getur laðað fólk að sannleikanum.

15 Við getum líka laðað fólk að sannleikanum með heiðarleika okkar. (Lestu 2. Korintubréf 6:4, 7.) Lítum á dæmi: Systir nokkur var að stinga peningum í miðavél í strætisvagni þegar kunningjakona hennar sagði að það væri óþarfi að kaupa miða fyrir svona stutta leið. Systirin svaraði að það væri rétt að kaupa miða jafnvel þótt maður færi út á næstu stoppistöð. Eftir að kunningjakonan yfirgaf vagninn sneri vagnstjórinn sér að systurinni og spurði: „Ertu vottur Jehóva?“ Systirin játti því og bætti við: „Hví spyrðu?“ „Ég heyrði að þið voruð að ræða hvort þú þyrftir að borga fargjaldið og ég veit að vottar Jehóva eru í hópi þeirra fáu sem gera það og eru heiðarlegir í einu og öllu.“ Nokkrum mánuðum síðar kom maður að máli við systurina á samkomu og spurði: „Manstu eftir mér? Ég er vagnstjórinn sem talaði við þig um strætófargjaldið. Það sem ég varð vitni að olli því að ég ákvað að þiggja biblíunámskeið hjá vottum Jehóva.“ Fólk sér að við erum heiðarleg og breytni okkar mælir með boðskapnum sem við flytjum.

VERUM JEHÓVA ALLTAF TIL SÓMA

16. (a) Hvaða áhrif getum við haft á fólk með því vera langlynd, kærleiksrík og góðviljuð? (b) Hvernig fara sumir prédikarar að ráði sínu?

16 Við eigum líka þátt í að laða fólk til Jehóva með því að vera langlynd, kærleiksrík og góðviljuð. Það getur stuðlað að því að fólk langi til að kynnast Jehóva, vilja hans og þjónum hans. Hugarfar og breytni sannkristinna manna er harla ólík sýndarguðrækni sumra sem er oft ekkert annað en hræsni. Sumir prédikarar hafa haft fólk að féþúfu og auðgast vel. Þeir hafa notað drjúgan hluta peninganna til að kaupa sér dýr hús og bíla, og einn þeirra lét meira að segja smíða loftkælt hundahús. „Gefins skuluð þér láta í té,“ sagði Jesús, en margir sem þykjast fylgja honum hafa enga löngun til þess. (Matt. 10:8) Þeir eru eins og spilltir prestar í Forn-Ísrael sem tóku „fé fyrir ráð sín“. (Míka 3:11) Og fátt sem þeir kenna á sér stoð í Biblíunni. Framferði þeirra stuðlar síður en svo að því að fólk sættist við Guð.

17, 18. (a) Hvernig heiðrum við Jehóva með góðri breytni okkar? (b) Hvers vegna langar þig til að vera kostgæfinn til góðra verka?

17 Við löðum hins vegar fólk að Jehóva Guði þegar það áttar sig á að við kennum sannleikann og gerum náunganum gott. Brautryðjandi var að boða fagnaðarerindið hús úr húsi og hitti þá roskna ekkju sem sagðist ekki hafa áhuga. Hún nefndi að hún hefði staðið uppi á tröppu í eldhúsinu og verið að reyna að skipta um ljósaperu þegar hann hringdi bjöllunni. „Það er ekki óhætt fyrir þig að gera það ein,“ sagði hann. Síðan skipti hann um peru fyrir hana og fór sína leið. Þegar sonur ekkjunnar heyrði af þessu vildi hann fyrir alla muni leita bróðurinn uppi og þakka honum fyrir. Seinna þáði hann boð um biblíunámskeið.

18 Hvers vegna langar þig til að vera „kostgæfinn til góðra verka“? Ef til vill vegna þess að þú veist að þú heiðrar Jehóva og getur hjálpað öðrum að bjargast ef þú leggur þig fram í boðunarstarfinu og hegðar þér í samræmi við vilja hans. (Lestu 1. Korintubréf 10:31-33.) Önnur ástæða fyrir því að við boðum fagnaðarerindið af kappi og hegðum okkur vel er að við viljum sýna að við elskum Guð og náungann. (Matt. 22:37-39) Að vera kostgæfin til góðra verka veitir okkur nú þegar mikla gleði og lífsfyllingu. Við hlökkum líka til þess dags þegar allir menn tilbiðja skaparann, Jehóva Guð, af heilu hjarta.