Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Taktu viturlegar ákvarðanir og varðveittu arfleifð þína

Taktu viturlegar ákvarðanir og varðveittu arfleifð þína

„Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða.“ – RÓMV. 12:9.

1, 2. (a) Hvað varð til þess að þú ákvaðst að þjóna Guði? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

 MILLJÓNIR manna hafa tekið þá viturlegu ákvörðun að þjóna Jehóva Guði og feta í fótspor Jesú Krists. (Matt. 16:24; 1. Pét. 2:21) Það er alvarleg ákvörðun að vígjast Guði. Hún er ekki byggð á lauslegri þekkingu á fáeinum biblíuversum heldur á ítarlegu biblíunámi sem styrkir trúna á arfleifðina sem Jehóva hefur heitið. Þessi arfleifð stendur öllum til boða sem ,þekkja Guð og þann sem hann sendi, Jesú Krist‘. – Jóh. 17:3; Rómv. 12:2.

2 Ákvarðanir okkar þurfa að vera Jehóva að skapi til að við getum varðveitt gott samband við hann. Í þessari grein er rætt um eftirfarandi spurningar: Hver er arfleifð okkar? Hvernig eigum við að líta á hana? Hvernig getum við tryggt að við hljótum arfleifðina? Og hvað getur hjálpað okkur að taka viturlegar ákvarðanir?

HVER ER ARFLEIFÐ OKKAR?

3. Hvaða arfleifð bíður (a) hinna andasmurðu og (b) ,annarra sauða‘?

3 Fremur lítill hópur kristinna manna á í vændum „óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð“ – þann ómetanlega heiður að ríkja með Kristi á himnum. (1. Pét. 1:3, 4) Til að hljóta þessa arfleifð þurfa þeir að endurfæðast. (Jóh. 3:1-3) Jesús á líka milljónir ,annarra sauða‘ sem boða fagnaðarerindið um ríkið með andasmurðum fylgjendum hans. (Jóh. 10:16) Hvaða arfleifð hljóta þeir? Þeir hljóta það sem syndararnir Adam og Eva hlutu ekki, það er að segja eilíft líf í paradís á jörð þar sem hvorki verða þjáningar, sorgir né dauði. (Opinb. 21:1-4) Jesús gat því lofað illvirkja sem var líflátinn við hlið hans að hann yrði með honum í paradís. – Lúk. 23:43.

4. Hvaða blessunar njótum við núna?

4 Við njótum arfleifðar okkar að vissu marki nú þegar. Við trúum á „endurlausn . . . í Kristi Jesú“ og eigum þess vegna innri frið og náið samband við Guð. (Rómv. 3:23-25) Við höfum góðan skilning á fögrum fyrirheitum Biblíunnar. Kærleikur trúsystkina okkar um allan heim veitir okkur mikla gleði. Og það er mikill heiður að mega vera vottar Jehóva. Við höfum ærna ástæðu til að láta okkur annt um arfleifð okkar.

5. Hvað hefur Satan reynt alla tíð og hvað getur hjálpað okkur að standast vélabrögð hans?

5 Til að glata ekki dýrmætri arfleifð okkar þurfum við að vara okkur á gildrum Satans. Hann hefur alla tíð reynt að freista þjóna Guðs til að taka rangar ákvarðanir og fyrirgera arfleifð sinni. (4. Mós. 25:1-3, 9) Hann veit að endirinn er nærri og reynir meira en nokkru sinni fyrr að leiða okkur út af réttri braut. (Lestu Opinberunarbókina 12:12, 17.) Til að ,standast vélabrögð djöfulsins‘ verðum við að vera þakklát fyrir arfleifð okkar. (Ef. 6:11) Esaú, frumgetinn sonur Ísaks, er dæmi til viðvörunar sem við ættum að draga lærdóm af.

VERTU EKKI EINS OG ESAÚ

6, 7. Hver var Esaú og hvaða arfleifð átti hann í vændum?

6 Það var fyrir næstum 4.000 árum að þau Ísak og Rebekka eignuðust tvíburana Esaú og Jakob. Þegar drengirnir uxu úr grasi sýndi það sig að þeir voru mjög ólíkir í sér og höfðu ólík áhugamál. Esaú gerðist „slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum“ en „Jakob var gæflyndur og hélt sig við tjöldin“. (1. Mós. 25:27) Biblíuþýðandinn Robert Alter segir að hebreska orðið, sem er þýtt „gæflyndur“, gefi í skyn „ráðvendni eða jafnvel sakleysi“.

7 Abraham, afi þeirra Jakobs og Esaús, dó þegar þeir voru 15 ára. En fyrirheitið, sem Jehóva hafði gefið honum, var ekki gleymt. Jehóva minnti Ísak á það og benti á að allar þjóðir heims myndu hljóta blessun af afkvæmi Abrahams. (Lestu 1. Mósebók 26:3-5.) Þetta fyrirheit fól í sér að Messías, það er að segja hinn trúi ,niðji‘ sem er nefndur í 1. Mósebók 3:15, myndi koma af Abraham. Esaú var frumgetinn sonur Ísaks og átti því tilkall til þess að niðjinn kæmi af honum. Þetta var dýrmæt arfleifð. En kunni Esaú að meta hana?

Stofnaðu ekki arfleifð þinni í hættu.

8, 9. (a) Hvað ákvað Esaú að gera við frumburðarrétt sinn? (b) Á hverju áttaði Esaú sig síðar og hvernig brást hann við?

8 Jakob var einhverju sinni að „sjóða mat“ þegar Esaú kom heim af heiðunum. „Gefðu mér strax þetta rauða, þetta rauða þarna, því að ég er dauðþreyttur,“ sagði Esaú. „Seldu mér þá strax frumburðarrétt þinn,“ svaraði Jakob. Hvernig brást Esaú við? Svo ótrúlegt sem það virðist svaraði hann: „Hvers virði er mér þá frumburðarrétturinn?“ Hugsa sér. Esaú valdi skál af baunakássu fram yfir frumburðarréttinn! Til að gera bindandi samning um þetta sagði Jakob: „Sverðu mér eið strax.“ Esaú ákvað hiklaust að afsala sér frumburðarréttinum. Þá gaf Jakob bróður sínum „brauð og baunakássu og hann át og drakk, stóð á fætur og hélt sína leið. Þannig óvirti Esaú frumburðarréttinn.“ – 1. Mós. 25:29-34.

9 Síðar, þegar Ísak hélt að hann ætti skammt eftir ólifað, sá Rebekka til þess að Jakob hlyti frumburðarréttinn sem Esaú hafði selt honum. Þegar Esaú áttaði sig á því um síðir að hann hafði tekið heimskulega ákvörðun sárbændi hann föður sinn: „Blessaðu mig einnig, faðir minn . . . Hefur þú enga blessun geymt handa mér?“ Ísak sagðist ekki geta breytt blessuninni sem hann hafði veitt Jakobi. Þá „hóf [Esaú] upp raust sína og grét“. – 1. Mós. 27:30-38.

10. Hvernig leit Jehóva á þá Jakob og Esaú og hvers vegna?

10 Hvað er mest áberandi í fari Esaús í frásögum Biblíunnar? Honum var greinilega meira í mun að fullnægja líkamlegum löngunum en að hljóta blessunina sem arfleifðin hafði í för með sér. Frumburðarrétturinn var lítils virði í augum Esaús og það er greinilegt að hann elskaði ekki Guð. Hann hugsaði ekki heldur um þær afleiðingar sem ákvörðun hans myndi hafa fyrir afkomendur hans. Jakob hugsaði allt öðruvísi. Hann kunni að meta arfleifð sína. Það má meðal annars sjá af því að hann valdi sér eiginkonu í samræmi við leiðbeiningar foreldra sinna. (1. Mós. 27:46 – 28:3) Hann þurfti að vera þolinmóður og fórnfús en hlaut að launum þá blessun að vera forfaðir Messíasar. Hvernig leit Jehóva á þá Jakob og Esaú? Hann sagðist „elska . . . Jakob og hata Esaú“. – Mal. 1:2, 3.

11. (a) Hvers vegna skiptir það máli fyrir okkur sem Biblían segir um Esaú? (b) Hvers vegna nefnir Páll hórdóm í samhengi við framferði Esaús?

11 Skiptir það sem Biblían segir um Esaú máli fyrir kristna menn nú á dögum? Vissulega. Páll postuli hvatti trúsystkini sín til að gæta þess að „eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur eins og Esaú sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn“. (Hebr. 12:16) Þessi viðvörun er enn í fullu gildi. Við verðum alltaf að bera virðingu fyrir því sem heilagt er til að geta staðist freistingar og varðveitt andlega arfleifð okkar. En hvers vegna skyldi Páll minnast á hórdóm í samhengi við framferði Easús? Vegna þess að það eru miklar líkur á að við fórnum því sem heilagt er og drýgjum synd á borð við hórdóm ef við líkjum eftir Esaú og látum langanir holdsins ráða gerðum okkar.

UNDIRBÚÐU HJARTA ÞITT NÚNA

12. (a) Hvernig leggur Satan freistingar fyrir okkur? (b) Nefndu dæmi úr Biblíunni sem geta hjálpað okkur að taka viturlega ákvörðun þegar freisting verður á vegi okkar.

12 Við sem þjónum Jehóva reynum auðvitað að forðast aðstæður sem gætu freistað okkar til siðlausra athafna. Við biðjum Jehóva að hjálpa okkur að standast ef reynt er að fá okkur til að óhlýðnast honum. (Matt. 6:13) Satan reynir í sífellu að spilla sambandi okkar við Jehóva en við reynum okkar besta til að vera ráðvönd í þessum siðspillta heimi. (Ef. 6:12) Satan er guð þessa illa heims. Hann kann að notfæra sér langanir ófullkominna manna og leggur fyrir okkur alls konar freistingar. (1. Kor. 10:8, 13) Hugsaðu þér til dæmis að þér gefist tækifæri til að fullnægja ákveðinni löngun á siðlausan hátt. Hvað myndirðu gera? Myndirðu taka svipaða ákvörðun og Esaú sem sagði: ,Gefðu mér þetta strax‘? Eða myndirðu standast freistinguna og forða þér eins og Jósef, sonur Jakobs, þegar eiginkona Pótífars reyndi að freista hans? – Lestu 1. Mósebók 39:10-12.

13. (a) Hvernig hafa margir líkt eftir Jósef en sumir eftir Esaú? (b) Hvað er mikilvægt að gera til að líkja ekki eftir Esaú?

13 Margir bræður og systur hafa lent í aðstæðum þar sem þau þurftu að velja milli þess að líkja eftir Esaú eða Jósef. Flestir breyttu skynsamlega og glöddu hjarta Jehóva. (Orðskv. 27:11) Sumir hafa hins vegar valið að líkja eftir Esaú þegar freistingar urðu á vegi þeirra og hafa þar með stofnað arfleifð sinni í voða. Margir þeirra sem eru áminntir eða vikið er úr söfnuðinum hafa gert sig seka um kynferðislegt siðleysi. Það er ákaflega mikilvægt að undirbúa hjartað núna – áður en við lendum í aðstæðum sem reyna á ráðvendni okkar. (Sálm. 78:8) Við getum gert að minnsta kosti tvennt til að vera viðbúin að standast freistingar og taka viturlegar ákvarðanir í framtíðinni.

HUGLEIDDU AFLEIÐINGAR OG STYRKTU VARNIR

Við styrkjum varnir okkar með því að leita eftir visku frá Jehóva.

14. Hvaða spurningar geta hjálpað okkur að ,hafa andstyggð á hinu vonda og halda fast við hið góða‘?

14 Það fyrra, sem við getum gert, er að hugleiða afleiðingar gerða okkar. Því meir sem við elskum Jehóva því betur kunnum við að meta arfleifðina sem hann hefur gefið okkur. Við viljum ekki særa þá sem við elskum heldur reynum við að gleðja þá. Fyrst svo er ættum við að hugleiða vel hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir okkur og aðra ef við létum undan röngum löngunum holdsins. Við ættum að spyrja okkur: Hvaða áhrif myndi það hafa á samband mitt við Jehóva ef ég léti eigingirni ráða ferðinni? Hvaða áhrif myndi röng breytni mín hafa á fjölskylduna? Hvaða áhrif myndi hún hafa á trúsystkini mín? Myndi ég hneyksla aðra? (Fil. 1:10) Við gætum einnig spurt okkur hvort skammvinnur unaður af syndinni sé alls sársaukans virði sem hún veldur. Vil ég virkilega setja mig í sömu spor og Esaú sem grét sárlega þegar hann áttaði sig á hvað hann hafði gert? (Hebr. 12:17) Það er hollt að hugleiða slíkar spurningar því að það hjálpar okkur að ,hafa andstyggð á hinu vonda og halda fast við hið góða‘. (Rómv. 12:9) Ef við elskum Jehóva er það okkur sterk hvöt til að standa vörð um arfleifð okkar. – Sálm. 73:28.

15. Hvað styrkir varnir okkar gegn freistingum og hjálpar okkur að viðhalda sambandinu við Jehóva?

15 Hið síðara, sem við getum gert, er að styrkja varnir okkar. Jehóva hefur látið okkur margt í té svo að við getum styrkt varnir okkar og viðhaldið sambandinu við hann. Þetta er meðal annars biblíunám, samkomur, boðunarstarf og bænarsamband. (1. Kor. 15:58) Í hvert sinn sem við úthellum hjarta okkar fyrir Jehóva í bæn og í hvert sinn sem við leggjum okkur fram við að boða fagnaðarerindið erum við að styrkja varnir okkar gegn freistingum. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:12, 19.) Það er að verulegu leyti undir sjálfum okkur komið hve vel við getum staðist freistingar. (Gal. 6:7) Þetta kemur greinilega fram í 2. kafla Orðskviðanna.

,LEITAÐU AÐ ÞEIM‘

16, 17. Hvernig getum við lært að taka viturlegar ákvarðanir?

16 Í 2. kafla Orðskviðanna erum við hvött til að tileinka okkur visku og aðgætni. Jehóva gefur okkur hvort tveggja til að auðvelda okkur að velja milli þess sem er rétt og þess sem er rangt, og milli þess að aga sjálf okkur og láta undan löngunum okkar. En við þurfum að leggja eitthvað á okkur til þess. Þessi grundvallarsannindi koma vel fram í orðum Biblíunnar: „Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína og hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim eins og silfri og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá mun þér lærast að óttast Drottin og veitast þekking á Guði. Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ – Orðskv. 2:1-6.

17 Það er því ljóst að við þurfum að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í Orðskviðunum til að verða fær um að taka viturlegar ákvarðanir. Okkur tekst aðeins að standast freistingar ef við látum orð Jehóva móta okkar innri mann, ef við biðjum hann jafnt og þétt að leiðbeina okkur og ef við leitum stöðugt að þekkingunni frá Guði eins og séum við að leita að fólgnum fjársjóðum.

18. Hvað ætlar þú að gera og hvers vegna?

18 Jehóva veitir þeim þekkingu, skilning, hyggindi og visku sem leggja sig fram um að tileinka sér það. Því meira sem við sækjumst eftir þessum gjöfum Jehóva því sterkari verða tengsl okkar við hann. Hið nána samband, sem við eigum við Jehóva Guð, er okkur síðan til verndar þegar freistingar verða á vegi okkar. Ef við eigum náin tengsl við Jehóva og berum djúpa lotningu fyrir honum veitir það okkur vernd í baráttunni gegn syndinni. (Sálm. 25:14; Jak. 4:8) Megi vináttusamband okkar við Jehóva og viskan sem hann veitir okkur öllum gera okkur kleift að taka ákvarðanir sem gleðja hjarta hans og hjálpa okkur að varðveita arfleifð okkar.