Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Það hefur veitt mér mikla blessun að hlýða Jehóva

Það hefur veitt mér mikla blessun að hlýða Jehóva

„Við getum lært mikið af Nóa því að hann hlýddi Jehóva og elskaði fjölskyldu sína,“ sagði faðir minn og bætti við: „Allir í fjölskyldunni komust af í flóðinu vegna þess að þau fóru öll inn í örkina.“

ÞETTA er ein fyrsta minningin sem ég á um föður minn, en hann var hógvær og vinnusamur maður. Hann hafði sterka réttlætiskennd og heillaðist strax af boðskap Biblíunnar þegar hann kynntist honum árið 1953. Þaðan í frá lagði hann sig fram við að kenna okkur börnunum það sem hann var að læra. Móðir mín var í fyrstu treg til að segja skilið við kaþólskar hefðir en með tímanum tileinkaði hún sér líka boðskap Biblíunnar.

Það var þrautin þyngri fyrir foreldra mína að fræða okkur um Biblíuna. Móðir mín var svo til ólæs og faðir minn vann langan og erfiðan vinnudag á ökrunum. Stundum var hann svo þreyttur að hann gat ekki haldið sér vakandi alla námsstundina. En erfiði hans var ekki til ónýtis. Ég var elst okkar systkinanna svo að ég hjálpaði til við að kenna systur minni og tveimur bræðrum. Faðir minn nefndi oft hvernig Nói hlýddi Guði og hve vænt honum þótti um fjölskyldu sína. Þessi saga var í miklu uppáhaldi hjá mér og ég kenndi systkinum mínum hana. Ekki leið á löngu þar til við vorum öll farin að sækja samkomur í ríkissalnum í bænum Roseto degli Abruzzi við strönd Adríahafs á Ítalíu.

Ég var ekki nema 11 ára þegar ég fór með móður minni yfir fjöllin í vestri til að sækja okkar fyrsta mót í Róm. Það var árið 1955. Upp frá því hef ég litið á þessar fjölmennu samkomur sem eitt það dásamlegasta í lífi kristinna manna.

Ég lét skírast árið eftir og skömmu seinna hóf ég að þjóna Guði í fullu starfi. Þegar ég var 17 ára gerðist ég sérbrautryðjandi og starfaði í borginni Latina sem er suður af Róm og um 300 kílómetra frá heimabæ mínum. Þetta var tiltölulega ung borg svo að fólk hafði ekki of miklar áhyggjur af áliti nágrannanna. Okkur brautryðjandafélögunum fannst gaman að dreifa biblíutengdum ritum og dreifðum miklu. En ég var enn nokkuð ung að árum og heimþráin var sterk. Ég vildi samt vera hlýðin og starfa þar sem ég var beðin.

Á brúðkaupsdeginum.

Ég var send til Mílanó til að aðstoða við undirbúning alþjóðamótsins „Eilífur fagnaðarboðskapur“ árið 1963. Ég vann sem sjálfboðaliði á mótinu ásamt mörgum öðrum, þar á meðal Paolo Piccioli, ungum bróður frá Flórens. Á öðrum degi mótsins flutti hann áhrifamikla ræðu um einhleypi. Ég man að ég hugsaði með mér: „Þessi bróðir giftist áreiðanlega aldrei.“ Við fórum þó að skrifast á og svo kom í ljós að við áttum margt sameiginlegt, svo sem markmið, kærleika til Jehóva og mikla löngun til að hlýða honum. Við gengum í hjónaband árið 1965.

RÖKRÆÐUR VIÐ PRESTA

Ég var brautryðjandi í Flórens í tíu ár. Það var spennandi að sjá söfnuðinn stækka og sérstaklega að sjá unga fólkið taka framförum. Okkur Paolo fannst ánægjulegt að vera með unga fólkinu og spjalla um andleg mál eða stunda afþreyingu. Paolo kaus oftast að spila fótbolta með unga fólkinu. Mér þótti auðvitað gott að eiga stundir með eiginmanni mínum, en ég gerði mér grein fyrir að unga fólkið og fjölskyldurnar í söfnuðinum þurftu á tíma hans og athygli að halda.

Mér hlýnar enn um hjartarætur þegar ég hugsa til baka og minnist allra biblíunemendanna sem við kenndum. Einn þeirra hét Adriana. Hún sagði tveimur fjölskyldum frá því sem hún var að kynna sér. Þessar fjölskyldur skipulögðu síðan fund með presti til að ræða við hann um kenningar kirkjunnar, svo sem um þrenninguna og ódauðlega sál. Þrír prelátar mættu á fundinn. Biblíunemendur okkar sáu strax að útskýringar þeirra voru flóknar og mótsagnakenndar í samanburði við skýrar kenningar Biblíunnar. Þessi fundur markaði ákveðin þáttarskil. Með tímanum gerðust 15 manns úr þessum fjölskyldum vottar Jehóva.

Við boðuðum auðvitað fagnaðarerindið öðruvísi á þeim tíma en við gerum núna. En á sínum tíma var Paolo sérfræðingur í að rökræða við presta og gerði það alloft. Mér eru minnisstæðar einar slíkar rökræður í viðurvist áheyrenda sem voru ekki vottar. Í ljós kom að andstæðingar okkar höfðu undirbúið suma áheyrendur til að bera fram spurningar sem taldar voru frekar óþægilegar. En umræðurnar fóru á annan veg en þeir ætluðu. Einhver spurði hvort það væri rétt af kirkjunni að blanda sér í stjórnmál eins og hún hafði gert öldum saman. Þegar hér var komið sögu var augljóst að prestarnir voru komnir í klípu. Skyndilega slokknuðu öll ljós og fundinum var slitið. Mörgum árum seinna fréttum við að það hefði verið fyrir fram ákveðið að slá út rafmagninu ef umræðurnar færu öðruvísi en prestarnir vildu.

NÝ VERKEFNI

Við Paolo höfðum verið gift í tíu ár þegar okkur var boðið að þjóna í farandstarfi. Paolo var í góðri vinnu svo að þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir okkur. En eftir að við höfðum gert þetta að bænarefni ákváðum við að gefa kost á okkur á þessum nýja starfsvettvangi. Okkur fannst mjög ánægjulegt að vera með fjölskyldunum sem við gistum hjá. Við áttum oft sameiginlega biblíunámsstund á kvöldin og síðan hjálpaði Paolo börnunum við heimanámið, ekki síst stærðfræðina. Paolo var mikill lestrarhestur og hafði gaman af að segja öðrum frá athyglisverðu og uppbyggjandi efni sem hann hafði lesið. Á mánudögum boðuðum við oft fagnaðarerindið í þorpum þar sem engir vottar bjuggu og buðum fólki að hlusta á ræðu sem átti að flytja um kvöldið.

Okkur fannst ánægjulegt að vera með unga fólkinu og Paolo kaus oftast að spila fótbolta.

Við höfðum aðeins verið tvö ár í þessu starfi þegar okkur var boðið að vinna á Betel í Róm. Paolo átti að annast lögfræðileg mál og ég átti að vinna á áskriftadeildinni. Okkur fannst breytingin ekki auðveld en við vorum ákveðin í að gera eins og við vorum beðin um. Það var mjög gaman að fylgjast með hvernig starfsemi deildarskrifstofunnar jókst smám saman og vottunum á Ítalíu fjölgaði gífurlega. Á þessum tíma fengu Vottar Jehóva á Ítalíu mikilvæga, lagalega viðurkenningu. Það átti vel við okkur að starfa á þessum vettvangi.

Paolo hafði mikla ánægju af starfi sínu á Betel.

Biblíuleg afstaða Votta Jehóva til blóðs vakti mikið umtal á Ítalíu meðan við vorum á Betel. Upp úr 1980 kom upp dómsmál sem olli heilmiklu fjaðrafoki. Vottahjón voru ranglega sökuð um að hafa valdið dauða dóttur sinnar sem lést af völdum alvarlegs blóðsjúkdóms. Hún var með arfgengan sjúkdóm sem er nokkuð algengur í löndunum við Miðjarðarhaf. Bræður og systur í Betelfjölskyldunni aðstoðuðu lögfræðingana sem tóku að sér mál foreldranna. Fólk fékk upplýsingar í formi dreifirits og sérútgáfu blaðsins Vaknið! svo að það gæti skilið rétt það sem orð Guðs segir um blóðið. Þessa mánuði vann Paolo oft sleitulaust allt að 16 klukkutíma á dag. Ég studdi hann eftir fremsta megni í þessu mikilvæga verkefni.

ÖNNUR BREYTING Í LÍFI OKKAR

Við höfðum verið gift í 20 ár þegar líf okkar tók óvænta stefnu. Ég var 41 árs og Paolo 49 þegar ég sagði honum að ég héldi að ég væri ófrísk. Ég fann eftirfarandi skrifað í dagbókina hans þennan dag: „Bæn: Ef það er rétt, hjálpaðu okkur að halda áfram í fullu starfi, slaka ekki á andlega og sýna með fordæmi okkar að við séum góðir foreldrar. Og hjálpaðu mér umfram allt að fara að minnsta kosti eftir einu prósenti af því sem ég hef sagt á ræðupallinum síðaðstliðin 30 ár.“ Eftir árangrinum að dæma hlýtur Jehóva að hafa bænheyrt hann og mig líka.

Líf okkar gerbreyttist þegar Ilaria fæddist. Í hreinskilni sagt vorum við stundum svolítið niðurdregin. Við upplifðum það sem segir í Orðskviðunum 24:10: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ En við hjálpuðumst að og mundum eftir að styðja og hvetja hvort annað.

Ilaria segist vera hæstánægð með að eiga foreldra sem hafa verið önnum kafnir við að þjóna Guði í fullu starfi. Henni hefur aldrei fundist hún vera vanrækt. Hún ólst upp á ósköp venjulegu heimili og ég var alltaf með henni á daginn. Þegar Paolo kom heim á kvöldin þurfti hann oft að ljúka einhverjum verkefnum, en hann tók sér samt tíma til að leika við hana og hjálpa henni við heimanámið. Þetta gerði hann þótt hann þyrfti að vaka til tvö eða þrjú um nóttina til að klára sín eigin verkefni. „Pabbi er besti vinur minn,“ sagði Ilaria oft.

Eins og við var að búast þurfti staðfestu og stundum aga til að hjálpa Ilariu að halda sér á vegi sannleikans. Ég man eftir einu tilviki þegar hún kom illa fram við vinkonu sína sem hún var að leika við. Við notuðum Biblíuna til að útskýra fyrir henni að hún ætti ekki að haga sér svona og létum hana síðan biðja vinkonu sína afsökunar í okkar áheyrn.

Ilaria segist vera þakklát fyrir að við foreldrar hennar skulum alla tíð hafa haft yndi af að boða fagnaðarerindið. Hún er sjálf gift núna og skilur þess vegna betur hve mikilvægt er að hlýða Jehóva og fylgja leiðbeiningum hans.

HLÝÐIN Á SORGARSTUND

Árið 2008 greindist Paolo með krabbamein. Í byrjun leit út fyrir að hann myndi komast yfir veikindin og hann uppörvaði mig heilmikið. Við reyndum að fá bestu læknishjálp sem völ var á. Auk þess leituðum við Paolo og Ilaria til Jehóva í löngum bænum og báðum hann að hjálpa okkur að takast á við framtíðina. En mér fannst erfitt að horfa upp á manninn minn, sem hafði verið svo sterkur og kraftmikill, missa máttinn smám saman. Það var mikið áfall þegar hann lést árið 2010. En allt það sem við áorkuðum saman þessi 45 ár veitir mér heilmikla huggun. Við gáfum Jehóva það besta sem við áttum. Ég veit líka að starf okkar hefur varanlegt gildi. Og ég hlakka mikið til þess tíma þegar Paolo fær upprisu eins og Jesús lofaði í Jóhannesi 5:28, 29.

„Innst inni er ég enn þá litla stúlkan sem var svo hrifin af sögunni um Nóa. Ég er alltaf jafn ákveðin í að hlýða Jehóva.“

Innst inni er ég enn þá litla stúlkan sem var svo hrifin af sögunni um Nóa. Ég er alltaf jafn ákveðin í að hlýða Jehóva sama hvað ég verð beðin um að gera. Og ég er fullviss um að engin hindrun, fórn eða missir er nokkuð í samanburði við þá dásamlegu blessun sem Guð hefur heitið okkur. Það er mín reynsla – og ég er sannfærð um að það er þessi virði að hlýða Guði.