Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Seg þú okkur, hvenær verður þetta?“

„Seg þú okkur, hvenær verður þetta?“

„Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ – MATT. 24:3.

1. Á hverju höfum við brennandi áhuga, rétt eins og postularnir?

 JESÚS var um það bil að ljúka þjónustu sinni á jörð og lærisveinar hans brunnu í skinninu að vita hvað framtíðin bæri í skauti sér. Fjórir af postulunum spurðu hann því nokkrum dögum áður en hann dó: „Hvenær verður þetta? Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ (Matt. 24:3; Mark. 13:3) Jesús svaraði með því að bera fram yfirgripsmikinn spádóm sem skráður er í 24. og 25. kafla Matteusarguðspjalls. Í spádóminum lýsir Jesús mörgum eftirtektarverðum atburðum. Orð hans hafa mikla þýðingu fyrir okkur því að við höfum líka brennandi áhuga á að vita hvað gerist í framtíðinni.

2. (a) Hvað höfum við reynt að skilja betur með árunum? (b) Hvaða þrjár spurningar ætlum við að líta á?

2 Þjónar Jehóva hafa lengi rannsakað spádóm Jesú um síðustu daga. Þeir hafa reynt að glöggva sig betur á hvenær orð Jesú rætast. Til að sýna fram á hvernig skilningur okkar hefur aukist skulum við líta á þrjár spurningar varðandi tímasetningar. Hvenær hefst ,þrengingin mikla‘? Hvenær dæmir Jesús ,sauðina og hafrana‘? Hvenær „kemur“ Jesús? – Matt. 24:21; 25:31-33.

HVENÆR HEFST ÞRENGINGIN MIKLA?

3. Hvernig héldum við einu sinni að þrengingin mikla skiptist?

3 Árum saman töldum við að þrengingin mikla hefði byrjað með fyrri heimsstyrjöldinni árið 1914 og að Jehóva hefði ,stytt þessa daga‘ árið 1918 þegar stríðinu lauk, til að hinir andasmurðu fengju tækifæri til að boða öllum þjóðum fagnaðarerindið. (Matt. 24:21, 22) Heimsveldi Satans yrði eytt eftir að boðuninni lyki. Talið var að þrengingin mikla skiptist í þrjú tímabil: Fyrsti hlutinn hafi staðið frá 1914-1918, síðan hefði orðið hlé á henni frá og með 1918 og henni myndi svo ljúka í Harmagedón.

4. Hvað leiddi nánari athugun á spádómi Jesú um síðustu daga í ljós?

4 Nánari athugun á spádómi Jesú um síðustu daga leiddi hins vegar í ljós að hluti hans uppfyllist tvisvar. (Matt. 24:4-22) Fyrri uppfyllingin átti sér stað í Júdeu á fyrstu öld og sú síðari á sér stað um allan heim á okkar dögum. Það skýrði margt annað. *

5. (a) Hvaða erfiða tímabil hófst árið 1914? (b) Hvaða tímabil á fyrstu öld samsvarar ,fæðingarhríðunum‘?

5 Við áttuðum okkur einnig á að fyrsti hluti þrengingarinnar miklu hófst ekki árið 1914. Hvernig vitum við það? Spádómar Biblíunnar bera með sér að þrengingin mikla hefst ekki á styrjöld þjóða í milli heldur á árás á falstrúarbrögðin. Atburðarásin, sem hófst árið 1914, var því ekki upphaf þrengingarinnar miklu heldur „upphaf fæðingarhríðanna“. (Matt. 24:8) Þessar ,fæðingarhríðir‘ samsvara því sem gerðist í Jerúsalem og Júdeu á árabilinu 33 til 66.

6. Með hvaða atburði hefst þrengingin mikla?

6 Á hverju hefst þrengingin mikla? Jesús sagði: „,Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað‘ – lesandinn athugi það – ,þá flýi þeir sem í Júdeu eru til fjalla.‘“ (Matt. 24:15, 16) Fyrri uppfyllingin átti sér stað árið 66 þegar rómverski herinn („viðurstyggð eyðileggingarinnar“) réðst á Jerúsalem og musterið. Musterið var heilagt í augum Gyðinga þannig að rómverski herinn ,stóð á helgum stað‘. Í meiri uppfyllingunni gerist þetta þegar Sameinuðu þjóðirnar („viðurstyggð eyðileggingarinnar“ í nútímanum) ráðast á Babýlon hina miklu. Kristni heimurinn er hluti af henni en hann er heilagur í augum þeirra sem eru kristnir að nafninu til. Þessari sömu árás er lýst í Opinberunarbókinni 17:16-18. Með þessum atburði hefst þrengingin mikla.

7. (a) Hvernig ,komust menn af‘ á fyrstu öld? (b) Við hverju megum við búast í framtíðinni?

7 Jesús sagði einnig að ,þeir dagar yrðu styttir‘. Í fyrri uppfyllingunni gerðist þetta árið 66 þegar rómverski herinn hætti umsátrinu. Andasmurðir kristnir menn forðuðu sér þá frá Jerúsalem og Júdeu og þannig ,komust þeir af‘. (Lestu Matteus 24:22; Mal. 3:17) Hverju megum við þá búast við í þrengingunni miklu? Jehóva „styttir“ árás Sameinuðu þjóðanna á falstrúarbrögðin því að hann leyfir ekki að sannri trú sé útrýmt með falstrúnni. Þannig sér hann til þess að þjónar sínir komist af.

8. (a) Hvað gerist eftir að fyrsti hluti þrengingarinnar miklu er liðinn hjá? (b) Hvenær virðast þeir síðustu af hinum 144.000 fá upprisu til himna? (Sjá aftanmálsgrein.)

 8 Hvað gerist eftir að fyrsti hluti þrengingarinnar miklu er liðinn hjá? Af orðum Jesú má ráða að ákveðinn tími líði áður en Harmagedón hefjist. Hvað gerist á þessu tímabili? Svarið er að finna í Esekíel 38:14-16 og Matteusi 24:29-31(Lestu.) * Síðan upplifum við Harmagedónstríðið, hámark þrengingarinnar miklu, en það samsvarar eyðingu Jerúsalem árið 70. (Mal. 3:19) Með þessu hámarki verður þrengingin mikla atburður sem ,enginn hefur þvílíkur verið frá upphafi heims‘. (Matt. 24:21) Þúsund ára stjórn Krists kemur svo í kjölfarið.

9. Hvaða áhrif hefur spádómur Jesú um þrenginguna miklu á þjóna Jehóva?

9 Þessi spádómur um þrenginguna miklu er mjög uppörvandi fyrir okkur. Hvers vegna? Vegna þess að við vitum að þjónar Jehóva sem heild komast lifandi úr þrengingunni miklu, óháð þeim erfiðleikum sem verða á veginum. (Opinb. 7:9, 14) Síðast en ekki síst gleðjumst við yfir því að í Harmagedón sannar Jehóva að hann er réttmætur Drottinn alheims og helgar heilagt nafn sitt. – Sálm. 83:19; Esek. 38:23.

HVENÆR DÆMIR JESÚS SAUÐINA OG HAFRANA?

10. Hvenær héldum við áður fyrr að sauðirnir og hafrarnir væru dæmdir?

10 Snúum okkur nú að því hvenær annar þáttur í spádómi Jesú rætist, það er að segja dæmisagan um dóminn yfir sauðunum og höfrunum. (Matt. 25:31-46) Áður héldum við að hinir síðustu dagar frá 1914 væru notaðir í heild sinni til að dæma hvort fólk væri sauðir eða hafrar. Við ályktuðum sem svo að þeir sem höfnuðu fagnaðarerindinu og dæju áður en þrengingin mikla rynni upp dæju sem hafrar og ættu ekki upprisuvon.

11. Hvers vegna getur Jesús ekki hafa byrjað að dæma fólk sauði eða hafra árið 1914?

11 Um miðjan tíunda áratuginn fjallaði Varðturninn að nýju um Matteus 25:31. Í versinu segir: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.“ Bent var á að Jesús hafi verið skipaður konungur Guðsríkis árið 1914 en hann hafi ekki ,setið í dýrðarhásæti sínu‘ sem dómari ,allra þjóða‘ á þeim tíma. (Matt. 25:32; samanber Daníel 7:13.) Í dæmisögunni um sauðina og hafrana er fyrst og fremst verið að lýsa Jesú sem dómara. (Lestu Matteus 25:31-34, 41, 46.) Jesús var enn ekki tekinn til starfa sem dómari allra þjóða árið 1914. Hann getur því ekki hafa byrjað að dæma fólk sauði eða hafra það ár. * Hvenær tekur Jesús þá að dæma fólk?

12. (a) Hvenær kemur Jesús fyrst fram sem dómari allra þjóða? (b) Hvaða atburðum er lýst í Matteusi 24:30, 31 og Matteusi 25:31-33, 46?

 12 Af spádómi Jesú um síðustu daga má sjá að hann kemur fyrst fram sem dómari allra þjóða eftir að fölskum trúarbrögðum er eytt. Eins og fram kemur í  8. grein er sagt frá sumu af því sem gerist á þeim tíma í Matteusi 24:30, 31. Þegar þú lest versin sérðu að Jesús talar þar um svipaða atburði og koma fram í dæmisögunni um sauðina og hafrana. Til dæmis nefnir hann eftirfarandi: Mannssonurinn kemur í dýrð og englar með honum, allar þjóðir og kynkvíslir safnast frammi fyrir honum, og þeir sem fá þann dóm að þeir séu sauðir ,bera höfuðið hátt‘ því að þeir eiga eilíft líf í vændum. * Þeir sem fá þann dóm að þeir séu hafrar „hefja kveinstafi“ því að þeir átta sig á að eilífur dauði bíður þeirra. – Matt. 25:31-33, 46.

13. (a) Hvenær dæmir Jesús fólk sauði eða hafra? (b) Hvernig ættum við að líta á boðun fagnaðarerindisins í ljósi þessa?

13 Hver er þá niðurstaðan? Þegar Jesús kemur í þrengingunni miklu dæmir hann fólk af öllum þjóðum annaðhvort sauði eða hafra. Hafrarnir eru síðan teknir af lífi í Harmagedón sem er hámark þrengingarinnar miklu. Hvernig ættum við að líta á boðun fagnaðarerindisins í ljósi þessa? Það sýnir okkur fram á hve áríðandi boðunin er. Fram að þrengingunni miklu hefur fólk tækifæri til að breyta hugsunarhætti sínum og komast inn á mjóa veginn sem „liggur til lífsins“. (Matt. 7:13, 14) Sumir sýna auðvitað nú þegar einkenni sauða eða hafra. Við ættum samt sem áður að hafa hugfast að það er í þrengingunni miklu sem dæmt er endanlega um það hvort fólk sé sauðir eða hafrar. Það er því ærin ástæða til að halda áfram að gefa sem flestum tækifæri til að heyra boðskapinn um ríkið og taka við honum.

Fram að þrengingunni miklu hefur fólk tækifæri til að breyta hugsunarhætti sínum. (Sjá 13. grein.)

HVENÆR KEMUR JESÚS?

14, 15. Í hvaða fjórum versum er rætt um það þegar Kristur kemur í framtíðinni til að dæma?

14 Hvað leiðir nánari skoðun á spádómi Jesú í ljós? Þurfum við að endurskoða hvernig við tímasetjum aðra mikilvæga atburði sem þar er getið um? Spádómurinn sker úr um það. Lítum nánar á málið.

15 Í þeim hluta spádómsins, sem er að finna í Matteusi 24:29 – 25:46, ræðir Jesús fyrst og fremst um það sem gerist á síðustu dögum og í þrengingunni miklu fram undan. Hann minnist þar átta sinnum á komu sína. * Um þrenginguna miklu segir hann: „Menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum.“ „Þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur. „Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ Og í dæmisögunni um sauðina og hafrana segir Jesús: „Mannssonurinn kemur í dýrð sinni.“ (Matt. 24:30, 42, 44; 25:31) Í öllum þessum fjórum tilvikum er átt við það þegar Jesús kemur sem dómari í framtíðinni. Hvar í spádómi Jesú er hin fjögur dæmin að finna?

16. Í hvaða öðrum versum er fjallað um komu Jesú?

16 Jesús segir um trúa og hyggna þjóninn: „Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur.“ Í dæmisögunni um meyjarnar segir Jesús: „Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn.“ Í dæmisögunni um talenturnar segir hann: „Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna.“ Í sömu dæmisögu segir húsbóndinn: „Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim.“ (Matt. 24:46; 25:10, 19, 27) Um hvaða tímasetningu er Jesús að tala í þessum fjórum versum?

17. Hvað höfum við sagt áður um komu Jesú sem nefnd er í Matteusi 24:46?

17 Áður höfum við sagt í ritum okkar að í þessum fjórum versum, sem nefnd eru í 16. greininni, sé talað um komu Jesú árið 1918. Tökum sem dæmi orð hans um ,trúa og hyggna þjóninn‘. (Lestu Matteus 24:45-47.) Við skildum það svo að þegar sagt er í versi 46 að Jesús hafi ,komið‘ hafi það verið til að skoða hvernig hinir andasmurðu stóðu sig árið 1918. Þjónninn hafi síðan verið settur yfir allar eigur húsbóndans árið 1919. (Mal. 3:1) Ítarlegri athugun á spádómi Jesú gefur hins vegar til kynna að við þurfum að endurskoða hvernig við tímasetjum viss atriði í spádóminum. Hvers vegna?

18. Hver er niðurstaðan varðandi komu Jesú þegar við skoðum spádóm hans í heild sinni?

18 Þegar talað er um ,komu‘ Jesú í versunum á undan Matteusi 24:46 er alltaf átt við komu hans til að fella dóm og fullnægja honum í þrengingunni miklu sem er fram undan. (Matt. 24:30, 42, 44) Og eins og rætt var um í  12. greininni er um sömu tímasetningu að ræða í Matteusi 25:31, það er að segja tímann þegar Jesús kemur til að dæma. Það er því rökrétt ályktun að það sé líka í framtíðinni, í þrengingunni miklu, sem Jesús kemur til að setja trúa þjóninn yfir allar eigur sínar eins og segir í Matteusi 24:46, 47. Þegar við skoðum spádóm Jesú í heild sinni er ljóst að þau átta dæmi, þar sem hann talar um að hann komi, eiga við framtíðina þegar hann dæmir í þrengingunni miklu.

19. Hvað höfum við þurft að endurskoða varðandi tímasetningar og um hvaða spurningar er fjallað í greinunum á eftir?

19 Rifjum nú upp það sem fram hefur komið. Í byrjun greinarinnar voru bornar fram þrjár spurningar varðandi tímasetningar. Við ræddum fyrst um að þrengingin mikla hafi ekki byrjað árið 1914 heldur bresti hún á þegar Sameinuðu þjóðirnar ráðast á Babýlon hina miklu. Síðan var fjallað um dóm Jesú yfir sauðunum og höfrunum og sýnt fram á að hann hafi ekki byrjað árið 1914 heldur eigi hann sér stað í þrengingunni miklu. Að síðustu var rætt hvers vegna það hafi ekki verið árið 1919 sem Jesús kom til að setja trúa þjóninn yfir allar eigur sínar og bent á að það gerist í þrengingunni miklu. Allir þrír atburðirnir eiga sér því stað á sama tímabili í framtíðinni – í þrengingunni miklu. Við sáum að við þurftum að endurskoða hvernig við tímasetjum vissa atburði. Hvaða nýju ljósi varpar það á dæmisöguna um trúa þjóninn? Og hvaða áhrif hefur það á skilning okkar á öðrum dæmisögum Jesú sem eru að rætast núna á endalokatímanum? Þessar mikilvægu spurningar eru viðfangsefni greinanna á eftir.

 

^ 4. grein: Nánari upplýsingar er að finna í Varðturninum 1. júlí 1994, bls. 8-21 og 1. júní 1999, bls. 15-27.

^ 8. grein: Einn af þeim atburðum, sem nefndir eru í þessum versum, er að ,hinum útvöldu verði safnað‘. (Matt. 24:31) Þess vegna virðist vera að allir andasmurðir, sem eru á jörðinni eftir að fyrsti hluti þrengingarinnar er liðinn hjá, fari til himna einhvern tíma áður en stríðið við Harmagedón hefst. Þetta er nýr skilningur miðað við það sem sagði í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. ágúst 1990, bls. 30.

^ 12. grein: Sjá hliðstæða frásögu í Lúkasi 21:28.

^ 15. grein: Sögnin ,að koma‘ í þessum versum er þýðing grísku sagnarinnar erkhomai.