Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna grét Jesús áður en hann reisti Lasarus upp frá dauðum, eins og fram kemur í Jóhannesi 11:35?

Það er eðlilegt að tárast þegar ástvinur deyr vegna þess að við söknum hans. Þó að Jesú hafi þótt vænt um Lasarus grét hann ekki vegna dauða hans. Hann táraðist af samúð með ástvinum hins látna eins og samhengið í frásögn Jóhannesar ber með sér. – Jóh. 11:36.

Jesús flýtti sér ekki að sjúkrabeði Lasarusar til að lækna hann um leið og hann frétti að hann væri veikur. Í frásögunni segir: „Þegar [Jesús] frétti að [Lasarus] væri veikur var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga.“ (Jóh. 11:6) Hvers vegna tafði Jesús? Hann gerði það í ákveðnum tilgangi. „Þessi sótt er ekki banvæn heldur Guði til dýrðar til þess að Guðs sonur vegsamist hennar vegna,“ sagði hann. (Jóh. 11:4) Veikindi Lasarusar voru ekki banvæn vegna þess að hann dó ekki fyrir fullt og allt. Dauði hans átti að vera „Guði til dýrðar“. Hvernig þá? Jesús var í þann mund að vinna það mikla kraftaverk að reisa kæran vin sinn upp frá dauðum.

Þegar Jesús ræddi um þetta mál við lærisveina sína líkti hann dauðanum við svefn. Hann sagði: „Lasarus, vinur okkar, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ (Jóh. 11:11) Að vekja Lasarus upp frá dauðum var ekki ósvipað fyrir Jesú og það er fyrir foreldri að vekja barn af svefni. Hann hafði því enga ástæðu til að harma dauða Lasarusar sem slíkan.

Hvers vegna grét Jesús þá? Það má líka sjá af samhenginu. Þegar Jesús hitti Maríu, systur Lasarusar, og sá hana og aðra grátandi „komst hann við [og] varð djúpt hrærður“. Sorg þeirra snerti Jesú svo djúpt að hann grét. Það hryggði hann mikið að horfa upp á ástkæra vini sína sorgmædda. – Jóh. 11:33, 35.

Þessi frásaga ber með sér að Jesús er fær um að vekja ástvini okkar upp frá dauðum í nýja heiminum sem er fram undan. Hún lýsir líka vel að Jesús finnur til með þeim sem hafa misst ástvini. Annað sem læra má af frásögunni er að við eigum að finna til samúðar með þeim sem syrgja látinn ástvin.

Jesús vissi að hann átti eftir að reisa Lasarus upp frá dauðum. Hann grét samt vegna þess að hann elskaði vini sína og hafði innilega samúð með þeim. Við getum líka „grátið með grátendum“ vegna þess að við finnum til með þeim. (Rómv. 12:15) Þó að við tjáum sorg okkar erum við ekki að gefa í skyn að við trúum ekki á upprisuna. Jesús grét þó að hann væri í þann mund að reisa Lasarus upp frá dauðum. Hann er okkur viðeigandi fyrirmynd um að sýna syrgjendum samúð.