Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | LYGAR SEM GERA ÞAÐ ERFITT AÐ ELSKA GUÐ

Lygi 3: Guð er grimmur

Lygi 3: Guð er grimmur

ÞAÐ SEM MARGIR TRÚA

„Sálir þeirra sem deyja sekir um dauðasynd stíga niður til helvítis strax eftir dauðann og hljóta þar hegningu vítis, eilífan eld.“ (Catechism of the Catholic Church) Sumir trúarleiðtogar halda því fram að helvíti sé fólgið í því að vera algerlega aðskilinn frá Guði.

SANNLEIKUR BIBLÍUNNAR

„Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4, Biblían 1981) „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Ef sálin deyr og veit ekki neitt, hvernig ætti hún þá að geta þjáðst í „eilífum eldi“ eða fundið til vegna aðskilnaðar frá Guði?

Hebreska orðið „séol“ og gríska orðið „hades“ í frumtexta Biblíunnar eru stundum þýdd „helvíti“ á sumum tungumálum. Þau eru oftast þýdd „hel“ í íslensku Biblíunni en nokkrum sinnum „dánarheimar“ og „undirheimar“. Frummálsorðin tákna hins vegar sameiginlega gröf mannkyns. Þegar Job var sárveikur og kvalinn af sársauka bað hann til Guðs: „Æ, að þú vildir fela mig í undirheimum [„í gröfinni“, Biblían 1841].“ (Jobsbók 14:13) Job vildi fá hvíld, ekki á kvalarstað eða aðskilinn frá Guði, heldur í gröfinni.

HVERS VEGNA ÞAÐ SKIPTIR MÁLI

Grimmd laðar okkur ekki að Guði heldur er hún fráhrindandi. „Mér var kennt að helvíti væri til frá því að ég var barn,“ segir Rocío sem býr í Mexíkó. „Ég var svo óttasleginn að ég gat ekki ímyndað mér að Guð hefði nokkurn góðan eiginleika. Ég hélt að hann væri reiður og umburðarlaus.“

Það sem Biblían segir um dóma Guðs og eðli dauðans fékk Rocío til að líta Guð öðrum augum. „Mér fannst ég frjáls – þungu fargi var af mér létt,“ segir hann. „Ég byrjaði að treysta því að Guð vilji það besta fyrir okkur og að hann elski okkur. Ég fór að elska hann. Hann er eins og faðir sem heldur í hönd barna sinna og vill það besta fyrir þau.“ – Jesaja 41:13.

Margir hafa reynt að lifa guðrækilega vegna ótta við eld helvítis. En Guð vill ekki að þú þjónir honum vegna ótta við hann. Jesús sagði: „Þú skalt elska Jehóva Guð þinn.“ (Markús 12:29, 30) Þegar við áttum okkur á því að Guð er aldrei óréttlátur getum við líka treyst að hann dæmi réttlátlega í framtíðinni. Líkt og Elíhú vinur Jobs getum við sagt af sannfæringu: „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt.“ – Jobsbók 34:10.