Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hirðar, líkið eftir hirðunum miklu

Hirðar, líkið eftir hirðunum miklu

„Kristur leið ... fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans.“ – 1. PÉT. 2:21.

1, 2. (a) Hvernig vegnar sauðfé ef vel er hugsað um það? (b) Hvers vegna voru margir á dögum Jesú eins og sauðir án hirðis?

 SAUÐFÉ dafnar ef fjárhirðirinn lætur sér annt um hjörðina. Í handbók um sauðfjárrækt segir að „sá sem rekur féð bara út í haga og sinnir því ekki meir situr líklega uppi með sjúkt og afurðalítið fé eftir nokkur ár“. Hjörðin dafnar hins vegar ef hirðirinn annast sauðina vel.

2 Heilbrigði alls safnaðarins er að miklu leyti undir því komið hve vel hirðar hjarðarinnar annast sauðina og huga að þörfum hvers og eins. Þú manst trúlega að Jesús kenndi í brjósti um mannfjöldann „því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa“. (Matt. 9:36) Hvers vegna var fólk svona illa á sig komið? Vegna þess að þeir sem áttu að kenna þjóðinni lög Guðs voru strangir, kröfuharðir og hræsnisfullir. Andlegir leiðtogar Ísraels lögðu „þungar byrðar“ á herðar fólks í stað þess að annast hjörðina og hlúa að henni. – Matt. 23:4.

3. Hvað ættu öldungarnir að hafa hugfast þegar þeir gæta hjarðarinnar?

3 Útnefndir öldungar safnaðarins, sem eru hirðar hjarðarinnar, hafa því alvarlegum skyldum að gegna. Sauðirnir, sem þeir gæta, tilheyra Jehóva og Jesú en hann kallaði sig ,góða hirðinn‘. (Jóh. 10:11) Sauðirnir eru ,verði keyptir‘ sem Jesús greiddi með „dýrmætu blóði“ sínu. (1. Kor. 6:20; 1. Pét. 1:18, 19) Svo heitt elskar hann sauðina að hann fórnaði lífi sínu fúslega fyrir þá. Öldungar safnaðarins þurfa alltaf að hafa hugfast að þeir eiga að gæta hjarðarinnar undir umsjón hins kærleiksríka sonar Guðs, Jesú Krists, en hann er ,hinn mikli hirðir sauðanna‘. – Hebr. 13:20.

4. Um hvað er fjallað í þessari grein?

4 Hvernig eiga hirðar safnaðarins þá að annast sauðina? Safnaðarmenn eru hvattir til að hlýða þeim sem fara með forystuna. Öldungarnir eiga hins vegar ekki að „drottna yfir söfnuðunum“. (Hebr. 13:17; lestu 1. Pétursbréf 5:2, 3.) Hvernig geta öldungarnir farið með forystuna án þess að drottna yfir hjörðinni? Með öðrum orðum, hvernig geta öldungarnir annast þarfir sauðanna án þess að fara út fyrir það valdsvið sem Guð hefur gefið þeim?

,HANN BER ÞAU Í FANGI SÍNU‘

5. Hvað lærum við um Jehóva af myndmálinu í Jesaja 40:11?

5 Jesaja spámaður sagði um Jehóva: „Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu en leiða mæðurnar.“ (Jes. 40:11) Með þessu myndmáli er lýst hvernig Jehóva annast þarfir þeirra í söfnuðinum sem eru veikburða og varnarlitlir. Jehóva þekkir þarfir allra í söfnuðinum og er meira en fús til að liðsinna þeim, rétt eins og fjárhirðir þekkir þarfir allra sauðanna í hjörðinni og er reiðubúinn að annast þá. Jehóva, „faðir miskunnsemdanna“, leiðir okkur gegnum prófraunir og erfiðleika líkt og fjárhirðir sem heldur á nýbornu lambi í fangi sér ef þörf er á. Hann hughreystir okkur þegar við lendum í erfiðum prófraunum eða þörfnumst uppörvunar. – 2. Kor. 1:3, 4.

6. Hvernig getur safnaðaröldungur líkt eftir Jehóva?

6 Hirðar hjarðarinnar geta lært mikið af föðurnum á himnum. Líkt og Jehóva þurfa þeir að gefa gaum að þörfum sauðanna. Ef öldungur veit hvaða erfiðleika þeir eiga við að glíma og hvaða þörfum er mikilvægt að sinna þegar í stað, er hann í góðri aðstöðu til að veita nauðsynlega hvatningu og stuðning. (Orðskv. 27:23) Öldungur þarf greinilega að gefa sér tíma til að ræða við bræður og systur og hlusta á þau. Hann þarf að virða einkalíf þeirra en er samt vakandi fyrir því sem fram fer í söfnuðinum. Hann er alltaf kærleiksríkur og reiðubúinn að „annast óstyrka“. – Post. 20:35; 1. Þess. 4:11.

7. (a) Hvaða meðferð sættu sauðir Guðs á dögum Esekíels og Jeremía? (b) Hvað getum við lært af því að Jehóva fordæmdi ótrúa hirða forðum daga?

7 Á dögum Esekíels og Jeremía voru uppi hirðar sem höfðu rangt hugarfar. Þeir áttu að annast sauðina en sinntu ekki starfi sínu og því fordæmdi Jehóva þá. Sauðirnir voru hrjáðir og tvístraðir því að enginn gætti þeirra. Hirðarnir nærðu ekki sauðina heldur níddust á þeim og „hirtu aðeins um sjálfa sig“. (Esek. 34:7-10; Jer. 23:1) Það má vel heimfæra fordæmingu Jehóva upp á leiðtoga kristna heimsins. En það minnir líka á hve mikilvægt er að safnaðaröldungar annist hjörð Jehóva af ást og umhyggju.

„ÉG HEF GEFIÐ YÐUR EFTIRDÆMI“

8. Hvernig leiðrétti Jesús rangt hugarfar meðal lærisveina sinna?

8 Við mennirnir erum ófullkomnir þannig að það getur tekið tíma fyrir suma í söfnuðinum að skilja til hvers Jehóva ætlast af þeim. Þeir fara ef til vill ekki eftir biblíulegum leiðbeiningum eða gera eitthvað sem ber ekki vott um kristinn þroska. Hvernig ættu öldungarnir að bregðast við því? Þeir ættu að líkja eftir Jesú sem var þolinmóður við lærisveinana þegar þeir deildu um það hver þeirra yrði mestur í ríki Guðs. Jesús missti ekki þolinmæðina heldur hélt áfram að leiðbeina þeim hlýlega og kenna þeim að sýna auðmýkt. (Lúk. 9:46-48; 22:24-27) Hann þvoði fætur þeirra til að sýna þeim hvað væri auðmýkt. Umsjónarmenn safnaðarins þurfa líka að vera auðmjúkir. – Lestu Jóhannes 13:12-15; 1. Pét. 2:21.

9. Hvaða hugarfar hvatti Jesús lærisveinana til að sýna?

9 Jesús sá hlutverk hirðisins í öðru ljósi en þeir Jakob og Jóhannes gerðu einu sinni. Postularnir tveir reyndu að tryggja sér áhrifastöðu í ríki Guðs. En Jesús leiðrétti hugarfar þeirra og sagði: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar.“ (Matt. 20:25, 26) Postularnir þurftu að sporna gegn lönguninni til að „drottna yfir“ félögum sínum eða ráðskast með þá.

10. Hvernig vill Jesús að öldungar annist hjörðina og hvaða fyrirmynd gaf Páll postuli?

10 Jesús ætlast til þess að safnaðaröldungar annist hjörðina á sama hátt og hann gerði. Þeir verða að vera fúsir til að þjóna félögum sínum en mega ekki drottna yfir þeim. Páll postuli sýndi slíka auðmýkt því að hann sagði við öldunga safnaðarins í Efesus: „Þið vitið hvernig ég hef hagað mér hjá ykkur allt frá þeim degi er ég kom fyrst til Asíu. Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt.“ Páll vildi að öldungarnir hjálpuðu trúsystkinum sínum í einlægni og auðmýkt. Hann sagði: „Í öllu sýndi ég ykkur að með því að vinna þannig ber okkur að annast óstyrka.“ (Post. 20:18, 19, 35) Hann skrifaði Korintumönnum að hann vildi ekki drottna yfir trú þeirra heldur væri hann auðmjúkur samverkamaður að gleði þeirra. (2. Kor. 1:24) Páll er safnaðaröldungum nú á tímum góð fyrirmynd um dugnað og auðmýkt.

„FASTHELDINN VIÐ HIÐ ÁREIÐANLEGA ORГ

11, 12. Hvernig getur öldungur hjálpað trúbróður sínum að taka ákvörðun?

11 Safnaðaröldungur þarf að vera „fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem kennt hefur verið“. (Tít. 1:9) En hann gerir það „með hógværð“. (Gal. 6:1) Góður hirðir í söfnuðinum reynir ekki að þvinga samverkamenn sína til að gera eitthvað ákveðið heldur reynir hann að höfða til hjartans. Hann bendir kannski á biblíulegar meginreglur sem bróðir hans ætti að hugleiða þegar hann tekur mikilvæga ákvörðun. Hann gæti farið með honum yfir efni sem birst hefur á prenti um þetta mál. Hann hvetur bróðurinn ef til vill til að íhuga hvaða áhrif ólíkar ákvarðanir geti haft á samband hans við Jehóva. Öldungurinn getur minnt hann á að það sé mikilvægt að leita leiðsagnar Guðs í bæn áður en hann tekur ákvörðun. (Orðskv. 3:5, 6) Bróðirinn getur síðan ákveðið sjálfur hvað hann ætlar að gera. – Rómv. 14:1-4.

12 Eina valdið, sem umsjónarmenn safnaðarins hafa, er byggt á Biblíunni. Það er því mikilvægt að þeir beiti henni fagmannlega og sæki leiðbeiningar sínar í hana. Þá er engin hætta á að þeir misbeiti valdi sínu á nokkurn hátt. Þeir hafa hugfast að þeir eiga ekki sauðina heldur er hver og einn í söfnuðinum ábyrgur fyrir ákvörðunum sínum gagnvart Jehóva og Jesú. – Gal. 6:5, 7, 8.

„FYRIRMYND HJARÐARINNAR“

Öldungar hjálpa fjölskyldum sínum að búa sig undir boðunarstarfið. (Sjá 13. grein.)

13, 14. Á hvaða sviðum þarf öldungur að vera hjörðinni til fyrirmyndar?

13 Eftir að Pétur benti öldungunum á að þeir mættu ekki „drottna yfir söfnuðunum“ hvatti hann þá til að vera „fyrirmynd hjarðarinnar“. (1. Pét. 5:3) Hvernig getur öldungur verið fyrirmynd hjarðarinnar? Lítum á tvennt sem bróðir þarf að hafa til að bera ef hann sækist eftir umsjónarstarfi. Hann þarf að vera „heilbrigður í hugsun“ og veita „góða forstöðu heimili sínu“. Ef öldungur á fjölskyldu þarf hann að vera til fyrirmyndar með því að veita henni góða forstöðu, því að „hvernig má sá sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu veita söfnuði Guðs umsjón“? (1. Tím. 3:1, 2, NW; 1. Tím. 3:4, 5) Til að geta orðið umsjónarmaður þarf bróðir að vera heilbrigður í hugsun. Hann þarf að skilja meginreglur Guðs vel og kunna að fara eftir þeim. Hann er ekki fljótfær heldur yfirvegaður og heldur ró sinni við erfiðar aðstæður. Þessir eiginleikar eru traustvekjandi fyrir safnaðarmenn.

14 Öldungar eru einnig góð fyrirmynd með því að taka forystuna í boðuninni. Jesús er umsjónarmönnum góð fyrirmynd á þessu sviði. Það var snar þáttur í starfi hans hér á jörð að boða fagnaðarerindið um ríkið. Hann sýndi lærisveinunum hvernig þeir ættu að fara að. (Mark. 1:38; Lúk. 8:1) Það er hvetjandi fyrir boðbera að boða trúna með öldungunum, sjá hve mikinn áhuga þeir hafa á þessu mikilvæga verkefni og læra af aðferðum þeirra þegar þeir kenna. Öldungarnir hafa margt á sinni könnu en með því að nota tíma sinn og krafta til að boða fagnaðarerindið að staðaldri hvetja þeir allan söfnuðinn til að boða trúna af kappi. Öldungar geta einnig verið söfnuðinum góð fyrirmynd með því að búa sig undir samkomur og taka þátt í þeim, og sömuleiðis með því að leggja sitt af mörkum við verk eins og ræstingu og viðhald ríkissalarins. Við erum hvött til að ,líkja eftir trú þeirra‘. – Ef. 5:15, 16; Hebr. 13:7.

Umsjónarmenn eru góð fyrirmynd í boðunarstarfinu. (Sjá 14. grein.)

„TAKIÐ AÐ YKKUR ÓSTYRKA“

15. Hvers vegna fara öldungarnir í hirðisheimsóknir til safnaðarmanna?

15 Góður hirðir er fljótur til að sinna veikum eða særðum sauð. Öldungarnir þurfa líka að vera fljótir til að liðsinna bróður eða systur sem þjáist eða þarfnast uppörvunar eða leiðsagnar. Sjúkir og aldraðir þurfa ef til vill aðstoð við dagleg verk en sérstaklega þurfa þeir þó að fá hughreystingu og uppörvun frá Biblíunni. (1. Þess. 5:14) Unga fólkið í söfnuðinum á kannski í baráttu við „æskunnar girndir“. (2. Tím. 2:22) Að gæta hjarðarinnar felur meðal annars í sér að heimsækja bræður og systur af og til í þeim tilgangi að kynnast aðstæðum þeirra og hvetja þau með viðeigandi biblíulegum ráðum. Ef öldungarnir eru fljótir til að liðsinna safnaðarmönnum er hægt að leysa fjölda valdamála áður en þau komast á alvarlegt stig.

16. Hvernig geta öldungarnir liðsinnt bróður eða systur sem á í alvarlegum erfiðleikum?

16 Hvað er til ráða ef einhver í söfnuðinum á í svo alvarlegum erfiðleikum að samband hans við Jehóva er í hættu? Biblíuritarinn Jakob skrifaði: „Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar.“ (Jak. 5:14, 15) Og þó að sá sem er „sjúkur“ leiti ekki sjálfur til öldunganna eiga þeir að vera fljótir til að hjálpa honum um leið og þeir vita af erfiðleikum hans. Þegar öldungarnir biðja fyrir eða með trúsystkinum og styðja þau eftir þörfum reynast þeir góðir hirðar og hvetja þau til að halda áfram að þjóna Jehóva með gleði. – Lestu Jesaja 32:1, 2.

17. Hvaða áhrif hefur það á söfnuðinn þegar öldungarnir líkja eftir ,hinum mikla hirði sauðanna‘?

17 Öldungar safnaðarins leggja sig fram um að líkja á öllum sviðum eftir ,hinum mikla hirði sauðanna‘, Jesú Kristi. Þeir taka ábyrgð sína alvarlega og hjörðin dafnar undir góðri umsjón þeirra. Við erum þeim innilega þakklát fyrir störf þeirra og þökkum Jehóva, óviðjafnanlegum hirði okkar, fyrir.