Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SAMRÆÐUR UM BIBLÍUNA

Af hverju leyfir Guð þjáningar?

Af hverju leyfir Guð þjáningar?

Hér á eftir fara fram dæmigerðar samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Við skulum gera okkur í hugarlund að vottur, sem heitir Margrét, hafi bankað upp á hjá konu sem heitir Sólveig.

HVAÐ FINNST GUÐI UM AÐ VIÐ ÞJÁUMST?

Margrét: Sæl, Sólveig. Það er gott að sjá þig aftur.

Sólveig: Sömuleiðis.

Margrét: Síðast þegar ég kom ræddum við um hvort Guði standi á sama um erfiðleika okkar. * Þú sagðir mér að þetta væri eitthvað sem þú hefðir lengi velt fyrir þér, sérstaklega eftir að mamma þín lamaðist í bílslysi. Hvernig hefur hún það annars?

Sólveig: Hún á sína góðu og slæmu daga. Í dag hefur hún það nokkuð gott.

Margrét: Það er gott að heyra. Það hlýtur að vera erfitt að glíma við svona aðstæður.

Sólveig: Já, það er það. Ég velti stundum fyrir mér hvað hún eigi eftir að þurfa að þola þetta lengi.

Margrét: Það er eðlilegt að hugsa þannig. Þú manst kannski að síðast þegar ég heimsótti þig töluðum við um af hverju Guð leyfir þjáningar fyrst hann hefur máttinn til að binda enda á þær.

Sólveig: Já, alveg rétt.

Margrét: Áður en við lítum á hvað Biblían segir um það skulum við rifja upp nokkur atriði sem við töluðum um síðast.

Sólveig: Allt í lagi.

Margrét: Við lásum að meira að segja trúaður maður á biblíutímanum vildi fá að vita af hverju Guð leyfir þjáningar. En Guð ávítti hann ekki fyrir að velta því fyrir sér eða sagði honum að hann hefði ekki næga trú.

Sólveig: Já, einmitt, það var athyglisvert.

Margrét: Við komumst líka að raun um að Jehóva Guð finnur til með okkur. Í Biblíunni segir til dæmis að þegar fólk Guðs átti erfitt hafi hann sagt: „Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt.“ * Er ekki hughreystandi að vita að Guð finnur til með okkur þegar við eigum erfitt?

Sólveig: Jú, mjög svo.

Margrét: Við vorum líka sammála um að þar sem skaparinn býr yfir miklum mætti getur hann að sjálfsögðu tekið í taumana og bundið enda á þjáningar hvenær sem er.

Sólveig: Það er einmitt það sem ég skil ekki. Hvers vegna lætur Guð svona margt slæmt gerast ef hann hefur máttinn til að koma í veg fyrir það?

HVER SAGÐI SATT?

Margrét: Til að svara spurningu þinni skulum við byrja á að fletta upp í fyrstu bók Biblíunnar, 1. Mósebók. Þú kannast örugglega við frásöguna af Adam og Evu og forboðna ávextinum.

Sólveig: Já, ég man eftir þessari sögu úr sunnudagaskólanum. Guð bannaði þeim að borða af ákveðnu tré en þau gerðu það samt.

Margrét: Einmitt. Skoðum betur hvað varð til þess að Adam og Eva syndguðu. Það sem gerðist í Edengarðinum er nátengt því að við mennirnir þjáumst. Vilt þú lesa 1. Mósebók kafla 3, vers 1 til og með 5?

Sólveig: Já. „Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: ,Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?‘ Konan svaraði höggorminum: ,Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.‘ Þá sagði höggormurinn við konuna: ,Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.‘“

Margrét: Takk fyrir. Við skulum aðeins skoða þessi vers nánar. Taktu eftir að það var höggormur sem talaði við Evu. Á öðrum stað í Biblíunni kemur fram að það var í rauninni Satan djöfullinn sem talaði fyrir munn höggormsins. * Satan spurði Evu um fyrirmælin sem Guð hafði gefið varðandi þetta ákveðna tré. Tókstu eftir hvaða refsingu Guð lagði við því að borða af trénu?

Sólveig: Hann sagði að þau myndu deyja.

Margrét: Alveg rétt og það sem Satan sagði næst var alvarleg ásökun á hendur Guði. Taktu eftir því sem hann sagði: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.“ Satan var með þessu að kalla Guð lygara.

Sólveig: Ég hef aldrei heyrt þennan hluta sögunnar áður.

Margrét: Með því að kalla Guð lygara vakti Satan upp deilumál sem tæki tíma að útkljá. Áttarðu þig á hvers vegna það myndi taka tíma?

Sólveig: Nei, ég skil það ekki alveg.

Margrét: Kannski get ég lýst þessu með dæmi. Segjum að ég kæmi til þín og segðist vera sterkari en þú. Hvernig gætirðu sýnt fram á að ég hefði á röngu að standa?

Sólveig: Kannski með einhvers konar keppni.

Margrét: Já, einmitt. Við myndum kannski finna okkur þungan hlut og sjá hvor okkar gæti lyft honum. Það er í rauninni frekar einfalt að sýna fram á hvor er sterkari.

Sólveig: Já, ég skil hvað þú átt við.

Margrét: En hvað ef ég segðist ekki vera sterkari en þú heldur heiðarlegri? Það er svolítið annað.

Sólveig: Já, líklega.

Margrét: Heiðarleika er ekki hægt að mæla á eins einfaldan hátt og styrk.

Sólveig: Nei.

Margrét: Eina leiðin til að útkljá málið væri að láta nógu langan tíma líða svo að aðrir gætu fylgst með okkur og séð hvor okkar væri heiðarlegri.

Sólveig: Það er rökrétt.

Margrét: Lítum aftur á frásöguna í 1. Mósebók. Hélt Satan því fram að hann væri sterkari en Guð?

Sólveig: Nei.

Margrét: Guð hefði strax getað afsannað það. Satan hélt því hins vegar fram að hann væri heiðarlegri en Guð. Hann sagði í rauninni við Evu: ,Guð er að ljúga að þér en ég er að segja þér satt.‘

Sólveig: Þetta er athyglisvert.

Margrét: En Guð vissi að besta leiðin til að svara ásökun Satans væri að láta tímann leiða í ljós hvor þeirra segði satt og hvor færi með lygi.

ALVARLEG ÁSÖKUN

Sólveig: En nú dó Eva. Var það þá ekki sönnun fyrir því að Guð sagði satt?

Margrét: Jú, að vissu leyti. En það fólst meira í ásökun Satans. Lítum aftur á vers 5. Hvað annað sagði Satan við Evu?

Sólveig: Hann sagði að ef hún borðaði af ávextinum myndu augu hennar ljúkast upp.

Margrét: Já, og hann sagði líka að hún myndi ,verða eins og Guð og skynja gott og illt‘. Satan hélt því þannig fram að Guð meinaði mönnunum um eitthvað gott.

Sólveig: Ég skil.

Margrét: Þetta var önnur meiri háttar ásökun.

Sólveig: Hvað áttu við?

Margrét: Satan gaf í skyn með þessum orðum að Eva – og í víðara samhengi allt mannkynið – væri betur sett án stjórnar Guðs. Jehóva vissi að í þessu tilviki væri líka best að svara ásökun Satans með því að leyfa honum að reyna að sanna mál sitt. Guð hefur því leyft honum að stjórna heiminum um tíma. Þess vegna er svona mikið um þjáningar – það er Satan sem stjórnar heiminum, ekki Guð. * En sem betur fer hefur Biblían líka að geyma góðar fréttir.

Sólveig: Nú, hverjar eru þær?

Margrét: Hún kennir okkur alveg yndisleg sannindi um Guð. Í fyrsta lagi er Jehóva innilega annt um okkur, ekki síst þegar við eigum erfitt. Hugsum til dæmis um það sem Davíð konungur sagði í Sálmi 31:8. Davíð þurfti að glíma við mikla erfiðleika um ævina. En sjáðu hvað hann segir samt í bæn til Guðs. Viltu lesa versið?

Sólveig: Já, ókei: „Ég gleðst og fagna yfir trúfesti þinni því að þú sást neyð mína og gafst gætur að mér í þrengingum.“

Margrét: Þótt Davíð hafi gengið í gegnum miklar þrengingar var hughreystandi fyrir hann að vita að Jehóva tók eftir öllum erfiðleikum hans. Finnst þér ekki uppörvandi að hugsa til þess að Jehóva gefi gætur að líðan okkar, meira að segja þegar við tökumst á við sárar tilfinningar sem aðrir skilja kannski ekki til fulls?

Sólveig: Jú, það finnst mér.

Margrét: Þessi yndislegu sannindi um Guð fela líka í sér að hann leyfir ekki að við mennirnir þjáumst að eilífu. Biblían kennir að hann muni fljótlega binda enda á spillta stjórn Satans. Og hann ætlar að bæta að fullu hvern þann skaða sem mannkynið hefur orðið fyrir, þar með talið það sem þið mæðgurnar hafið þurft að þola. Mætti ég koma aftur í næstu viku og sýna þér hvers vegna við getum treyst því að Guð muni brátt binda enda á allar þjáningar? *

Sólveig: Það hljómar vel.

Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig til að vita meira um Votta Jehóva eða trú þeirra? Hikaðu þá ekki við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Vottum Jehóva væri sönn ánægja að svara spurningum þínum.

^ gr. 7 Sjá greinina „Samræður um Biblíuna – er Guði sama þótt við þjáumst?“ sem birtist Varðturninum september-október 2013.

^ gr. 61 Nánari upplýsingar er að finna í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.