Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guðsríki við völd í 100 ár – hvaða áhrif hefur það á þig?

Guðsríki við völd í 100 ár – hvaða áhrif hefur það á þig?

„Mikil og dásamleg eru verk þín, Drottinn Guð . . . þú konungur aldanna.“ – OPINB. 15:3.

1, 2. Hverju mun ríki Guðs áorka og hvers vegna getum við treyst að það komi?

 JESÚS KRISTUR var staddur á fjalli í grennd við Kapernaúm vorið 31 þegar hann kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Til komi þitt ríki.“ (Matt. 6:10) Nú á dögum efast margir um að ríki Guðs komi nokkurn tíma. Við treystum hins vegar að Guð svari einlægum bænum okkar um að ríki hans komi.

2 Jehóva beitir ríki sínu til að sameina fjölskyldu sína á himni og jörð. Það er ákvörðun hans og hún nær fram að ganga. (Jes. 55:10, 11) Jehóva hefur nú þegar tekið konungdóm á okkar tímum. Hrífandi atburðir síðastliðinna 100 ára staðfesta það. Hann gerir stórkostlega hluti fyrir trúa þegna sína en þeir teljast í milljónum. (Sak. 14:9; Opinb. 15:3) Þegar talað er um að Jehóva taki konungdóm er þó ekki átt við komu ríkis hans sem Jesús kenndi okkur að biðja um. Hvaða munur er á þessum tveim atburðum og hvaða áhrif hafa þeir á okkur?

ÚTVALINN KONUNGUR JEHÓVA LÆTUR TIL SÍN TAKA

3. (a) Hvenær tók Jesús völd sem konungur og hvar? (b) Hvernig geturðu sannað að ríki Guðs hafi verið stofnsett árið 1914? (Sjá neðanmálsgrein.)

3 Undir lok 19. aldar fóru menn að skilja spádóm sem Daníel skráði fyrir 2.500 árum: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna magna upp ríki sem aldrei mun hrynja.“ (Dan. 2:44) Biblíunemendurnir bentu á það áratugum saman að árið 1914 hefði mikla þýðingu. Mikil bjartsýni ríkti meðal fólks almennt á þeim tíma. Rithöfundur skrifaði: „Árið 1914 var heimurinn fullur vonar og fyrirheita.“ En síðar sama ár braust fyrri heimsstyrjöldin út og í framhaldi af því urðu hungursneyðir, jarðskjálftar og drepsóttir. Þarna voru spádómar Biblíunnar að rætast. Þetta, ásamt öðrum spádómum sem komu fram, sannar svo ekki verður um villst að Jesús Kristur tók að ríkja á himnum sem konungur Guðsríkis árið 1914. * Með því að setja son sinn til valda sem konung hafði Jehóva tekið konungdóm í nýjum skilningi.

4. Hvað var það fyrsta sem hinn nýi konungur gerði og hvað tók síðan við hjá honum?

4 Fyrsta verkefni hins nýja konungs var að berjast við Satan, erkióvin föður síns. Jesús og englarnir úthýstu Satan og illu öndunum af himni. Mikill fögnuður varð á himni þegar það gerðist en á jörð urðu hörmungar sem áttu sér ekkert fordæmi í sögunni. (Lestu Opinberunarbókina 12:7-9, 12.) Þessu næst beindi konungurinn athyglinni að þegnum sínum á jörð. Hann tók að hreinsa þá, mennta og skipuleggja þannig að þeir gætu gert vilja Guðs. Við skulum nú skoða hvernig þeir brugðust við og hvað við getum lært af því.

HINN SMURÐI KONUNGUR HREINSAR DYGGA ÞEGNA SÍNA

5. Hvaða hreinsun hófst 1914 og stóð fram á fyrri hluta árs 1919?

5 Eftir að Jesús hreinsaði til á himni og útrýmdi spillingunni sem fylgdi Satan og illu öndunum fól Jehóva honum að skoða hvernig fylgjendur hans á jörð voru á sig komnir og hreinsa þá. Malakí spámaður lýsti þessari hreinsun. (Mal. 3:1-3) Sagan sýnir að hreinsunin hófst 1914 og stóð fram á fyrri hluta árs 1919. * Til að tilheyra alheimsfjölskyldu Jehóva verðum við að vera hrein og heilög. (1. Pét. 1:15, 16) Tilbeiðsla okkar má ekki vera smituð af falstrú eða stjórnmálum heimsins.

6. Hvernig er okkur séð fyrir andlegri fæðu og hvers vegna þurfum við á henni að halda?

6 Jesús beitti síðan konungsvaldi sínu til að skipa ,trúan og hygginn þjón‘ sem átti að sjá ,hjúunum‘ fyrir heilnæmri andlegri fæðu á reglulegum grundvelli. Þessi fæða var ætluð hinni ,einu hjörð‘ sem Jesús hefur umsjón með. (Matt. 24:45-47; Jóh. 10:16) Frá 1919 hefur fámennur hópur andasmurðra bræðra sinnt þessu mikla ábyrgðarstarfi af trúmennsku. Við getum vaxið í trúnni með því að nærast á andlegu fæðunni sem hinn trúi þjónn lætur ríkulega í té. Hún gerir okkur enn ákveðnari í að halda okkur andlega og siðferðilega hreinum og vera líka hrein á huga og líkama. Andlega fæðan er fræðandi fyrir okkur og hún gerir okkur fær um að taka drjúgan þátt í mikilvægasta starfi sem fer fram á jörðinni núna. Nýtirðu þér andlegu fæðuna til fulls?

KONUNGURINN MENNTAR ÞEGNA SÍNA TIL AÐ BOÐA RÍKIÐ UM ALLAN HEIM

7. Hvaða mikilvæga starf hóf Jesús meðan hann var á jörð og hve lengi átti að halda því áfram?

7 Þegar Jesús hóf starf sitt á jörð sagði hann: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:43) Hann einbeitti sér að þessu starfi í þrjú og hálft ár. Hann sagði lærisveinunum: „Farið og prédikið: Himnaríki er í nánd.“ (Matt. 10:7) Eftir að Jesús var risinn upp sagði hann að fylgjendur sínir myndu útbreiða þennan boðskap „allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8) Hann lofaði að vera sjálfur með þeim og styðja þá við þetta mikilvæga verk allt fram á okkar daga. – Matt. 28:19, 20.

8. Hvernig hvatti konungurinn þegna sína á jörð til starfa?

8 Árið 1919 hafði „fagnaðarerindið um ríkið“ fengið dýpri merkingu. (Matt. 24:14) Konungurinn ríkti nú á himnum og hafði safnað saman fámennum hópi þegna sem hann hafði hreinsað. Þeir voru óðfúsir að boða fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs út um allan heim, eins og Jesús sagði þeim að gera. (Post. 10:42) Næstum 20.000 stuðningsmenn Guðsríkis söfnuðust saman á alþjóðamóti sem haldið var í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum í september 1922. Hugsaðu þér hve spennandi það hefur verið fyrir þá að heyra bróður Rutherford flytja ræðuna „Ríki Guðs“ þar sem hann sagði: „Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð kynningarfulltrúar hans. Þið skuluð því kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans.“ Tvö þúsund mótsgestir tóku þátt í sérstökum starfsdegi og fóru allt að 70 kílómetra frá mótsstaðnum til að boða fagnaðarerindið. Bróðir nokkur sagði: „Ég gleymi aldrei hvatningunni til að kunngera ríkið og ákafa fjöldans sem var saman kominn.“ Hann var ekki einn um það.

9, 10. (a) Hvaða skólar eru starfræktir til að mennta boðbera Guðsríkis? (b) Hvernig hefur þú notið góðs af þessari menntun?

9 Árið 1922 voru starfandi rúmlega 17.000 boðberar í 58 löndum víða um heim. En þeir þurftu að fá kennslu. Jesús, hinn tilvonandi konungur, gaf lærisveinum sínum á fyrstu öld skýrar leiðbeiningar um hvað þeir áttu að boða, hvar og hvernig. (Matt. 10:5-7; Lúk. 9:1-6; 10:1-11) Jesús sér einnig til þess núna að allir sem boða Guðsríki fái þær leiðbeiningar og þau hjálpargögn sem þeir þurfa til að vera góðir kennarar. (2. Tím. 3:17) Það er í kristna söfnuðinum sem Jesús undirbýr þegna sína fyrir boðunina. Meðal annars kennir hann þeim í Boðunarskólanum. Hann er haldinn í söfnuðunum um heim allan en þeir eru ríflega 111.000 talsins. Meira en sjö milljónir boðbera nýta sér þessa fræðslu og eru vel í stakk búnir til að höfða til alls konar fólks þegar þeir boða og kenna. – Lestu 1. Korintubréf 9:20-23.

10 Auk Boðunarskólans hafa verið settir á fót biblíuskólar handa safnaðaröldungum, brautryðjendum, einhleypum bræðrum, hjónum, trúboðum, bræðrum í deildarnefndum og eiginkonum þeirra, og farandumsjónarmönnum og eiginkonum þeirra. * Nemendahópur, sem sat Biblíuskólann fyrir hjón, sagði með þakklæti: „Við fengum sérhæfða kennslu sem styrkti kærleika okkar til Jehóva og gerði okkur enn hæfari til að hjálpa öðrum.“

11. Hvers vegna hafa fylgjendur Jesú getað haldið áfram boðuninni þrátt fyrir andstöðu?

11 Þessi öfluga boðun og kennsla hefur ekki farið fram hjá óvininum Satan. Hann beitir sér gegn fagnaðarerindinu um ríkið og þeim sem boða það. Hann gerir ýmist beinar árásir eða beitir lúmskum aðferðum til að reyna að stöðva boðunina. En hann hefur ekki erindi sem erfiði. Jehóva hefur sett son sinn „ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi“. (Ef. 1:20-22) Konungurinn Jesús verndar lærisveina sína og leiðbeinir þeim. Hann beitir konungsvaldi sínu til að tryggja að vilji föðurins nái fram að ganga. * Fagnaðarerindið er boðað og hjartahreint fólk lærir milljónum saman að tilbiðja Jehóva. Það er mikill heiður að mega taka þátt í þessu stórfenglega starfi.

KONUNGURINN SKIPULEGGUR ÞEGNA SÍNA TIL AUKINNA STARFA

12. Hvernig hefur skipulag safnaðarins verið bætt jafnt og þétt síðan ríki Guðs var stofnsett?

12 Síðan Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914 hefur konungurinn skipulagt söfnuðinn betur og betur til að gera vilja Guðs. (Lestu Jesaja 60:17.) Árið 1919 var útnefndur þjónustustjóri í hverjum söfnuði til að hafa umsjón með boðuninni. Árið 1927 fóru söfnuðirnir að boða ríkið hús úr húsi á sunnudögum. Árið 1931 tóku þjónar Jehóva upp hið biblíulega nafn Vottar Jehóva og það varð þeim hvatning til að efla boðunina. (Jes. 43:10-12) Árið 1938 var hætt að velja bræður til forystu í söfnuðunum með almennri atkvæðagreiðslu og tekið að útnefna þá með hliðsjón af hæfniskröfum Biblíunnar. Árið 1972 var umsjónin með söfnuðunum lögð á herðar öldungaráðs í stað eins öldungs. Allir bræður, sem uppfylltu hæfniskröfurnar, voru hvattir til að bjóða fram krafta sína og taka þátt í að gæta hjarðar Guðs. (1. Pét. 5:2) Árið 1976 voru skipaðar sex nefndir innan hins stjórnandi ráðs til að hafa umsjón með boðuninni um heim allan. Konungurinn Jesús hefur jafnt og þétt skipulagt söfnuð fylgjenda sinna þannig að hann starfi eftir leiðbeiningum Guðs.

13. Hvaða áhrif hefur 100 ára stjórn Messíasar haft á þig?

13 Hugsaðu þér hverju konungurinn Jesús hefur áorkað á fyrstu 100 árunum sem hann hefur verið við völd. Hann hefur hreinsað hóp manna til að bera nafn Jehóva. Hann hefur látið boða fagnaðarerindið um ríkið í 239 löndum og kennt milljónum manna að tilbiðja Jehóva. Hann hefur sameinað meira en sjö milljónir trúfastra þegna sinna sem hver og einn býður sig fúslega fram til að gera vilja föðurins. (Sálm. 110:3) Jehóva hefur sannarlega áorkað miklu fyrir atbeina Messíasarríkisins. En það sem er fram undan er enn stórfenglegra.

ÞAÐ SEM RÍKI MESSÍASAR Á EFTIR AÐ GERA

14. (a) Um hvað erum við að biðja Guð þegar við segjum: „Til komi þitt ríki“? (b) Hver er árstextinn 2014 og hvers vegna er það vel við hæfi?

14 Enda þótt Jehóva hafi krýnt son sinn, Jesú Krist, konung árið 1914 var það ekki endanlegt svar við bæninni: „Til komi þitt ríki.“ (Matt. 6:10) Því var spáð í Biblíunni að Jesús myndi ,drottna meðal óvina sinna‘. (Sálm. 110:2) Stjórnir manna, sem Satan ræður yfir, standa enn þá gegn ríki Guðs. Þegar við biðjum um að ríki Guðs komi erum við að biðja þess að konungurinn Messías og meðstjórnendur hans komi og bindi enda á stjórn manna og að andstæðingar ríkis hans hverfi af jörðinni. Þá rætist Daníel 2:44 þar sem segir að ríki Guðs muni „eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu“. Pólitískum óvinum Guðsríkis verður útrýmt. (Opinb. 6:1, 2; 13:1-18; 19:11-21) Þessi atburður er mjög nærri. Í ár eru liðin 100 ár síðan ríki Guðs var stofnsett á himnum. Það er því vel við hæfi að árstextinn 2014 skuli vera byggður á Matteusi 6:10: Komi ríki þitt.

Árstextinn 2014 er: Komi ríki þitt. – Matteus 6:10.

15, 16. (a) Hvað gerist á þeim þúsund árum sem Jesús stjórnar? (b) Hvert verður síðasta verk Jesú sem konungurinn Messías og hvað hefur það í för með sér fyrir sköpunarverur Jehóva?

15 Eftir að konungurinn Messías eyðir óvinum Guðs kastar hann Satan og illu öndunum í undirdjúp þar sem þeir verða í þúsund ár. (Opinb. 20:1-3) Þegar ill áhrif þeirra eru horfin bíður Guðsríki ekki boðanna að láta mennina njóta góðs af lausnarfórn Jesú og gera að engu afleiðingarnar af synd Adams. Konungurinn reisir upp frá dauðum milljónir manna sem sofa dauðasvefni og stendur fyrir samstilltu átaki um heim allan til að fræða þá um Jehóva. (Opinb. 20:12, 13) Öll jörðin verður þá paradís eins og var í Eden forðum daga. Allir trúir menn verða fullkomnir.

16 Þegar Jesús hefur ríkt í þúsund ár er Messíasarríkið búið að ná markmiðum sínum. Hann afhendir þá föður sínum ríkið. (Lestu 1. Korintubréf 15:24-28.) Þá þarf engan tengilið lengur milli Jehóva og barna hans á jörð. Allir synir Guðs á himni og börn hans á jörð verða þá sameinuð honum og tilheyra alheimsfjölskyldu hans.

17. Hvað ætlar þú að gera fyrir ríki Guðs?

17 Það sem gerst hefur á þeim 100 árum, sem Messíasarríkið hefur verið við völd, sýnir svo ekki verður um villst að Jehóva heldur um stjórnvölinn og að vilji hans með jörðina nær fram að ganga. Við skulum vera staðráðin í að vera dyggir þegnar hans og kunngera konunginn og ríkið. Við gerum það í trausti þess að Jehóva verði innan skamms við bæn okkar: Komi ríki þitt.

^ Í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. desember 1998, bls. 19-22, má finna dæmi frá ýmsum löndum um dóma sem hafa fallið okkur í vil.