Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hyllum Krist, hinn dýrlega konung

Hyllum Krist, hinn dýrlega konung

„Sæktu sigursæll fram.“ – SÁLM. 45:5.

1, 2. Hvers vegna er Sálmur 45 áhugaverður fyrir okkur?

 DÝRLEGUR konungur sækir fram í þágu sannleika og réttlætis og til að sigra óvini sína. Eftir að hafa yfirbugað þá gengur hann að eiga yndislega brúði sína. Konungsins er minnst og hann er lofaður um ókomnar aldir. Þetta er efni 45. sálmsins í hnotskurn.

2 En 45. sálmurinn er annað og meira en spennandi saga sem endar vel. Þeir atburðir, sem þar er lýst, hafa mikla þýðingu fyrir okkur. Þeir snerta líf okkar bæði núna og í framtíðinni. Við skulum því skoða sálminn vel og vandlega og gefa gaum að því sem hann lýsir.

„HJARTA MITT SVELLUR AF LJÚFUM ORÐUM“

3, 4. (a) Hvaða ,ljúfu orð‘ snerta okkur og hvaða áhrif geta þau haft á hjartað? (b) Hvernig lofsyngjum við konung og hvernig verður tunga okkar sem penni hraðritara?

3 Lestu Sálm 45:2. Sálmaskáldið er djúpt snortið og hjarta hans „svellur af ljúfum orðum“ sem varða konung nokkurn. Hebreska sagnorðið, sem er þýtt „svellur“, merkti upphaflega ,ólga‘ eða ,sjóða‘. Frásagan, sem hér um ræðir, hefur slík áhrif á sálmaskáldið að hjarta hans er uppfullt af eldmóði og tunga hans er eins og „penni hraðritara“.

4 Hvað um okkur? Fagnaðarerindið um ríki Messíasar er eins og ljúf orð sem snerta hjartað. Boðskapurinn um ríkið varð afar gleðilegur árið 1914. Þaðan í frá hefur hann ekki aðeins fjallað um væntanlegt ríki heldur um raunverulega stjórn sem starfar núna á himnum. Þetta er „fagnaðarerindið um ríkið“ sem við boðum „um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það“. (Matt. 24:14) „Svellur“ hjarta okkar af fagnaðarerindinu um ríkið? Boðum við það af brennandi áhuga? Sálmaskáldið ,flutti konungi kvæði sitt‘ og við lofsyngjum konunginn Jesú Krist. Við boðum að hann sitji nú í hásæti á himnum sem konungur Messíasarríkisins. Og við hvetjum alla, jafnt háa sem lága, til að lúta konungdómi hans. (Sálm. 2:1, 2, 4-13) Tunga okkar verður eins og „penni hraðritara“ því að við notum ritað orð Guðs ríkulega við boðunina.

Við boðum fagnandi gleðifréttirnar um konung okkar, Jesú Krist.

,YNDI STREYMIR UM VARIR KONUNGSINS‘

5. (a) Að hvaða leyti var Jesús öðrum „fegurri“? (b) Hvernig boðaði Jesús fagnaðarerindið og hvernig getum við líkt eftir honum?

5 Lestu Sálm 45:3. Biblían er fáorð um útlit Jesú. Hann var fullkominn og var vafalaust öðrum „fegurri“. En fegurð hans stafaði fyrst og fremst af því að hann var trúfastur Jehóva og ráðvandur í einu og öllu. Hann boðaði boðskapinn um ríkið með ,hugnæmum orðum‘. (Lúk. 4:22; Jóh. 7:46) Reynum við að líkja eftir honum þegar við boðum fagnaðarerindið? Reynum við að velja orð sem snerta hjörtu fólks? – Kól. 4:6.

6. Hvernig blessaði Guð Jesú „að eilífu“?

6 Jesús sýndi Jehóva óbilandi hollustu og Jehóva blessaði hann meðan hann starfaði hér á jörð og umbunaði honum eftir að hann fórnaði lífi sínu. Páll postuli skrifaði: „Hann [Jesús] kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ (Fil. 2:7-11) Jehóva blessaði Jesú „að eilífu“ með því að reisa hann upp og veita honum ódauðleika. – Rómv. 6:9.

KONUNGURINN ÆÐRA SETTUR EN ,FÉLAGAR HANS‘

7. Í hvaða skilningi var Jesús smurður fremur en ,félagar hans‘?

7 Lestu Sálm 45:7, 8. Jesús elskaði réttlætið og hataði allt sem gat varpað skugga á föður hans. Þess vegna smurði Jehóva hann sem konung Messíasarríkisins. Jesús var smurður „fagnaðarolíu“ fremur en ,félagar hans‘, það er að segja Júdakonungar af ætt Davíðs. Hvernig þá? Það var Jehóva sjálfur sem smurði Jesú. Enn fremur smurði Jehóva hann bæði sem konung og æðsta prest. (Sálm. 2:2; Hebr. 5:5, 6) Auk þess var Jesús ekki smurður með olíu heldur heilögum anda, og hann er ekki konungur á jörð heldur himni.

8. Hvers vegna er hásæti Jesú kallað „Guðs hásæti“ og hvers vegna er öruggt að ríki hans sé réttlátt?

8 Jehóva setti son sinn til valda sem konung á himnum árið 1914. ,Veldissproti ríkis hans er réttlætissproti‘ þannig að það er tryggt að hann stjórni með réttvísi og sanngirni. Hann er lögmætur konungur vegna þess að hásæti hans er „Guðs hásæti“. (Biblían 1981) Þetta merkir að ríki hans er grundvallað á Jehóva. Og hásæti Jesú „stendur um aldir alda“. Ertu ekki stoltur af að mega þjóna Jehóva undir stjórn þessa volduga konungs sem hann hefur skipað?

KONUNGUR ,GYRÐIR LENDAR SÍNAR SVERÐI‘

9, 10. (a) Hvenær gyrti Kristur sig sverði og hvernig beitti hann því þegar í stað? (b) Hvernig á Kristur eftir að beita sverði sínu?

9 Lestu Sálm 45:4. Jehóva skipar konungi sínum að ,gyrða lendar sínar sverði‘. Hann felur Jesú að heyja stríð gegn öllum sem standa á móti drottinvaldi hans og fullnægja dómi yfir þeim. (Sálm. 110:2) Kristur er ávarpaður „hetja“ vegna þess að hann er ósigrandi stríðskonungur. Hann gyrti sig sverði árið 1914 og sigraði þá Satan og illu andana, úthýsti þeim af himnum og varpaði þeim niður til jarðar. – Opinb. 12:7-9.

10 Þetta var aðeins upphafið að sigurför konungsins. Hann á enn eftir að vinna fullnaðarsigur. (Opinb. 6:2) Hann á eftir að fullnægja dómi Jehóva yfir heimskerfi Satans í heild og taka Satan og illu andana úr umferð. Fyrst útrýmir hann Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Jehóva ætlar að láta veraldlega valdhafa eyða þessari illu ,skækju‘. (Opinb. 17:16, 17) Síðan lætur stríðskonungurinn til skarar skríða gegn stjórnmálakerfi Satans og gereyðir því. Kristur, sem er einnig kallaður „engill undirdjúpsins“, fullkomnar svo sigurinn með því að kasta Satan og illu öndunum í undirdjúp. (Opinb. 9:1, 11; 20:1-3) Við skulum skoða hvernig þessum stórviðburðum er spáð í Sálmi 45.

KONUNGURINN SÆKIR FRAM „Í ÞÁGU SANNLEIKA“

11. Hvernig sækir Kristur fram „í þágu sannleika“?

11 Lestu Sálm 45:5. Stríðskonungurinn fer ekki í stríð til að leggja undir sig lönd og kúga þjóðir. Hann heyr réttlátt stríð og hefur göfug markmið. Hann sækir fram „í þágu sannleika, mildi og réttlætis“. Æðsti sannleikurinn, sem hann þarf að verja, er sannleikurinn um drottinvald Jehóva. Með uppreisn sinni véfengdi Satan að Jehóva væri réttmætur Drottinn alheims. Þaðan í frá hafa bæði illir andar og menn dregið þessi grundvallarsannindi í efa. Nú er komið að því að konungurinn, sem Jehóva smurði, sæki fram til að staðfesta í eitt skipti fyrir öll sannleikann um drottinvald Jehóva.

12. Á hvaða hátt sækir konungurinn fram ,í þágu mildi‘?

12 Konungurinn sækir einnig fram ,í þágu mildi‘. Sem einkasonur Guðs er hann fyrsta flokks dæmi um mildi, auðmýkt, hollustu og undirgefni við drottinvald föður síns. (Jes. 50:4, 5; Jóh. 5:19) Allir trúir þegnar konungsins þurfa að fylgja fordæmi hans og lúta drottinvaldi Jehóva á öllum sviðum. Þeir einir sem gera það fá að lifa í nýja heiminum sem Guð hefur lofað. – Sak. 14:16, 17.

13. Hvernig sækir Kristur fram ,í þágu réttlætis‘?

13 Kristur sækir einnig fram ,í þágu réttlætis‘. Það er réttlæti Guðs sem konungurinn ver – ákvæði hans um hvað sé rétt og hvað sé rangt. (Rómv. 3:21; 5. Mós. 32:4) „Konungur mun ríkja með réttlæti,“ sagði Jesaja í spádómi um konunginn Jesú Krist. (Jes. 32:1) Með stjórn Jesú gengur í garð ,nýr himinn og ný jörð þar sem réttlæti býr‘. (2. Pét. 3:13) Allir íbúar nýja heimsins verða að fylgja ákvæðum Jehóva. – Jes. 11:1-5.

KONUNGURINN VINNUR „ÓGNARLEG STÓRVIRKI“

14. Hvernig mun hægri hönd Krists vinna „ógnarleg stórvirki“? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

14 Konungurinn er gyrtur sverði þegar hann sækir fram. (Sálm. 45:4) En það kemur að því að hann dregur það úr slíðrum og beitir því með hægri hendi sinni. Í sálminum segir: „Hægri hönd þín kenni þér ógnarleg stórvirki.“ (Sálm. 45:5) Jesús Kristur vinnur „ógnarleg stórvirki“ þegar hann sækir fram til að fullnægja dómi Jehóva í Harmagedón. Við vitum ekki hvaða aðferðum hann beitir þegar hann eyðir heimi Satans. Hitt er ljóst að þeir jarðarbúar, sem hafa ekki beygt sig undir vald konungsins eins og þeir eru hvattir til, verða skelfingu lostnir þegar þar að kemur. (Lestu Sálm 2:11-13.) Í spádómi sínum um endalokatímann sagði Jesús: „Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast.“ Hann bætti svo við: „Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.“ – Lúk. 21:26, 27.

15, 16. Hverjir skipa „hersveitirnar“ sem fylgja Kristi í bardaga?

15 Í Opinberunarbókinni er lýst hvernig konungurinn kemur „með mætti og mikilli dýrð“ til að fullnægja dómi. Þar segir: „Þá sá ég himininn opinn. Og sjá: Hvítur hestur. Sá sem á honum sat hét Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttlæti. Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni. Og af munni hans gekk út biturt sverð til að slá þjóðirnar með og hann mun stjórna þeim með járnsprota og troða vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.“ – Opinb. 19:11, 14, 15.

16 Hverjir skipa „hersveitirnar“ sem fylgja Kristi í bardaga? Þegar hann gyrti sig sverði og úthýsti Satan og illu öndunum af himnum voru „englar hans“ með honum. (Opinb. 12:7-9) Það virðist rökrétt að hersveit Krists í stríðinu við Harmagedón verði skipuð heilögum englum. Verða fleiri í hersveitinni? Jesús gaf andasmurðum bræðrum sínum eftirfarandi loforð: „Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda það sem ég geri og kenni mun ég gefa sama vald yfir þjóðunum sem faðirinn gaf mér. Og hann mun stjórna þeim með járnsprota og mola þær eins og leirker eru moluð.“ (Opinb. 2:26, 27) Andasmurðir bræður Krists verða einnig með honum í hinum himnesku hersveitum en þeir hafa þá hlotið þau laun að fá himneska upprisu. Andasmurðir meðstjórnendur hans verða honum við hlið þegar hann vinnur „ógnarleg stórvirki“ og stjórnar þjóðunum með járnsprota.

KONUNGURINN VINNUR FULLNAÐARSIGUR

17. (a) Hvað táknar hvíti hesturinn sem Kristur ríður? (b) Hvað tákna sverðið og boginn?

17 Lestu Sálm 45:6. Konungurinn situr á hvítum hesti en það táknar stríð sem er hreint og réttlátt í augum Jehóva. (Opinb. 6:2; 19:11) Auk sverðsins ber hann boga. Við lesum: „Ég leit upp og sjá: Hvítur hestur. Sá sem á honum sat hélt á boga og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ Bæði boginn og sverðið tákna þær aðferðir sem Kristur notar til að fullnægja dómi yfir óvinum sínum.

Kallað verður á fugla himins til að hreinsa jörðina. (Sjá 18. grein.)

18. Hvernig reynast örvar Krists „hvesstar“?

18 Sálmaskáldið spáir með ljóðrænum orðum að ,örvar konungsins séu hvesstar, þær hæfi hjarta fjandmanna hans, þjóðir falli að fótum honum‘. Menn falla unnvörpum um allan heim. Í spádómsbók Jeremía segir: „Þeir sem felldir verða af Drottni munu á þeim degi liggja dreifðir um alla jörðina.“ (Jer. 25:33) Í hliðstæðum spádómi segir: „Ég sá einn engil standa inni í sólinni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna sem flugu um himinhvolfið: ,Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs til þess að eta hold konunga, herforingja og kappa og til að eta hold hesta og þeirra sem á þeim sitja og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra.‘“ – Opinb. 19:17, 18.

19. Hvernig vinnur Kristur fullnaðarsigur?

19 Kristur ,sækir sigursæll fram‘ eftir að hann hefur eytt illum heimi Satans. (Sálm. 45:5) Hann vinnur fullnaðarsigur með því að fjötra Satan og illu andana í undirdjúpi þau þúsund ár sem hann ríkir. (Opinb. 20:2, 3) Þegar Satan og englar hans hafa verið fjötraðir og geta ekkert aðhafst lengur verða íbúar jarðar lausir undan áhrifum þeirra og geta verið fullkomlega undirgefnir sigursælum og dýrlegum konungi sínum. En áður en þeir sjá jörðina breytast smám saman í eina samfellda paradís hafa þeir annað tilefni til að samgleðjast konunginum og félögum hans á himnum. Rætt er um þennan gleðilega atburð í næstu grein.