Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Samstarf milli trúfélaga – hvað finnst Guði um það?

Samstarf milli trúfélaga – hvað finnst Guði um það?

„Stuðla trúarbrögð að einingu eða sundrungu meðal fólks?“ Þessi spurning var lögð fyrir lesendur ástralska dagblaðsins The Sydney Morning Herald. Af þeim sem svöruðu fannst yfirgnæfandi meirihluta, um 89 af hundraði, að trúarbrögðin sundri fólki.

ÞEIR sem eru hlynntir því að ólík trúfélög starfi saman sjá málið þó allt öðrum augum. „Hvaða trúflokki stendur á sama um samkennd ... um umhverfismál ... eða um náungakærleika?“ spurði Eboo Patel, stofnandi samtakanna Interfaith Youth Core.

Reyndar hafa búddistar, kaþólikkar, mótmælendur, hindúar, múslímar og fleiri trúflokkar einstaka sinnum sameinað krafta sína. Það hafa þeir gert til að beita sér gegn fátækt, berjast fyrir mannréttindum, vekja athygli á umhverfismálum eða vinna að því að jarðsprengjur verði bannaðar. Forsprakkar ýmissa trúflokka og kirkjudeilda hafa hist til að ræða saman hvernig stuðla megi að auknu umburðarlyndi og skilningi í fjöltrúarsamfélagi. Þeir fagna fjölbreytileika trúflokkanna með hátíðahöldum, bænahaldi, kertaljósaathöfnum, tónleikum og þar fram eftir götunum.

Geta trúfélögin bundið enda á deilur sín í milli með samstilltu átaki? Er það ætlun Guðs að ólík trúfélög starfi saman til að leysa vandamál heimsins?

VEGUR SAMSTARFIÐ ÞYNGRA EN TRÚIN Á GUÐ?

Ein stærstu fjöltrúarsamtökin stæra sig af því að meðlimir þeirra tilheyri meira en 200 ólíkum trúfélögum og að starfsemi þeirra teygi sig til 76 landa. Yfirlýst markmið þeirra er að „koma á nánu og varanlegu samstarfi milli trúfélaga“. Það hefur hins vegar reynst hægara sagt en gert. Þegar verið var að semja stofnskrá samtakanna þurfti til dæmis að gæta vel að orðalaginu til að móðga ekki þá mörgu trúflokka sem skrifuðu undir skjalið, að sögn stofnenda samtakanna. Hvers vegna var hætta á því? Meðal annars vegna þess að upp kom ágreiningur um það hvort minnast ætti á Guð í stofnskránni. Í kjölfarið var ákveðið að hvergi yrði minnst á Guð.

En hvaða hlutverki gegnir trúin ef ekki er gert ráð fyrir Guði? Hver er þá munurinn á fjöltrúarsamtökum og góðgerðar- eða líknarsamtökum? Það er ekki að ástæðulausu að fyrrnefnd samtök segist vera „samtök sem brúa bilið“ en ekki trúarhreyfing.

EIGA TRÚFÉLÖG EINGÖNGU AÐ EFLA NÁUNGAKÆRLEIKANN?

„Boðskapur fjölmennustu trúarbragðanna er í meginatriðum sá sami: Kærleikur, samkennd og miskunn,“ sagði Dalai Lama, þekktur stuðningsmaður fjöltrúarsamstarfsins. Hann bætti við: „Það sem mestu máli skiptir er að við sýnum þessa eiginleika í daglegu lífi okkar.“

Það verður auðvitað aldrei lögð nógu mikil áhersla á hve mikilvægt það er að sýna góða eiginleika eins og kærleika, samkennd og miskunn. Jesús gaf okkur meginreglu, sem oft er kölluð gullna reglan, og sagði: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matteus 7:12) En snýst sönn trú eingöngu um að efla náungakærleikann?

Páll postuli sagði um marga samtíðarmenn sína sem sögðust þjóna Guði: „Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.“ Hvað átti Páll við? Hann útskýrði það nánar og sagði: „Þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast [því] við að koma til vegar eigin réttlæti.“ (Rómverjabréfið 10:2, 3, Biblían 1981) Þeir höfðu ekki réttan skilning á því sem Guð ætlaðist til af þeim og þess vegna var kappsemi þeirra, og trú, í rauninni til einskis. – Matteus 7:21-23.

SAMSTARF MILLI TRÚFÉLAGA – HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

„Sælir eru friðflytjendur,“ sagði Jesús. (Matteus 5:9) Jesús fór sjálfur eftir því sem hann kenndi og varaði aðra við því að grípa til ofbeldis. Hann boðaði fólki friðarboðskap óháð því hvaða trúarkenningar það aðhylltist. (Matteus 26:52) Þeir sem tóku við boðskapnum tengdust hver öðrum órjúfanlegum kærleiksböndum. (Kólossubréfið 3:14) En hvert var markmið Jesú með boðskapnum? Var það eingöngu að brúa bilið milli fólks af ólíkum uppruna svo að það gæti átt friðsamleg samskipti hvert við annað? Tók hann þátt í trúar- og helgisiðum fólks sem var annarrar trúar en hann?

Trúarleiðtogar af hópi farísea og saddúkea voru svarnir andstæðingar Jesú og reyndu jafnvel að myrða hann. Hvernig brást Jesús við því? Hann gaf lærisveinum sínum þessi fyrirmæli: „Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra.“ (Matteus 15:14) Jesús varaði fylgjendur sína við því að taka upp trúarlegt samstarf við slíka einstaklinga.

Nokkru síðar var kristinn söfnuður stofnaður í grísku borginni Korintu, en hún var þekkt fyrir fjölskrúðugt menningar- og trúarlíf. Hvernig áttu fylgjendur Jesú að fóta sig í slíku umhverfi? Páll postuli skrifaði þeim: „Dragið ekki ok með vantrúuðum.“ Hvers vegna áttu þeir ekki að gera það? Páll rökstuddi mál sitt og sagði: „Hvað eiga Kristur og Belíar [eða Satan] sameiginlegt? Hvað eiga trúaðir sameiginlegt með vantrúuðum?“ Síðan ráðlagði hann þeim: „Farið burt frá þeim og skiljið ykkur frá þeim.“ – 2. Korintubréf 6:14, 15, 17.

Biblían er greinilega andvíg því að fylgjendur Jesú taki höndum saman við önnur trúfélög. En hvernig er þá hægt að koma á einingu meðal fólks?

LYKILLINN AÐ EININGU

Alþjóðlega geimstöðin, sem er hátækniundur á braut um jörð, er afrakstur af samvinnu 15 þjóða. Ætli hún hefði orðið til ef þær hefðu verið ósammála um hvaða teikningar ætti að nota?

En hvernig er staðan hjá fjöltrúarsamtökum nútímans? Þótt þau hampi samlyndi og virðingu eru þau ekki sammála um hvaða teikningar, eða leiðbeiningar, eigi að styðjast við til að byggja upp sanna trú. Siðferðileg mál og kennisetningar valda því sundrungu líkt og áður.

Biblían hefur að geyma leiðbeiningar Guðs sem líkja mætti við teikningu. Við getum byggt viðhorf okkar og ákvarðanir á því sem stendur í Biblíunni. Þeir sem hafa tekið við boðskap hennar hafa sigrast á trúar- og kynþáttafordómum og lært að vinna saman í friði og einingu. Guð sagði fyrir að þetta myndi eiga sér stað: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar varir og hreinar [eða „nýtt, hreint tungumál,“ New World Translation] svo að þær geti ákallað nafn Drottins og þjónað honum einhuga.“ Lykillinn að einingu er því að tala „hreint tungumál“, það er að segja að fylgja leiðbeiningunum sem Guð hefur gefið okkur varðandi það hvernig hann vill að við tilbiðjum sig. – Sefanía 3:9; Jesaja 2:2-4.

Vottum Jehóva er sönn ánægja að bjóða þér á samkomu í ríkissal þeirra svo að þú getir séð með eigin augum eininguna og friðinn sem ríkir á meðal þeirra. – Sálmur 133:1.