Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Náum til hjartna vantrúaðra ættingja

Náum til hjartna vantrúaðra ættingja

„FAR heim til þín og þinna og seg þeim hve mikið Drottinn hefur gert fyrir þig og verið þér miskunnsamur,“ sagði Jesús Kristur. Hann var trúlega staddur í Gadara, suðaustur af Galíleuvatni. Hann var að tala við mann sem langaði að fylgja honum. Orð Jesú sýna að hann skildi að það er mönnum eðlislægt að vilja segja sínum nánustu frá því sem skiptir þá máli. – Mark. 5:19.

Þetta á ekki síður við nú á dögum þó að það sé misáberandi eftir menningu. Oftast vill sá, sem gerist tilbiðjandi Jehóva Guðs, segja ættingjum sínum frá nýfenginni trú sinni. En hvernig ætti hann að fara að því? Hvernig getur hann náð til hjartna ættingja sem eru annarrar trúar eða jafnvel alveg trúlausir? Í Biblíunni er að finna raunhæfar og uppbyggjandi leiðbeiningar.

„VIÐ HÖFUM FUNDIÐ MESSÍAS!“

Á fyrstu öldinni var Andrés með þeim fyrstu til átta sig á að Jesús væri Messías. Og hverjum sagði hann strax frá því? „Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: ,Við höfum fundið Messías!‘ en Messías þýðir Kristur.“ Andrés leiddi þá saman og gaf Pétri þar með tækifæri til að verða lærisveinn Jesú. – Jóh. 1:35-42.

Um sex árum síðar þegar Pétur var staddur í bænum Joppe var hann beðinn um að fara norður til Sesareu og heimsækja Kornelíus hundraðshöfðingja. Hverjum hafði Kornelíus boðið heim til sín? „Kornelíus bjóst við [Pétri og samferðamönnum hans] og hafði boðið til sín frændum og virktavinum.“ Þannig gaf Kornelíus skyldfólki sínu tækifæri til að heyra það sem Pétur hafði að segja og taka afstöðu til þess. – Post. 10:22-33.

Hvað lærum við af fordæmi Andrésar og Kornelíusar?

Hvorugur þeirra lét tilviljun ráða. Andrés tók af skarið og kynnti Pétur fyrir Jesú og Kornelíus gerði ráðstafanir svo að ættingjar hans fengju að hlusta á Pétur. En þeir beittu fólk sitt ekki þrýstingi eða reyndu með lúmskum hætti að fá það til að fylgja Kristi. Hvernig getum við líkt eftir Andrési og Kornelíusi? Við getum kannski gefið ættingjum okkar einhver sannleikskorn og skapað tækifæri fyrir þá til að komast í tæri við sannleikann í Biblíunni og trúsystkini okkar. En við virðum valfrelsi þeirra og forðumst að beita þá þrýstingi. Tökum þýsku hjónin Jürgen og Petru sem dæmi um hvernig við getum hjálpað ættingjum okkar að kynnast sannleikanum.

Petra kynnti sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva og lét skírast. Jürgen var yfirmaður í hernum. Til að byrja með var hann ekki ánægður með ákvörðun konunnar sinnar en komst með tímanum að því að vottarnir kenna sannleika Biblíunnar. Hann helgaði líf sitt Jehóva og er nú safnaðaröldungur. Hvað leggur hann til að við gerum til að ná til hjartna ættingja sem eru annarrar trúar?

Hann segir: „Við ættum ekki að reyna að þvinga ættingja okkar til að hlusta á okkur og kaffæra þá í umræðum um andleg mál. Það getur gert þá enn tregari til að hlusta. Það er vænlegra til árangurs að vera nærgætin og gefa þeim fróðleiksmola af og til. Það er líka gott að koma ættingjum okkar í samband við trúsystkini á svipuðu reki eða með svipuð áhugamál. Það getur brúað bilið.“

„Við ættum ekki að reyna að þvinga ættingja okkar til að hlusta á okkur og kaffæra þá í umræðum.“ – Jürgen

Pétur postuli og ættingjar Kornelíusar tóku fljótt við boðskap Biblíunnar. Margir sem kynntust sannleikanum á fyrstu öld þurftu þó lengri tíma til að taka afstöðu.

HVAÐ MEÐ BRÆÐUR JESÚ?

Nokkrir ættingja Jesú trúðu á hann meðan hann starfaði hér á jörð. Til dæmis má vera að postularnir Jakob og Jóhannes hafi verið frændur Jesú og að Salóme, móðir þeirra, hafi verið móðursystir hans. Kannski var hún ein af þeim mörgu konum sem „hjálpuðu þeim [Jesú og postulunum] með fjármunum sínum.“ – Lúk. 8:1-3.

En það tóku ekki allir úr fjölskyldu Jesú trú á hann strax. Til dæmis safnaðist hópur saman í húsi nokkru til að hlusta á Jesú rúmu ári eftir að hann lét skírast. Frásagan segir: „Hans nánustu fréttu það og fóru út og vildu ná honum enda sögðu þeir að hann væri frá sér.“ Nokkru síðar spurðu hálfbræður Jesú út í ferðir hans en hann svaraði þeim ekki beint vegna þess að „bræður hans trúðu ekki á hann“. – Mark. 3:21; Jóh. 7:5.

Hvernig kom Jesús fram við ættingja sína og hvað getum við lært af því? Hann móðgaðist ekki þegar þeir héldu að hann hefði misst vitið. Jesús hélt áfram að hvetja ættingja sína eftir dauða sinn og upprisu með því að birtast Jakobi hálfbróður sínum. Það virðist hafa átt sinn þátt í að sannfæra Jakob um að Jesús væri Messías, en ekki bara hann heldur og aðra bræður hans. Þeir voru því augljóslega með postulunum og öðrum lærisveinum sem fengu heilagan anda í loftstofunni í Jerúsalem. Bræðurnir Jakob og Júdas héldu síðan áfram að njóta blessana í þjónustunni. – Post. 1:12-14; 2:1-4; 1. Kor. 15:7.

SUMIR ÞURFA LANGAN TÍMA

„Þolinmæði þrautir vinnur allar.“ – Roswitha

Eins og á fyrstu öld þurfa sumir ættingjar talsverðan tíma til að rata inn á veginn til lífsins. Roswitha er dæmi um það. Hún var rómversk-kaþólsk og einlæg í sinni trú. Þegar maðurinn hennar var skírður sem vottur Jehóva árið 1978 var hún í byrjun á móti trú hans. En andstaðan minnkaði er árin liðu og hún fór að gera sér grein fyrir að vottarnir kenna sannleikann. Hún lét sjálf skírast árið 2003. Hvað varð til þess að hún breytti um afstöðu? Maðurinn hennar gaf henni nægan tíma til að skipta um skoðun í stað þess að verða sár yfir andstöðunni. Hvaða ráð gefur Roswitha? „Þolinmæði þrautir vinnur allar,“ segir hún.

Monika lét skírast árið 1974 og synir hennar tveir um tíu árum síðar. Þó svo að Hans, maðurinn hennar, væri aldrei andvígur trú þeirra lét hann sjálfur ekki skírast fyrr en árið 2006. Hvaða ráð gefur fjölskyldan þegar hún lítur til baka? „Haltu áfram að sýna Jehóva hollustu og gefðu aldrei eftir þegar trúin á í hlut.“ Þau máttu aldrei gleyma að láta Hans finna að þeim þætti vænt um hann. Og þau gáfu aldrei upp vonina um að hann myndi taka við sannleikanum.

ENDURNÆRÐ MEÐ SANNLEIKSVATNINU

Jesús líkti sannleikanum við vatn sem veitir eilíft líf. (Jóh. 4:13, 14) Við viljum að ættingjar okkar endurnærist af því að drekka af tæru og svalandi sannleiksvatninu. Við viljum auðvitað ekki að þeim svelgist á vegna þess að við hellum of skart ofan í þau. Hvort þeim finnist þau endurnærð eða þeim svelgist á getur verið undir því komið hvernig við útskýrum trú okkar fyrir þeim. Í Biblíunni segir: „Hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli“ og „hjarta spekingsins ræður orðum hans og eykur fræðsluna á vörum hans.“ Hvernig getum við tekið þessi ráð til okkar? – Orðskv. 15:28; 16:23.

Eiginkonu langar kannski að útskýra trúna fyrir manni sínum. Ef hún „íhugar hverju svara skuli“ vandar hún orðavalið og segir ekkert í fljótfærni. Hún ætti ekki að setja sig á háan hest og gefa sig út fyrir að vera réttlátari en hann. Vandlega íhuguð orð hennar geta verið endurnærandi og stuðlað að friði. Hvenær er maðurinn hennar afslappaður og auðvelt að ná til hans? Hvað hefur hann gaman af að lesa eða tala um? Hefur hann áhuga á vísindum, stjórnmálum eða íþróttum? Hvernig getur hún vakið forvitni hans á Biblíunni en um leið borið virðingu fyrir tilfinningum hans og skoðunum? Með því að hugsa á þessum nótum á hún auðveldara með að sýna tillitssemi í tali sínu og hegðun.

Til að ná til hjartna þeirra í fjölskyldunni sem eru ekki enn vottar þurfum við að gera meira en að segja þeim frá trúnni. Við þurfum að vera til fyrirmyndar í hegðun og framkomu.

HEGÐUM OKKUR VEL

„Fylgdu alltaf meginreglum Biblíunnar. Það er áhrifarík leið til að ættingi þinn taki eftir trú þinni, jafnvel þó að hann viðurkenni það ekki,“ segir Jürgen, sem minnst var á fyrr í greininni. Hans, sem lét skírast þremur áratugum á eftir konunni sinni, er sama sinnis: „Það er mikilvægt að vera til fyrirmyndar í hegðun svo að ættinginn sjái góð áhrif sannleikans á líf manns.“ Ættingjarnir ættu að geta séð að við skerum okkur úr á jákvæðan hátt.

„Það er mikilvægt að vera til fyrirmyndar í hegðun svo að ættinginn sjái góð áhrif sannleikans á líf manns.“ – Hans

Pétur postuli gaf konum, sem eiga vantrúaða eiginmenn, gagnleg ráð: „Eiginkonur, [verið] eftirlátar eiginmönnum ykkar til þess að jafnvel þeir sem vilja ekki hlýða orðinu geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna þegar þeir sjá ykkar grandvöru og skírlífu hegðun. Skart ykkar sé ekki ytra skraut, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur heldur hinn huldi maður hjartans, búinn óforgengilegri fegurð hógværs og hljóðláts anda. Þetta er dýrmætt í augum Guðs.“ – 1. Pét. 3:1-4.

Pétur talar um að eiginmaður geti unnist orðalaust vegna góðrar hegðunar konu sinnar. Christa hefur haft það í huga og reynt að ná til hjarta eiginmanns síns síðan hún lét skírast árið 1972. Maðurinn hennar hefur ekki enn tekið við sannleikanum þó að hann hafi um tíma verið á biblíunámskeiði hjá vottum Jehóva. Hann hefur stundum komið á samkomur og honum líkar ágætlega við fólkið í söfnuðinum. Bræður og systur virða aftur á móti rétt hans til að velja hvað hann vill. Hvernig reynir Christa að ná til hjarta hans?

„Ég er ákveðin í að halda mig á þeim vegi sem Jehóva vill að ég gangi. Jafnframt reyni ég að vinna manninn minn ,orðalaust‘ með góðri framkomu. Ég reyni eftir fremsta megni að koma til móts við hann þegar það brýtur ekki í bága við meginreglur Biblíunnar. Hann hefur að sjálfsögðu frjálsan vilja og ég legg málið í hendur Jehóva.“

Christa er ágætt dæmi um gildi þess að vera sveigjanleg. Hún heldur góðum andlegum venjum meðal annars með því að mæta reglulega á samkomur og eiga góðan þátt í boðunarstarfinu. En hún gerir sér jafnframt grein fyrir því að maðurinn hennar á rétt á ást hennar, tíma og athygli. Það er skynsamlegt af okkur öllum sem eigum vantrúaða ættingja að vera skilningsrík og sveigjanleg. „Öllu er afmörkuð stund,“ segir í Biblíunni. Það felur meðal annars í sér að verja tíma með öðrum í fjölskyldunni, ekki síst maka sem er ekki í trúnni. Það ýtir undir tjáskipti að verja tímanum saman. Reynslan sýnir að þegar tjáskiptin eru góð verða okkar nánustu síður einmana, afbrýðisamir eða finnst þeir skildir út undan. – Préd. 3:1.

GEFUM ALDREI UPP VONINA

„Mikilvægt er að sýna að okkur þyki vænt um fjölskyldumeðlimi okkar og að við biðjum fyrir þeim“ segir Holger, en pabbi hans lét skírast 20 árum á eftir öðrum í fjölskyldunni. Christa segist aldrei ætla að gefa upp vonina um að maðurinn hennar taki að lokum afstöðu með Jehóva og taki við sannleikanum. Við ættum alltaf að vera jákvæð og vonglöð í garð ættingja sem eru ekki sömu trúar og við.

Við reynum að halda sambandinu við ættingja okkar góðu, gefa þeim tíma til að skilja sannleikann og hreyfa við hjörtum þeirra með boðskap Biblíunnar. Og við ættum alltaf að gera það „með hógværð og virðingu“. – 1. Pét. 3:15, 16.