Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÚR SÖGUSAFNINU

„Mikil uppskeruvinna er eftir“

„Mikil uppskeruvinna er eftir“

George Young kom til Rio de Janeiro í mars 1923.

ÁRIÐ er 1923. Tónleikasalurinn í Tón- og leiklistarskóla São Paulo er þéttsetinn. Sjáðu fyrir þér George Young þar sem hann flytur kröftuga ræðu. Hún er túlkuð á portúgölsku, setningu fyrir setningu. Þeir 585, sem viðstaddir eru, hlusta af athygli. Biblíuversum á portúgölsku er varpað upp á tjald. Dagskráin nær hámarki þegar hundrað eintökum af bæklingnum Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja er dreift á portúgölsku ásamt nokkrum eintökum á ensku, ítölsku og þýsku. Fyrirlesturinn slær í gegn! Fólk fréttir af honum. Tveimur kvöldum síðar er annar fyrirlestur haldinn og salurinn fyllist á ný. En hver var aðdragandi þessara atburða?

Árið 1867 fluttist Sarah Bellona Ferguson ásamt fjölskyldu sinni frá Bandaríkjunum til Brasilíu. Árið 1899 gerði Sarah sér grein fyrir að hún hefði fundið sannleikann þegar hún las nokkur biblíutengd rit sem yngri bróðir hennar hafði komið með frá Bandaríkjunum. Hún hafði ánægju af lestri og gerðist áskrifandi að Varðturninum á ensku. Hún var gagntekin af boðskap Biblíunnar og skrifaði bréf til bróður Charles T. Russells og sagði að hún væri „lifandi sönnun þess að enginn sé of fjarri til að hægt sé að ná til hans“.

Geta lifendur talað við látna? (Portúgalska)

Sarah Ferguson gerði sitt besta til að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar. Hún velti þó oft fyrir sér hver myndi aðstoða hana og fjölskyldu hennar og sinna öllu því góða fólki sem bjó í Brasilíu. Árið 1912 fékk hún þau skilaboð frá Betel í Brooklyn að einhver væri á leiðinni til São Paulo með þúsundir eintaka af smáritinu Hvar eru hinir látnu? á portúgölsku. Hún sagði árið 1915 að hún væri alltaf hissa á því að margir biblíunemendur skyldu vænta þess að vera kallaðir til himna innan skamms. Hún lýsti skoðun sinni í bréfi: „Hvað um Brasilíu og alla Suður-Ameríku? ... Þegar maður hugsar um hve Suður-Ameríka er ógnarstór hluti heimsins, er auðséð að mikil uppskeruvinna er eftir.“ Já, það var mikið verk fram undan.

Um 1920 komu átta ungir brasilískir sjóliðar á nokkrar safnaðarsamkomur í New York-borg, á meðan herskipið þeirra var í viðgerð. Þegar þeir komu heim til Rio de Janeiro sögðu þeir frá boðskap Biblíunnar sem þeir höfðu kynnst. George Young, sem var pílagrímur eða farandumsjónarmaður, kom skömmu síðar til Rio de Janeiro og hitti þar áhugasamt fólk. Það var í mars árið 1923. Hann lét þýða nokkur rit á portúgölsku. George fór fljótlega til São Paulo þar sem um 600.000 manns bjuggu á þeim tíma. Þar flutti hann fyrirlesturinn og dreifði bæklingunum sem sagt var frá í upphafi greinarinnar. „Þar sem ég var bara einn þurfti ég að treysta alfarið á auglýsingar í dagblöðum,“ segir hann og bætir við að þetta hafi verið „fyrstu opinberu fyrirlestrarnir sem auglýstir voru og haldnir í Brasilíu á vegum Alþjóðasamtaka biblíunemenda“.

Biblíuversum var varpað á tjald í fyrirlestrum bróður Youngs.

Í Varðturninum 15. desember 1923 sagði um starfið í Brasilíu: „Það er með ólíkindum hvernig Drottinn hefur blessað starfið, í ljósi þess að það hófst þann 1. júní og engin rit voru til á þeim tíma.“ Í greininni kom einnig fram að á tímabilinu 1. júní til 30. september hafi verið fluttur 21 opinber fyrirlestur og samanlagt hafi 3.600 manns verið viðstaddir. Fyrirlestrarnir, sem bróðir Young flutti í São Paulo, voru tveir þeirra. Fagnaðarerindið um ríkið breiddist smám saman um Rio de Janeiro. Á aðeins nokkrum mánuðum var búið að dreifa yfir 7.000 eintökum rita okkar á portúgölsku. Auk þess hófst útgáfa Varðturnsins á portúgölsku með nóvember-desember blaðinu 1923.

Sarah Bellona Ferguson, fyrsti áskrifandi Varðturnsins á ensku í Brasilíu.

George Young heimsótti Söruh Ferguson og Varðturninn segir svo frá: „Systirin gekk inn í stofuna og var orðlaus um stund. Hún tók í hönd bróður Youngs, horfðist í augu við hann alvarleg í bragði og sagði að lokum: ,Ert þú pílagrímur af holdi og blóði?‘“ Skömmu síðar lét hún skírast ásamt nokkrum barna sinna. Hún hafði beðið í 25 ár eftir að skírast. Í Varðturninum 1. ágúst 1924 kom fram að 50 skírðir þjónar Guðs væru í Brasilíu, flestir í Rio de Janeiro.

Núna, 90 árum síðar, þurfum við ekki lengur að spyrja: „Hvað um Brasilíu og alla Suður-Ameríku?“ Fleiri en 760.000 vottar Jehóva boða fagnaðarerindið í Brasilíu. Boðskapurinn um ríkið heyrist nú vítt og breitt um Suður-Ameríku á portúgölsku, spænsku og mörgum tungumálum frumbyggja. Sarah Ferguson hafði á réttu að standa árið 1915: ,Það var mikil uppskeruvinna eftir‘. – Úr sögusafninu í Brasilíu.