Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sækist þú eftir umsjónarstarfi?

Sækist þú eftir umsjónarstarfi?

FERNANDO * var taugaóstyrkur. Tveir öldungar höfðu beðið hann að tala við sig einslega. Eftir nokkrar síðustu heimsóknir farandhirðis höfðu öldungarnir sagt honum hvað hann þyrfti að gera til að geta tekið að sér fleiri ábyrgðarstörf í söfnuðinum. En tíminn leið og Fernando velti fyrir sér hvort hann yrði nokkurn tíma útnefndur öldungur. Núna var farandhirðirinn nýbúinn að heimsækja söfnuðinn. Hvað skyldu öldungarnir segja í þetta sinn?

Fernando hlustaði þegar annar öldungurinn vísaði í 1. Tímóteusarbréf 3:1 og sagði að öldungar safnaðarins hefðu fengið bréf þess efnis að hann hefði verið útnefndur öldungur. „Hvað sagðirðu?“ spurði Fernando steinhissa. Bróðirinn endurtók það sem hann hafði sagt og bros breiddist yfir andlit Fernandos. Allir glöddust þegar söfnuðinum var tilkynnt að hann hefði verið útnefndur.

Er rangt að langa til að gegna ábyrgðarstarfi í söfnuðinum? Alls ekki. Í 1. Tímóteusarbréfi 3:1 segir: „Sækist einhver eftir biskupsstarfi [„að verða umsjónarmaður“, NW] þá girnist hann göfugt hlutverk.“ Margir bræður í söfnuðinum gera eins og hér er hvatt til og leggja sig fram um að uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar. Fyrir vikið njóta þjónar Guðs góðs af starfi hundruða þúsunda öldunga og safnaðarþjóna. En þar sem söfnuðunum fjölgar og þeir fara stækkandi er alltaf þörf fyrir fleiri bræður til að gegna þessum störfum. Hver er rétta leiðin til að sækjast eftir því að verða umsjónarmaður? Og ættu þeir sem gera það að hafa áhyggjur af því hvernig þeim miðar eins og Fernando gerði?

HVAÐ MERKIR ÞAÐ AÐ ,SÆKJAST EFTIR‘ AÐ VERÐA UMSJÓNARMAÐUR?

Orðasambandið ,sækjast eftir‘ er þýðing grískrar sagnar sem merkir að þrá í einlægni, teygja sig eftir einhverju. Okkur dettur kannski í hug maður sem teygir sig eins og hann getur til að ná í girnilegan ávöxt sem hangir á trjágrein. En að sækjast eftir að verða umsjónarmaður merkir ekki að seilast eftir því með græðgi. Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem þrá í einlægni að vera öldungar ættu að gera það vegna þess að þá langar til að gegna ,göfugu hlutverki‘ en ekki að komast í einhverja stöðu.

Margar af hæfniskröfunum, sem þarf að uppfylla til að gegna þessu göfuga hlutverki, eru taldar upp í 1. Tímóteusarbréfi 3:2-7 og Títusarbréfinu 1:5-9. Raymond, sem hefur verið öldungur lengi, segir um þessar háleitu kröfur: „Mér finnst eiginleikarnir skipta mestu máli. Það er mikilvægt að flytja ræður og kenna en hæfileikar á því sviði koma ekki í stað þess að vera óaðfinnanlegur, hófsamur í venjum, heilbrigður í hugsun, reglusamur, gestrisinn og sanngjarn.“

Þú getur ,sóst eftir‘ að verða umsjónarmaður með því að starfa með söfnuðinum á ýmsa vegu.

Bróðir, sem sækist eftir umsjónarstarfi, er óaðfinnanlegur að því leyti að hann forðast hvers kyns óheiðarleika og óhreinleika. Trúsystkini hans treysta honum til að fara með forystu og hjálpa sér að leysa vandamál sín vegna þess að hann er hófsamur í venjum, heilbrigður í hugsun, reglusamur og sanngjarn. Hann er gestrisinn og er þess vegna hvetjandi og uppörvandi fyrir unga fólkið og nýja í söfnuðinum. Hann hughreystir og aðstoðar sjúka og aldraða vegna þess að hann er góðgjarn. Hann þroskar með sér þessa eiginleika til að gera öðrum gott, ekki til að auka möguleikana á að vera útnefndur öldungur. *

Öldungaráðið er meira en fúst til að leiðbeina og hvetja, en það er þó fyrst og fremst í höndum þess sem sækist eftir að verða umsjónarmaður að uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar. Henry er reyndur umsjónarmaður. Hann segir: „Ef þú sækist eftir að verða umsjónarmaður skaltu leggja þig fram um að sýna að þú sért hæfur.“ Hann vitnar í Prédikarann 9:10 og segir: „,Allt sem hönd þín megnar að gera með kröftum þínum, gerðu það.‘ Gerðu eins vel og þú getur sama hvaða verkefni þú færð. Hafðu ánægju af öllum verkefnum sem þú færð í söfnuðinum, meðal annars að sópa gólfið. Með tímanum færðu umbun erfiðis þíns.“ Ef þig langar til að verða einhvern tíma öldungur skaltu vera duglegur og áreiðanlegur á öllum sviðum þjónustu þinnar. Líf þitt ætti að einkennast af hógværð, ekki metnaðargirni. – Matt. 23:8-12.

FORÐASTU ÓVIÐEIGANDI HEGÐUN OG HUGSUNARHÁTT

Sumum, sem sækjast eftir að verða umsjónarmenn, gæti þótt freistandi að ýja að því við öldungana eða reyna að hafa áhrif á öldungaráðið. Sumir bregðast illa við þegar öldungarnir leiðbeina þeim. Þeir ættu að spyrja sig hvort þeir séu aðallega að hugsa um að skara eld að sinni köku eða hvort þá langi til að annast sauði Jehóva með auðmjúku hugarfari.

Þeir sem sækjast eftir að verða umsjónarmenn mega ekki gleyma að ein af hæfniskröfunum er sú að vera „fyrirmynd hjarðarinnar“. (1. Pét. 5:1-3) Sá sem vill vera til fyrirmyndar í söfnuðinum er hvorki undirförull í hugsun né hegðun. Hann temur sér þolinmæði hvort sem hann er útnefndur eða ekki. Menn losna ekki við mannlega galla fyrir kraftaverk þó að þeir séu útnefndir öldungar. (4. Mós. 12:3; Sálm. 106:32, 33) Vel má vera að bróðir sé ,ekki meðvitaður um neitt illt‘ í eigin fari en það er ekki þar með sagt að aðrir sjái hann í sama ljósi. (1. Kor. 4:4) Ef öldungarnir gefa þér biblíutengd ráð í fullri einlægni skaltu reyna að láta þér ekki gremjast heldur hlusta. Farðu síðan eftir leiðbeiningunum.

HVAÐ ER TIL RÁÐA EF BIÐIN ER LÖNG?

Mörgum bræðum finnst þeir þurfa að bíða nokkuð lengi áður en þeir eru útnefndir. Verður þú stundum áhyggjufullur ef þú hefur sóst eftir því árum saman að verða umsjónarmaður? Ef svo er skaltu hugsa um þessi innblásnu orð: „Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt en uppfyllt ósk er lífstré.“ – Orðskv. 13:12.

Það er ekki óeðlilegt að verða niðurdreginn ef langþráð markmið virðist utan seilingar. Abraham leið þannig. Jehóva lofaði að hann myndi eignast son en árin liðu og þau Sara voru barnlaus. (1. Mós. 12:1-3, 7) Þegar Abraham var orðinn aldraður hrópaði hann: „Drottinn Guð! Hvað getur þú gefið mér? Ég fer héðan barnlaus ... þú hefur ekki gefið mér neitt afkvæmi.“ Jehóva fullvissaði hann um að hann myndi efna loforðið og gefa honum son. En það liðu að minnsta kosti 14 ár til viðbótar áður en hann efndi loforðið. – 1. Mós. 15:2-4; 16:16; 21:5.

Hætti Abraham að hafa ánægju af því að þjóna Jehóva meðan hann beið? Nei. Hann efaðist aldrei um að Jehóva myndi standa við orð sín og hlakkaði til að sjá þau rætast. Páll postuli skrifaði: „Abraham öðlaðist það sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi.“ (Hebr. 6:15) Þegar fram liðu stundir blessaði alvaldur Guð þennan trúa mann langt umfram það sem hann bjóst við. Hvað geturðu lært af Abraham?

Langar þig til að þjóna sem öldungur en hefur ekki náð því marki þó að árin hafi liðið? Haltu þá áfram að treysta Jehóva og njóta þess að þjóna honum. Warren hefur hjálpað mörgum bræðrum að taka framförum. Hann segir: „Það tekur sinn tíma fyrir bróður að verða hæfur til starfa og það fylgir vissu ferli. Hæfileikar hans og viðhorf sýna sig smám saman af framferði hans og því hvernig hann annast verkefni sín. Sumum finnst þeir ekki standa sig vel nema þeir fái eitthvert verkefni eða séu útnefndir. Það er rangur hugsunarháttur og getur snúist upp í þráhyggju. Þú stendur þig vel ef þú þjónar Jehóva dyggilega hvar sem þú ert og hvað sem þú gerir.“

Bróðir nokkur hafði beðið í meira en áratug eftir að vera útnefndur öldungur. Hann vísar í þekkta lýsingu í 1. kafla Esekíelsbókar og segir hvað hann lærði af reynslunni: „Jehóva ekur vagni sínum, söfnuðinum, á þeim hraða sem hann vill. Það er ekki tímaskyn okkar sem skiptir máli heldur tímaáætlun Jehóva. Þó að mig hafi langað til að verða öldungur snerist málið ekki um mig – hvað mig langaði í eða vildi að ég gæti verið. Það er ekki víst að það sem mig langar í sé það sem Jehóva veit að ég þarfnast.“

Ef þig langar til að gegna því fagra hlutverki að vera safnaðaröldungur skaltu sækjast eftir því með því að stuðla að gleði og ánægju í söfnuðinum. Ef þér finnst tíminn lengi að líða skaltu berjast gegn áhyggjum og óþolinmæði. Raymond, sem áður er getið, segir: „Metnaðargirni og hamingja fara ekki saman. Þeir sem eru alltaf óþreyjufullir fara á mis við þá miklu gleði sem fylgir því að þjóna Jehóva.“ Þroskaðu enn betur með þér ávöxt anda Guðs, sérstaklega langlyndi. Reyndu að styrkja sambandið við Jehóva með biblíunámi. Taktu enn meiri þátt í að boða fagnaðarerindið og kenna áhugasömum. Taktu forystuna í tilbeiðslu og safnaðarstarfi fjölskyldunnar. Njóttu þeirra stunda sem þú átt með bræðrum þínum og systrum. Stefndu að markmiðinu sem þú hefur sett þér og njóttu ferðarinnar.

Það er Jehóva sem gefur þér tækifæri til að sækjast eftir verkefnum í söfnuðinum. Hvorki hann né söfnuðurinn vill að þeir sem sækjast eftir að verða umsjónarmenn verði vonsviknir og daprir í þjónustu hans. Guð styður og blessar alla sem þjóna honum af hreinu tilefni. Og „hann lætur enga kvöl fylgja“ frekar en annarri blessun sem hann veitir. – Orðskv. 10:22, NW.

Þú getur alltaf þroskað sambandið við Jehóva þó að þú hafir sóst eftir því um talsverðan tíma að verða umsjónarmaður. Jehóva gleymir ekki verki þínu þegar þú leggur þig fram við að þroska nauðsynlega eiginleika og starfar með söfnuðinum en gætir þess jafnframt að vanrækja ekki fjölskyldu þína. Hafðu alltaf yndi af því að þjóna Jehóva, hvaða verkefni sem þú færð.

^ Nöfnum er breytt í þessari grein.

^ Í meginatriðum á efni þessarar greinar líka við þá sem sækjast eftir að verða safnaðarþjónar. Hæfniskröfurnar, sem þeir þurfa að uppfylla, er að finna í 1. Tímóteusarbréfi 3:8-10, 12, 13.