Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Sú þjóð sem á Jehóva að Guði‘

,Sú þjóð sem á Jehóva að Guði‘

„Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði.“ – SÁLM. 144:15.

1. Hvernig telja margir að hægt sé að tilbiðja Guð?

 MARGT hugsandi fólk viðurkennir fúslega að helstu trúarbrögð heims, bæði innan kristna heimsins og utan, geri mannkyninu lítið gagn. Sumir eru á því að kenningar þessara trúarbragða gefi alranga mynd af Guði og hann geti því varla haft velþóknun á þeim. Þeir hugsa hins vegar sem svo að það sé einlægt fólk að finna í öllum trúarbrögðum og Guð taki eftir því og líti á það sem tilbiðjendur sína á jörð. Þeir trúa ekki að þetta fólk þurfi að segja skilið við fölsk trúarbrögð og tilbiðja hann sem aðgreindur hópur. En er Guð á sama máli? Við skulum kanna það með því að skoða sögu sannra dýrkenda Jehóva sem sagt er frá í Biblíunni.

SÁTTMÁLAÞJÓÐ

2. Hverjir tilbáðu Jehóva sem aðgreindur hópur og hvað aðgreindi þá frá öðrum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Jehóva átti sér aðgreindan hóp tilbiðjenda á jörð strax á 20. öld f.Kr. Abraham er kallaður „faðir allra þeirra sem trúa“ og heimilismenn hans töldust í hundruðum. (Rómv. 4:11; 1. Mós. 14:14) Valdhafar í Kanaan litu á hann sem mikinn höfðingja og sýndu honum virðingu. (1. Mós. 21:22; 23:6) Jehóva gerði sáttmála við Abraham og afkomendur hans. (1. Mós. 17:1, 2, 19) Hann sagði við Abraham: „Þessi er sáttmálinn milli mín og ykkar og niðja þinna eftir þig, sem þið skuluð halda: Allt karlkyn meðal ykkar skal umskera ... Það sé tákn sáttmálans milli mín og ykkar.“ (1. Mós. 17:10, 11) Abraham og allir karlar á heimili hans voru síðan umskornir. (1. Mós. 17:24-27) Umskurðurinn var líkamlegt merki sem aðgreindi afkomendur Abrahams og sýndi að þeir væru eini hópurinn sem ætti sáttmálasamband við Jehóva.

3. Lýstu hvernig afkomendum Abrahams fjölgaði.

3 Jakob, einnig nefndur Ísrael, var sonarsonur Abrahams. Hann átti 12 syni. (1. Mós. 35:10, 22b-26) Þeir áttu að verða ættfeður hinna 12 ættkvísla Ísraels. (Post. 7:8) Jakob og fjölskylda hans leituðu hælis í Egyptalandi vegna hungursneyðar en Jósef, einn af sonum hans, var orðinn matvælaráðherra og hægi hönd faraós. (1. Mós. 41:39-41; 42:6) Afkomendum Jakobs fjölgaði stórum í Egyptalandi. – 1. Mós. 48:4; lestu Postulasöguna 7:17.

FRELSUÐ ÞJÓÐ

4. Hvernig var samskiptum Egypta og afkomenda Jakobs háttað í fyrstu?

4 Afkomendur Jakobs bjuggu í Egyptalandi í rétt rúmlega tvær aldir á svæði sem nefnt er Gósen og er nálægt ósum Nílar. (1. Mós. 45:9, 10) Þeir virðast hafa átt friðsamlega sambúð við Egypta í um það bil eina öld, búið í smáum bæjum og annast búpening sinn. Faraó hafði tekið þeim fagnandi en hann þekkti Jósef og hafði mætur á honum. (1. Mós. 47:1-6) Egyptar höfðu hins vegar mikla andstyggð á hjarðmönnum. (1. Mós. 46:31-34) Þeir urðu þó að þola návist Ísraelsmanna.

5, 6. (a) Hvernig breyttust aðstæður þjóna Guðs í Egyptalandi? (b) Hvernig komst Móse lífs af og hvað gerði Jehóva fyrir þjóna sína?

5 En aðstæður þjóna Guðs áttu eftir að gerbreytast. „Nýr konungur, sem ekki hafði þekkt Jósef, komst til valda í Egyptalandi. Hann sagði við þjóð sína: ,Takið eftir. Ísraelsþjóðin er fjölmennari og öflugri en við.‘ Þeir gerðu því Ísraelsmenn að þrælum og beittu þá hörku. Þeir gerðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leir og tígulsteina og alls kyns vinnu á ökrunum og með öllum þrældómi sem Egyptar þjökuðu þá vægðarlaust með.“ – 2. Mós. 1:8, 9, 13, 14.

6 Faraó gaf meira að segja út þá tilskipum að öll hebresk sveinbörn skyldu myrt við fæðingu. (2. Mós. 1:15, 16) Það var um það leyti sem Móse fæddist. Móðir hans faldi hann í sefinu við árbakka Nílar þegar hann var þriggja mánaða. Dóttir faraós fann hann þar og ættleiddi hann síðar. Vegna forsjónar Guðs ólst Móse upp hjá Jókebed, móður sinni, og hann varð dyggur þjónn Jehóva. (2. Mós. 2:1-10; Hebr. 11:23-25) Jehóva sá hve þjónar hans voru þjakaðir og ákvað að leysa þá úr ánauð Egypta. (2. Mós. 2:24, 25; 3:9, 10) Jehóva ,frelsaði‘ þá undir forystu Móse. – 2. Mós. 15:13; lestu 5. Mósebók 15:15.

ÞJÓÐSKIPULAGI KOMIÐ Á

7, 8. Hvernig urðu þjónar Jehóva heilög þjóð?

7 Jehóva leit á Ísraelsmenn sem þjóð sína þó að hann hefði ekki enn þá komið á þjóðskipulagi meðal þeirra. Þeir Móse og Aron áttu að segja við faraó: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti haldið mér hátíð í eyðimörkinni.“ – 2. Mós. 5:1.

8 Tíu plágur þurftu að dynja yfir Egypta, og faraó og hersveitir hans að tortímast í Rauðahafi áður en Ísraelsmenn voru leystir undan kúgun Egypta. (2. Mós. 15:1-4) Innan við þrem mánuðum síðar gerði Jehóva sáttmála við Ísraelsmenn við Sínaífjall og gaf þeim þetta sögulega loforð: „Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn skuluð þið verða sérstök eign mín, umfram aðrar þjóðir ... og heilög þjóð.“ – 2. Mós. 19:5, 6.

9, 10. (a) Hvernig greindi lögmálið Ísraelsmenn frá öðrum þjóðum samkvæmt 5. Mósebók 4:5-8? (b) Hvernig áttu Ísraelsmenn að sýna að þeir væru helgaðir Jehóva?

9 Áður en Ísraelsmenn voru hnepptir í þrælkun í Egyptalandi voru þeir samfélag ættbálka undir umsjón ættfeðra. Ættfeðurnir voru bæði stjórnendur, dómarar og prestar sinnar ættar líkt og verið hafði hjá þjónum Jehóva á undan þeim. (1. Mós. 8:20; 18:19; Job. 1:4, 5) Nú setti Jehóva Ísraelsmönnum lög fyrir milligöngu Móse og þau myndu greina þá frá öllum öðrum þjóðum. (Lestu 5. Mósebók 4:5-8; Sálm. 147:19, 20) Lögmálið kvað á um aðskilda prestastétt og „öldungar“, sem voru virtir fyrir visku sína og þekkingu, áttu að sjá um að halda uppi lögum og rétti. (5. Mós. 25:7, 8) Útlistað var í lögmálinu hvernig trúarlífi og samfélagsskipan þessarar nýju þjóðar skyldi háttað.

10 Rétt áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið ítrekaði Jehóva lög sín og Móse sagði þeim: „Drottinn hefur í dag lýst yfir því að þú sért hans eignarlýður, eins og hann hét þér, og að þú eigir að halda öll boð hans. Hann mun hefja þig yfir allar þjóðir, sem hann hefur skapað, til lofgjörðar, frægðar og dýrðar, og þú skalt verða lýður, helgaður Drottni, Guði þínum.“ – 5. Mós. 26:18, 19.

AÐKOMUFÓLK VELKOMIÐ

11-13. (a) Hverjir bjuggu meðal útvalinnar þjóðar Guðs? (b) Hvað gerði fólk af öðrum þjóðum ef það vildi tilbiðja Jehóva?

11 Þó að Jehóva ætti sér nú útvalda þjóð á jörð bannaði hann ekki að fólk af öðru þjóðerni byggi meðal hennar. „Fjölmennur, sundurleitur hópur fólks“, þeirra á meðal Egyptar, fékk að fara með Ísraelsmönnum þegar Jehóva frelsaði þá frá Egyptalandi. (2. Mós. 12:38) Sumir af „þjónum faraós“ óttuðust orð Jehóva þegar sjöunda plágan gekk yfir og tilheyrðu eflaust þessum sundurleita hópi sem yfirgaf Egyptaland með Ísraelsmönnum. – 2. Mós. 9:20.

12 Rétt áður en Ísraelsmenn fóru yfir Jórdan til að leggja Kanaansland undir sig sagði Móse þeim að ,sýna aðkomumanninum kærleika‘. (5. Mós. 10:17-19) Útvalin þjóð Guðs átti að taka öllum útlendingum vel sem vildu búa meðal þeirra og halda lögin sem Móse hafði gefið. (3. Mós. 24:22) Sumt af þessu aðkomufólki tók að tilbiðja Jehóva og var sama sinnis og Rut frá Móab sem sagði við Naomí, ísraelska tengdamóður sína: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rut. 1:16) Þetta aðkomufólk tók gyðingatrú og karlar létu umskerast. (2. Mós. 12:48, 49) Jehóva tók þessu fólki opnum örmum og það fékk að tilheyra samfélagi útvalinna þjóna hans. – 4. Mós. 15:14, 15.

Ísraelsmönnum þótti vænt um aðkomufólk. (Sjá 11.-13. grein.)

13 Þegar musteri Salómons var vígt Jehóva var gert ráð fyrir að fólk af öðrum þjóðum gæti tilbeðið hann. Það má sjá af bæn Salómons: „Ef útlendingur, sem ekki er af lýð þínum, Ísrael, kemur frá fjarlægu landi vegna þíns mikla nafns og sterku handar og útrétts arms þíns, ef hann kemur og biður og snýr sér í átt til þessa húss, heyr þá á himnum þar sem þú býrð. Gerðu allt sem útlendingurinn ákallar þig um til þess að allar þjóðir jarðar játi nafn þitt. Þá munu þær sýna þér lotningu, eins og lýður þinn, Ísrael, og skilja að nafn þitt hefur verið hrópað yfir þessu húsi sem ég hef reist.“ (2. Kron. 6:32, 33) Fólk af öðrum þjóðum, sem tilbað Jehóva, vildi vera með sáttmálaþjóð hans, og svo var enn á dögum Jesú. – Jóh. 12:20; Post. 8:27.

ÞJÓÐ VOTTA

14-16. (a) Í hvaða skilningi áttu Ísraelsmenn sem þjóð að vitna um Jehóva? (b) Hvaða siðferðilega skylda hvílir á þjónum Guðs á okkar tímum?

14 Ísraelsmenn tilbáðu Jehóva, Guð sinn, og aðrar þjóðir tilbáðu sína guði. Á dögum Jesaja spámanns líkti Jehóva þessari stöðu við réttarhöld. Hann skoraði á guði þjóðanna að leiða fram vitni sem gætu staðfest að þeir væru guðir. Hann sagði: „Allar þjóðir skulu safnast í einn hóp og lýðirnir koma saman. Hver [af guðum] þeirra gat boðað þetta og skýrt oss frá því sem varð? Leiði þeir fram vitni sín og færi sönnur á mál sitt svo að þeir sem heyra segi: ,Þetta er rétt.‘“ – Jes. 43:9.

15 Guðir þjóðanna gátu ekki lagt fram nein sönnunargögn fyrir guðdómi sínum. Þeir voru ekkert annað en mállaus skurðgoð sem þurfti að bera milli staða. (Jes. 46:5-7) Jehóva sagði hins vegar þjóð sinni, Ísrael: „Þér eruð vottar mínir ... þjónn minn sem ég hef útvalið svo að þér vitið og trúið mér. Skiljið að ég er hann. Enginn guð var myndaður á undan mér og eftir mig verður enginn til. Ég er Drottinn, ég einn, og enginn frelsari er til nema ég ... Þér eruð vottar mínir ... að það er ég sem er Guð.“ – Jes. 43:10-12.

16 Það má segja að um væri að ræða alheimsdómsmál til að skera úr um hver væri hinn hæsti Guð. Útvalin þjóð Jehóva átti að vitna hátt og skýrt um að hann væri hinn einni sanni Guð. Hann sagði um Ísraelsmenn: „Þjóðin, sem ég myndaði handa mér, mun flytja lofgjörð um mig.“ (Jes. 43:21) Þeir voru þjóðin sem bar nafn hans. Jehóva hafði frelsað þá frá Egyptalandi og það var siðferðileg skylda þeirra að styðja drottinvald hans frammi fyrir öðrum þjóðum jarðar. Þeir áttu að taka sömu afstöðu og þjónar Guðs nú á tímum en síðar meir lýsti Míka þeirri afstöðu í spádómi þegar hann sagði: „Aðrar þjóðir munu lifa, hver í nafni síns guðs, en vér munum lifa í nafni Drottins, Guðs vors, um aldir alda.“ – Míka 4:5.

SVIKSÖM ÞJÓÐ

17. Hvernig varð Ísrael ,úrkynjaður vínviður‘ í augum Jehóva?

17 Því miður reyndust Ísraelsmenn ótrúir Jehóva Guði. Þeir létu þjóðir, sem tilbáðu guði úr tré og steini, hafa áhrif á sig. Hósea spámaður skrifaði á áttundu öld f.Kr.: „Ísrael er blómlegur [„úrkynjaður“, NW] vínviður ... hann [fjölgaði] ölturum sínum ... Hjarta þeirra er svikult, nú eru þeir sekir.“ (Hós. 10:1, 2) Um einni og hálfri öld síðar skrásetti Jeremía þessa orðsendingu Jehóva til ótrúrrar þjóðar sinnar: „Þegar ég gróðursetti þig varstu gæðavínviður, hver græðlingur var af úrvalskyni. Hvernig gastu breyst í illgresi, úrkynjaðan vínvið? Hvar eru guðir þínir sem þú sjálfur hefur gert þér? Þeir skulu rísa upp þegar þú ert í nauðum staddur og hjálpa þér ef þeir geta ... þjóð mín hefur gleymt mér.“ – Jer. 2:21, 28, 32.

18, 19. (a) Hvernig boðaði Jehóva að hann myndi stofna nýja þjóð sem bæri nafn hans? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

18 Ísraelsþjóðin bar ekki góðan ávöxt eins og hún átti að gera með því að tilbiðja Jehóva í hreinleika og vera trúr vottur hans. Hún bar vondan ávöxt í mynd skurðgoðadýrkunar. Jesús sagði því við hræsnisfulla leiðtoga Gyðinga á þeim tíma: „Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess.“ (Matt. 21:43) Aðeins þeir sem áttu aðild að ,nýja sáttmálanum‘ gátu tilheyrt þessari nýju andlegu Ísraelsþjóð, en Jehóva hafði boðað þennan sáttmála fyrir milligöngu Jeremía. Jehóva hafði spáð um andlegu Ísraelsmennina sem fengju aðild að þessum nýja sáttmála: „Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn.“ – Jer. 31:31-33.

19 Eftir að Ísraelsþjóðin reyndist ótrú gerði Jehóva hinn andlega Ísrael að þjóð sinni en það var á fyrstu öld eins og fram hefur komið. En hverjir eru þjóð hans á jörð nú á dögum? Hvernig er hægt að bera kennsl á sanna tilbiðjendur hans? Rætt er um það í næstu grein.