Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þið eruð nú orðin „Guðs lýður“

Þið eruð nú orðin „Guðs lýður“

„Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin Guðs lýður‘.“ – 1. PÉT. 2:10.

1, 2. Hvaða breyting átti sér stað á hvítasunnu árið 33 og hverjir tilheyrðu nýrri þjóð Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

 Á HVÍTASUNNU árið 33 urðu þáttaskil í sögu þjóna Jehóva á jörð. Þann dag átti sér stað róttæk breyting. Jehóva beitti anda sínum til að mynda nýja andlega Ísraelsþjóð sem kallaðist „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) Í fyrsta sinn síðan á dögum Abrahams þurftu þjónar Guðs ekki að umskerast. Páll sagði öllu heldur um þá sem tilheyrðu þessari nýju þjóð: „Umskorinn er sá sem er það í hjarta sínu, í hlýðni við andann.“ – Rómv. 2:29.

2 Þeir fyrstu, sem tilheyrðu nýrri þjóð Guðs, voru postularnir og rúmlega hundrað aðrir lærisveinar Krists sem voru saman komnir í loftstofu í Jerúsalem. (Post. 1:12-15) Guð úthellti heilögum anda yfir þá og þeir urðu andagetnir synir hans. (Rómv. 8:15, 16; 2. Kor. 1:21) Það sannaði að nýi sáttmálinn hafði tekið gildi en Kristur var meðalgangari hans og fullgilti hann með blóði sínu. (Lúk. 22:20; lestu Hebreabréfið 9:15.) Þessir lærisveinar tilheyrðu nú nýrri þjóð Jehóva. Heilagur andi gerði þeim kleift að boða fagnaðarerindið á tungumálum Gyðinga og trúskiptinga sem höfðu komið til Jerúsalem alls staðar að úr Rómaveldi til að halda hvítasunnuhátíð Gyðinga, viknahátíðina. Þetta fólk heyrði talað um „stórmerki Guðs“ á sínu eigin tungumáli og skildi boðskapinn. – Post. 2:1-11.

NÝ ÞJÓÐ GUÐS

3-5. (a) Hvað sagði Pétur Gyðingum á hvítasunnu? (b) Hvernig fjölgaði nýrri þjóð Jehóva fyrstu árin?

3 Jehóva fékk Pétri postula það verkefni að bjóða Gyðingum og trúskiptingum að tilheyra þessari nýju þjóð, kristna söfnuðinum. Pétur sagði Gyðingum djarfmannlega á hvítasunnu að Guð hefði gert manninn, sem þeir tóku af lífi, „bæði að Drottni og Kristi“ og þeir yrðu því að viðurkenna hann. Þegar fólkið spurði hvað það ætti að gera svaraði Pétur: „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.“ (Post. 2:22, 23, 36-38) Þann dag bættust um 3.000 manns við hina nýju andlegu Ísraelsþjóð. (Post. 2:41) Postularnir héldu áfram að boða fagnaðarerindið af kappi og það bar mikinn ávöxt. (Post. 6:7) Nýju þjóðinni fjölgaði.

4 Síðar tóku lærisveinar Jesú að boða Samverjum fagnaðarerindið með góðum árangri. Filippus trúboði skírði marga en þeir fengu ekki heilagan anda þegar í stað. Hið stjórnandi ráð í Jerúsalem sendi postulana Pétur og Jóhannes til þessara Samverja, þeir „lögðu ... hendur yfir þá og fengu þeir heilagan anda“. (Post. 8:5, 6, 14-17) Samverjarnir, sem höfðu tekið trú, voru nú andasmurðir og tilheyrðu hinum andlega Ísrael.

Pétur boðaði Kornelíusi og heimafólki hans fagnaðarerindið. (Sjá 5. grein.)

5 Árið 36 fékk Pétur aftur það verkefni að bjóða öðrum aðgang að nýju andlegu Ísraelsþjóðinni. Það gerðist þegar hann boðaði rómverska hundraðshöfðingjanum Kornelíusi fagnaðarerindið ásamt ættingjum hans og vinum. (Post. 10:22, 24, 34, 35) Í Biblíunni segir: „Meðan Pétur var enn að mæla ... kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu [þá sem voru ekki Gyðingar]. Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir að Guð hefði einnig gefið heiðingjunum heilagan anda.“ (Post. 10:44, 45) Þaðan í frá gat fólk af öðrum þjóðum orðið andlegir Ísraelsmenn þótt það væri ekki umskorið.

,LÝÐUR SEM BER NAFN HANS‘

6, 7. Á hvaða hátt átti nýja þjóðin að vera ,lýður sem bar nafn Jehóva‘ og í hvaða mæli gerði hún það?

6 Á fundi hins stjórnandi ráðs kristna safnaðarins árið 49 sagði lærisveinninn Jakob: „Símon [Pétur] hefur skýrt frá hvernig Guð sá til þess í fyrstu að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða er bæri nafn hans.“ (Post. 15:14) Þessi ,lýður, sem bar nafn Jehóva,‘ var bæði Gyðingar og fólk af öðrum þjóðum. (Rómv. 11:25, 26a) Síðar skrifaði Pétur: „Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin ,Guðs lýður‘.“ Hann lýsti hlutverki þeirra þannig: „Þið eruð ,útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pét. 2:9, 10) Þeir áttu að vera hugrakkir vottar Jehóva, lofa hann og kunngera vítt og breitt sem Drottin alheims.

7 Jehóva sagði hið sama um hina nýju andlegu Ísraelsþjóð og hann hafði sagt um Ísraelsmenn áður: „Þjóðin, sem ég myndaði handa mér, mun flytja lofgjörð um mig.“ (Jes. 43:21) Frumkristnir menn afhjúpuðu alla falsguðina sem voru dýrkaðir á þeim tíma og boðuðu djarfmannlega að Jehóva væri hinn eini sanni Guð. (1. Þess. 1:9) Þeir vitnuðu um Jehóva og Jesú „í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar“. – Post. 1:8; Kól. 1:23.

8. Við hverju varaði Páll postuli þjóð Guðs á fyrstu öld?

8 Páll postuli var hugrakkur vottur Jehóva. Hann varði Jehóva djarfmannlega sem hinn eina sanna Guð frammi fyrir hópi heiðinna heimspekinga. Hann talaði um „Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar“. (Post. 17:18, 23-25) Undir lok þriðju trúboðsferðarinnar varaði Páll við fráhvarfi og sagði við þá sem báru nafn Jehóva: „Ég veit að skæðir vargar munu koma inn á ykkur þegar ég er farinn og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra ykkar munu koma menn sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Post. 20:29, 30) Þetta fráhvarf var komið greinilega fram undir lok fyrstu aldar. – 1. Jóh. 2:18, 19.

9. Hvað varð um þjóð Guðs eftir að postularnir dóu?

9 Fráhvarfið komst á fullan skrið eftir að postularnir voru dánir, og kirkjudeildir kristna heimsins fóru að taka á sig mynd. Falskristnir menn hafa ekki reynst vera ,lýður sem ber nafn Jehóva‘ heldur hafa þeir jafnvel fjarlægt nafnið úr mörgum biblíuþýðingum sínum. Þeir hafa tekið upp heiðna helgisiði og vanvirt Guð með óbiblíulegum kennisetningum, „heilögum styrjöldum“ og siðlausu hátterni. Öldum saman voru trúir tilbiðjendur Jehóva ósköp fáir og mynduðu ekki skipulegan hóp sem bar nafn hans.

ÞJÓÐ GUÐS ENDURFÆÐIST

10, 11. (a) Hverju spáði Jesús í dæmisögunni um hveitið og illgresið? (b) Hvernig rættist dæmisaga Jesú eftir 1914?

10 Í dæmisögunni um hveitið og illgresið sagði Jesús að fráhvarfið hefði þau áhrif að það skylli á niðdimm nótt í andlegum skilningi. „Er menn voru í svefni“, sagði hann, myndi djöfullinn sá illgresi meðal hveitisins sem Mannssonurinn hafði sáð í akurinn. Hvort tveggja myndi vaxa saman fram að ,endi veraldar‘. Jesús sagði að „góða sæðið“ táknaði „börn ríkisins en illgresið börn hins vonda“. Á tíma endalokanna myndi Mannssonurinn senda ,kornskurðarmennina‘, það er að segja englana, til að aðskilja hið táknræna hveiti frá illgresinu. Börnum ríkisins yrði safnað saman. (Matt. 13:24-30, 36-43) Hvernig gerðist þetta og hvernig gerir það Jehóva kleift að eiga sér skipulegan hóp dýrkenda á jörð?

11 Tímabilið, sem kallast „endir veraldar“, hófst árið 1914. Á þeim tíma voru hinir andasmurðu, „börn ríkisins“, aðeins nokkur þúsund talsins. Í stríðinu, sem braust út það ár, voru þeir enn í ánauð Babýlonar hinnar miklu. Jehóva frelsaði þá árið 1919 og gerði skýran greinarmun á þeim og „illgresinu“, það er að segja falskristnum mönnum. Hann safnaði ,börnum ríkisins‘ saman og gerði þau að skipulegum söfnuði í samræmi við spádóm Jesaja: „Fæðist land á einum degi, þjóð í einni andrá? Óðar en Síon fékk hríðir fæddi hún syni sína.“ (Jes. 66:8) Síon táknar hér englasöfnuð Jehóva, og hún ,fæddi‘ andagetin börn sín og gerði þau að þjóð.

12. Hvernig hafa hinir andasmurðu reynst vera ,lýður sem ber nafn Jehóva‘ nú á tímum?

12 Líkt og frumkristnir menn áttu hin andasmurðu „börn ríkisins“ að vera vottar Jehóva. (Lestu Jesaja 43:1, 10, 11.) Þeir myndu skera sig úr fjöldanum með góðri breytni sem kristnir menn og með því að boða „fagnaðarerindið um ríkið ... til þess að allar þjóðir fái að heyra það“. (Matt. 24:14; Fil. 2:15) Með þessum hætti hafa þeir hjálpað milljónum manna að eignast náið samband við Jehóva. – Lestu Daníel 12:3.

„VIÐ VILJUM FARA MEÐ YKKUR“

13, 14. Hvað þurfa þeir sem eru ekki andlegir Ísraelsmenn að gera til að tilbiðja Jehóva á velþóknanlegan hátt, og hvernig var því spáð í Biblíunni?

13 Í greininni á undan kom fram að útlendingar gátu tilbeðið Jehóva á velþóknanlegan hátt í Ísrael til forna. En þeir urðu að gera það með þjóð hans. (1. Konungabók 8:41-43) Þeir sem eru ekki andlegir Ísraelsmenn nú á dögum verða einnig að tilbiðja Jehóva ásamt ,börnum ríkisins‘, það er að segja andasmurðum vottum hans.

14 Tveir spámenn til forna boðuðu að fólk myndi koma hópum saman til að tilbiðja Jehóva með þjóð hans á tíma endalokanna. Jesaja spáði: „Margir lýðir koma og segja: ,Komið, göngum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs svo að hann vísi oss vegu sína og vér getum gengið brautir hans.‘ Því að fyrirmæli koma frá Síon, orð Drottins frá Jerúsalem.“ (Jes. 2:2, 3) Sakaría spámaður boðaði líka að „margir ættflokkar og voldugar þjóðir [myndu] koma til þess að leita Drottins allsherjar í Jerúsalem og blíðka hann“. Hann kallaði þá „tíu menn af öllum þjóðtungum“ og sagði að þeir myndu táknrænt séð grípa í kyrtilfald andlegra Ísraelsmanna og segja: „Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“ – Sak. 8:20-23.

15. Hvað merkir það að aðrir sauðir ,fari með‘ andlegum Ísraelsmönnum?

15 ,Aðrir sauðir‘ „fara með“ andlegum Ísraelsmönnum með því að boða fagnaðarerindið um ríkið. (Mark. 13:10) Þeir verða hluti af þjóð Guðs og ásamt hinum andasmurðu eru þeir „ein hjörð“ sem „góði hirðirinn“ gætir. – Lestu Jóhannes 10:14-16.

NJÓTTU VERNDAR MEÐ ÞJÓÐ GUÐS

16. Hvað gerir Jehóva sem hrindir af stað síðasta þætti ,þrengingarinnar miklu‘?

16 Eftir að Babýlon hinni miklu er eytt verður þjóð Jehóva fyrir allsherjarárás. Þá þurfum við að fá vernd hans til að bjargast. Þessi árás hrindir af stað síðasta þætti ,þrengingarinnar miklu‘ þannig að Jehóva heldur sjálfur um taumana og ákveður hvenær þetta lokauppgjör fer fram. (Matt. 24:21; Esek. 38:2-4) Á þeim tíma ræðst Góg á fólk „sem hefur verið safnað saman frá framandi þjóðum“, það er að segja þjóna sína. (Esek. 38:10-12) Árásin verður til þess að Jehóva fullnægir dómi yfir Góg og herjum hans. Jehóva sýnir fram á drottinvald sitt og helgar nafn sitt því að hann segir: „Þannig mun ég ... gera mig kunnan í augsýn margra þjóða. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.“ – Esek. 38:18-23.

Við þurfum að halda nánum tengslum við söfnuðinn okkar í ,þrengingunni miklu‘. (Sjá 16.-18. grein.)

17, 18. (a) Hvaða fyrirmæli fá þjónar Jehóva þegar Góg gerir árás? (b) Hvað þurfum við að gera ef við viljum njóta verndar Jehóva?

17 Þegar árás Gógs hefst segir Jehóva þjónum sínum: „Gakktu, þjóð mín, inn í herbergi þín og læstu dyrum á eftir þér, feldu þig skamma hríð uns reiðin er liðin hjá.“ (Jes. 26:20) Á þessari úrslitastund gefur Jehóva okkur lífsnauðsynleg fyrirmæli og vel má vera að ,herbergin‘ tengist söfnuðunum okkar.

18 Ef við viljum njóta verndar Jehóva í þrengingunni miklu verðum við að viðurkenna að Jehóva á sér þjóð á jörð sem er skipað niður í söfnuði. Við verðum að standa ákveðin með þjóð Guðs og halda nánu sambandi við söfnuðinn okkar. Við skulum taka undir með sálmaskáldinu af öllu hjarta og syngja: „Hjálpin kemur frá Drottni. Blessun þín komi yfir lýð þinn.“ – Sálm. 3:9.