Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætlar þú að halda vöku þinni?

Ætlar þú að halda vöku þinni?

„Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ – MATT. 25:13.

1, 2. (a) Hvað opinberaði Jesús um síðustu daga? (b) Hvaða spurningar ætlum við að taka fyrir?

 ÞAÐ hefur eflaust verið ógleymanleg lífsreynsla að sitja uppi á Olíufjallinu og horfa yfir musterið í Jerúsalem þegar Jesús flutti einn merkasta spádóm sinn. Hann átti alla athygli Péturs, Andrésar, Jakobs og Jóhannesar þegar hann sagði fyrir atburði óralangt fram í tímann. Hann sagði þeim margt um síðustu daga þessa illa heims þegar hann tæki völd sem konungur Guðsríkis. Á þessum sérstöku tímum myndi ,trúr og hygginn þjónn‘ vera fulltrúi hans á jörð og veita þjónum hans mat á réttum tíma. – Matt. 24:45-47.

2 Í framhaldinu segir Jesús dæmisöguna um meyjarnar tíu en hún er hluti af þessum sama spádómi. (Lestu Matteus 25:1-13.) Skoðum nú eftirfarandi spurningar: (1) Hver er meginboðskapur dæmisögunnar? (2) Hvernig hafa trúir andasmurðir þjónar Guðs farið eftir ráðunum í dæmisögunni og með hvaða árangri? (3) Hvaða gagn getum við öll haft af dæmisögu Jesú?

HVER ER BOÐSKAPUR DÆMISÖGUNNAR?

3. Hvernig hafa ritin okkar áður útskýrt dæmisöguna um meyjarnar tíu og til hvers hefur það ef til vill leitt?

3 Í síðustu grein kom fram að trúi þjónninn hefur á undanförnum árum lagt æ minni áherslu á spádómlegar fyrirmyndir í frásögum Biblíunnar og í staðinn bent á hvaða lærdóma við getum dregið af þeim. Áður var stundum lögð táknræn merking jafnvel í smæstu atriðin í dæmisögu Jesú um meyjarnar tíu, þar á meðal lampana, olíuna, könnurnar og svo framvegis. Getur verið að þessar skýringar hafi dregið athyglina frá einföldum og áríðandi boðskap dæmisögunnar? Svarið skiptir miklu máli eins og við eigum eftir að sjá.

4. Hvernig getum við vitað (a) hvern brúðguminn táknar? (b) hverja meyjarnar tákna?

4 Lítum á meginboðskapinn í dæmisögu Jesú. Könnum fyrst hverjar aðalpersónurnar eru. Hver er brúðguminn? Jesús átti greinilega við sjálfan sig. Við annað tækifæri talar hann beinlínis um sig sem brúðgumann. (Lúk. 5:34, 35) En meyjarnar? Í dæmisögunni segir Jesús að meyjarnar eigi að vera tilbúnar og hafa kveikt á lömpunum þegar brúðguminn kemur. Taktu eftir að Jesús gaf ,lítilli hjörð‘ andasmurðra fylgjenda sinna svipuð fyrirmæli: „Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga og verið líkir þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi.“ (Lúk. 12:32, 35, 36) Auk þess var bæði Páli postula og Jóhannesi postula innblásið að líkja smurðum fylgjendum Krists við hreinar meyjar. (2. Kor. 11:2; Opinb. 14:4) Það er því ljóst að Jesús hugsaði dæmisöguna í Matteusi 25:1-13 sem ráðleggingu og viðvörun til andasmurðra fylgjenda sinna.

5. Til hvaða tíma vísar dæmisagan og hvernig gaf Jesús það til kynna?

5 Lítum næst á tímasetninguna. Við hvaða tímabil áttu ráðleggingarnar í dæmisögunni um meyjarnar? Jesús gefur okkur góða vísbendingu um það undir lok hennar. Þar segir að ,brúðguminn hafi komið‘. (Matt. 25:10) Í Varðturninum 15. júlí 2013 var bent á að í spádóminum í 24. og 25. kafla Matteusar nefni Jesús „komu“ sína átta sinnum. Í hvert sinn er notað sama gríska orðið. Í öllum tilfellum var Jesús að tala um þann tíma í þrengingunni miklu þegar hann kæmi til að dæma og eyða þessu illa heimskerfi. Dæmisagan vísar því augljóslega til hinna síðustu daga en hún nær hámarki í þrengingunni miklu.

6. Hver er meginboðskapur dæmisögunnar í ljósi samhengisins?

6 Hver er meginboðskapur dæmisögunnar? Munum eftir samhenginu. Jesús var nýbúinn að ræða um ,trúan og hygginn þjón‘ sinn. Þessi þjónn átti að vera lítill hópur andasmurðra manna sem tæki forystuna meðal fylgjenda Krists á síðustu dögum. Jesús lagði áherslu á að þessir menn yrðu að vera trúir. Síðan segir hann þessa dæmisögu en talar þá til allra andasmurðra fylgjenda sinna á síðustu dögum. Hann brýnir fyrir þeim að vaka svo að þeir fari ekki á mis við himnesk laun sín. (Matt. 25:13) Rennum nú yfir dæmisöguna og athugum hvernig hinir andasmurðu hafa farið eftir ráðleggingum Jesú.

HVERNIG HAFA HINIR ANDASMURÐU FYLGT RÁÐUNUM Í DÆMISÖGUNNI?

7, 8. (a) Hvers vegna voru hyggnu meyjarnar tilbúnar? (b) Hvernig sýna hinir andasmurðu að þeir séu undirbúnir?

7 Í dæmisögunni kemur fram að hyggnu meyjarnar hafi verið tilbúnar þegar brúðguminn kom, ólíkt þeim fávísu. Hvers vegna? Þær voru undirbúnar og árvakrar. Meyjarnar áttu að vaka fram á nótt og bíða eftir brúðgumanum. Þær máttu ekki láta slokkna á lömpunum. Þær þurftu að halda sér vakandi þessar löngu klukkustundir þangað til brúðguminn kæmi. Fimm þeirra voru vel undirbúnar og höfðu tekið með sér olíu á könnum ásamt lömpum sínum, ólíkt þeim fávísu. Hafa trúir andasmurðir þjónar Guðs búið sig undir komu Krists líkt og hyggnu meyjarnar?

8 Já, svo sannarlega. Andasmurðir kristnir menn hafa vakað eins og hyggnu meyjarnar og verið undir það búnir að sinna verki sínu þar til endirinn kemur. Þeir hafa reiknað kostnaðinn og átta sig á að til að þjóna Guði heilshugar þurfi þeir að neita sér um ýmis gæði sem heimur Satans býður upp á. Þeir helga sig Jehóva og þjóna honum af því að þeir elska hann og son hans en ekki vegna þess að endirinn er nærri. Þeir eru trúfastir og láta ekki undan anda þessa illa heims, efnishyggju hans, siðleysi og eigingirni. Þeir eru tilbúnir eins og hyggnu meyjarnar, skína skært og bíða þolinmóðir eftir brúðgumanum, jafnvel þótt hann virðist ætla að tefjast. – Fil. 2:15.

9. (a) Hvernig varaði Jesús við hættunni að verða syfjaður og sofna? (b) Hvernig hafa hinir andasmurðu brugðist við hrópinu: „Brúðguminn kemur“? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

9 Hyggnu meyjarnar voru líka tilbúnar þegar brúðguminn kom vegna þess að þær voru árvakrar. Gæti það gerst að andasmurðir einstaklingar færu að dotta á þessari löngu næturvöku? Vissulega. Tökum eftir að Jesús segir að meyjarnar hafi allar orðið ,syfjaðar og sofnað‘ þegar brúðgumanum virtist seinka. Jesús vissi vel að ófullkomleikinn getur tálmað öllum, jafnvel þeim sem eru fúsir og brennandi í andanum. Trúir andasmurðir þjónar Guðs hafa tekið þessa viðvörun alvarlega og lagt sig alla fram um að halda vöku sinni. Í dæmisögunni brugðust allar meyjarnar skjótt við þegar hrópað var um miðnætti: „Brúðguminn kemur.“ En það voru bara hyggnu meyjarnar sem héldu út allt til enda. (Matt. 25:5, 6; 26:41) Á síðustu dögum hafa trúir andasmurðir þjónar Guðs hlustað á kallið: „Brúðguminn kemur.“ Þeir sjá skýr merki þess að Jesús er að koma og eru tilbúnir að taka á móti honum. * En dæmisagan nær hámarki undir lokin þegar athyglinni er beint að mjög sérstökum tíma.

HYGGNU MEYJUNUM LAUNAÐ EN ÞEIM FÁVÍSU REFSAÐ

10. Hvaða spurningu vekja orðaskipti hyggnu meyjanna og hinna fávísu?

10 Mesta ráðgátan í dæmisögunni er eflaust orðaskipti fávísu meyjanna og hinna hyggnu í lokin. (Lestu Matteus 25:8, 9.) Þetta samtal vekur upp spurningu: Hvenær hafa trúir þjónar Guðs neitað að hjálpa þeim sem hafa beðið um aðstoð? Til að fá svar við því þurfum við að hugsa um tímasetninguna. Eins og við skiljum það núna kemur Jesús, brúðguminn, til að fella dóm undir lok þrengingarinnar miklu. Það er því líklegt að þessi hluti dæmisögunnar fjalli um það sem gerist rétt áður en dómurinn fellur í þrengingunni miklu. Hvers vegna drögum við þá ályktun? Vegna þess að þá hafa hinir andasmurðu fengið lokainnsiglið.

11. (a) Hvað gerist stuttu fyrir þrenginguna miklu? (b) Hvað eiga hyggnu meyjarnar við þegar þær segja hinum fávísu að fara og kaupa sér olíu?

11 Áður en þrengingin mikla hefst hafa því allir trúir andasmurðir þjónar Guðs á jörð fengið lokainnsigli. (Opinb. 7:1-4) Þaðan í frá er tryggt að þeir fari til himna. En hugsum aðeins um tímann áður en þrengingin hefst. Hvað verður um hina andasmurðu ef þeir halda ekki vöku sinni og reynast ekki trúir? Þeir fá þá ekki að fara til himna því að þeir hljóta ekki lokainnsigli fyrir þrenginguna. Áður en hún skellur á hafa aðrir þjónar Guðs fengið andasmurningu í stað þeirra. Þessum fávísu þjónum gæti brugðið illilega þegar þeir sjá Babýlon hina miklu eyðast við upphaf þrengingarinnar. Ef til vill verður það ekki fyrr en þá sem þeir átta sig á að þeir eru ekki viðbúnir því að brúðguminn komi. Hvað gerist ef þeir biðja í örvæntingu um aðstoð á þessari stundu? Því er svarað í dæmisögu Jesú. Hyggnu meyjarnar neita hinum fávísu um olíu og segja þeim að fara og kaupa sér hana. En munum að þetta gerist um miðja nótt. Geta þær fundið kaupmenn sem selja olíu á þessum tíma sólarhrings? Nei. Það er orðið of seint.

12. (a) Hvað gerist í þrengingunni miklu hjá þeim sem voru eitt sinn andasmurðir en reynast ótrúir áður en lokainnsiglið er veitt? (b) Hvaða endalok bíða þeirra sem líkjast fávísu meyjunum?

12 Í þrengingunni miklu geta trúir andasmurðir þjónar Guðs ekki heldur aðstoðað þá sem hafa reynst ótrúir. Það er enga hjálp að fá. Það er einfaldlega um seinan. Við hverju mega þeir þá búast? Jesús segir hvað gerist þegar fávísu meyjarnar fara burt til að reyna að kaupa olíu. Þá „kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað“. Þegar Kristur kemur í dýrð sinni undir lok þrengingarinnar kallar hann hina andasmurðu til himna. (Matt. 24:31; 25:10; Jóh. 14:1-3; 1. Þess. 4:17) Dyrunum verður lokað þannig að hinir ótrúu, sem líkjast fávísu meyjunum, komast ekki inn. Þeir eiga ef til vill eftir að kalla: „Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.“ En svarið sem þeir fá er það sama og hafrarnir í annarri dæmisögu fá á þessari sömu dómsstund: „Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“ Þetta eru dapurleg endalok. – Matt. 7:21-23; 25:11, 12.

13. (a) Hvers vegna ættum við ekki að álykta að margir hinna andasmurðu reynist ótrúir? (b) Hvernig sýnir dæmisagan um meyjarnar að Jesús ber traust til hinna andasmurðu? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

13 Hvaða ályktun getum við dregið í ljósi þessa? Átti Jesús við að margir andasmurðir þjónar hans yrðu ótrúir og það þyrfti að velja aðra í staðinn? Nei. Munum að hann var nýbúinn að vara trúa og hyggna þjóninn við að verða illur þjónn. Það þýðir ekki að hann hafi búist við að það færi þannig. Í þessari dæmisögu er einnig sterk viðvörun. Allir andasmurðir þjónar Guðs geta valið að vera annaðhvort viðbúnir og vökulir eða fávísir og ótrúir, rétt eins og meyjarnar sem voru sumar hyggnar en sumar fávísar. Páli postula var innblásið að veita andasmurðum trúsystkinum sínum svipaða viðvörun. (Lestu Hebreabréfið 6:4-9; samanber 5. Mósebók 30:19.) Viðvörun Páls er umbúðalaus en hann lét samt í ljós að hann treysti að bræður hans og systur myndu reynast trú og hljóta launin. Dæmisagan um meyjarnar sýnir að Jesús ber sams konar traust til hinna andasmurðu. Hann veit að þeir geta allir verið trúir og hlotið dýrmæt laun sín á himnum.

HVERNIG ER DÆMISAGAN ,ÖÐRUM SAUÐUM‘ TIL GÓÐS?

14. Hvers vegna geta ,aðrir sauðir‘ haft gagn af dæmisögunni um meyjarnar tíu?

14 Jesús beindi dæmisögunni um meyjarnar tíu til andasmurðra fylgjenda sinna. Á hún þá ekkert erindi til ,annarra sauða‘ Krists? (Jóh. 10:16) Jú, auðvitað. Boðskapur dæmisögunnar er einfaldur: „Vakið.“ Á það bara við hina andasmurðu? Jesús sagði eitt sinn: „Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Mark. 13:37) Jesús ætlast til að allir fylgjendur sínir séu viðbúnir og haldi vöku sinni. Allir kristnir menn reyna að líkja eftir hinum andasmurðu og láta þjónustuna við Guð ganga fyrir öðru í lífinu. Hugsum líka um það að fávísu meyjarnar báðu hinar hyggnu um að gefa sér olíu. Þessi beiðni þeirra minnir á að það er undir sjálfum okkur komið að vera Guði trú, vera viðbúin og halda vöku okkar. Enginn getur gert það fyrir okkur. Við eigum hvert og eitt eftir að standa frammi fyrir hinum réttláta dómara sem Jehóva hefur skipað. Við þurfum að vera tilbúin því að hann kemur fyrr en varir.

Beiðnin um olíu minnir á að það er undir sjálfum okkur komið að vera trúföst og halda vöku okkar.

15. Hvers vegna eru allir sannkristnir menn spenntir fyrir brúðkaupi Krists og brúðar hans?

15 Allir fylgjendur Krists eru líka spenntir fyrir mikilvægasta atburðinum í dæmisögu hans. Hver hlakkar ekki til þessa brúðkaups? Hinir andasmurðu verða komnir til himna og eftir Harmagedónstríðið verða þeir brúður Krists. (Opinb. 19:7-9) Þeir sem eru á jörðinni þá njóta góðs af þessu himneska brúðkaupi því að það tryggir að allir fái að búa undir fullkominni stjórn. Við ættum því að vera staðráðin í að draga lærdóm af dæmisögu Krists um meyjarnar tíu, hvort heldur við höfum himneska von eða jarðneska. Verum viðbúin í hjörtum okkar, verum trúföst og höldum vöku okkar svo að við getum notið þeirrar dásamlegu framtíðar sem Jehóva býður okkur.

^ Í dæmisögunni líður ákveðinn tími milli þess að hrópað er: „Brúðguminn kemur,“ (6. vers) og þess að hann sé kominn (10. vers). Á síðustu dögum hafa árvakrir andasmurðir þjónar Guðs séð og skilið táknið um nærveru Krists. Þeir vita því að hann er nærverandi sem konungur í ríki Guðs. En þeir þurfa að leggja sig alla fram til að halda út þar til hann kemur.