Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Styðjum bræður Krists dyggilega

Styðjum bræður Krists dyggilega

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ – MATT. 25:40.

1, 2. (a) Hvaða dæmisögur sagði Jesús nánum félögum sínum? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað þurfum við að vita í sambandi við dæmisöguna um sauðina og hafrana?

 JESÚS er að tala við nána félaga sína, þá Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes. Hann er nýbúinn að segja þeim dæmisögurnar um trúa og hyggna þjóninn, meyjarnar tíu og talenturnar. Hann lýkur umræðunni með því að segja þeim eina dæmisögu til viðbótar. Hann talar um þann tíma þegar „Mannssonurinn“ dæmir „allar þjóðir“. Lærisveinunum hlýtur að hafa þótt spennandi að heyra dæmisöguna. Jesús beinir fyrst athyglinni að tveim hópum. Annar er kallaður sauðir en hinn hafrar. Síðan nefnir Jesús mikilvægan hóp sem hann kallar ,bræður konungsins‘. – Lestu Matteus 25:31-46.

2 Þjónum Jehóva hefur lengi þótt þessi dæmisaga forvitnileg. Það er skiljanlegt því að Jesús lýsir þar örlögum fólks. Hann bendir á hvers vegna sumir hljóti eilíft líf en aðrir deyi endanlega. Líf okkar er undir því komið að við skiljum það sem Jesús var að lýsa og förum eftir því. Þar sem svona mikið er í húfi ættum við að spyrja okkur hvernig Jehóva hafi jafnt og þétt gefið okkur gleggri skilning á þessari dæmisögu. Hvers vegna getum við fullyrt að hún leggi áherslu á mikilvægi þess að boða fagnaðarerindið? Hverjir fá það verkefni að boða boðskapinn? Og hvers vegna er mikilvægt núna að styðja ,konunginn‘ dyggilega og þá sem hann kallar ,bræður sína‘?

HVERNIG HÖFUM VIÐ FENGIÐ GLEGGRI SKILNING Á DÆMISÖGUNNI?

3, 4. (a) Hvaða meginatriðum þurfum við að átta okkur á til að skilja dæmisöguna um sauðina og hafrana? (b) Hvernig var dæmisagan útskýrð í Varðturni Síonar árið 1881?

3 Til að skilja dæmisöguna um sauðina og hafrana þurfum við að átta okkur á þrem meginatriðum: Hverja er verið að tala um, hvenær dómurinn á sér stað og hvers vegna fólk er flokkað sem sauðir eða hafrar.

4 Árið 1881 kom fram í Varðturni Síonar að Jesús væri „Mannssonurinn“ sem er einnig kallaður „konungurinn“. Biblíunemendurnir á þeim tíma skildu það svo að ,bræður‘ konungsins væru bæði þeir sem ættu að ríkja með Kristi og allt mannkyn á jörð eftir að það væri orðið fullkomið. Þeir töldu að sauðirnir og hafrarnir yrðu aðskildir í þúsundáraríki Krists. Og þeir trúðu að fólk yrði flokkað sem sauðir vegna þess að það lifði eftir kærleikslögmáli Guðs.

5. Hvernig skildu þjónar Guðs dæmisöguna betur upp úr 1920?

5 Upp úr 1920 hjálpaði Jehóva þjónum sínum að skilja þessa dæmisögu betur. Í Varðturninum 15. október 1923 var ítrekað að „Mannssonurinn“ væri Jesús. En hverjir voru taldir vera bræður Krists? Færð voru haldgóð biblíuleg rök fyrir því að það væru aðeins þeir sem ríktu með honum á himnum. Sauðirnir væru hins vegar þeir sem vonuðust eftir að fá að lifa á jörð undir stjórn ríkisins í höndum Krists. Hvenær átti þá að aðgreina sauðina og hafrana? Í greininni sagði að bræður Krists myndu ríkja með honum á himnum í þúsundáraríkinu. Hópur manna á jörð gæti því hvorki liðsinnt þeim né vanrækt þá þegar þar að kæmi. Þess vegna hlytu sauðirnir og hafrarnir að verða aðskildir áður en þúsundáraríkið gengi í garð. Hvers vegna fengju menn þann dóm að teljast sauðir? Í greininni sagði að það yrði vegna þess að fólk viðurkenndi Jesú sem Drottin sinn og treysti að ríki Guðs kæmi á betra ástandi í heiminum.

6. Hvaða gleggri skilning fengum við rétt fyrir síðustu aldamót?

6 Með þennan skilning að leiðarljósi töldu þjónar Jehóva að verið væri að dæma fólk sauði eða hafra allan endalokatíma þessa heims. Viðbrögð þess við fagnaðarerindinu réðu því í hvorn flokkinn það félli. En rétt fyrir síðustu aldamót fengum við gleggri skilning á málinu. Í tveim greinum í Varðturninum 1. febrúar 1996 var bent á að margt væri líkt með orðum Jesú í Matteusi 24:29-31 (lestu) og Matteusi 25:31, 32 (lestu). * Hver var þá niðurstaðan? Í fyrri greininni sagði: „Þessi skilningur á dæmisögunni um sauðina og hafrana er þá sá að dómurinn yfir þeim verði felldur síðar.“ Hvenær þá? „Það á sér stað eftir að ,þrengingin,‘ sem nefnd er í Matteusi 24:29, 30, skellur á og Mannssonurinn ,kemur í dýrð sinni.‘ ... Þegar endalokin blasa við hinu illa heimskerfi í heild, þá réttar Jesús, fellir dóm og fullnægir honum.“

7. Hvaða skýra skilning höfum við núna á dæmisögunni?

7 Núna höfum við skýran skilning á dæmisögunni um sauðina og hafrana. Hverja tákna sögupersónurnar? Jesús er „Mannssonurinn“ og konungurinn. ,Bræður‘ konungsins eru andasmurðir karlar og konur sem eiga að ríkja með Kristi á himnum. (Rómv. 8:16, 17) ,Sauðirnir og hafrarnir‘ eru einstaklingar af öllum þjóðum. Þeir eru ekki smurðir heilögum anda. Hvenær fer dómurinn fram? Hann er felldur undir lok þrengingarinnar miklu sem er rétt fram undan. Og hvers vegna verður fólk dæmt annaðhvort sauðir eða hafrar? Það ræðst af því hvernig það hefur komið fram við þá sem eru eftir af bræðrum Krists á jörð. Þessi heimur á stutt eftir. Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa varpað æ skýrara ljósi á þessa dæmisögu og skyldar dæmisögur sem er að finna í Matteusi kafla 24 og 25.

HVERNIG LEGGUR DÆMISAGAN ÁHERSLU Á BOÐUNINA?

8, 9. Hvers vegna eru sauðirnir kallaðir ,réttlátir‘?

8 Jesús minnist ekki beint á boðunina í dæmisögunni um sauðina og hafrana. Hvers vegna getum við þá sagt að hún leggi áherslu á mikilvægi þess að boða fagnaðarerindið?

9 Í fyrsta lagi skulum við hafa hugfast að Jesús kennir með dæmisögum. Hann er augljóslega ekki að tala um að aðskilja bókstaflega sauði og hafra. Hann er ekki heldur að gefa í skyn að hver og einn einasti, sem fær þann dóm að teljast sauður, þurfi bókstaflega að fæða, klæða og annast einhvern af bræðrum hans eða heimsækja í fangelsi. Hann er öllu heldur að lýsa hvernig táknrænir sauðir hans líta á bræður hans. Hann kallar sauðina ,réttláta‘ vegna þess að þeir vita að Kristur á sér hóp andasmurðra bræðra á jörð, og þeir styðja hina andasmurðu dyggilega á þeim erfiðu síðustu dögum sem við lifum. – Matt. 10:40-42; 25:40, 46; 2. Tím. 3:1-5.

10. Hvernig geta sauðirnir gert bræðrum Krists gott?

10 Í öðru lagi skulum við skoða orð Jesú í samhengi. Hann er að ræða um tákn þess að hann sé nærverandi og endalok þessa heims séu í nánd. (Matt. 24:3) Fyrr í ræðunni hafði Jesús sagt frá einum áberandi þætti þessa tákns – þeim að fagnaðarerindið um ríkið yrði „prédikað um alla heimsbyggðina“. (Matt. 24:14) Og rétt áður en hann talar um sauðina og hafrana segir hann dæmisöguna um talenturnar. Eins og fram kom í greininni á undan sagði hann þá dæmisögu til að leggja áherslu á að andasmurðir lærisveinar sínir, það er að segja ,bræður‘ hans, yrðu að boða fagnaðarerindið af kappi. En það eru fáir eftir af andasmurðum fylgjendum Jesú á jörð. Það er ekkert áhlaupaverk fyrir þá að boða ,öllum þjóðum‘ fagnaðarerindið áður en endirinn kemur. Dæmisagan um sauðina og hafrana sýnir að þeir fá hjálp. Ein helsta leiðin fyrir tilvonandi sauði Krists til að gera bræðrum hans gott er að styðja þá við boðunina. En hvernig veita þeir þennan stuðning? Er það aðeins með því að hughreysta hina andasmurðu og styðja þá fjárhagslega eða þarf meira til?

HVERJIR EIGA AÐ BOÐA FAGNAÐARERINDIÐ?

11. Hvaða spurning gæti vaknað og hvers vegna?

11 Langfæstir þeirra átta milljóna, sem fylgja Jesú núna, eru andasmurðir. Þeir hafa ekki fengið talenturnar sem Jesús fékk andasmurðum þjónum sínum. (Matt. 25:14-18) Sú spurning gæti því vaknað hvort fyrirmæli Jesú um að boða fagnaðarerindið nái til þeirra sem eru ekki smurðir heilögum anda. Við skulum líta á nokkur rök fyrir því að svo sé.

12. Hvað lærum við af orðum Jesú í Matteusi 28:19, 20?

12 Jesús sagði öllum lærisveinum sínum að boða fagnaðarerindið. Eftir að hann var reistur upp frá dauðum sagði hann fylgjendum sínum að gera fólk að lærisveinum og kenna því að halda „allt það“ sem hann hafði boðið þeim. Í því fólust meðal annars þau fyrirmæli að boða fagnaðarerindið. (Lestu Matteus 28:19, 20.) Þess vegna eiga allir lærisveinar Krists að boða boðskapinn, hvort sem þeir hafa þá von að ríkja á himnum eða lifa á jörð. – Post. 10:42.

13. Hvað má sjá af sýn sem Jóhannes sá og hvers vegna?

13 Af Opinberunarbókinni má sjá að bæði andasmurðir og aðrir myndu boða boðskapinn. Jesús lét Jóhannes sjá ,brúði‘ sína í sýn, það er að segja 144.000 andasmurða einstaklinga sem eiga að ríkja með honum á himnum, og býður fólki að ,fá ókeypis lífsins vatn‘. (Opinb. 14:1, 3; 22:17) Þetta vatn táknar það sem Jehóva gerir vegna lausnarfórnar Krists til að leysa mannkynið undan synd og dauða. (Matt. 20:28; Jóh. 3:16; 1. Jóh. 4:9, 10) Lausnargjaldið er þungamiðja boðskaparins sem við boðum. Hinir andasmurðu fara með forystuna í að fræða fólk um lausnargjaldið og hjálpa því að njóta góðs af því. (1. Kor. 1:23) En Jóhannes sér fleiri í sýninni og þeir tilheyra ekki þeim hópi sem myndar brúði Krists. Þeim er líka sagt að segja: „Kom þú!“ Þeir hlýða og bjóða öðrum að fá lífsins vatn. Þetta eru þeir sem eiga þá von að lifa á jörð. Þessi sýn ber greinilega með sér að það er skylda allra sem þiggja boðið og ,koma‘ að boða fagnaðarerindið.

14. Hvað er fólgið í því að hlýða ,lögmáli Krists‘?

14 Allir sem eru bundnir af ,lögmáli Krists‘ verða að boða fagnaðarerindið. (Gal. 6:2) Jehóva mismunar ekki fólki. Hann sagði til dæmis Ísraelsmönnum: „Sömu lög gilda fyrir þá sem fæddir eru í landinu og aðkomumanninn sem nýtur verndar á meðal ykkar.“ (2. Mós. 12:49; 3. Mós. 24:22) Kristnir menn eru ekki bundnir af Móselögunum. Hins vegar þurfum við öll að lúta ,lögmáli Krists‘, hvort sem við erum andasmurð eða ekki. Lögmál hans nær yfir allt sem hann kenndi. Ein helsta kenning Jesú er að fylgjendur hans eigi að sýna kærleika. (Jóh. 13:35; Jak. 2:8) Og ein helsta leiðin til að sýna að við elskum Guð, Krist og náungann er að boða fagnaðarerindið um ríkið. – Jóh. 15:10; Post. 1:8.

15. Hvers vegna getum við sagt að fyrirmæli Jesú nái til allra fylgjenda hans?

15 Það sem Jesús segir fámennum hópi getur átt við fleiri. Lítum á dæmi. Jesús gerði sáttmála um ríki við aðeins 11 lærisveina en sáttmálinn nær í rauninni til allra hinna 144.000. (Lúk. 22:29, 30; Opinb. 5:10; 7:4-8) Jesús sagði líka tiltölulega fámennum hópi fylgjenda sinna, það er að segja þeim sem hann birtist eftir að hann reis upp frá dauðum, að þeir ættu að boða fagnaðarerindið. (Post. 10:40-42; 1. Kor. 15:6) En allir trúir lærisveinar hans á fyrstu öld vissu að fyrirmælin náðu til þeirra hvers og eins, jafnvel þó að þeir hefðu ekki sjálfir heyrt Jesú gefa þau. (Post. 8:4; 1. Pét. 1:8) Jesús hefur ekki heldur talað beint til eins einasta af þeim átta milljónum sem boða fagnaðarerindið. Allir vita þó að þeim ber að trúa á Krist og láta trúna í ljós með því að segja frá honum. – Jak. 2:18.

NÚNA RÍÐUR Á AÐ VERA TRÚR

16-18. Hvernig geta tilvonandi sauðir stutt bræður Krists og hvers vegna ættu þeir að gera það núna?

16 Satan heyr stríð gegn þeim sem eru eftir af andasmurðum bræðrum Krists á jörð. Hann veit að hann hefur „nauman tíma“ og herðir árásir sínar eftir því sem á líður. (Opinb. 12:9, 12, 17) Hinir andasmurðu ganga í broddi fylkingar í mesta boðunarátaki sögunnar þrátt fyrir stanslausar prófraunir. Það leikur enginn vafi á að Jesús er með þeim og leiðbeinir þeim í verki. – Matt. 28:20.

17 Tilvonandi sauðum Krists fjölgar jafnt og þétt og þeir telja það heiður að mega styðja bræður hans, ekki aðeins við boðunina heldur einnig á aðra vegu. Þeir gefa til dæmis fjármuni og aðstoða við að reisa ríkissali, mótshallir og húsnæði fyrir deildarskrifstofur. Og þeir hlýða dyggilega þeim sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ felur að fara með forystuna. – Matt. 24:45-47; Hebr. 13:17.

Tilvonandi sauðir Krists styðja bræður hans á ýmsa vegu. (Sjá 17. grein.)

18 Áður en langt um líður sleppa englarnir lausum eyðingarvindum þrengingarinnar miklu. Það gerist eftir að allir bræður Krists, sem eru eftir á jörð, hafa fengið lokainnsigli. (Opinb. 7:1-3) Hinir andasmurðu verða teknir til himna áður en Harmagedón brestur á. (Matt. 13:41-43) Það er því áríðandi núna fyrir þá sem vonast eftir að kallast sauðir Krists að styðja bræður hans dyggilega.

^ Ítarlega umfjöllun um dæmisöguna er að finna í greinunum „Hvernig mun þér reiða af frammi fyrir dómstólnum?“ og „Hvaða framtíð bíður sauðanna og hafranna?“ í Varðturninum 1. febrúar 1996.