Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að giftast ,aðeins í Drottni‘ – er það enn þá raunhæft?

Að giftast ,aðeins í Drottni‘ – er það enn þá raunhæft?

„Mér tekst ekki að finna mér mann í söfnuðinum og ég óttast að ég verði ein í ellinni.“

„Sumir karlmenn í heiminum eru góðhjartaðir, elskulegir og hugulsamir. Þeir hafa ekkert á móti trú minni og mér finnst þeir áhugaverðari en sumir af bræðrunum.“

Sumir þjónar Guðs hafa sagt eitthvað þessu líkt. Þeir vita þó mætavel af ráðleggingu Páls postula að giftast ,aðeins í Drottni‘ – og það er ráð sem allir kristnir menn ættu að fara eftir. (1. Kor. 7:39, Biblían 1981) Hvers vegna heyrast þá stundum athugasemdir eins og hér að ofan?

AF HVERJU ERU SUMIR EFINS?

Sumir nefna kannski að einhleypar systur séu fleiri en einhleypir bræður og segja þá eitthvað í þessa veru. Sú er reyndar raunin í mörgum löndum. Svo dæmi sé tekið eru 57 einhleypar systur á móti 43 einhleypum bræðrum í Kóreu. Í Kólumbíu eru 66 prósent vottanna systur og 34 prósent bræður.

Það flækir málið sums staðar í heiminum að foreldrar, sem eru ekki í söfnuðinum, fara stundum fram á ríflegan heimanmund þannig að margir bræður telja sig ekki hafa efni á að giftast. Þar sem svona háttar til getur verið að systir efist um að hún eigi mikla möguleika á að finna sér mann „í Drottni“ og spyr sig hvort það sé raunhæft að hún geti gifst innan safnaðarins. *

MIKILVÆGT AÐ TREYSTA JEHÓVA

Ef hugsanir sem þessar hafa einhvern tíma leitað á þig máttu treysta að Jehóva skilur aðstæður þínar. Hann veit nákvæmlega hvernig þér líður. – 2. Kron. 6:29, 30.

Jehóva hefur samt sem áður gefið þau fyrirmæli í Biblíunni að þjónar sínir giftist aðeins í Drottni. Hvers vegna? Vegna þess að hann veit hvað er okkur fyrir bestu. Hann vill ekki aðeins hlífa þjónum sínum við þeim sársauka sem fylgir því að velja óskynsamlega leið í lífinu heldur vill hann líka að þeir séu hamingjusamir. Margir Gyðingar á dögum Nehemía giftust útlendingum sem tilbáðu ekki Jehóva. Nehemía minnti þá á hve illa Salómon fór að ráði sínu. Salómon „var elskaður af Guði sínum ... en hinar útlendu konur gátu leitt jafnvel hann til syndar“. (Neh. 13:23-26) Það er því af umhyggju fyrir okkur sem Guð segir okkur að giftast aðeins í Drottni. (Sálm. 19:8-11; Jes. 48:17, 18) Sannkristnir menn eru Guði þakklátir fyrir ást hans og umhyggju og treysta leiðbeiningum hans. Með því að hlýða honum sem stjórnanda sínum viðurkenna þeir að hann sé Drottinn alheims. – Orðskv. 1:5.

Þú vilt áreiðanlega ekki ,draga ok‘ með manneskju sem getur leitt þig burt frá Guði. (2. Kor. 6:14) Reynslan hefur sýnt að það er þjónum Guðs til verndar að hlýða fyrirmælum hans, og þeir sem gera það vita að þeir hafa tekið viturlega stefnu í lífinu. En sumir hafa valið aðra leið.

ENN ÞÁ RAUNHÆFT

Maggy * er systir í Ástralíu. Hún segir frá því sem gerðist þegar hún fór að vera með manni utan safnaðarins. „Ég sleppti oft samkomum bara til að vera með honum,“ segir hún. „Það hafði stórskaðleg áhrif á sambandið við Jehóva.“ Ratana býr á Indlandi. Hún varð hrifin af bekkjarfélaga sem fór að kynna sér Biblíuna. Þegar fram liðu stundir kom hins vegar í ljós að hann var bara að því til að vinna hug hennar. Það fór þannig að hún yfirgaf söfnuðinn og gekk í annað trúfélag til að geta gifst honum.

Ndenguè í Kamerún var 19 ára þegar hún giftist manni utan safnaðarins. Áður en þau giftust lofaði hann henni að hún mætti iðka trú sína að vild. En hálfum mánuði eftir brúðkaupið bannaði hann henni að sækja samkomur. „Ég var einmana og grét mikið,“ segir hún. „Ég áttaði mig á að ég hafði misst tökin á lífi mínu. Ég var með stöðugt samviskubit.“

Auðvitað reynast ekki allir eiginmenn, sem eru utan safnaðarins, grimmir og ósanngjarnir. En jafnvel þó að það hafi ekki svona slæmar afleiðingar fyrir þig að giftast manni utan safnaðarins máttu samt búast við að það hafi áhrif á samband þitt við ástríkan föður þinn á himnum. Hvernig ætli þér myndi líða vitandi að þú lokaðir eyrunum fyrir þeim leiðbeiningum sem hann gaf þér til góðs? Og það sem alvarlegra er, hvað ætli honum myndi finnast um ákvörðun þína? – Orðskv. 1:33.

Bræður og systur út um allan heim geta staðfest að það sé best að giftast ,aðeins í Drottni‘. Þeir sem eru einhleypir eru ákveðnir í að gleðja hjarta Jehóva með því að finna sér maka við hæfi innan safnaðarins en ekki utan. Michiko er systir í Japan. Ættingjar hennar vildu að hún giftist manni utan safnaðarins. Það reyndi auk þess á staðfestu hennar að horfa upp á suma af vinum sínum og kunningjum finna sér maka í söfnuðinum. „Ég minnti sjálfa mig á það í sífellu að Jehóva er ,sæll Guð‘ og að hamingja okkar er ekki undir því komin að við séum gift,“ segir hún. „Ég trúi líka að hann veiti okkur það sem við þráum í hjarta okkar. Ef okkur langar til að giftast en tekst ekki að finna maka er því best að vera einhleypur í bili.“ (1. Tím. 1:11, Biblían 1912) Síðar giftist Michiko ágætum bróður og hún er ánægð með að hún skyldi bíða.

Ýmsir bræður hafa sömuleiðis beðið um tíma áður en þeir fundu sér eiginkonu við hæfi. Bill er búsettur í Ástralíu. Hann viðurkennir að hann hafi stundum laðast að konum utan safnaðarins. Hann passaði þó vel að kynnin yrðu ekki of náin. Hvers vegna? Vegna þess að hann vildi ekki stíga fyrsta skrefið í þá átt að ,draga ok með vantrúuðum‘. Hann fékk nokkrum sinnum áhuga á einstaka systur en áhuginn var ekki gagnkvæmur. Það liðu 30 ár þangað til Bill fann systur sér við hæfi. „Ég sé ekki eftir neinu,“ segir hann. „Mér finnst það blessun að við getum farið saman í starfið, lesið saman í Biblíunni og tilbeðið Guð saman. Mér finnst ánægjulegt að hitta vini konunnar minnar og vera með þeim því að þeir eru líka tilbiðjendur Jehóva. Við höfum meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi í hjónabandinu.“

MEÐAN ÞÚ BÍÐUR

Þú þarft ekki að sitja auðum höndum eftir að þú hefur lagt málið í hendur Jehóva og bíður þess að finna þér maka við hæfi. Þú getur meðal annars velt fyrir þér hvers vegna þú hafir ekki gengið í hjónaband. Þú átt hrós skilið ef það er fyrst og fremst vegna þess að þú vilt hlýða þeim fyrirmælum Biblíunnar að giftast ,aðeins í Drottni‘. Þú mátt treysta að þú gleður Jehóva ef þú einsetur þér að hlýða orði hans. (1. Sam. 15:22; Orðskv. 27:11) Þú getur haldið áfram að ,úthella hjarta þínu‘ fyrir honum í bæn. (Sálm. 62:9) Bænir þínar geta orðið mjög innihaldsríkar ef þú biður oft og í fullri einlægni. Þú styrkir sambandið við Guð dag frá degi ef þú leggur þig fram um að berjast gegn freistingum og röngum löngunum sem gætu vaknað. Hinn hæsti gefur gaum að öllum trúum þjónum sínum og þú mátt vera viss um að hann hefur miklar mætur á þér. Hann lætur sér annt um þarfir þínar og þrár. Hann lofar engum að gefa honum maka. En ef þér finnst þú virkilega þurfa að eignast maka veit Jehóva hver er besta leiðin til að fullnægja réttmætum löngunum þínum. – Sálm. 145:16; Matt. 6:32.

Stundum er þér ef til vill innanbrjósts eins og sálmaskáldinu Davíð sem sagði: „Bænheyr mig fljótt, Drottinn, því að lífsþróttur minn þverr. Byrg eigi auglit þitt fyrir mér.“ (Sálm. 143:5-7, 10) Þegar þér líður þannig skaltu gefa föðurnum á himnum tíma til að sýna þér hvað hann vilji að þú gerir. Þú getur gert það með því að lesa í Biblíunni og hugleiða það sem þú lest. Þá veistu hver boðorð hans eru og sérð hvernig hann hjálpaði þjónum sínum forðum daga. Ef þú hlustar á hann sannfærist þú æ betur um að það sé viturlegt að hlýða honum.

Einhleypir þjónar Guðs eru mikils virði í söfnuðinum og geta veitt fjölskyldum verðmæta aðstoð.

Hvað annað geturðu gert til að halda gleði þinni og hafa nóg fyrir stafni ef þú ert ekki í hjónabandi? Þú getur notað tímann til að þroska með þér góða dómgreind, örlæti, iðjusemi, þægilegt viðmót og guðrækni og byggja upp gott mannorð. Allt er þetta nauðsynlegt til að skapa hamingjuríkt fjölskyldulíf. (1. Mós. 24:16-21; Rut. 1:16, 17; 2:6, 7, 11; Orðskv. 31:10-27) Leitaðu fyrst ríkis Guðs með því að taka sem mestan þátt í að boða fagnaðarerindið og styðja söfnuðinn. Það er þér til verndar. Bill, sem áður er getið, segir um árin sem hann var einhleypur: „Þau voru ótrúlega fljót að líða. Ég notaði tímann til að þjóna Jehóva sem brautryðjandi.“

Það er enn þá raunhæft að fylgja þeim fyrirmælum Biblíunnar að giftast ,aðeins í Drottni‘. Ef þú hlýðir þeim hjálpar það þér að heiðra Jehóva og lifa innihaldsríku lífi. Í Biblíunni segir: „Sæll er sá sem óttast Drottin og gleðst yfir boðum hans. Nægtir og auðæfi eru í húsi hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.“ (Sálm. 112:1, 3) Þú skalt því einsetja þér að hlýða þeim fyrirmælum Guðs að ,giftast aðeins í Drottni‘.

^ Í þessari grein er horft á málið frá sjónarhóli systra en meginreglurnar eiga auðvitað einnig við bræður.

^ Sumum nöfnum er breytt.