Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristur – kraftur Guðs

Kristur – kraftur Guðs

,Kristur er kraftur Guðs.‘ – 1. KOR. 1:24.

1. Hvers vegna gat Páll sagt að ,Kristur væri kraftur Guðs‘?

 JEHÓVA sýndi mátt sinn með einstökum hætti fyrir milligöngu Jesú Krists. Í guðspjöllunum fjórum er sagt frá kraftaverkum sem Kristur vann og þau styrkja trú okkar á ýmsa vegu. Líklega vann hann mörg önnur kraftaverk. (Matt. 9:35; Lúk. 9:11) Kraftur Guðs kom vel í ljós í því sem Jesús gerði. Páll postuli hafði því fullt tilefni til að segja að ,Kristur væri kraftur Guðs‘. (1. Kor. 1:24) En hvaða þýðingu hafa kraftaverk Jesú fyrir okkur?

2. Hvað lærum við af kraftaverkum Jesú?

2 Pétur postuli sagði að Jesús hefði unnið kraftaverk og nefnir þau líka „undur“. (Post. 2:22) Kraftaverkin, sem Jesús vann þegar hann var á jörðinni, voru forsmekkur enn meiri verka sem hann vinnur sem himneskur konungur. Þau fyrirmynda kraftaverkin sem Jesús vinnur um alla jörðina í nýjum heimi Guðs. Kraftaverkin segja okkur líka mjög margt um eiginleika Jesú og föður hans. Skoðum fáein kraftaverk Jesú og veltum fyrir okkur hvaða áhrif þau geta haft á líf okkar núna og í framtíðinni.

KRAFTAVERK SEM KENNIR OKKUR AÐ VERA ÖRLÁT

3. (a) Við hvaða aðstæður vann Jesús fyrsta kraftaverk sitt? (b) Hvernig kom örlæti Jesú í ljós í brúðkaupinu í Kana?

3 Jesús vann fyrsta kraftaverk sitt í brúðkaupsveislu í Kana í Galíleu. Gestirnir voru ef til vill fleiri en búist var við. Hver sem ástæðan var kláraðist vínið. María, móðir Jesú, var meðal gesta. Árum saman hafði hún eflaust velt fyrir sér öllum spádómunum um son sinn en hún vissi að hann yrði kallaður „sonur Hins hæsta“. (Lúk. 1:30-32; 2:52) Trúði hún að hann byggi yfir krafti sem hefði enn ekki komið í ljós? Það er að minnsta kosti ljóst að María og Jesús fundu til með brúðhjónunum í Kana og vildu ekki að þau lentu í vandræðalegri stöðu. Jesús vissi að ungu hjónunum bar skylda til að vera gestrisin. Hann breytti því um 380 lítrum af vatni í ,gott vín‘. (Lestu Jóhannes 2:3, 6-11.) Var Jesú skylt að vinna þetta kraftaverk? Nei. Honum var einfaldlega annt um fólk og líkti eftir örlæti föður síns á himnum.

4, 5. (a) Hvað lærum við af fyrsta kraftaverki Jesú? (b) Hvað gefur kraftaverkið í Kana til kynna um framtíðina?

4 Með þessu kraftaverki bjó Jesús til mikið magn af góðu víni, nóg handa fjölda fólks. Sérðu hvað við getum lært af því? Að Jesús skyldi vera fús til að vinna þetta góðverk fullvissar okkur um að honum og föður hans er annt um tilfinningar fólks. Jesús og faðir hans eru ekki nískir. Hugsaðu þér hvernig Jehóva á eftir að nota kraft sinn af miklu örlæti í nýja heiminum og „búa öllum þjóðum veislu“. – Lestu Jesaja 25:6.

5 Hugsaðu þér. Sá tími kemur þegar réttmætum þörfum og löngunum hvers einasta manns verður fullnægt. Allir fá til dæmis nægan mat og gott húsnæði. Við getum glaðst og fagnað þegar við hugsum til þess hve örlátlega Jehóva ætlar að sjá fyrir okkur og hve ríkuleg gæði bíða okkar í paradís á jörð.

Við sýnum að við höfum lært af örlæti Jesú ef við erum örlát á tíma okkar. (Sjá 6. grein.)

6. Hverjir nutu góðs af kraftaverkum Jesú og hvernig getum við líkt eftir honum?

6 Það er athyglisvert að þegar djöfullinn reyndi að freista Jesú til að breyta steinum í brauð neitaði Jesús að vinna kraftaverk til að fullnægja eigin löngunum. (Matt. 4:2-4) Hann notaði hins vegar kraft sinn til að fullnægja þörfum annarra. Hvernig getum við líkt eftir óeigingirni og umhyggju Jesú? Hann hvatti þjóna Guðs til að vera gjafmildir. (Lúk. 6:38) Getum við sýnt þennan göfuga eiginleika og boðið fólki í heimsókn til að borða með okkur og eiga uppbyggilega samverustund? Getum við verið örlát á tíma okkar eftir samkomu og aðstoðað einhvern sem þarfnast þess, til dæmis hlustað á bróður æfa ræðu? Hvaða hjálp gætum við boðið þeim sem þurfa aðstoð við boðunina? Við sýnum að við höfum lært af Jesú ef við erum bæði gjafmild og hjálpfús eftir því sem við höfum tök á.

„ALLIR NEYTTU OG URÐU METTIR“

7. Hvaða ástand ríkir meðan þetta heimskerfi stendur?

7 Fátækt er ekki ný af nálinni. Jehóva sagði Ísraelsmönnum til forna að það yrðu alltaf fátækir á meðal þeirra. (5. Mós. 15:11) Jesús sagði löngu síðar: „Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur.“ (Matt. 26:11) Átti hann við að það yrði alltaf fátækt fólk á jörðinni? Nei, hann var að tala um að fátækt yrði til eins lengi og þetta spillta heimskerfi stæði. Það er því uppörvandi að hugsa til kraftaverka Jesú, minnug þess að þau boða betri tíð þegar ríki Guðs hefur tekið völd og allir geta borðað nægju sína.

8, 9. (a) Hvað leiddi til þess að Jesús mettaði þúsundir manna með kraftaverki? (b) Hvað finnst þér um að Jesús skyldi vinna þetta kraftaverk?

8 Sálmaskáldið sagði um Jehóva: „[Þú] lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálm. 145:16) ,Kristur, kraftur Guðs,‘ endurspeglaði örlæti föður síns og lauk margoft upp hendi sinni til að veita fylgjendum sínum það sem þeir þráðu. Hann gerði það ekki bara til að sýna kraft sinn heldur var honum innilega annt um aðra. Skoðum dæmi í Matteusi 14:14-21. (Lestu.) Lærisveinar Jesú komu til hans til að ræða við hann um matarþörfina. Þeir voru líklega svangir sjálfir en hugsuðu líka um mannfjöldann sem hafði elt Jesú fótgangandi úr borgunum. Fólkið var bæði þreytt og svangt. (Matt. 14:13) Hvað myndi Jesús gera?

9 Jesús mettaði um 5.000 karlmenn, auk kvenna og barna, með fimm brauðum og tveim fiskum. Erum við ekki snortin þegar við hugsum til þess hve Jesús var umhyggjusamur og hvernig hann notaði kraft sinn til að fullnægja þörfum heilu fjölskyldnanna, þar á meðal barnanna? „Allir neyttu og urðu mettir.“ Þetta sýnir að meira en nóg var til af mat. Jesús gaf þeim ekki bara brauðbita að smakka heldur heila máltíð sem gaf þeim næga orku til að komast heim þótt leiðin væri löng. (Lúk. 9:10-17) Og afgangurinn fyllti heilar tólf körfur.

10. Hvað verður bráðlega um fátæktina í heiminum?

10 Ranglát stjórn manna veldur því að frumþörfum hundruða milljóna manna er ekki fullnægt nú á dögum. Trúsystkini okkar finna sum hver fyrir því. Þau hafa varla til hnífs og skeiðar. En það er stutt í að hlýðið fólk fái að njóta lífsins í heimi sem er laus við spillingu og fátækt. Myndir þú ekki fullnægja þörfum mannkyns ef þú gætir? Alvaldur Guð hefur bæði mátt og löngun til þess og hann gerir það von bráðar. Lausnin er í sjónmáli! – Lestu Sálm 72:16.

11. Hvers vegna ertu viss um að Kristur beiti bráðum valdi sínu um alla jörð og hvaða löngun vekur það með þér?

11 Þegar Jesús var á jörð starfaði hann á frekar litlu svæði og gerði það aðeins í þrjú og hálft ár. (Matt. 15:24) Sem konungur á himni ríkir hann hins vegar til endimarka jarðar. (Sálm. 72:8) Kraftaverk Jesú sýna að við getum treyst að hann geti og vilji nota vald sitt okkur til góðs og geri það bráðlega. Við getum ekki unnið kraftaverk en við getum haft brennandi löngun til að benda fólki á innblásið orð Guðs. Spádómar Biblíunnar tryggja að betri tímar séu fram undan. Við erum vígðir vottar Jehóva og búum yfir þessari verðmætu vitneskju um framtíðina. Finnum við ekki til þeirrar skyldu að segja öðrum frá henni? (Rómv. 1:14, 15) Þegar við hugleiðum þetta ætti það að vera okkur hvatning til að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. – Sálm. 45:2; 49:4.

VALD YFIR NÁTTÚRUÖFLUNUM

12. Hvers vegna getum við treyst að Jesús skilji vistkerfi jarðar til hlítar?

12 Þegar Guð skapaði jörðina og allt sem á henni er var einkasonur hans „með í ráðum við hlið honum“. (Orðskv. 8:22, 30, 31; Kól. 1:15-17) Jesús skilur því vistkerfi jarðar til hlítar. Hann kann að nota, annast og skipta auðlindum jarðar á sanngjarnan hátt.

Hvað finnst þér merkilegt við kraftaverk Jesú? (Sjá 13. og 14. grein.)

13, 14. Nefndu dæmi sem lýsir valdi Jesú yfir náttúruöflunum.

13 Þegar Jesús var á jörð sýndi hann að hann væri ,kraftur Guðs‘ með því að stjórna náttúruöflunum. Skoðum hvernig hann gerði það þegar stormur skall á og virtist ógna lífi lærisveina hans. (Lestu Markús 4:37-39.) Biblíufræðingur segir: „Gríska orðið [þýtt „stormhrina“ í Markúsi 4:37] er notað um ofsaveður eða fárviðri. Það er aldrei notað um eina vindhviðu ... heldur um stormhrinu sem fylgir svörtum þrumuskýjum með úrhellisrigningu og setur allt á annan endann.“ Matteus talar um „mikið veður“ þegar hann lýsir þessum atburði. – Matt. 8:24.

14 Sjáðu þetta fyrir þér: Jesús er úrvinda eftir erfiðan dag. Gusurnar ganga yfir bátinn í öldurótinu. Þrátt fyrir hávaðann í vindinum og öldurnar, sem kasta bátnum til og frá, sefur Jesús vært. Hann þarf sárlega á hvíld að halda. Lærisveinarnir eru dauðskelfdir, vekja Jesú og hrópa: „Við förumst.“ (Matt. 8:25) Jesús rís upp, hastar á vindinn og vatnið og segir: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ og storminn lægir undir eins. (Mark. 4:39) Jesús fyrirskipar vindinum og vatninu að stilla sig og halda sér í skefjum. Og hvað gerist? Það „gerði stillilogn“. Hvílíkur máttur!

15. Hvernig hefur almáttugur Guð sýnt að hann er fær um að stjórna náttúruöflunum?

15 Jesús fær kraft sinn frá Jehóva, alvöldum Guði, og við getum því treyst að Jehóva sé fullfær um að stjórna náttúruöflunum. Skoðum fáein dæmi. Jehóva sagði rétt fyrir flóðið: „Að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina í fjörutíu daga og fjörutíu nætur.“ (1. Mós. 7:4) Í 2. Mósebók 14:21 stendur: „Drottinn bægði hafinu burt með hvössum austanvindi.“ Og í Jónasi 1:4 lesum við: „Þá lét Drottinn mikinn storm koma yfir sjóinn svo að fárviðri skall á hafinu og við lá að skipið færist.“ Það er traustvekjandi að vita að Jehóva getur stjórnað náttúruöflunum. Framtíð jarðar er greinilega í góðum höndum.

16. Hvers vegna er hughreystandi að vita að skaparinn og sonur hans hafa stjórn á náttúruöflunum?

16 Það er hughreystandi að vita að Jehóva og Jesús búa yfir takmarkalausum mætti. Þegar þeir beina allri athygli sinni að jörðinni í þúsundáraríkinu býr allt mannkynið við öryggi. Hræðilegar náttúruhamfarir heyra þá sögunni til. Það verður engin ástæða til að óttast fellibylji, flóðbylgjur, eldgos eða jarðskjálfta í nýja heiminum. Það er frábært að hugsa til þess tíma þegar „tjaldbúð Guðs er meðal mannanna“ og náttúruöflin verða engum að meini. (Opinb. 21:3, 4) Við getum treyst að Jehóva gefi Jesú mátt til að stjórna náttúruöflunum í þúsundáraríkinu.

LÍKTU EFTIR GUÐI OG KRISTI

17. Hvernig getum við meðal annars líkt eftir Jehóva og Jesú?

17 Við getum auðvitað ekki komið í veg fyrir náttúruhamfarir eins og Jehóva og Jesús, en við getum samt gert eitthvað. Við getum farið eftir því sem stendur í Orðskviðunum 3:27. (Lestu.) Þegar trúsystkini okkar þjást getum við hughreyst þau og sinnt líkamlegum og tilfinningalegum þörfum þeirra. (Orðskv. 17:17) Við getum til dæmis hjálpað þeim eftir náttúruhamfarir. Ekkja nokkur varð fyrir því að hús hennar skemmdist talsvert í fellibyl. Hún segir: „Ég er svo þakklát fyrir að tilheyra söfnuði Jehóva. Ég hef ekki bara fengið hjálp af efnislegu tagi heldur líka andlegu.“ Önnur einhleyp systir var ráðþrota þegar heimili hennar varð fyrir miklum skemmdum í fárviðri. Eftir að trúsystkini hjálpuðu henni að gera við húsið sagði hún: „Þetta er ótrúlegt! Mig skortir orð til að lýsa tilfinningum mínum ... Takk, Jehóva!“ Við erum þakklát fyrir að tilheyra samfélagi bræðra og systra sem láta sér einlæglega annt hvert um annað. Og við höfum enn ríkari ástæðu til að fagna yfir því að Jehóva og Jesús Kristur skuli bera umhyggju fyrir okkur.

18. Hvernig notaði Jesús mátt sinn og af hvaða hvötum?

18 Með þjónustu sinni hér á jörð sannaði Jesús að hann væri ,kraftur Guðs‘. En aldrei notaði hann máttinn til að sýnast fyrir öðrum eða þjóna sjálfum sér. Kraftaverk Jesú sýna hve heitt hann elskar mennina. Um það er rætt í næstu grein.