Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýndu ríki Guðs hollustu

Sýndu ríki Guðs hollustu

„Þeir eru ekki af heiminum.“ – JÓH. 17:16.

SÖNGVAR: 63, 129

1, 2. (a) Hvers vegna er mikilvægt að sýna Guði hollustu og hvernig tengist það hlutleysi? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hverju sýna margir hollustu en hvernig endar það stundum?

 SANNKRISTNIR menn þurfa alltaf að sýna hollustu og vera hlutlausir, ekki aðeins á stríðstímum. Hvers vegna? Vegna þess að allir sem hafa vígt sig Jehóva hafa lofað honum að elska hann, hlýða honum og vera honum trúir. (1. Jóh. 5:3) Við viljum hlýða réttlátum meginreglum Guðs hvar sem við búum og hver sem uppruni okkar er, þjóðerni eða menning. Hollusta okkar við Jehóva og ríki hans ætti að vera sterkari en tryggð okkar við nokkurn eða nokkuð annað. (Matt. 6:33) Til þess þurfa þjónar Guðs að halda sér frá öllum deilum og ágreiningsmálum þessa heims. – Jes. 2:4; lestu Jóhannes 17:11, 15, 16.

2 Margir sem eru ekki sömu trúar og við finna til sérstakrar hollustu gagnvart þjóð sinni, ættbálki eða menningu, eða jafnvel landsliðinu. Þegar eitthvað ógnar þessari hollustu veldur það stundum samkeppni og metingi, og í versta falli blóðsúthellingum og þjóðarmorðum. Leiðir fólks til að leysa deilumál sín, hvort heldur með góðu eða illu, geta snert okkur eða fjölskyldur okkar vegna þess að við tilheyrum þrátt fyrir allt mannlegu samfélagi. Guð áskapaði manninum réttlætiskennd og þess vegna finnst okkur stundum ákvarðanir stjórnvalda vera ranglátar eða ósanngjarnar. (1. Mós. 1:27; 5. Mós. 32:4) Hver eru viðbrögð okkar við slíkar aðstæður? Það er ósköp auðvelt að dragast inn í deilur manna og fara að taka afstöðu til þeirra.

3, 4. (a) Hvers vegna eru þjónar Guðs hlutlausir í deilumálum heimsins? (b) Hvað er rætt í þessari grein?

3 Þær stofnanir, sem stýra mannlegu samfélagi, þrýsta kannski á borgarana til að taka afstöðu í deilum sem upp koma. En þjónar Guðs verða að vera hlutlausir. Við tökum hvorki þátt pólitískum deilum þessa heims né grípum til vopna. (Matt. 26:52) Við látum ekki leiðast út í að upphefja einn hluta af heimi Satans yfir annan. (2. Kor. 2:11) Við tilheyrum ekki heiminum heldur stöndum utan við deilumál hans. – Lestu Jóhannes 15:18, 19.

4 Vegna ófullkomleikans eigum við sum hver í innri baráttu við fordóma og skoðanir sem við aðhylltumst áður fyrr. (Jer. 17:9; Ef. 4:22-24) Í þessari grein ætlum við að ræða nokkrar meginreglur sem geta hjálpað okkur að sigrast á slíkum tilhneigingum. Við skoðum líka hvernig við getum þjálfað huga okkar og samvisku til að vera hollir þegnar ríkis Guðs.

VIÐ TÖKUM EKKI AFSTÖÐU Í DEILUMÁLUM HEIMSINS

5, 6. Hvernig leit Jesús á fólk með mismunandi bakgrunn og hvers vegna?

5 Ef þú ert ekki viss um hvað þú átt að gera við ákveðnar aðstæður er viturlegt að íhuga hvað Jesús hefði gert. Þjóðin, sem Jesús tilheyrði, skiptist eftir svæðum – Júdeu, Galíleu, Samaríu og ýmsum öðrum. Frásögur Biblíunnar bera með sér að spenna ríkti milli fólks á þessum ólíku svæðum. (Jóh. 4:9) Einnig var ákveðinn rígur milli farísea og saddúkea (Post. 23:6-9), milli fólks almennt og tollheimtumanna (Matt. 9:11) og milli almúgans og þeirra sem höfðu hlotið menntun rabbína. (Jóh. 7:49) Á fyrstu öld var Ísrael undir yfirráðum Rómverja en Ísraelsmenn höfðu megnustu óbeit á þeim. Þó að Jesús boðaði sannleikann og segði að hjálpræðið kæmi frá Gyðingum hvatti hann lærisveina sína til að forðast meting af öllu tagi. (Jóh. 4:22) Hann brýndi fyrir þeim að elska alla menn og líta á þá sem náunga sinn. – Lúk. 10:27.

6 Hvers vegna var Jesús ekki hlynntur algengum fordómum Gyðinga? Vegna þess að hvorki hann né faðir hans taka afstöðu í deilumálum heimsins. Þegar Jehóva skapaði manninn og konuna með aðstoð sonar síns ætlaðist hann til að þau fylltu jörðina afkomendum sínum. (1. Mós. 1:27, 28) Hann skapaði þau þannig að þau gætu getið af sér ólíka kynþætti. Enginn kynþáttur, þjóð eða málhópur er betri en annar í augum Jehóva og Jesú. (Post. 10:34, 35; Opinb. 7:9, 13, 14) Við verðum að fylgja fullkomnu fordæmi þeirra. – Matt. 5:43-48.

7, 8. (a) Í hvaða máli þurfa þjónar Guðs að taka afstöðu? (b) Hvað þurfa kristnir menn að hafa hugfast varðandi samfélagsleg og pólitísk vandamál?

7 Í einu máli þurfum við þó að taka afstöðu – við þurfum að styðja drottinvald Jehóva yfir alheimi. Deilan um það kviknaði fyrst í Eden þegar Satan véfengdi stjórn Jehóva. Núna þurfa allir að taka afstöðu til þess hvort þeir telji stjórnarhætti Jehóva betri en Satans eða öfugt. Í fullri hreinskilni, tekurðu afstöðu með Jehóva með því að fylgja lögum hans og meginreglum frekar en að gera hlutina eftir eigin höfði? Líturðu svo á að ríki hans sé eina lausnin á hörmungum mannkyns? Eða heldurðu að mennirnir séu færir um að stjórna sér sjálfir? – 1. Mós. 3:4, 5.

8 Svör þín við þessum spurningum ráða því hvernig þú svarar þegar fólk spyr um álit þitt á umdeildum málum. Stjórnmálamenn, aðgerðasinnar og umbótasinnar hafa lengi reynt að finna lausnir á málum sem valda sundrungu meðal manna. Þeir eru eflaust einlægir og vilja vel. Kristnir menn vita hins vegar að það er bara ríki Guðs sem getur leyst vandamál mannkyns og tryggt réttlæti í raun. Við verðum að láta málin í hendur Jehóva. Yrðu ekki söfnuðirnir fljótlega sundraðir ef allir þjónar Jehóva beittu sér fyrir þeirri lausn sem þeim þætti best?

9. Við hvaða vanda átti söfnuðurinn í Korintu að glíma og hverju mælti Páll postuli með?

9 Skoðum hvernig sumir kristnir menn á fyrstu öld brugðust við þegar mál, sem olli sundrungu, kom upp í söfnuðinum í Korintu. Einhverjir sögðu: „,Ég fylgi Páli,‘ og aðrir: ,Ég fylgi Apollós,‘ eða: ,Ég fylgi Kefasi,‘ eða: ,Ég fylgi Kristi.‘“ Hvað sem bjó að baki var Páll hneykslaður á viðbrögðum fólks við því. Hann spurði: „Er þá Kristi skipt í sundur?“ Hvað þurfti að gera til að koma í veg fyrir þessa sundrung? Páll sagði við söfnuðinn: „Ég hvet ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að vera öll samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal ykkar. Verið heldur samlynd og einhuga.“ Það ætti ekki heldur að vera sundrung af nokkru tagi í kristna söfnuðinum núna. – 1. Kor. 1:10-13; lestu Rómverjabréfið 16:17, 18.

10. Hvaða dæmi tók Páll postuli til að lýsa að kristnir menn þurfi að vera hlutlausir í deilum heimsins?

10 Páll hvatti andasmurða þjóna Guðs til að einbeita sér að himnesku ríkisfangi sínu frekar en jarðneskum hlutum. (Fil. 3:17-20) * Þeir áttu að vera erindrekar Krists. Erindrekar blanda sér ekki í mál þeirra landa sem þeir eru sendir til. Hollusta þeirra tilheyrir annarri þjóð. (2. Kor. 5:20) Kristnir menn með jarðneska von eru líka þegnar Guðsríkis og þess vegna er ekki við hæfi að þeir taki afstöðu í deilum þessa heims.

ÞJÁLFAÐU ÞIG Í AÐ SÝNA JEHÓVA HOLLUSTU

11, 12. (a) Hvað veldur því að það getur verið erfitt fyrir kristna menn að sýna ríki Guðs hollustu? (b) Hvað þurfti systir nokkur að takast á við og hvernig gerði hún það?

11 Flest samfélög eiga sér sameiginlega sögu, menningu og tungumál sem fólk er stolt af, og það skapar ákveðna einingu. Vegna þessara aðstæðna þurfa kristnir menn að þjálfa hugann og samviskuna til að bregðast rétt við þegar upp koma mál sem varða hlutleysi. Hvernig geta þeir gert það?

12 Lítum á hvað Mirjeta * gerði en hún býr í landi í fyrrverandi Júgóslavíu. Hún var alin upp við það að hata Serba. Þegar hún skildi að Jehóva fer ekki í manngreinarálit og að Satan ber sökina á kynþáttafordómum reyndi hún að vinna bug á þjóðerniskenndinni. En þegar þjóðernisátök brutust út þar sem Mirjeta bjó tók óvildin sig upp að nýju og hún átti erfitt með að boða Serbum trúna. Hún gerði sér þó grein fyrir að hún gæti ekki bara beðið og vonað að þessar tilfinningar hyrfu einhvern daginn. Hún bað Jehóva um hjálp bæði til að sigrast á óvildinni og til að auka boðunina og geta orðið brautryðjandi. „Ég fann að besta hjálpin var að einbeita mér að boðuninni,“ segir hún. „Þegar ég boða trúna reyni ég að líkja eftir kærleika Jehóva og þessar neikvæðu tilfinningar gufa upp.“

13. (a) Hvað gerðist sem systir nokkur tók nærri sér en hvernig brást hún við? (b) Hvað getum við lært af því sem Zoila upplifði?

13 Skoðum annað dæmi. Zoila er upphaflega frá Mexíkó en tilheyrir núna söfnuði í Evrópu. Sumir bræður í söfnuðinum, sem voru frá Suður-Ameríku, sögðu ýmislegt móðgandi og niðrandi um heimaland hennar, siðvenjur þess og jafnvel tónlistina. Hvernig hefðir þú brugðist við? Skiljanlega tók Zoila þetta nærri sér. En það er hrósvert að hún skyldi leita hjálpar Jehóva til að bægja frá sér neikvæðum tilfinningum sem kviknuðu innra með henni. Við verðum að viðurkenna að sum okkar eru enn að glíma við svipaðar tilfinningar. Við viljum ekki segja eða gera neitt sem gæti kynt undir sundrungu eða þjóðerniskennd meðal trúsystkina okkar – eða meðal annarra ef út í það er farið. – Rómv. 14:19; 2. Kor. 6:3.

14. Hvernig geta þjónar Guðs þjálfað hugann og samviskuna til að sýna honum hollustu?

14 Ólstu upp við að sýna landi þínu eða landshluta sterka hollustu? Eimir eftir af slíkum tilfinningum í hjarta þér? Þjónar Guðs ættu ekki að leyfa þjóðerniskennd að lita viðhorf sín til annarra. En hvað er til ráða ef þú uppgötvar að þú hugsar neikvætt um fólk af öðru þjóðerni, menningu, málhópi eða kynþætti? Þá væri mjög gagnlegt að hugsa um hvernig Jehóva lítur á þjóðernishyggju og fordóma. Það gæti verið gott að leita uppi efni af því tagi og taka það fyrir í sjálfsnámi þínu eða í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Biddu síðan Jehóva að hjálpa þér að tileinka þér viðhorf hans til þessara mála. – Lestu Rómverjabréfið 12:2.

Til að sýna Jehóva hollustu þurfum við að vera staðföst þegar okkur er ógnað. (Sjá 15. og 16. grein.)

15, 16. (a) Hvernig er viðbúið að aðrir bregðist við þegar við erum Guði trú? (b) Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að vera trúföst þegar á reynir?

15 Fyrr eða síðar lenda allir þjónar Jehóva í aðstæðum þar sem samviskan segir þeim að þeir verði að skera sig úr hópnum, hvort heldur um er að ræða vinnufélaga, skólafélaga, nágranna, ættingja eða aðra. (1. Pét. 2:19) En við verðum að skera okkur úr! Það ætti ekki að koma okkur á óvart ef heimurinn hatar okkur vegna afstöðu okkar. Jesús varaði við því. Flestir andstæðingar okkar gera sér ekki grein fyrir hve mikilvægt það er fyrir sannkristna menn að vera hlutlausir. En fyrir okkur skiptir það öllu máli.

16 Til að sýna Jehóva tryggð þurfum við að vera staðföst þegar okkur er ógnað. (Dan. 3:16-18) Ótti við menn getur gripið fólk á öllum aldri en það getur verið sérstaklega erfitt fyrir unga fólkið að berjast á móti straumnum. Hikaðu ekki við að hjálpa börnunum þínum ef ætlast er til að þau hylli fánann eða taki þátt í þjóðernisathöfnum. Notaðu tilbeiðslustund fjölskyldunnar til að sýna þeim fram á um hvað málið snýst svo að þau geti verið hugrökk þegar á reynir. Hjálpaðu þeim að lýsa sannfæringu sinni skýrt en jafnframt með virðingu. (Rómv. 1:16) Styddu börnin með því að tala við kennara þeirra ef þörf krefur.

HÖFUM MÆTUR Á ÖLLUM SKÖPUNARVERKUM JEHÓVA

17. Hvaða hugarfar þurfum við að forðast og hvers vegna?

17 Það er skiljanlegt að okkur þyki vænt um landið, menninguna, tungumálið og matinn þar sem við ólumst upp. Við megum samt ekki hugsa sem svo að „allt sé best hjá okkur“. Jehóva hefur skapað mikla fjölbreytni á öllum sviðum, okkur til ánægju. (Sálm. 104:24; Opinb. 4:11) Hvers vegna ættum við þá að halda því fram að ein leið sé miklu betri en önnur?

18. Hvaða blessun fylgir því að tileinka sér sjónarmið Jehóva?

18 Guð vill að alls konar fólk fái þekkingu á sannleikanum og hljóti eilíft líf. (Jóh. 3:16; 1. Tím. 2:3, 4) Ef við erum opin fyrir fjölbreyttum hugmyndum innan þeirra marka sem Guð setur auðgar það okkur og verndar eininguna. Ef við viljum sýna Jehóva hollustu verðum við að halda okkur frá deilumálum heimsins. Við getum ekki veitt neinum flokki stuðning okkar. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að losa okkur undan þeirri sundrung, stolti og samkeppni sem ríkir í heimi Satans. Við skulum vera ákveðin í að temja okkur að vera friðsöm í samræmi við lýsingu sálmaskáldsins: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman.“ – Sálm. 133:1.

^ Filippí var rómversk nýlenda. Sumir í söfnuðinum þar voru ef til vill með rómverskan ríkisborgararétt í einhverri mynd sem veitti þeim ákveðin réttindi fram yfir aðra í söfnuðinum.

^ Sumum nöfnum er breytt.