Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Standið stöðug í trúnni“

„Standið stöðug í trúnni“

„Standið stöðug í trúnni, verið ... styrk.“ – 1. KOR. 16:13.

SÖNGVAR: 60, 64

1. (a) Hvaða sérstöku reynslu öðlaðist Pétur í ofsaveðri á Galíleuvatni? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna byrjaði Pétur að sökkva?

 ÞAÐ er nótt og ofsaveður er skollið á. Pétur postuli og aðrir lærisveinar eru á báti úti á Galíleuvatni og eiga í mestu erfiðleikum með að róa aftur að landi. Allt í einu sjá þeir Jesú koma gangandi á vatninu. Pétur kallar til Jesú, meistara síns, og biður um að fá að ganga á vatninu til hans. Þegar Jesús segir Pétri að koma til sín stígur hann úr bátnum og fyrir kraftaverk gengur hann í öldurótinu. Andartaki síðar byrjar Pétur þó að sökkva. Hvers vegna? Hann fór að horfa á veðurofsann og varð hræddur. Pétur hrópar til Jesú sem grípur strax í hann og segir: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“ – Matt. 14:24-32.

2. Um hvað er fjallað í þessari grein?

2 Lítum núna á þrennt sem við getum lært um trú af þessari frásögu: (1) Hvernig treysti Pétur í fyrstu að Guð myndi styðja sig? (2) Hvers vegna fór að fjara undan trú hans? (3) Hvað hjálpaði honum að endurheimta trú sína? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað okkur að koma auga á hvernig við getum staðið „stöðug í trúnni“. – 1. Kor. 16:13.

AÐ TREYSTA Á STUÐNING GUÐS

3. Hvers vegna steig Pétur úr bátnum og hvernig höfum við gert eitthvað svipað?

3 Pétur steig úr bátnum til að ganga á vatninu vegna þess að hann hafði trú. Jesús hafði kallað hann til sín og Pétur treysti að hann fengi stuðning og kraft frá Guði, rétt eins og Jesús fékk. Á svipaðan hátt vígðum við okkur Jehóva og létum skírast vegna þess að við höfðum trú. Jesús kallaði okkur til sín til að fylgja sér, til að feta í fótspor sín. Við þurftum að trúa bæði á Jesú og Guð og treysta því að þeir myndu styðja okkur. – Jóh. 14:1; lestu 1. Pétursbréf 2:21.

4, 5. Af hverju er trúin eitt það dýrmætasta sem við eigum?

4 Trúin er eitt það dýrmætasta sem við eigum. Trúin gerði Pétri kleift að ganga á vatni og trúin getur sömuleiðis gert okkur kleift að gera ýmislegt sem virðist ómögulegt frá mannlegum sjónarhóli. (Matt. 21:21, 22) Margir eru alveg undrandi á þeim breytingum sem sum okkar hafa gert, bæði hvað varðar viðhorf okkar og hegðun. Jehóva blessaði viðleitni okkar af því að við gerðum þessar breytingar vegna trúar á hann. (Lestu Kólossubréfið 3:5-10.) Trúin knúði okkur til að vígjast Jehóva og þannig urðum við vinir hans, en það hefðum við aldrei getað orðið án hjálpar hans. – Ef. 2:8.

5 Trúin veitir okkur enn þá kraft. Í trú getum við staðist árásir Satans, öflugs óvinar okkar. (Ef. 6:16) Ef við treystum Jehóva eigum við líka auðveldara með að takast á við áhyggjur og kvíða þegar erfiðleikar koma upp. Ef við höfum trú sem knýr okkur til að láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir lofar hann að sjá okkur fyrir því sem við þurfum til að lifa. (Matt. 6:30-34) Og vegna trúar okkar ætlar Jehóva að gefa okkur verðmæta gjöf – eilíft líf. – Jóh. 3:16.

AÐ MISSA EINBEITINGUNA GETUR VALDIÐ ÞVÍ AÐ VIÐ MISSUM TRÚNA

6, 7. (a) Við hvað mætti líkja öldunum og óveðrinu sem buldi á Pétri? (b) Hvers vegna ættum við ekki að gera lítið úr því að við gætum veikst í trúnni?

6 Það mætti líkja öldunum og óveðrinu, sem buldi á Pétri þegar hann gekk á vatninu, við þá erfiðleika og freistingar sem við verðum fyrir af því að við þjónum Guði. Þó að það geti reynt mjög á okkur getum við staðið stöðug með hjálp Jehóva. Mundu að það var ekki út af storminum eða öldunum sem Pétur byrjaði að sökkva. Frásagan segir: „Er hann sá ofviðrið varð hann hræddur.“ (Matt. 14:30) Pétur hætti að horfa á Jesú og fór að einblína á veðurofsann. Við það byrjaði trú hans að veikjast. Við getum líka byrjað að sökkva ef við horfum á „ofviðrið“, það er að segja ef við látum hugann dvelja við það sem hræðir okkur og byrjum að efast um að Jehóva styðji okkur.

7 Við ættum alls ekki að gera lítið úr því að við gætum veikst í trúnni. Í Biblíunni er varað við „viðloðandi synd“ sem gæti auðveldlega náð tökum á okkur, en þessi synd er það að veikjast í trúnni eða glata henni. (Hebr. 12:1) Eins og gerðist hjá Pétri getur trú okkar auðveldlega veikst ef við beinum athyglinni í ranga átt. Hvernig getum við vitað hvort við séum í hættu stödd? Lítum á nokkrar spurningar sem við ættum að spyrja okkur.

8. Hvað gæti valdið því að við færum að efast um að Guð standi við loforð sín?

8 Hef ég enn óbilandi trú á að Guð standi við loforð sín? Guð hefur til dæmis lofað að eyða þessum illa heimi. En leyfum við öllu því fjölbreytta skemmtiefni, sem er í boði í heiminum, að trufla einbeitingu okkar? Ef svo er gætum við byrjað að efast um að endirinn sé á næsta leiti. (Hab. 2:3) Tökum annað dæmi: Guð hefur lofað að fyrirgefa syndir okkar á grundvelli lausnarfórnarinnar. En ef sektarkennd yfir gömlum mistökum nær tökum á okkur gætum við byrjað að efast um að Jehóva hafi í raun og veru afmáð allar syndir okkar. (Post. 3:19) Afleiðingin gæti orðið sú að við hættum að þjóna Jehóva með gleði og verðum að lokum óvirk.

9. Hvernig gæti farið ef við einbeittum okkur að eigin hag?

9 Er ég enn þá jafn brennandi í þjónustunni við Jehóva og ég var einu sinni? Þegar við vinnum hörðum höndum fyrir Jehóva hjálpar það okkur að hafa framtíðarvon okkar skýrt í huga. En hvað gæti gerst ef við færum að einbeita okkur að eigin hag, til dæmis með því að taka að okkur vel borgaða vinnu sem setur okkur þó skorður í þjónustunni við Jehóva? Við gætum veikst í trúnni og orðið „sljó“ og sinnulaus, og smám saman farið að gera minna fyrir Jehóva en aðstæður okkar leyfa. – Hebr. 6:10-12.

10. Af hverju má segja að við sýnum trú með því að fyrirgefa öðrum?

10 Á ég erfitt með að fyrirgefa öðrum? Þegar aðrir móðga okkur eða særa einblínum við kannski bara á hvernig okkur líður. Þá gæti verið freistandi að segja þeim sem særði okkur til syndanna eða sniðganga hann. Á hinn bóginn sýnum við trú með því að fyrirgefa. Hvernig þá? Þeir sem syndga gegn okkur eru í skuld við okkur, eins og við erum í skuld við Guð vegna synda okkar. (Lúk. 11:4) Ef við fyrirgefum öðrum hljótum við velþóknun Jehóva og við verðum að treysta því að það sé meira virði en að heimta að aðrir greiði skuld sína við okkur. Lærisveinar Jesú gerðu sér grein fyrir að það útheimti trú að fyrirgefa. Þegar Jesús sagði þeim að fyrirgefa, jafnvel þeim sem höfðu aftur og aftur syndgað gegn þeim, sárbændu þeir hann: „Auk oss trú!“ – Lúk. 17:1-5.

11. Hvað gæti hindrað okkur í að njóta góðs af biblíulegum ráðum?

11 Ergir það mig þegar ég fæ biblíuleg ráð? Reyndu að sjá hvernig ráðin geta nýst þér í staðinn fyrir að finna að þeim eða einblína á galla í fari ráðgjafans. (Orðskv. 19:20) Annars gætirðu misst af góðu tækifæri til að læra að hugsa eins og Jehóva gerir.

12. Hvert gæti vandamálið verið ef maður finnur sífellt að umsjónarmönnum safnaðarins?

12 Mögla ég gegn umsjónarmönnum safnaðarins? Þegar Ísraelsmenn einblíndu á það slæma sem njósnararnir tíu höfðu að segja um fyrirheitna landið byrjuðu þeir að mögla gegn Móse og Aroni. Jehóva spurði Móse þá: „Hversu lengi geta þeir neitað að trúa á mig?“ (4. Mós. 14:1-4, 11) Mögl Ísraelsmanna leiddi í ljós að þeir vantreystu Guði sem hafði falið Móse og Aroni að hafa umsjón með fólki sínu. Ef við erum sífellt að finna að þeim sem Guð notar til að leiða fólk sitt gæti það ef til vill verið merki um að við séum farin að veikjast í trúnni og vantreysta Guði.

13. Hvers vegna ættum við ekki að missa kjarkinn þótt við komumst að raun um að við séum farin að veikjast í trúnni?

13 Misstu ekki kjarkinn þótt þessi sjálfsrannsókn leiði í ljós að þú sért farinn að veikjast í trúnni. Jafnvel Pétur, sem var postuli, lét ótta og efasemdir ná tökum á sér. Reyndar þurfti Jesús stundum að átelja alla postulana fyrir að vera „trúlitlir“. (Matt. 16:8) En hafðu líka í huga að hægt er að draga mikilvægan lærdóm af því sem Pétur gerði eftir að hann byrjaði að efast og sökkva.

STYRKTU TRÚNA MEÐ ÞVÍ AÐ EINBEITA ÞÉR AÐ FORDÆMI JESÚ

14, 15. (a) Hvað gerði Pétur þegar hann byrjaði að sökkva? (b) Hvernig getum við beint sjónum okkar til Jesú þótt við sjáum hann ekki bókstaflega?

14 Þegar Pétur horfði á veðurofsann og byrjaði að sökkva hefði hann getað reynt að komast hjálparlaust aftur í bátinn. Það hefðu hæglega getað verið fyrstu viðbrögð hans þar sem hann var góður sundmaður. (Jóh. 21:7) En í staðinn fyrir að treysta á sjálfan sig leit hann aftur á Jesú og þáði hjálp hans. Ef við tökum eftir að við erum byrjuð að veikjast í trúnni ættum við að fara að dæmi Péturs. En hvernig getum við gert það?

15 Pétur leit aftur á Jesú og við verðum líka að beina „sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar“. (Lestu Hebreabréfið 12:2, 3.) Við getum að sjálfsögðu ekki séð Jesú bókstaflega eins og Pétur gerði. En við „beinum sjónum okkar“ til Jesú með því að kynna okkur vandlega allt sem hann sagði og gerði og fara svo samviskusamlega eftir því. Ef við gerum það fáum við þá hjálp sem við þurfum til að standa stöðug í trúnni. Skoðum núna nokkur svið þar sem við getum líkt eftir Jesú.

Með því að einbeita okkur að fordæmi Jesú og feta samviskusamlega í fótspor hans getum við orðið stöðug í trúnni. (Sjá grein 15.)

16. Hvernig getum við styrkt trú okkar með sjálfsnámi?

16 Styrktu trú þína á Biblíuna. Jesús var sannfærður um að Biblían væri orð Guðs og besti leiðarvísirinn í lífinu. (Jóh. 17:17) Til að feta í fótspor Jesú verðum við að lesa daglega í Biblíunni, grandskoða efni hennar og hugleiða það sem við lærum. Auk þess verðum við að leita svara við spurningum sem hafa vaknað hjá okkur. Til að styrkja trú þína á að endir þessa illa heims sé nálægur gætirðu til dæmis rannsakað spádóma Biblíunnar sem sanna að við lifum á síðustu dögum. Til að styrkja trú þína á að loforð Biblíunnar um framtíðina séu áreiðanleg skaltu rannsaka þá fjölmörgu biblíuspádóma sem hafa þegar ræst. Styrktu trú þína á að Biblían sé áreiðanlegur leiðarvísir með því að íhuga frásögur af fólki sem breytti lífi sínu með hjálp hennar. * – 1. Þess. 2:13.

17. Hvað gerði Jesú kleift að vera trúr þrátt fyrir gríðarlegar prófraunir og hvernig getur þú líkt eftir honum?

17 Einbeittu þér að þeim blessunum sem Jehóva hefur heitið. Jesús einbeitti sér að þeirri „gleði [sem] beið hans“ og gat þannig verið trúr þrátt fyrir gríðarlegar prófraunir. (Hebr. 12:2) Hann lét það sem heimurinn hefur upp á að bjóða aldrei trufla einbeitingu sína. (Matt. 4:8-10) Þú getur líkt eftir Jesú með því að hugleiða öll þau dásamlegu loforð sem Jehóva hefur gefið þér. Reyndu að ímynda þér að þú sért í nýja heiminum. Þú gætir teiknað mynd eða skrifað á blað það sem þig langar til að gera eftir að Guð hefur eytt þessum illa heimi. Skrifaðu niður nöfn þeirra sem þú hlakkar til að hitta í upprisunni og um hvað þig langar til að ræða við þá. Og líttu á þessi loforð Guðs sem loforð til þín, ekki aðeins til mannkynsins í heild.

18. Hvernig geturðu styrkt trú þína með því að biðja?

18 Biddu um aukna trú. Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja Jehóva um heilagan anda. (Lúk. 11:9, 13) Þegar þú biður um heilagan anda skaltu biðja um aukna trú en hún er hluti af ávexti andans. Nefndu nákvæmlega í bænum þínum hvers þú þarfnast. Ef þú gerir þér til dæmis grein fyrir að þú átt erfitt með að fyrirgefa öðrum skaltu biðja Jehóva um að hjálpa þér að hafa sterka trú og að vera fús til að fyrirgefa.

19. Hverja ættum við að velja okkur að vinum?

19 Eignastu vini sem hafa sterka trú. Jesús valdi vandlega þá sem hann vildi eiga að nánum vinum. Postularnir, nánustu vinir hans, höfðu sýnt að þeir voru trúfastir og tryggir með því að hlýða boðum hans. (Lestu Jóhannes 15:14, 15.) Þegar þú leitar þér að vinum skaltu velja vini sem hafa sterka trú og hlýða Jesú. Og mundu það sem segir í Orðskviðunum 27:9: „Inndæll er vinurinn sakir hjartans ráða.“ (Biblían 1859) Eitt af því sem einkennir góða vináttu eru heiðarleg tjáskipti, líka þegar nauðsynlegt er að gefa eða þiggja ráð.

20. Hvaða gagn höfum við af því að hjálpa öðrum að styrkja trúna?

20 Hjálpaðu öðrum að styrkja trúna. Jesús styrkti trú lærisveina sinna bæði með orðum sínum og verkum. (Mark. 11:20-24) Þegar við förum að dæmi hans og hjálpum öðrum að styrkja trú sína styrkjum við líka okkar eigin trú. (Orðskv. 11:25) Þegar þú ert í boðunarstarfinu skaltu benda fólki á sannanir fyrir því að Guð sé til, að hann beri umhyggju fyrir okkur og að Biblían sé innblásið orð hans. Hjálpaðu auk þess trúsystkinum þínum að hafa sterka trú. Ef einhver sýnir merki um að hann sé farinn að veikjast í trúnni, til dæmis með því að finna að umsjónarmönnum safnaðarins, skaltu ekki vera fljótur á þér að forðast hann. Sýndu honum heldur nærgætni og hjálpaðu honum að endurheimta trú sína. (Júd. 22, 23) Ef þú ert enn þá í skóla og það er rætt um þróunarkenninguna skaltu vera hugrakkur og verja trú þína á sköpun. Það gæti komið þér á óvart hvaða áhrif orð þín hafa á aðra.

21. Hvaða loforð hefur Jehóva gefið hverju og einu okkar?

21 Jehóva og Jesús hjálpuðu Pétri að sigrast á ótta og efasemdum. Seinna meir varð Pétur sterkur í trúnni og varð öðrum í frumkristna söfnuðinum hvetjandi fyrirmynd. Jehóva hjálpar hverju og einu okkar að standa stöðug í trúnni. (Lestu 1. Pétursbréf 5:9, 10.) Það sem við leggjum á okkur til að styrkja trúna er erfiðisins virði. Launin, sem við fáum, eru óviðjafnanleg.

^ Sjá til dæmis greinaröðina „Biblían breytir lífi fólks“ í almennri útgáfu Varðturnsins.