Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ,óumræðilega gjöf‘ Guðs knýja þig

Láttu ,óumræðilega gjöf‘ Guðs knýja þig

„Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!“ – 2. KOR. 9:15.

SÖNGVAR: 121, 63

1, 2. (a) Hvað felst í hinni „óumræðilegu gjöf“ Guðs? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

JEHÓVA gaf okkur mestu kærleiksgjöf sem hugsast getur þegar hann sendi einkason sinn til jarðar. (Jóh. 3:16; 1. Jóh. 4:9, 10) Páll postuli kallar hana ,óumræðilega gjöf‘ Guðs. (2. Kor. 9:15) Hvers vegna lýsir hann henni þannig?

2 Páll vissi að fullkomin fórn Krists væri trygging fyrir því að öll hin stórkostlegu loforð Guðs yrðu að veruleika. (Lestu 2. Korintubréf 1:20.) Þessi ,óumræðilega gjöf‘ felur sem sagt í sér alla þá góðvild og þann trygga kærleik sem Jehóva sýnir okkur fyrir milligöngu Jesú. Þessi gjöf er svo undursamleg að henni verður ekki lýst til fulls með orðum. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að fá svo stórfenglega gjöf? Og hvað ætti hún að hvetja okkur til að gera þegar við búum okkur undir minningarhátíðina um dauða Krists sem haldin verður miðvikudaginn 23. mars 2016?

EINSTÖK GJÖF GUÐS

3, 4. (a) Hvernig líður þér þegar þú færð gjöf? (b) Hvernig getur einstök gjöf breytt lífi manns?

3 Að fá gjöf vekur oftast upp margar tilfinningar. En sumar gjafir geta verið einstakar eða svo þýðingarmiklar að þær breyta lífi okkar. Tökum dæmi. Ímyndaðu þér að þú hafir gerst meðsekur um glæp og verið dæmdur til dauða. Allt í einu stígur fram ókunnugur maður og býðst til að taka á sig refsinguna fyrir þína hönd. Hann er fús til að deyja í þinn stað! Hvaða áhrif hefði það á þig að hann skyldi gefa þér þessa ómetanlegu gjöf?

4 Að einhver skyldi tjá kærleika sinn með svo óeigingjörnum hætti fengi þig örugglega til að hugsa þinn gang og jafnvel gera breytingar á lífi þínu. Þú yrðir ábyggilega örlátari og kærleiksríkari í garð annarra og fyrirgæfir jafnvel þeim sem hefðu gert eitthvað á þinn hlut. Það sem eftir er ævinnar fyndist þér þú standa í þakkarskuld við þann sem dó í þinn stað.

5. Hvers vegna er lausnargjaldið miklu dýrmætara en nokkur önnur gjöf?

5 En það sem Jehóva hefur gefið okkur fyrir milligöngu Krists er mun verðmætara en fórnin sem lýst er í dæminu hér á undan. (1. Pét. 3:18) Hvers vegna? Við eigum öll dauðadóm yfir höfði vegna erfðasyndarinnar. (Rómv. 5:12) Í kærleika sínum sendi Jehóva Jesú til jarðar til að ,allir skyldu hljóta blessun af dauða hans‘. (Hebr. 2:9) Jehóva bjargaði ekki bara lífi okkar heldur lagði líka grunn að því að þurrka út dauðann fyrir fullt og allt. (Jes. 25:7, 8; 1. Kor. 15:22, 26) Allir sem iðka trú á Jesú hljóta friðsælt og hamingjuríkt líf að eilífu, annaðhvort sem jarðneskir þegnar Guðsríkis eða sem andasmurðir meðstjórnendur Krists á himnum. (Rómv. 6:23; Opinb. 5:9, 10) Hvað annað hefur þessi gjöf Jehóva í för með sér?

6. (a) Hvað finnst þér verðmætast af því sem hlýst af gjöf Guðs? (b) Nefndu þrennt sem gjöf Guðs hvetur okkur til að gera.

6 Gjöf Jehóva felur í sér að hann læknar fólk af öllum veikindum, breytir jörðinni í paradís og reisir hina dánu aftur til lífs. (Jes. 33:24; 35:5, 6; Jóh. 5:28, 29) Við elskum Jehóva og ástkæran son hans fyrir að hafa gefið okkur þessa ómetanlegu gjöf. En þeirri spurningu er enn ósvarað hvað kærleikur Guðs hvetur okkur til að gera. Skoðum nú hvernig kærleikur Guðs hvetur okkur til að (1) feta dyggilega í fótspor Jesú Krists, (2) sýna trúsystkinum okkar kærleika og (3) fyrirgefa af öllu hjarta.

„KÆRLEIKI KRISTS KNÝR MIG“

7, 8. Hvaða áhrif ætti kærleiki Krists að hafa á okkur og hvað ætti hann að hvetja okkur til að gera?

7 Í fyrsta lagi ættum við að finna okkur knúin til að lifa fyrir Jesú Krist. Páll postuli sagði: „Kærleiki Krists knýr mig.“ (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15.) Páll skildi að við getum ekki þegið óviðjafnanlegan kærleika Krists án þess að vera knúin til að lifa fyrir hann. Þegar við skiljum að fullu það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur og kærleikur hans snertir hjarta okkar þráum við að lifa heilshugar fyrir Krist. Hvernig sýnum við að við viljum gera það?

8 Þeir sem elska Jehóva finna sig knúna til að fylgja fordæmi Krists og feta náið í fótspor hans. (1. Pét. 2:21; 1. Jóh. 2:6) Við sönnum að við elskum Guð og Jesú með því að vera hlýðin. Jesús sagði: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“ – Jóh. 14:21; 1. Jóh. 5:3.

9. Hvaða þrýstingi verðum við fyrir?

9 Í kringum minningarhátíðina ættum við að hugleiða hvernig við lifum lífi okkar. Spyrðu þig á hvaða sviðum þér takist vel að feta í fótspor Jesú. Á hvaða sviðum gætirðu bætt þig? Þess konar sjálfsrannsókn er nauðsynleg þar sem við verðum fyrir stöðugum þrýstingi til að líkja eftir fólki í heiminum. (Rómv. 12:2) Ef við förum ekki varlega gætum við orðið fylgjendur spekinga þessa heims, fræga fólksins eða íþróttastjarna. (Kól. 2:8; 1. Jóh. 2:15-17) Hvernig getum við staðist þennan þrýsting?

10. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur í kringum minningarhátíðina og hvað gæti það hvatt okkur til að gera? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Tíminn í kringum minningarhátíðina er gott tækifæri til að fara yfir fataskápinn, kvikmynda- og tónlistarsafnið og jafnvel efnið sem er í tölvunni okkar, snjallsímanum og spjaldtölvunni. Þegar þú ferð yfir fataskápinn skaltu spyrja þig: Fyndist mér óþægilegt að klæðast þessu ef ég væri að fara á stað þar sem Jesús væri viðstaddur? (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.) Gætu allir séð að ég sé fylgjandi Krists ef ég klæddist þessum fötum? Við gætum spurt okkur álíka spurninga um val okkar á kvikmyndum og tónlist. Hefði Jesús gaman af að horfa á þessa mynd eða hlusta á þessa tónlist? Myndi ég skammast mín fyrir það sem hann sæi á símanum mínum eða spjaldtölvunni ef hann fengi hana lánaða? Spyrðu þig þegar þú hugsar um innihald tölvuleiks: Ætti ég erfitt með að útskýra fyrir Jesú hvers vegna mér finnst gaman að spila hann? Kærleikur okkar til Jehóva ætti að knýja okkur til að losa okkur við hvaðeina sem hæfir ekki lærisveinum Krists, sama hvað það kostar. (Post. 19:19, 20) Þegar við vígðum okkur Jehóva lofuðum við að lifa ekki lengur fyrir okkur sjálf heldur fyrir Krist. Við ættum því ekki að halda fast í nokkuð sem gæti hindrað okkur í að feta náið í fótspor Krists. – Matt. 5:29, 30; Fil. 4:8.

11. (a) Til hvers hvetur kærleikurinn til Jehóva og Jesú okkur? (b) Hvernig getur kærleikurinn hvatt okkur til að hjálpa öðrum í söfnuðinum?

11 Kærleikurinn til Jesú fær okkur líka til að vinna heilshugar við boðunina og við að gera fólk að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20; Lúk. 4:43) Á vormánuðunum höfum við tækifæri til að gerast aðstoðarbrautryðjendur og nota 30 eða 50 tíma í boðuninni. Gætirðu skipulagt þig þannig að þú getir náð því? Bróður nokkrum, sem var 84 ára og ekkill, fannst hann ekki geta verið aðstoðarbrautryðjandi vegna aldurs og tæprar heilsu. En brautryðjendurnir þar sem hann bjó voru allir af vilja gerðir að aðstoða hann. Þeir hjálpuðu honum að komast leiðar sinnar og völdu vandlega svæði sem hentuðu honum til að hann gæti náð 30 tíma markmiðinu. Gætir þú hjálpað einhverjum í söfnuðinum þannig að hann eða hún gæti fengið að njóta ánægjunnar sem fylgir því að vera aðstoðarbrautryðjandi í kringum minningarhátíðina? Auðvitað geta ekki öll okkar verið aðstoðarbrautryðjendur. En við getum notað þann tíma og krafta sem við höfum til að auka starf okkar fyrir Jehóva. Þannig sýnum við eins og Páll að kærleikur Krists knýr okkur. Hvað annað hvetur kærleikur Guðs okkur til að gera?

OKKUR BER AÐ ELSKA HVERT ANNAÐ

12. Hvað hvetur kærleikur Guðs okkur til að gera?

12 Í öðru lagi knýr kærleikur Guðs okkur til að sýna trúsystkinum okkar kærleika. Jóhannes postuli vissi það. Hann skrifaði: „Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.“ (1. Jóh. 4:7-11) Ef við þiggjum kærleika Guðs ber okkur að elska trúsystkini okkar. (1. Jóh. 3:16) Hvað getum við gert til að sýna trúsystkinum okkar kærleika í verki?

13. Hvernig er Jesús okkur góð fyrirmynd í að sýna öðrum kærleika?

13 Hugsum um fordæmi Jesú. Á þjónustutíð hans á jörð veitti hann sérstaka athygli þeim sem minna máttu sín. Hann hjálpaði fólki sem átti við fötlun eða sjúkdóma að stríða, eins og lömuðum, blindum, heyrnarlausum og mállausum. (Matt. 11:4, 5) Ólíkt trúarleiðtogum Gyðinga hafði Jesús yndi af að kenna þeim sem voru andlega hungraðir. (Jóh. 7:49) Hann elskaði þetta auðmjúka fólk og lagði mikið á sig til að hjálpa því. – Matt. 20:28.

Getur þú stutt aldraðan bróður eða systur í boðuninni? (Sjá 14. grein.)

14. Hvað getur þú gert til að sýna trúsystkinum kærleika?

14 Tíminn í kringum minningarhátíðina er gott tækifæri til að líkja eftir Jesú með því að huga að þörfum bræðra og systra í söfnuðinum. Með því að gera það tekurðu eflaust eftir einhverjum sem gætu notið góðs af kærleika þínum. Kannski áttu öldruð trúsystkini í söfnuðinum sem vantar aðstoð. Gætirðu heimsótt þau? Gætirðu eldað fyrir þau, hjálpað þeim með eitthvað á heimilinu, boðið þeim far á samkomu eða boðið þeim samstarf? (Lestu Lúkas 14:12-14.) Látum kærleika Guðs knýja okkur til að sýna trúsystkinum okkar kærleika í verki.

VERUM MISKUNNSÖM VIÐ TRÚSYSTKINI OKKAR

15. Hvað þurfum við að viðurkenna?

15 Í þriðja lagi ætti kærleikur Jehóva að knýja okkur til að fyrirgefa bræðrum okkar og systrum. Sem afkomendur Adams, fyrsta mannsins, höfum við öll erft synd og dauða. Ekkert okkar getur sagt að það þurfi ekki á lausnargjaldinu að halda. Meira að segja dyggustu þjónar Jehóva eru algerlega háðir óverðskuldaðri gæsku hans sem hann sýndi með því að gefa líf sonar síns. Hvert og eitt okkar þarf að viðurkenna að Jehóva hefur greitt upp gríðarstóra skuld fyrir okkur. Hvers vegna er það mikilvægt? Svarið er að finna í einni af dæmisögum Jesú.

16, 17. (a) Hvað lærum við af dæmisögu Jesú um konunginn og þjónana? (b) Hvað ertu ákveðinn í að gera eftir að hafa hugleitt dæmisögu Jesú?

16 Jesús sagði frá konungi sem hafði gefið upp gríðarstóra skuld þjóns síns upp á 10.000 talentur eða 60.000.000 denara. Þessi þjónn, sem hafði fengið svo háa skuld gefna upp, neitaði hins vegar að gefa félaga sínum upp mun minni skuld, en hún var aðeins 100 denarar. Konungurinn varð bálreiður þegar hann frétti af miskunnarleysi þjónsins sem hann hafði sýnt svo mikla góðvild. Hann sagði: „Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér?“ (Matt. 18:23-35) Þessi einstaka miskunnsemi konungsins hefði átt að knýja þjóninn til að gefa upp skuld félaga síns. Hvað ætti kærleikur og miskunn Jehóva að knýja okkur til að gera?

17 Tíminn í kringum minningarhátíðina er gott tækifæri til að hugleiða hvort við séum gröm út í eitthvert trúsystkina okkar. Ef svo er þá er þetta góður tími til að líkja eftir Jehóva sem fyrirgefur fúslega. (Neh. 9:17; Sálm. 86:5) Ef við kunnum að meta það sem Jehóva hefur gefið okkur með því að fella niður gríðarlega skuld okkar ættum við að vera fús til að fyrirgefa öðrum af öllu hjarta. Við getum hreinlega ekki þegið kærleika Guðs né hlotið fyrirgefningu hans nema við sjálf sýnum öðrum kærleika og fyrirgefum þeim. (Matt. 6:14, 15) Við breytum ekki fortíðinni með því að fyrirgefa en við getum sannarlega breytt framtíð okkar til hins betra.

18. Hvernig hjálpaði kærleikur Guðs systur einni að umbera ófullkomleika annarrar systur?

18 Fyrir mörg okkar getur verið áskorun að ,umbera‘ trúsystkini okkar dag frá degi. (Lestu Kólossubréfið 3:13, 14; Efesusbréfið 4:32.) Lítum á dæmi. Lily er einhleyp systir í söfnuðinum sem aðstoðaði fúslega ekkju að nafni Carol. [1] Lily hjálpaði Carol að komast leiðar sinnar, sendist fyrir hana og sýndi henni góðvild á marga aðra vegu. Þrátt fyrir allt sem Lily gerði var Carol sífellt að finna að og var erfið í umgengni. En Lily einbeitti sér að góðum eiginleikum hennar. Hún hélt áfram að hjálpa Carol um árabil þar til Carol veiktist alvarlega og lést. Lily segir: „Þrátt fyrir framkomu Carolar hlakka ég til að sjá hana í upprisunni. Mig langar til að þekkja hana þegar hún er orðin fullkomin.“ Já, kærleikur Guðs getur knúið okkur til að umbera trúsystkini okkar og hlakka til þess tíma þegar ófullkomleikinn heyrir sögunni til.

19. Hvað ætlar þú að láta ,óumræðilega gjöf‘ Guðs knýja þig til að gera?

19 Við höfum fengið ,óumræðilega gjöf‘ frá Jehóva. Lítum aldrei á þessa dýrmætu gjöf sem sjálfsagðan hlut. Við ættum öllu heldur að hugleiða í þakklæti allt sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur, sérstaklega í kringum minningarhátíðina. Látum kærleika þeirra knýja okkur til að feta náið í fótspor Jesú, sýna bræðrum okkar og systrum kærleika í verki og fyrirgefa þeim af öllu hjarta.

^ [1] (18. grein.) Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.