Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja?

Hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja?

„Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni.“ – Rómverjabréfið 5:12.

„Langar þig til að lifa að eilífu?“ Hvernig myndirðu svara þessari spurningu? Flestir myndu líklega segja að þá langi til þess en að þeim finnist óraunhæft að hugsa um það. Þeir myndu segja að dauðinn væri hluti af lífinu – eðlilegur endir á tilveru okkar.

En ef spurningunni væri snúið við og þú spurður: „Ertu tilbúinn að deyja?“ Undir venjulegum kringumstæðum myndu flestir svara þessari spurningu neitandi. Hvað segir það okkur? Að við höfum eðlislæga löngun til að lifa þrátt fyrir raunir og erfiðleika sem við mætum í lífinu. Biblían segir að Guð hafi skapað mennina með löngun og vilja til að lifa. Hún segir reyndar: „Jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra.“ – Prédikarinn 3:11.

Staðreyndin er þó sú að mennirnir lifa ekki að eilífu. Hvað fór úrskeiðis? Og hefur Guð gert eitthvað til að lagfæra ástandið? Það er mjög hughreystandi að skoða svör Biblíunnar og þau eru nátengd því hvers vegna Jesús þurfti að þjást og deyja.

ÞAÐ SEM FÓR ÚRSKEIÐIS

Fyrstu þrír kaflarnir í 1. Mósebók segja frá því að Guð ætlaði Adam og Evu, fyrstu mannhjónunum, að lifa að eilífu og hann sagði þeim hvað þau þyrftu að gera til að öðlast eilíft líf. Síðan segir frá því hvernig þau óhlýðnuðust Guði og glötuðu eilífa lífinu. Frásagan er einföld – svo einföld að margir álykta hana vera goðsögu. En rétt eins og guðspjöllin ber frásagan í 1. Mósebók það með sér að vera áreiðanleg heimild. *

Hverjar voru afleiðingarnar af óhlýðni Adams? Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómverjabréfið 5:12) Adam syndgaði þegar hann óhlýðnaðist Guði. Þannig glataði hann eilífa lífinu og dó að lokum. Þar sem við erum afkomendur hans höfum við fengið syndina í arf. Þar af leiðandi veikjumst við, eldumst og deyjum. Þessari skýringu á því hvers vegna við deyjum ber saman við það sem við vitum um erfðir og arfgengi. En hefur Guð gert eitthvað til að lagfæra ástandið?

ÞAÐ SEM GUÐ HEFUR GERT

Guð gerði ráðstafanir til að endurleysa, eða kaupa til baka, það sem Adam glataði. Með því gerir hann afkomendum Adams kleift að hljóta eilíft líf. Hvernig fór hann að því?

„Laun syndarinnar er dauði,“ segir í Rómverjabréfinu 6:23. Það merkir að dauðinn er afleiðing syndarinnar. Adam syndgaði og þess vegna dó hann. Við syndgum líka og uppskerum þess vegna laun syndarinnar, dauða. Við fæðumst öll syndug og fáum engu um það ráðið. Vegna kærleika síns sendi Guð son sinn, Jesú, til að taka á sig „laun syndarinnar“ fyrir okkur. Hvernig var það hægt?

Dauði Jesú opnaði leiðina að hamingjuríku lífi að eilífu.

Þar sem einn maður, hinn fullkomni Adam, leiddi yfir okkur synd og dauða vegna óhlýðni sinnar þurfti fullkominn mann, sem var hlýðinn allt til dauða, til að leysa okkur undan oki syndarinnar. Í Biblíunni segir: „Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina.“ (Rómverjabréfið 5:19) Jesús var ,hinn eini‘ sem var hlýðinn. Hann var sendur frá himni, var fullkominn maður * og dó fyrir okkur. Þar af leiðandi getum við verið réttlát í augum Guðs og átt í vændum eilíft líf.

HVERS VEGNA JESÚS ÞURFTI AÐ ÞJÁST OG DEYJA

En hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja til að gera þetta mögulegt? Gat almáttugur Guð ekki einfaldlega mælt svo fyrir að afkomendur Adams fengju að lifa að eilífu? Hann hafði sannarlega vald til þess. En þá hefði hann virt að vettugi lagaboðið sem hann setti um að laun syndarinnar er dauði. Þetta lagaboð var ekki lítilvæg regla sem hægt var að fella niður eða breyta eftir hentugleika. Það var eitt af grundvallaratriðum réttlætis hans. – Sálmur 37:28.

Ef Guð hefði vikið frá réttlátum lögum sínum í þessu máli gæti fólk hafa spurt sig hvort hann myndi gera það sama í öðrum málum. Myndi hann til dæmis vera sanngjarn þegar hann tæki ákvörðun um hverjir afkomenda Adams fengju eilíft líf? Væri hægt að treysta honum til að standa við loforð sín? Guð breytti réttlátlega þegar hann frelsaði okkur undan synd og dauða og það er trygging fyrir því að hann mun alltaf gera það sem er rétt.

Með fórnardauða Jesú opnaði Guð leiðina að endalausu lífi í paradís á jörð. Taktu eftir orðum Jesú í Jóhannesi 3:16 en þar segir: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Fórn Jesú ber vitni um óbrigðult réttlæti Guðs. En fyrst og fremst sýnir hún okkur hve annt Guði er um mannkynið.

En hvers vegna þurfti Jesús að deyja kvalafullum dauðdaga eins og lýst er í guðspjöllunum? Með því að vera fús til að ganga í gegnum gríðarlegar prófraunir og vera trúfastur afsannaði Jesús í eitt skipti fyrir öll þá ásökun djöfulsins að mennirnir myndu ekki vera trúir Guði í prófraunum. (Jobsbók 2:4, 5) Þessi ásökun gæti hafa virst réttmæt eftir að Satan fékk Adam til að syndga. Jesús var hlýðinn þrátt fyrir miklar þjáningar og fullkomið líf hans jafngilti fullkomnu lífi Adams. (1. Korintubréf 15:45) Hann sannaði þar með að Adam hefði getað hlýtt Guði ef hann hefði viljað. Með því að vera trúfastur í prófraunum lét Jesús okkur eftir fyrirmynd til að fylgja. (1. Pétursbréf 2:21) Guð umbunaði syni sínum fullkomna hlýðni hans og veitti honum ódauðleika á himnum.

ÞÚ GETUR NOTIÐ GÓÐS AF DAUÐA JESÚ

Fórnardauði Jesú er staðreynd. Leiðin að eilífu lífi er opin. Langar þig til að lifa að eilífu? Jesús benti á hvað þú þarft að gera til þess: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ – Jóhannes 17:3.

Útgefendur þessa tímarits hvetja þig til að læra meira um Jehóva, hinn sanna Guð, og um son hans, Jesú. Vottar Jehóva, þar sem þú býrð, eru fúsir til að aðstoða þig. Þú getur einnig fengið gagnlegar upplýsingar á vefsíðu okkar www.pr418.com/is.

^ gr. 8 Sjá greinina „Var Edengarðurinn til?“ í Varðturninum apríl-júni 2011, bls. 4.

^ gr. 13 Þegar Guð flutti líf sonar síns frá himnum í móðurlíf Maríu varð hún þunguð. Heilagur andi Guðs hlífði Jesú við því að erfa syndina frá Maríu. – Lúkas 1:31, 35.