Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mikilvægasti samanburður sem hugsast getur

Mikilvægasti samanburður sem hugsast getur

ERTU kristinn? Ef þú svarar játandi ertu í hópi meira en tveggja milljarða manna sem telja sig fylgja Kristi. Það er næstum 1 af hverjum 3 jarðarbúum. En trúflokkar, sem kalla sig kristna, teljast í þúsundum og aðhyllast mjög ólíkar skoðanir og kenningar. Því má vel vera að trúarskoðanir þínar séu töluvert ólíkar trúarskoðunum margra annarra sem kalla sig kristna. En skiptir einhverju máli hverju maður trúir? Já, ef maður vill iðka kristna trú eins og henni er lýst í Biblíunni.

Fylgjendur Jesú Krists voru snemma kallaðir „kristnir“. (Postulasagan 11:26) Það þurfti ekki að nefna þá neinu öðru nafni því að það var bara til ein kristin trú. Kristnir menn voru sameinaðir. Þeir fylgdu kenningum og fyrirmælum Jesú Krists, stofnanda kristninnar. Hvað um trúfélagið sem þú tilheyrir? Telurðu að það kenni það sama og Kristur kenndi og fylgjendur hans á fyrstu öld trúðu á? Hvernig geturðu gengið úr skugga um það? Til þess er aðeins ein leið – að nota Biblíuna sem mælistiku.

Jesús Kristur bar djúpa virðingu fyrir Biblíunni. Hann leit á hana sem orð Guðs. Hann hafði litla samúð með þeim sem útþynntu efni hennar og lögðu meira upp úr erfikenningum manna. (Markús 7:9-13) Það er því óhætt að álykta sem svo að sannir fylgjendur Jesú eigi að byggja trú sína á Biblíunni. Það er full ástæða fyrir alla kristna menn að íhuga hvort kenningar kirkjufélagsins, sem þeir tilheyra, komi heim og saman við Biblíuna. Besta leiðin til að kanna það er að bera kenningar þess saman við orð Biblíunnar sjálfrar.

Jesús sagði að tilbeiðsla okkar á Guði yrði að byggjast á sannleika – sannleikanum sem er að finna í Biblíunni. (Jóhannes 4:24; 17:17) Og Páll postuli skrifaði að hjálpræði okkar væri undir því komið að hafa ,þekkingu á sannleikanum‘. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Það er því mikilvægt að byggja trúarskoðanir sínar á sannleika Biblíunnar. Hjálpræði okkar er í húfi.

AÐ BERA TRÚARSKOÐANIR SÍNAR SAMAN VIÐ BIBLÍUNA

Við hvetjum þig til að lesa spurningarnar sex, sem er að finna á þessari opnu, og sjá hvernig þeim er svarað í Biblíunni. Flettu upp versunum sem vísað er í og hugleiddu svörin við spurningunum. Veltu síðan fyrir þér hvort kenningar kirkjunnar, sem þú tilheyrir, samræmast orðum Biblíunnar.

Með þessu stutta prófi geturðu gert einhvern mikilvægasta samanburð sem hugsast getur. Ertu tilbúinn til að bera fleiri kenningar trúfélags þíns saman við Biblíuna? Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að aðstoða þig við að finna hinn skýra og einfalda sannleika Biblíunnar. Þú getur beðið einhvern af vottunum að aðstoða þig endurgjaldslaust við biblíunám. Þú getur líka kynnt þér málið á vefsíðu okkar jw.org/is.