Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Læturðu Biblíuna enn þá breyta þér?

Læturðu Biblíuna enn þá breyta þér?

„Látið ... umbreytast með hinu nýja hugarfari.“ – RÓMV. 12:2.

SÖNGVAR: 61, 52

1-3. (a) Hverju getur verið erfitt að breyta eftir skírnina? (b) Hverju gætum við velt fyrir okkur þegar það reynist erfiðara að bæta okkur en við bjuggumst við? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

ÞEGAR Karl [1] kynntist sannleikanum var ekkert mikilvægara fyrir hann en að eignast náið samband við Jehóva. Árum saman hafði hann hins vegar stundað fjárhættuspil, reykt, drukkið í óhófi og neytt fíkniefna. Karl þurfti að hætta þessu líferni til að geta þóknast Jehóva. Og honum tókst það með því að treysta á hann og á kraft Biblíunnar til að breyta lífi fólks. – Hebr. 4:12.

2 Hætti Karl að vinna í því að breyta sér eftir að hann skírðist? Nei, hann hafði enn þá verk að vinna við að bæta sig og þroska með sér kristna eiginleika. (Ef. 4:31, 32) Hann var til dæmis uppstökkur að eðlisfari og það kom honum á óvart hve erfitt hann átti með að hafa stjórn á skapi sínu. Karl viðurkennir það og segir: „Það var erfiðara að læra að hafa stjórn á skapinu en að leggja af gömlu lestina.“ Einlægar bænir og rækilegt biblíunám hjálpuðu honum þó að breyta sér.

3 Rétt eins og Karl þurftu mörg okkar að breyta miklu áður en við létum skírast, til að laga okkur að helstu kröfum Biblíunnar. Eftir skírnina tókum við eftir ýmsu minna áberandi sem við þurftum líka að breyta til að líkja enn betur eftir Guði og Kristi. (Ef. 5:1, 2; 1. Pét. 2:21) Við uppgötvuðum kannski að við áttum það til að vera gagnrýnin, tala illa um fólk, vera hrædd við álit annarra eða eitthvað annað. Hefur það verið erfiðara að bæta þig en þú bjóst við? Þá veltirðu kannski fyrir þér hvers vegna það sé svona erfitt að laga smáu gallana fyrst þér tókst að gera stóru breytingarnar. Hvernig geturðu lagt þig enn betur fram um að láta Biblíuna breyta þér?

GERÐU ÞÉR RAUNHÆFAR VÆNTINGAR

4. Hvers vegna getum við ekki þóknast Jehóva í öllu sem við gerum?

4 Við sem höfum kynnst Jehóva og elskum hann þráum af öllu hjarta að þóknast honum. En hversu heitt sem við þráum það erum við ófullkomin og getum því ekki þóknast honum öllum stundum. Við stöndum í sömu sporum og Páll postuli sem skrifaði: „Að vilja veitist mér auðvelt en mig skortir alla getu til góðs.“ – Rómv. 7:18; Jak. 3:2.

5. Hverju breyttum við áður en við létum skírast en hvaða veikleika gætum við enn þurft að glíma við?

5 Við þurftum að hætta öllu sem Jehóva hefur andstyggð á áður en við fengum að tilheyra kristna söfnuðinum. (1. Kor. 6:9, 10) En við erum eftir sem áður ófullkomin. (Kól. 3:9, 10) Það er því ekki raunhæft að ætla að við hættum að gera mistök eftir að við skírumst, fáum aldrei bakslag eða að rangar langanir og hvatir geri aldrei vart við sig. Það getur gerst jafnvel mörgum árum síðar. Rangar tilhneigingar geta verið lífseigar.

6, 7. (a) Hvers vegna getum við átt vináttu Jehóva þótt við séum ófullkomin? (b) Hvers vegna ættum við ekki að hika við að biðja Jehóva um að fyrirgefa okkur?

6 Þó að við séum ófullkomin getum við átt vináttu Jehóva og þjónað honum. Hafðu alltaf hugfast að Jehóva dró okkur til sín þó að hann vissi að við myndum stundum syndga. (Jóh. 6:44) Þar sem hann þekkir eiginleika okkar og það sem býr í hjartanu var honum fullkunnugt um þær röngu tilhneigingar sem yrðu okkur sérlega erfiðar. Hann vissi líka að stundum yrði okkur á. En það breytti því ekki að Jehóva vildi eiga okkur að vinum.

7 Guð elskaði okkur svo heitt að hann gaf okkur dýrmæta gjöf – lausnarfórn elskaðs sonar síns. (Jóh. 3:16) Ef við iðrumst eftir að við syndgum getum við beðið Jehóva um fyrirgefningu á grundvelli þessarar dýrmætu fórnar. Þá megum við vera viss um að við eigum enn þá vináttu hans. (Rómv. 7:24; 1. Jóh. 2:1, 2) Ættum við að hika við að þiggja gjöf Jehóva bara af því að okkur finnst við vera óhrein eða syndug? Auðvitað ekki! Það væri eins og að neita að nota vatn til að þvo sér um hendurnar. Lausnargjaldið var einmitt greitt fyrir iðrandi syndara. Vegna lausnargjaldsins getum við átt vináttu Jehóva þrátt fyrir ófullkomleikann. – Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:15.

8. Hvers vegna ættum við ekki að líta fram hjá veikleikum okkar?

8 Við getum auðvitað ekki litið fram hjá veikleikum okkar. Til að styrkja vináttuböndin við Jehóva þurfum við að vinna stöðugt í því að líkja eftir honum og Kristi, og reyna að vera þess konar fólk sem hann vill að við séum. (Sálm. 15:1-5) Við þurfum líka að reyna að hafa taumhald á röngum tilhneigingum og uppræta þær ef við getum. Hvort sem við erum nýlega skírð eða höfum verið mörg ár í sannleikanum þurfum við að halda áfram að bæta okkur. – 2. Kor. 13:11, NW.

9. Hvernig vitum við að við getum haldið áfram að íklæðast hinum nýja manni?

9 Við þurfum að leggja okkur stöðugt fram til að halda áfram að bæta okkur og „íklæðast hinum nýja manni“. Páll minnti trúsystkini sín á það og skrifaði: „Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.“ (Ef. 4:22-24) Samkvæmt frummálinu gefur orðið, sem þýtt er „endurnýjast“, til kynna að það sé áframhaldandi ferli að íklæðast nýja manninum. Það er uppörvandi vegna þess að það veitir okkur vissu fyrir því að við getum alltaf haldið áfram að þroska með okkur og slípa eiginleika sem einkenna hinn nýja mann. Já, við getum stöðugt látið Biblíuna breyta okkur til hins betra óháð því hve lengi við höfum þjónað Jehóva.

HVERS VEGNA ER ÞAÐ SVONA ERFITT?

10. Hvað þurfum við að gera til að láta Biblíuna breyta okkur, og hvaða spurninga mætti spyrja?

10 Við þurfum að reyna á okkur ef við ætlum að láta orð Guðs halda áfram að breyta okkur. Hvers vegna er nauðsynlegt að leggja hart að sér til þess? Ætti ekki að vera auðvelt að bæta sig fyrst Jehóva blessar viðleitni okkar? Getur Jehóva ekki bara skrúfað niður í röngum löngunum okkar þannig að það kosti ekki svo mikla áreynslu að sýna góða eiginleika?

11-13. Hvers vegna ætlast Jehóva til þess að við leggjum okkur fram um að sigrast á veikleikum okkar?

11 Þegar við hugsum um alheiminn skiljum við að Jehóva býr yfir miklum mætti. Sólin breytir fimm milljónum tonna af efni í orku á hverri sekúndu, svo dæmi sé tekið. Þó að aðeins örlítið brot þessarar orku berist til jarðar nægir það til að veita okkur þá birtu og þann varma sem þarf til að viðhalda lífi. (Sálm. 74:16; Jes. 40:26) Jehóva er meira en fús til að gefa þjónum sínum á jörð þann kraft sem þeir þurfa á hverjum tíma. (Jes. 40:29) Hann gæti jafnvel gefið okkur styrk til að sigrast fyrirhafnarlaust á hvaða veikleika sem er. Við þyrftum ekki einu sinni að læra af mistökum okkar. Hvers vegna gerir hann það ekki?

12 Jehóva hefur gefið okkur óviðjafnanlega gjöf, frjálsan vilja. Með því að kjósa að gera vilja Guðs og leggja hart að okkur til þess sýnum við hve heitt við elskum hann og þráum að þóknast honum. Við sýnum líka að við styðjum drottinvald hans. Satan hefur véfengt að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims. Faðir okkar á himnum er góðviljaður og þakklátur og það er honum mikils virði að við skulum fúslega leggja mikið á okkur til að styðja drottinvald hans. (Job. 2:3-5; Orðskv. 27:11) Jehóva gæti séð til þess að við þyrftum ekki að leggja neitt á okkur til að berjast gegn röngum tilhneigingum og þóknast honum. En þá væri ósköp merkingarlítið að segjast styðja drottinvald hans og vera honum trúr.

13 Þess vegna segir Jehóva okkur að ,leggja alla stund á‘ að þroska með okkur kristna eiginleika. (Lestu 2. Pétursbréf 1:5-7; Kól. 3:12) Hann ætlast til þess að við gerum okkar ýtrasta til að hafa stjórn á hugsunum okkar og tilfinningum. (Rómv. 8:5; 12:9) Þegar við gerum það og okkur tekst að bæta okkur með hjálp Biblíunnar veitir það okkur mikla ánægju.

LÁTTU ORÐ GUÐS HALDA ÁFRAM AÐ BREYTA ÞÉR

14, 15. Hvað getum við gert til að þroska með okkur eiginleika sem eru Jehóva að skapi? (Sjá rammann „ Biblían og bænin breytti lífi þeirra“.)

14 Hvað getum við gert til að þroska með okkur góða eiginleika og þóknast Jehóva? Það er ekki nóg að ætla bara að bæta sig. Við þurfum að reyna á okkur og fylgja fyrirmælum Guðs því að í Rómverjabréfinu 12:2 segir: „Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ Með orði sínu og heilögum anda hjálpar Jehóva okkur að skilja hver vilji hans er, fylgja honum og breyta því sem við þurfum til að lifa í samræmi við kröfur hans. Við þurfum meðal annars að leggja það á okkur að lesa daglega í Biblíunni, hugleiða það sem við lesum og biðja um heilagan anda. (Lúk. 11:13; Gal. 5:22, 23) Þegar við fylgjum handleiðslu heilags anda Jehóva og lögum hugarfar okkar að því sem við lesum í Biblíunni lærum við að hugsa, tala og hegða okkur í samræmi við vilja hans. En eftir sem áður þurfum við að halda áfram að berjast gegn veikleikum okkar. – Orðskv. 4:23.

Það getur verið gagnlegt að halda til haga ritningarstöðum og greinum sem fjalla um veikleika okkar og rifja þær upp af og til. (Sjá 15. grein.)

15 Auk þess að lesa daglega í Biblíunni þurfum við að stunda biblíunám með hjálp ritanna sem við fáum til þess, með það að markmiði að tileinka okkur eiginleika Jehóva. Margar greinar í Varðturninum og Vaknið! sýna hvernig við getum gert það og barist gegn ákveðnum veikleikum. Við finnum kannski greinar og ritningarstaði sem við höfum sérstakt gagn af. Það getur verið gott að halda þeim til haga og rifja upp af og til.

16. Hvers vegna ættum við ekki að láta það letja okkur ef framfarir okkar eru hægar?

16 Ef þér finnst ganga hægt að tileinka þér sömu eiginleika og Jehóva skaltu muna að það er langtímaverkefni. Við þurfum að vera þolinmóð og leyfa Biblíunni að kalla fram jákvæðar breytingar í lífi okkar. Í byrjun þurfum við ef til vill að aga okkur til að gera það sem Biblían segir vera rétt. Þegar fram líða stundir verður þó sennilega auðveldara og eðlilegra fyrir okkur að lifa eins og Guð vill þar sem við lögum hugsanir okkar og verk æ betur að vilja hans. – Sálm. 37:31; Orðskv. 23:12; Gal. 5:16, 17.

HAFÐU Í HUGA HVE FRAMTÍÐIN VERÐUR STÓRKOSTLEG

17. Hvaða yndislega framtíð bíður okkar ef við erum Jehóva trú?

17 Við hlökkum til þess tíma þegar við verðum fullkomin og eilíft líf blasir við í þjónustu Jehóva. Þá þurfum við ekki lengur að berjast gegn neinum veikleikum heldur verður okkur eðlislægt að sýna góða eiginleika. Þangað til gerir Jehóva okkur kleift að tilbiðja sig vegna lausnargjaldsins þó að við séum ófullkomin. Við getum þóknast honum núna ef við höldum áfram að reyna að breyta okkur og fylgja því sem Biblían kennir.

18, 19. Hvað sýnir að Biblían býr yfir krafti til að breyta okkur jafnt og þétt?

18 Karl, sem nefndur var fyrr í greininni, lagði sig einlæglega fram um að ná stjórn á skapi sínu. Hann hugleiddi meginreglur Biblíunnar, fór eftir þeim og þáði aðstoð og góð ráð frá trúsystkinum. Á nokkrum árum náði hann að bæta sig verulega. Með tímanum var hann útnefndur safnaðarþjónn og undanfarin 20 ár hefur hann verið safnaðaröldungur. Hann þarf samt enn þá að gæta sín á að falla ekki í gamla farið.

19 Karl er dæmi um að Biblían hjálpar þjónum Guðs að bæta sig jafnt og þétt. Gefumst aldrei upp á að láta hana breyta okkur og styrkja tengsl okkar við Jehóva. (Sálm. 25:14) Þegar við finnum að Jehóva blessar viðleitni okkar sjáum við augljós merki þess að Biblían breytir okkur enn þá til hins betra. – Sálm. 34:9.

^ [1] (1. grein.) Nafninu er breytt.