Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heiðrar þú Guð með klæðaburði þínum?

Heiðrar þú Guð með klæðaburði þínum?

„Gerið ... allt Guði til dýrðar.“ – 1. KOR. 10:31.

SÖNGVAR: 34, 61

1, 2. Hvers vegna skiptir það máli fyrir votta Jehóva að vera vel til fara? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

„MARGIR voru hversdagslega til fara, ekki síst þegar heitt var í veðri,“ sagði í hollensku dagblaði þar sem fjallað var um fund kirkjulegra ráðamanna. „Annað er uppi á teningnum á móti Votta Jehóva ... Drengir og karlmenn eru í jakka og með bindi, og stúlkur og konur eru í hæfilega síðum pilsum ... en þó nútímalegum.“ Vottum Jehóva er oft hrósað fyrir klæðaburð sinn. Páll postuli hvetur kristnar konur til að vera „látlausar í klæðaburði ... eins og sómir konum er segjast vilja dýrka Guð“. (1. Tím. 2:9, 10) En leiðbeiningar hans eiga ekkert síður við um karla.

2 Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjónum Jehóva að vera vel til fara, og það er líka mikilvægt í augum Guðs sem við tilbiðjum. (1. Mós. 3:21) Af því sem Biblían segir um klæðaburð og útlit er ljóst að Drottinn alheims setur þjónum sínum skynsamlegar reglur um klæðnað. Þegar við veljum okkur föt ættum við ekki aðeins að hugsa um hvað okkur finnst fallegt og þægilegt. Við ættum líka að taka tillit til þess hvað fellur alvöldum Drottni Jehóva í geð.

3. Hvað lærum við um klæðaburð af Móselögunum?

3 Í Móselögunum voru til dæmis ákvæði sem vernduðu Ísraelsmenn gegn siðspilltu líferni þjóðanna umhverfis. Í lögunum kom fram að Jehóva hafði megna óbeit á að karlar og konur klæddust þannig að munurinn á kynjunum yrði ógreinilegur. (Lestu 5. Mósebók 22:5.) Fyrirmæli Guðs um klæðaburð bera greinilega með sér að það er honum ekki að skapi að karlar líkist konum í klæðaburði, konur líkist körlum eða að það sé erfitt að gera greinarmun á körlum og konum.

4. Hvað getur hjálpað kristnum manni að taka skynsamlegar ákvarðanir um klæðaburð?

4 Biblían hefur að geyma meginreglur sem gera kristnum mönnum kleift að taka skynsamlegar ákvarðanir um klæðaburð. Þessar meginreglur eiga við hvar sem þeir búa, og eru óháðar menningu og loftslagi. Við þurfum ekki langan lista yfir hverju megi klæðast og hverju ekki. Við höfum öllu heldur að leiðarljósi meginreglur í Biblíunni sem gefa hverjum og einum svigrúm til að velja sér föt eftir eigin smekk. Lítum nú á nokkrar meginreglur sem geta hjálpað okkur að skilja hver sé „vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna,“ þegar við veljum okkur föt. – Rómv. 12:1, 2.

„Í ÖLLU LÆT ÉG SJÁST AÐ ÉG ER ÞJÓNN GUÐS“

5, 6. Hvaða áhrif ætti klæðaburður okkar að hafa á aðra?

5 Páli postula var innblásið að setja fram mikilvæga meginreglu sem er að finna í 2. Korintubréfi 6:4. (Lestu.) Margir mynda sér skoðanir um aðra með því að líta á „hið ytra“, það er að segja útlitið. (1. Sam. 16:7) Við sendum fólki ákveðin skilaboð með útliti okkar. Þar sem við erum þjónar Guðs skiljum við að það er ekki nóg að okkur finnist fötin þægileg eða falleg. Meginreglur Biblíunnar ættu að vera okkur hvatning til að ganga ekki í níðþröngum fötum, flegnum eða ögrandi. Það merkir að við ættum að forðast klæðnað sem sýnir of mikið af líkamanum eða dregur fram hið kynferðislega. Engum ætti að þykja návist okkar óþægileg eða finnast hann tilneyddur að líta undan þegar hann sér hvernig við klæðumst.

6 Þegar við erum hrein, snyrtileg og látlaus til fara eru meiri líkur á en ella að fólk virði okkur sem þjóna Jehóva, drottins alheims. Og þá má vera að það laðist að þeim Guði sem við tilbiðjum. Auk þess gefum við góða mynd af söfnuðinum sem við tilheyrum ef við erum vel til fara. Og þá aukast líkurnar á að fólk hlusti á boðskapinn sem við berum.

7, 8. Hvenær er sérstaklega mikilvægt að vera vel til fara?

7 Klæðaburður okkar hefur áhrif á Guð, trúsystkini okkar og fólk á starfssvæðinu. Við ættum alltaf að klæða okkur í samræmi við boðskapinn sem við berum. (Rómv. 13:8-10) Það er líka Jehóva til heiðurs. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar við sækjum samkomur og boðum fagnaðarerindið. Við ættum að klæða okkur „eins og sómir [þeim] er segjast vilja dýrka Guð“. (1. Tím. 2:10) Auðvitað er það breytilegt eftir löndum hvað telst viðeigandi klæðnaður. Þjónar Jehóva um heim allan taka því mið af siðum og menningu á hverjum stað til að hneyksla engan.

Þú ert fulltrúi Jehóva Guðs. Ýtir þú undir virðingu fyrir honum með klæðaburði þínum? (Sjá 7. og 8. grein.)

8 Lestu 1. Korintubréf 10:31Þegar við sækjum mót þurfum við að klæða okkur á viðeigandi hátt. Við þurfum að vera látlaus í klæðaburði en ekki endurspegla þær öfgar sem einkenna tískustrauma heimsins. Við viljum ekki vera druslulega til fara eða einum of hversdagsleg þegar við skráum okkur inn á hótel eða út af því eða þegar við slökum á fyrir og eftir dagskrá. Þá getum við sagt frá því með stolti að við séum vottar Jehóva. Og þá erum við líka reiðubúin að segja frá trúnni þegar færi gefst.

9, 10. Hvers vegna ætti Filippíbréfið 2:4 að hafa áhrif á fataval okkar?

9 Lestu Filippíbréfið 2:4Við þurfum að huga að þeim áhrifum sem við höfum á trúsystkini með klæðaburði okkar. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að þau leggja sig fram um að gera eins og Biblían hvetur til: „Deyðið ... hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta.“ (Kól. 3:2, 5) Ekki viljum við gera trúsystkinum okkar erfiðara fyrir að fylgja þessum leiðbeiningum. Bræður og systur, sem lifðu áður siðlausu lífi, eiga kannski enn í baráttu við rangar langanir. (1. Kor. 6:9, 10) Við viljum auðvitað ekki þyngja róðurinn fyrir þeim.

10 Þegar við erum með trúsystkinum okkar getum við stuðlað að því að söfnuðurinn veiti þeim skjól fyrir ósiðlegu líferni heimsins. Við getum gert það með klæðaburði okkar, bæði á samkomum og við aðrar aðstæður. Okkur er frjálst að klæðast eftir eigin smekk en það er samt ábyrgð okkar allra að vera þannig til fara að við auðveldum öðrum að vera hrein frammi fyrir Guði í hugsun, orðum og verkum. (1. Pét. 1:15, 16) Sannur kærleikur „hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin“. – 1. Kor. 13:4, 5.

RÉTT FÖT MIÐAÐ VIÐ STAÐ OG STUND

11, 12. Hvernig hjálpar Prédikarinn 3:1, 17 okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir um klæðnað?

11 Þegar þjónar Guðs ákveða hverju þeir klæðast hafa þeir í huga að „sérhver hlutur ... hefur sinn tíma“. (Préd. 3:1, 17) Loftslag, árstíðaskipti og búsetuskilyrði hafa eðlilega sín áhrif á klæðaburð fólks. Meginreglur Jehóva eru hins vegar ekki breytilegar eftir veðri. – Mal. 3:6.

12 Þegar heitt er í veðri getur reynt á að velja sér föt sem eru til sóma og vitna jafnframt um skynsemi og góða dómgreind. Bræður og systur eru þakklát fyrir að við klæðumst ekki svo þröngum fötum eða svo víðum að þau sýni meira en góðu hófi gegnir. (Job. 31:1) Ef við förum á baðströnd eða í sund ættum við að vera í látlausum sundfötum. (Orðskv. 11:2, 20) Þó að margir í heiminum klæðist efnislitlum sundfötum viljum við vera Jehóva, heilögum Guði okkar, til heiðurs.

13. Af hverju ættu leiðbeiningarnar í 1. Korintubréfi 10:32, 33 að hafa áhrif á fataval okkar?

13 Í Biblíunni er að finna aðra mikilvæga meginreglu sem hefur áhrif á fataval okkar. Við eigum að taka tillit til samvisku annarra, hvort sem þeir eru trúsystkini okkar eða ekki. (Lestu 1. Korintubréf 10:32, 33.) Við þurfum að gæta þess að hneyksla ekki aðra með klæðaburði okkar. „Sérhvert okkar hugsi um náunga sinn, það sem honum er til góðs og til uppbyggingar,“ skrifaði Páll. Síðan nefnir hann ástæðuna og segir: „Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig.“ (Rómv. 15:2, 3) Við eigum að líkja eftir Jesú og leggja meiri áherslu á að gera vilja Guðs og hjálpa öðrum en að halda í eitthvað sem við höfum dálæti á. Við viljum ekki að klæðnaður okkar verði til þess að fólk loki eyrunum fyrir boðskapnum.

14. Hvernig geta foreldrar kennt börnunum að heiðra Guð með klæðaburði sínum?

14 Það er hlutverk kristinna foreldra að kenna börnunum að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Það gera þeir meðal annars með því að sjá til þess að allir í fjölskyldunni klæðist á látlausan hátt og séu snyrtilegir í útliti. Það er ein leið til að gleðja Guð. (Orðskv. 22:6; 27:11) Með fordæmi sínu og góðri leiðsögn geta foreldrar kennt börnunum að bera heilnæma virðingu fyrir þeim heilaga Guði sem þau tilbiðja. Þeir ættu að leiðbeina börnunum svo að þau læri að finna og velja sér viðeigandi föt. Börnin þurfa muna að þau bera nafn Jehóva og læra að velja sér ekki bara föt sem þau langar í heldur föt sem eru honum til heiðurs.

NOTAÐU FRELSIÐ VITURLEGA

15. Af hverju ættum við að taka mið þegar við veljum okkur föt?

15 Í Biblíunni eru góðar leiðbeiningar sem auðvelda okkur að taka viturlegar ákvarðanir og heiðra Guð. En smekkur hvers og eins ræður auðvitað einhverju um klæðnað hans. Smekkur fólks er mismunandi og fjárráð sömuleiðis. Hins vegar ættum við alltaf að vera snyrtilega til fara, hrein, látlaus, klædd eftir tilefni og eftir því sem talið er viðeigandi á hverjum stað.

16. Hvers vegna er það vel þess virði að leggja eitthvað á sig til að klæðast Guði að skapi?

16 Það er ekki alltaf auðvelt að velja sér látlaus og viðeigandi föt sem bera vitni um skynsemi og góða dómgreind. Úrvalið í fatabúðum miðast oft við það sem er í tísku þá stundina þannig að það getur kostað nokkurn tíma og fyrirhöfn að finna sér pils, kjól, blússu, buxur eða jakkaföt sem eru sómasamleg og ekki of þröng. En trúsystkini okkar taka líklega eftir að við leggjum okkur fram við að finna okkur smekkleg og viðeigandi föt og eru þakklát fyrir. Og ánægjan, sem fylgir því að vera föðurnum á himnum til lofs, meira en bætir upp þær fórnir sem við færum til að klæðast honum að skapi.

17. Hvað getur ráðið því hvort bróðir er með skegg eða ekki?

17 Er viðeigandi að bræður séu með skegg? Meðan Móselögin voru í gildi áttu karlar að vera með skegg. En kristnir menn eru ekki bundnir af Móselögunum og þurfa því ekki að halda þau. (3. Mós. 19:27; 21:5; Gal. 3:24, 25) Í sumum menningarsamfélögum er talið boðlegt og virðulegt að vera með snyrtilegt skegg og það dregur alls ekki athyglina frá boðskapnum. Sumir safnaðaröldungar þar eru með skegg. En sumir af bræðrunum kjósa ef til vill að vera skegglausir. (1. Kor. 8:9, 13; 10:32) Í ýmsum menningarsamfélögum tíðkast þó ekki að karlmenn séu með skegg og það er ekki talið viðeigandi fyrir votta Jehóva. Þar gæti það torveldað bróður að heiðra Guð og vera álitinn „óaðfinnanlegur“. – Rómv. 15:1-3; 1. Tím. 3:2, 7.

18, 19. Hvernig hjálpar Míka 6:8 okkur að þóknast Guði?

18 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að íþyngja okkur ekki með ótal reglum um klæðaburð. Hann veitir okkur frelsi til að taka eigin ákvarðanir í þessum málum með hliðsjón af skynsamlegum meginreglum Biblíunnar. Við getum því sýnt með útliti okkar og klæðaburði að við viljum ,þjóna Guði í hógværð‘. – Míka 6:8.

19 Við viðurkennum í hógværð að Jehóva er hreinn og heilagur og að það sé okkur fyrir bestu að hafa meginreglur hans að leiðarljósi. Hógvær maður tekur líka tillit til skoðana og tilfinninga annarra. Við ,þjónum Guði í hógværð‘ með því að lifa í samræmi við háleitar meginreglur hans og hugsa um þau áhrif sem við höfum á aðra með ákvörðunum okkar.

20. Hvaða áhrif getur klæðaburður okkar og útliti haft á aðra?

20 Við ættum að klæða okkur þannig að fólk dragi ekki rangar ályktanir um okkur. Trúsystkini okkar og fólk almennt ætti að geta séð greinilega að við erum verðugir fulltrúar hins réttláta Guðs, Jehóva. Hann ætlast til að við fylgjum háleitum meginreglum sínum og við erum meira en fús til þess. Bræður og systur eiga almennt hrós skilið fyrir klæðaburð sinn og góða hegðun. Þannig laða þau einlægt fólk að boðskap Biblíunnar, heiðra Jehóva og gleðja hann. Með því að taka skynsamlegar ákvarðanir um klæðaburð erum við Jehóva til heiðurs, honum sem er „skrýddur dýrð og hátign“. – Sálm. 104:1, 2.