Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúum á loforð Jehóva

Trúum á loforð Jehóva

„Trúin er ... sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ – HEBR. 11:1.

SÖNGVAR: 54, 125

1. Hvernig ættum við að líta á kristna trú?

KRISTIN trú er mjög verðmæt. En trúin er ekki allra. (2. Þess. 3:2) Jehóva hefur þó gefið hverjum þjóni sínum ákveðinn „mæli trúar“. (Rómv. 12:3; Gal. 5:22) Allir sem hafa öðlast slíka trú ættu að vera innilega þakklátir.

2, 3. (a) Hvaða blessun geta þeir hlotið sem trúa? (b) Um hvaða spurningar verður nú rætt?

2 Faðirinn á himnum dregur fólk til sín fyrir milligöngu sonar síns, Jesú Krists. (Jóh. 6:44, 65) Þeir sem trúa á Jesú geta síðan fengið syndir sínar fyrirgefnar. Þannig hafa þeir möguleika á að eignast samband við Jehóva sem varir um alla eilífð. (Rómv. 6:23) Hvað höfum við gert til að hljóta þessa dásamlegu blessun? Öll syndgum við og eigum því ekkert annað skilið en dauða. (Sálm. 103:10) En Jehóva sá þá möguleika sem við höfðum á að gera gott. Vegna einstakrar góðvildar sinnar gerði hann hjörtu okkar móttækileg fyrir fagnaðarerindinu. Þannig fórum við að trúa á Jesú og eignuðumst von um eilíft líf. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.

3 En hvað felst eiginlega í því að trúa? Er trúin bara það að átta sig á hvaða blessun við eigum í vændum frá Guði? Og það sem meira máli skiptir, á hvaða vegu þurfum við að sýna trú?

,TRÚÐU Í HJARTA ÞÍNU‘

4. Útskýrðu hvers vegna trú felur meira í sér en að skilja ákveðna hluti.

4 Fleira felst í því að trúa en bara að skilja hver vilji Guðs er. Trúin er sterkur drifkraftur sem hvetur mann til að breyta í samræmi við vilja Guðs. Að trúa á leið Guðs til að veita hjálpræði hvetur mann til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu. Páll postuli útskýrði þetta þannig: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis.“ – Rómv. 10:9, 10; 2. Kor. 4:13.

5. Hvers vegna er trúin svo mikilvæg og hvernig getum við haldið henni sterkri? Lýstu með dæmi.

5 Von okkar um að lifa að eilífu í nýjum heimi Guðs er greinilega háð því að við trúum og höldum trúnni sterkri. Þörfinni fyrir að halda okkur við í trúnni mætti lýsa með þörf plöntu fyrir vatn. Alvöruplöntur breytast stöðugt, ólíkt gerviplöntum. Lifandi planta getur annaðhvort visnað vegna þess að hún fær ekki vatn eða dafnað þegar hún er vökvuð reglulega. Heilbrigð planta deyr að lokum ef hún fær ekki nóg af vatni. Það sama á við um trúna. Hún visnar og deyr ef við vanrækjum hana. (Lúk. 22:32; Hebr. 3:12) En ef við hlúum að trúnni höldum við henni lifandi, hún heldur áfram að vaxa og við verðum ,heilbrigð í trúnni‘. – 2. Þess. 1:3; Tít. 2:2.

LÝSING BIBLÍUNNAR Á TRÚ

6. Á hvaða tvo vegu lýsir Hebreabréfið 11:1 trú?

6 Lýsingu Biblíunnar á trú má finna í Hebreabréfinu 11:1. (Lestu.) Þeir sem trúa beina huganum að tvennu sem við getum ekki séð: (1) ,Því sem menn vona‘ – það getur falið í sér ókomna atburði sem búið er að lofa en eru ekki enn orðnir að veruleika. Dæmi um það eru endalok illskunnar og nýi heimurinn sem er í vændum. (2) Hlutum „sem eigi er auðið að sjá“. Með gríska orðinu, sem er þýtt „sannfæring“, er í þessu samhengi átt við sannfærandi rök um ósýnilegan veruleika eins og tilvist Jehóva Guðs, Jesú Krists og englanna og starfsemi ríkis Guðs. (Hebr. 11:3) Hvernig sýnum við að von okkar er lifandi og að við trúum á það sem orð Guðs segir frá en er ekki hægt að sjá? Með orðum okkar og verkum – en án þeirra er trúnni ábótavant.

7. Hvernig hjálpar frásagan af Nóa okkur að skilja hvað felst í því að trúa? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

7 Í Hebreabréfinu 11:7 er athyglinni beint að trú Nóa sem fékk „bendingu um það sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann hlýddi Guði og smíðaði örk til þess að bjarga heimilisfólki sínu.“ Nói sýndi trú með því að smíða þessa gríðarstóru örk. Nágrannar hans hafa eflaust spurt hann hvers vegna hann var að vinna að slíkri feiknarsmíð. Þagði Nói um það eða sagði hann þeim að það kæmi þeim ekki við? Alls ekki. Trú hans hvatti hann til að segja hugrakkur frá því hvers vegna hann gerði það og vara samtíðarfólk sitt við yfirvofandi dómi Guðs. Nói hefur líklega sagt orðrétt frá því sem Jehóva hafði sagt honum: „Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni því að jörðin er full orðin af ranglæti þeirra vegna ... Ég læt vatnsflóð steypast yfir jörðina til að tortíma öllu holdi sem lífsanda dregur undir himninum. Allt sem á jörðinni er skal farast.“ Nói sagði þeim eflaust líka frá einu leiðinni til að bjargast og endurtók orð Guðs: „Þú skalt ganga í örkina.“ Með þessum hætti sýndi Nói einnig trú. Hann var ,boðberi réttlætisins‘. – 1. Mós. 6:13, 17, 18; 2. Pét. 2:5.

8. Hvað sagði lærisveinninn Jakob undir innblæstri um það að hafa sanna trú?

8 Jakobsbréfið var líklega skrifað stuttu eftir að Páli postula var innblásið að skrifa lýsinguna á trúnni. Jakob útskýrði líkt og Páll að í sannri kristinni trú felist meira en bara að trúa. Verk þurfa að fylgja trúnni. Hann skrifaði: „Sýn mér ... trú þína án verkanna og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.“ (Jak. 2:18) Í framhaldinu sýnir Jakob hve skýr munur er á trú án verka og trú þar sem verkin fylgja. Illu andarnir trúa á tilvist Guðs en hafa ekki sanna trú. Þeir vinna öllu heldur gegn því að vilji Guðs nái fram að ganga. (Jak. 2:19, 20) Jakob bendir líka á andstæðu þess og spyr varðandi þjón Guðs til forna: „Réttlættist ekki Abraham, faðir okkar, af verkum er hann lagði son sinn Ísak á altarið? Þú sérð að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum.“ Til að hnykkja á því að trúin þurfi að birtast í verkum bætir Jakob síðan við: „Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.“ – Jak. 2:21-23, 26.

9, 10. Hvernig hjálpar Jóhannes postuli okkur að átta okkur á mikilvægi þess að sýna trú?

9 Meira en þrem áratugum síðar skrifaði Jóhannes postuli guðspjallið sitt og þrjú bréf. Gerði hann sér grein fyrir djúpri merkingu þess að hafa sanna kristna trú sem öðrum biblíuriturum hafði verið innblásið að lýsa? Jóhannes notaði meira en nokkur annar biblíuritari gríska sögn sem þýdd er „að trúa“.

10 Jóhannes útskýrði til dæmis: „Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ (Jóh. 3:36) Kristin trú felur í sér að maður hlýði boðum Jesú. Jóhannes vitnar oft í orð Jesú sem sýna fram á að það að trúa felur í sér áframhaldandi ferli. – Jóh. 3:16; 6:29, 40; 11:25, 26; 14:1, 12.

11. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir að þekkja sannleikann?

11 Við megum vera innilega þakklát fyrir að Jehóva skyldi nota heilagan anda til að gera okkur kleift að skilja sannleikann og trúa á fagnaðarerindið. (Lestu Lúkas 10:21.) Við ættum aldrei að hætta að þakka Jehóva fyrir að draga okkur til sín fyrir milligöngu sonar síns, „höfundar og fullkomnara trúarinnar“. (Hebr. 12:2) Við ættum að sýna þakklæti okkar fyrir þessa einstöku góðvild Guðs með því að styrkja trú okkar með bænum og biblíunámi. – Ef. 6:18; 1. Pét. 2:2.

Sýndu trú með því að segja frá fagnaðarerindinu við hvert tækifæri. (Sjá 12. grein.)

12. Á hvaða vegu ættum við að sýna trú?

12 Við ættum að sýna í verki að við trúum á loforð Jehóva. Við þurfum að gera það þannig að það sé öðrum augljóst. Við boðum til dæmis fagnaðarerindið um ríki Guðs og hjálpum öðrum að verða fylgjendur Jesú. Við ,gerum öllum gott og einkum trúsystkinum okkar‘. (Gal. 6:10) Og við leggjum mikið á okkur til að ,afklæðast hinum gamla manni með gjörðum hans‘ því að við viljum ekki að neitt skaði samband okkar við Jehóva. – Kól. 3:5, 8-10.

TRÚIN Á GUÐ ER HLUTI AF UNDIRSTÖÐU OKKAR

13. Hversu mikilvæg er ,trúin á Guð‘, hvernig er henni lýst og hvers vegna?

13 „Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar,“ segir í Biblíunni, „því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.“ (Hebr. 11:6) Biblían segir að ,trú á Guð‘ sé meðal þeirra ,undirstöðuatriða‘ sem eru nauðsynleg til að geta orðið og verið sannkristinn. (Hebr. 6:1) En auk trúar er annað sem er nauðsynlegt að sýna til að láta ,kærleika Guðs varðveita sig‘. – Lestu 2. Pétursbréf 1:5-7; Júd. 20, 21.

14, 15. Hve mikilvæg er trúin í samanburði við kærleikann?

14 Kristnir ritarar Biblíunnar lögðu áherslu á mikilvægi trúar með því að nefna hana mjög oft. Reyndar nefndu þeir hana oftar en nokkurn annan eiginleika. Þýðir það að trúin sé mikilvægasti eiginleiki kristinna manna?

15 Páll bar trúna saman við kærleikann og skrifaði: „Þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“ (1. Kor. 13:2) Þegar Jesús var spurður: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ benti hann á að það allra mikilvægasta væri að elska Guð. (Matt. 22:35-40) Kærleikurinn hjálpar okkur að sýna marga aðra kristna eiginleika, þar á meðal trú. „Kærleikurinn ... trúir öllu,“ segir í Biblíunni. Hann trúir því sem Guð hefur sagt í sannleiksorði sínu. – 1. Kor. 13:4, 7.

16, 17. (a) Hvernig eru trú og kærleikur tengd saman í Biblíunni? (b) Hvor þessara eiginleika er mikilvægari og hvers vegna?

16 Vegna þess hve mikilvægt er að sýna trú og kærleika nefndu kristnir biblíuritarar þessa eiginleika oft saman, jafnvel í sömu setningu. Páll hvatti trúsystkini sín til að klæðast „trú og kærleika sem brynju“. (1. Þess. 5:8) Pétur skrifaði: „Þið hafið ekki séð [Jesú] en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann.“ (1. Pét. 1:8) Jakob spurði andasmurð trúsystkini sín: „Hefur Guð ekki útvalið þá sem eru fátækir í augum heimsins til þess að þeir verði auðugir í trú og erfi ríkið er hann hefur heitið þeim sem elska hann?“ (Jak. 2:5) Jóhannes skrifaði: „Þetta er [Guðs] boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað.“ – 1. Jóh. 3:23.

17 Þó að trúin sé nauðsynleg eigum við ekki eftir að hafa sömu þörf fyrir hana í framtíðinni þegar við sjáum loforð Guðs rætast og von okkar verða að veruleika. Þörfin fyrir að þroska með okkur kærleika til Guðs og til náungans verður hins vegar alltaf til staðar. Páll gat því skrifað: „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ – 1. Kor. 13:13.

AUGLJÓST MERKI UM TRÚ

18, 19. Hvaða augljósa merki um trú sjáum við nú á dögum og hver á heiðurinn skilið fyrir það?

18 Þjónar Guðs nú á tímum sýna að þeir trúa á ríki Guðs sem er stofnsett á himnum. Þar af leiðandi búa nú yfir átta milljónir bræðra og systra um allan heim í andlegri paradís. Innan hennar er ávöxtur andans sýndur í ríkum mæli. (Gal. 5:22, 23) Þetta er augljóst merki um sanna kristna trú og kærleik.

19 Enginn maður hefði getað komið þessu til leiðar. Það er aðeins á valdi Jehóva. Þessi eining er honum „til dýrðar, ævarandi tákn sem aldrei skal afmáð“. (Jes. 55:13) Það er „Guðs gjöf“ að við getum ,orðið hólpin fyrir trú‘. (Ef. 2:8) Andlega paradísin mun halda áfram að vaxa og dafna þar til öll jörðin er orðin full af fólki sem er fullkomið, réttlátt og hamingjusamt. Það verður nafni Jehóva til dýrðar um alla eilífð. Við skulum fyrir alla muni halda áfram að trúa á loforð Jehóva.