Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Mig langaði ekki til að deyja

Mig langaði ekki til að deyja
  • FÆÐINGARÁR: 1964

  • FÖÐURLAND: ENGLAND

  • FORSAGA: ÓREGLUSÖM TÁNINGSMÓÐIR

FORTÍÐ MÍN

 

Ég fæddist í Paddington, þéttbyggðum borgarkjarna í London. Ég og þrjár eldri systur mínar ólumst upp hjá mömmu. Pabbi átti við drykkjuvandamál að stríða. Hann var stundum hjá okkur en svo lét hann sig hverfa inn á milli.

Þegar ég var barn kenndi mamma mér að fara með bænir á hverju kvöldi. Ég átti litla biblíu sem innihélt aðeins Sálmana og samdi laglínur við þá svo að ég gæti sungið þá. Ég las eitt sinn setningu í bók sem ég gat ekki gleymt: „Einhvern tíma verður enginn morgundagur.“ Þessi hugsun hélt fyrir mér vöku og ég velti fyrir mér framtíðinni. Ég hugsaði með mér: „Lífið hlýtur að vera meira en þetta. Hvers vegna er ég til?“ Mig langaði ekki til að deyja.

Ég fór að hafa áhuga á dulrænum málum. Ég reyndi að ná sambandi við hina látnu, fór í kirkjugarða með skólafélögum og horfði á hryllingsmyndir með þeim. Við vorum bæði spennt og hrædd í senn.

Ég tók fyrsta skrefið út í spillt líferni þegar ég var tíu ára. Ég byrjaði að reykja og varð mjög fljótlega háð því. Seinna fór ég að reykja maríjúana. Þegar ég var 11 ára var ég byrjuð að fikta við áfengi. Mér fannst það ekki gott á bragðið, það voru áhrifin sem ég sóttist eftir. Ég hafði ástríðu fyrir tónlist og dansi. Ég sótti næturklúbba og fór í partí hvenær sem færi gafst. Ég lagði það í vana minn að stelast út á kvöldin og læðast aftur inn rétt áður en birti. Ég var úrvinda næsta dag og skrópaði oft í skólanum. Þegar ég mætti í skólann fékk ég mér oft sjúss á milli tíma.

Ég fékk herfilegar einkunnir síðasta árið sem ég var í skóla. Mamma var vonsvikin og reið en hún hafði ekki gert sér grein fyrir hve djúpt ég var sokkin í óregluna. Við rifumst og ég strauk að heiman. Um tíma bjó ég hjá Tony, kærastanum mínum, en hann var rastafari. Hann var smáglæpamaður og dópsali og hafði það orð á sér að vera mjög ofbeldisfullur. Fljótlega varð ég ólétt og ég var aðeins 16 ára þegar sonur okkar kom í heiminn.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 

Ég komst fyrst í kynni við votta Jehóva þegar ég bjó í athvarfi fyrir ógiftar mæður og börn þeirra. Félagsmálayfirvöld sáu mér fyrir herbergi til að vera í. Sumar ungu mæðranna fengu reglulega heimsókn frá tveim konum sem voru vottar. Einn daginn var ég með í umræðunum. Ég vildi sýna fram á að vottarnir hefðu rangt fyrir sér. En konurnar svöruðu öllum spurningum mínum yfirvegað og skýrt með hjálp Biblíunnar. Þær voru hlýlegar og vingjarnlegar en það fannst mér mjög aðlaðandi. Ég þáði því biblíukennslu hjá þeim eins og sumar af hinum mæðrunum.

Fljótlega eftir að ég byrjaði í biblíunámi lærði ég nokkuð sem breytti lífi mínu. Allt frá unga aldri hafði ég óttast dauðann. En núna fékk ég að heyra um upprisuna sem Jesús fræddi fólk um. (Jóhannes 5:28, 29) Ég lærði líka að Guð bæri umhyggju fyrir mér sem einstaklingi. (1. Pétursbréf 5:7) Það sem segir í Jeremía 29:11 hafði djúpstæð áhrif á mig: „Ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ Ég fór að trúa því að ég gæti fengið að lifa að eilífu í paradís á jörð. – Sálmur 37:29.

Hjá vottum Jehóva fann ég fyrir sönnum kærleika. Þegar ég kom á fyrstu samkomuna fékk ég hlýlegt viðmót og mér leið vel. Allir voru svo vingjarnlegir. (Jóhannes 13:34, 35) Móttökurnar voru mjög ólíkar þeim sem ég fékk í kirkju sem ég hafði farið í. Vottarnir buðu mig velkomna þrátt fyrir bága þjóðfélagsstöðu mína. Þeir gáfu sér tíma til að sinna mér, sýndu mér umhyggju og athygli og veittu mér aðstoð við ýmislegt. Mér fannst ég tilheyra stórri og ástríkri fjölskyldu.

Af biblíunáminu lærði ég að ég þyrfti að breyta ýmsu í lífi mínu til að geta haldið háleitar siðferðisreglur Guðs. Það var alls ekki auðvelt fyrir mig að hætta að reykja. Auk þess gerði ég mér grein fyrir að ákveðin tónlist ýtti undir löngunina til að reykja maríjúana. Ég fann mér því öðruvísi tónlist til að hlusta á. Ég vildi vera reglusöm og hætti því að stunda partí og næturklúbba þar sem ég myndi freistast til að drekka of mikið. Ég fann mér líka nýja vini sem höfðu góð áhrif á mig og studdu mig á þeirri braut sem ég var komin á. – Orðskviðirnir 13:20.

Tony var einnig byrjaður að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Hann fékk líka svör við spurningum sínum og sannfærðist um að það sem hann var að læra væri rétt og satt. Hann gerði veigamiklar breytingar á lífi sínu. Hann sagði skilið við gömlu ofbeldisfullu vinina, hætti að brjóta af sér og hætti að reykja maríjúana. Þar sem við vildum bæði þóknast Jehóva vissum við að við þyrftum að löggilda sambúð okkar og veita syni okkar öruggt heimili. Við giftum okkur árið 1982.

„Ég ligg ekki lengur andvaka á nóttinni og hugsa áhyggjufull um framtíðina og dauðann.“

Ég minnist þess að hafa leitað að greinum í Varðturninum og Vaknið! * um fólk sem hafði gert sömu breytingar á lífi sínu og ég þráði að gera. Þessar greinar voru mjög hvetjandi og gáfu mér kjark til að berjast áfram og leggja ekki árar í bát. Ég bað Jehóva aftur og aftur um að gefast ekki upp á mér. Við Tony létum skírast sem vottar Jehóva í júlí 1982.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 

Það bjargaði lífi mínu að eignast vináttusamband við Jehóva Guð. Við Tony höfum upplifað hjálp Jehóva þegar við höfum átt erfitt. Við höfum lært að reiða okkur á hann og við finnum hvernig hann hefur alltaf hjálpað okkur fjölskyldunni og stutt okkur. – Sálmur 55:23.

Ég hef haft yndi af því að hjálpa syni okkar og dóttur að tengjast Jehóva vináttuböndum. Núna finn ég til sams konar gleði þegar ég sé börnin þeirra kynnast Jehóva betur og betur.

Ég ligg ekki lengur andvaka á nóttinni og hugsa áhyggjufull um framtíðina og dauðann. Við Tony erum upptekin við að heimsækja söfnuði Votta Jehóva í hverri viku til að uppörva þá. Ásamt þeim kennum við öðrum að lykillinn að eilífu lífi sé að trúa á Jesú.

^ gr. 19 Einnig gefið út af Vottum Jehóva.