Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Efndu það sem þú lofar“

„Efndu það sem þú lofar“

„Halda skaltu eiða þína við Drottin.“ – MATT. 5:33.

SÖNGVAR: 63, 59

1. (a) Hvað áttu Jefta og Hanna sameiginlegt? (Sjá myndir í upphafi greinar.) (b) Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

HANN var hugrakkur leiðtogi, hún var undirgefin eiginkona. Hann var hraustur hermaður, hún var venjuleg húsmóðir. Hvað áttu Jefta dómari og Hanna, eiginkona Elkana, sameiginlegt annað en að tilbiðja sama guðinn? Þau höfðu bæði unnið Guði heit og héldu heit sín dyggilega. Þau eru góð fyrirmynd fyrir karla og konur sem ákveða að vinna Jehóva heit. En hvað er heit? Hve alvarlegt mál er að vinna Guði heit? Hvað getum við lært af Jefta og Hönnu?

2, 3. (a) Hvað er heit? (b) Hvað segir Biblían um það að vinna Guði heit?

2 Þegar talað er um heit í Biblíunni er átt við hátíðlegt loforð sem maður gefur Guði. Maður lofar að gera eitthvað ákveðið, gefa vissa gjöf, taka að sér einhvers konar þjónustu eða forðast vissa hluti. Heit eru unnin af fúsum og frjálsum vilja. Þau eru engu að síður heilög og bindandi í augum Guðs vegna þess að þau eru eins og eiður eða svarin yfirlýsing um að gera eitthvað eða gera það ekki. (1. Mós. 14:22, 23; Hebr. 6:16, 17) Hve alvarlegt mál er, að sögn Biblíunnar, að gefa Guði heit?

3 Í Móselögunum segir: „Nú vinnur maður Drottni heit eða skuldbindur sig með eiði að neita sér um eitthvað og skal hann ekki hvika frá loforði sínu, hann skal í einu og öllu standa við það sem hann sagði.“ (4. Mós. 30:3) Salómon var innblásið að skrifa: „Þegar þú gerir Guði heit frestaðu þá ekki að efna það því að hann hefur ekki velþóknun á heimskingjum. Efndu það sem þú lofar.“ (Préd. 5:3) Jesús staðfesti að það væri alvarlegt mál að gefa heit. Hann sagði: „Sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki vinna rangan eið en halda skaltu eiða þína við Drottin.“ – Matt. 5:33.

4. (a) Hve alvarlegt mál er það að vinna Guði heit? (b) Hvað ætlum við að skoða varðandi Jefta og Hönnu?

4 Það er því ljóst að það er háalvarlegt mál að gefa Jehóva loforð. Það er mikilvægt að efna loforð okkar til að varðveita gott samband við hann. Davíð orti: „Hver fær að stíga upp á fjall Drottins og hver fær að dveljast á hans helga stað? Sá sem ... vinnur ekki rangan eið.“ (Sálm. 24:3, 4) Hvaða heit gáfu þau Jefta og Hanna og hve auðvelt var fyrir þau að halda heit sín?

ÞAU EFNDU DYGGILEGA HEIT SÍN VIÐ GUÐ

5. Hvaða heit gaf Jefta og hvaða áhrif hafði það?

5 Jefta efndi dyggilega loforð sem hann gaf Jehóva áður en hann hélt í stríð gegn Ammónítum. (Dóm. 10:7-9) Ammónítar höfðu herjað á þjóð Guðs og Jefta þráði að yfirbuga þá. Hann gaf eftirfarandi heit: „Ef þú selur Ammóníta í hendur mér skal sá sem fyrstur gengur út úr dyrum húss míns á móti mér þegar ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, tilheyra Drottni.“ Jehóva bænheyrði hann og veitti honum sigur. Þegar hann sneri heim kom ástkær dóttir hans út á móti honum. Það var hún sem myndi „tilheyra Drottni“. (Dóm. 11:30-34) Hvað hafði það í för með sér fyrir hana?

6. (a) Var auðvelt fyrir Jefta og dóttur hans að halda heitið sem hann gaf Guði? (b) Hvað má læra um heit við Guð af 5. Mósebók 23:21, 23 og Sálmi 15:4?

6 Til að halda heit föður síns þurfti dóttir Jefta að þjóna Jehóva í fullu starfi við helgidóminn. Hafði Jefta ekki hugsað málið til enda þegar hann vann þetta heit? Jú, hann vissi vafalaust að það voru líkur á að dóttir hans yrði fyrsta manneskjan sem kæmi út til að taka á móti honum. Engu að síður tók það á tilfinningarnar fyrir föður og dóttur að halda heitið. Það var heilmikil fórn fyrir þau bæði. Þegar Jefta sá hana „reif hann klæði sín“ og sagðist vera sárhryggur. Dóttirin harmaði það að þurfa að vera ógift alla ævi. Hvers vegna? Jefta átti engan son og einkadóttir hans gat aldrei gifst. Hann myndi því ekki eignast nein barnabörn til að viðhalda ættinni. En það var ekki aðalmálið í huga þeirra. Jefta sagði: „Ég hef lokið upp munni mínum við Drottin og ég get ekki tekið heit mitt aftur.“ Og dóttirin svaraði: „Gerðu ... við mig eins og munnur þinn hefur lofað.“ (Dóm. 11:35-39) Þau feðginin voru trú hinum hæsta Guði og það hvarflaði ekki að þeim að svíkja heit sem honum hafði verið gefið – þó að það væri ekki auðvelt að halda það. – Lestu 5. Mósebók 23:21, 23; Sálm 15:4.

7. (a) Hvaða heit gaf Hanna, hvers vegna gaf hún það og hvernig fór? (b) Hvað þýddi loforð Hönnu fyrir Samúel? (Sjá neðanmálsgrein.)

7 Hanna stóð líka dyggilega við heit sem hún gaf Jehóva. Hún var minnt á það vægðarlaust að hún væri barnlaus og hún var sorgmædd og örvæntingarfull þegar hún vann heitið. (1. Sam. 1:4-7, 10, 16) Hanna úthellti hjarta sínu fyrir Guði og gaf honum þetta heit: „Drottinn hersveitanna, ef þú lítur á neyð ambáttar þinnar og minnist mín og ef þú gleymir ekki ambátt þinni og gefur mér son, þá skal ég gefa hann Drottni alla ævi hans og rakhnífur skal ekki snerta höfuð hans.“ * (1. Sam. 1:11) Guð bænheyrði Hönnu og hún eignaðist soninn Samúel. Hún var himinlifandi. En hún gleymdi ekki loforðinu sem hún gaf Guði. „Ég hef beðið Drottin um hann,“ sagði hún þegar drengurinn fæddist. – 1. Sam. 1:20.

8. (a) Var auðvelt fyrir Hönnu að halda heit sitt? (b) Hvernig minna orð Davíðs í Sálmi 61 á hugarfar Hönnu?

8 Um leið og Samúel hafði verið vaninn af brjósti um þriggja ára aldur efndi Hanna í einu og öllu það sem hún hafði heitið Guði. Annað hvarflaði ekki að henni. Hún fór með drenginn til Elí æðstaprests við tjaldbúðina í Síló og sagði: „Ég bað um þennan dreng og Drottinn heyrði bæn mína og gaf mér það sem ég bað um. Nú gef ég hann Drottni ... Alla ævi sína skal hann heyra Drottni til.“ (1. Sam. 1:24-28) Í Biblíunni segir: „Sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni“ við tjaldbúðina. (1. Sam. 2:21) Hvað þýddi þetta fyrir Hönnu? Hún elskaði drenginn sinn innilega en nú gat hún ekki lengur átt dagleg samskipti við hann. Þú getur rétt ímyndað þér hve heitt hún þráði að faðma hann að sér, leika við hann og annast hann – að eignast með honum ljúfar minningar meðan hann var að vaxa úr grasi, eins og ástríkri móður er eiginlegt. En Hanna sá ekki eftir að hafa gefið Guði þetta heit. Hún fagnaði og gladdist að mega þjóna Jehóva. – 1. Sam. 2:1, 2; lestu Sálm 61:2, 6, 9.

Heldurðu heit þín við Jehóva?

9. Hvaða spurningar ræðum við í framhaldinu?

9 Við höfum nú kannað hve alvarlegt mál það er að vinna Guði heit. Í framhaldinu skulum við ræða eftirfarandi spurningar: Hvers konar heit getum við unnið Guði? Hve ákveðin eigum við að vera að halda heit okkar?

VÍGSLUHEIT ÞITT

Vígsluheit (Sjá 10. grein.)

10. Hvert er mikilvægasta heitið sem kristinn maður getur gefið og hvað felur það í sér?

10 Mikilvægasta heitið, sem kristinn maður getur unnið, er að vígja Jehóva líf sitt. Hvers vegna er það svo? Vegna þess að hann lofar Guði hátíðlega og einslega í bæn að nota líf sitt í þjónustu hans að eilífu, hvað sem á dynur. Hann ,afneitar sjálfum sér‘ svo vitnað sé í orð Jesú, og lofar að láta vilja Guðs en ekki eigin langanir ganga fyrir öllu öðru í lífinu. (Matt. 16:24) Þaðan í frá tilheyrir hann Jehóva. (Rómv. 14:8) Sá sem gefur Guði vígsluheit ætti að taka það mjög alvarlega líkt og sálmaskáldið sem sagði eftirfarandi: „Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig? Ég greiði Drottni heit mín og það í augsýn alls lýðs hans.“ – Sálm. 116:12, 14.

11. Hvað léstu í ljós daginn sem þú skírðist?

11 Hefurðu vígt Jehóva líf þitt og gefið tákn um það með niðurdýfingarskírn? Það er frábært ef þú hefur gert það. Mundu að á skírnardeginum varstu spurður í votta viðurvist hvort þú hefðir vígst Jehóva. Þú varst líka spurður hvort þér væri ljóst að ,vígsla þín og skírn auðkenni þig sem einn af vottum Jehóva í samfélagi við söfnuð hans sem hann stýrir með anda sínum‘. Með því að svara spurningunum játandi gafstu opinbera yfirlýsingu um að þú hefðir vígst Jehóva skilyrðislaust og værir hæfur til að skírast sem vígður þjónn hans. Þú hlýtur að hafa glatt Jehóva mikið.

12. (a) Hvaða spurninga er gott að spyrja sig? (b) Hvaða eiginleika ættum við að þroska með okkur að sögn Péturs?

12 Skírnin er þó aðeins upphafið. Eftir að hafa skírst viljum við nota líf okkar dyggilega í þjónustu Jehóva eins og við lofuðum. Það er því gott að líta í eigin barm og spyrja sig: Hvernig hefur samband mitt við Jehóva þroskast síðan ég lét skírast? Þjóna ég Jehóva enn af heilum huga? (Kól. 3:23) Bið ég oft, les daglega í Biblíunni og sæki safnaðarsamkomur? Tek ég þátt í boðuninni eins oft og ég get? Eða hefur dregið aðeins úr þessu hjá mér? Pétur postuli benti á að það væri viss hætta á að verða óvirkur í þjónustunni. Við getum afstýrt því með því að leggja stund á að sýna í trú okkar þekkingu, þolgæði og guðrækni. – Lestu 2. Pétursbréf 1:5-8.

13. Hvað þarf vígður og skírður kristinn maður að hafa hugfast?

13 Það er ekki hægt að ógilda vígsluheit sitt, að taka aftur það sem við lofuðum Guði. Þó að einhver verði þreyttur á að þjóna Jehóva eða lifa eins og kristinn maður getur hann ekki fullyrt að hann hafi í rauninni aldrei vígst honum og skírn hans sé ógild. * Með því að skírast lét hann í ljós að hann væri vígður Guði í einu og öllu. Hann þarf að standa Jehóva og söfnuðinum reikningsskap ef hann syndgar alvarlega. (Rómv. 14:12) Vonandi verður aldrei sagt um okkur að við höfum ,fallið frá okkar fyrri kærleik‘. Við viljum heldur að Jesús geti sagt um okkur: „Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk þín eru meiri en hin fyrri.“ (Opinb. 2:4, 19) Við viljum gleðja Jehóva með því að lifa í samræmi við vígsluheit okkar.

HJÚSKAPARHEIT ÞITT

Hjúskaparheit (Sjá 14. grein.)

14. Hvert er næstmikilvægasta heitið sem hægt er að gefa og hvers vegna?

14 Hjúskaparheitið er næstmikilvægasta heitið sem hægt er að gefa. Hvers vegna er það svo? Vegna þess að hjónabandið er heilagt. Brúðhjónin gefa hjúskaparheitið frammi fyrir Guði og þeim sem eru viðstaddir vígsluna. Þegar karl og kona í söfnuði Votta Jehóva ganga í hjónaband lofa þau að jafnaði að elska, annast og virða hvort annað ,svo lengi sem þau bæði lifa hér á jörð samkvæmt hjúskapartilhögun Guðs‘. Þótt ekki sé farið orðrétt með þetta heit hafa brúðhjónin samt gefið heit frammi fyrir Guði. Síðan er lýst yfir að þau séu hjón og hjónabandið á að vera ævilangt. (1. Mós. 2:24; 1. Kor. 7:39) Jesús sagði: „Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja“ – hvorki annað hjónanna né nokkur annar. Fólk ætti ekki að ganga í hjónaband með því hugarfari að það sé alltaf hægt að skilja ef erfiðleikar koma upp. – Mark. 10:9.

15. Hvers vegna mega þjónar Guðs ekki hugsa um hjónabandið á sömu nótum og heimurinn?

15 Fullkomið hjónaband hefur aldrei verið til. Hvert einasta hjónaband er samband tveggja ófullkominna einstaklinga. Þess vegna segir í Biblíunni að hjón megi búast við erfiðleikum af og til. (1. Kor. 7:28) Því miður er algengt í þessum heimi að hjónabandið sé ekki tekið mjög alvarlega. Þegar reynir á sambandið gefast margir upp og yfirgefa maka sinn. En sannkristnir menn taka aðra afstöðu. Að rjúfa hjúskaparheitið jafngildir því að ljúga að Guði og Guð hatar lygara. (3. Mós. 19:12; Orðskv. 6:16-19) Páll postuli skrifaði: „Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus.“ (1. Kor. 7:27) Páll gat sagt þetta vegna þess að hann vissi að Jehóva hatar hjónaskilnað sem byggist á svikum. – Mal. 2:13-16, Biblían 1981.

16. Hvað segir Biblían um hjónaskilnað og skilnað að borði og sæng?

16 Jesús kenndi að það væri aðeins ein biblíuleg ástæða til að slíta hjónabandi – að annað hjónanna hafi framið hjúskaparbrot og saklausi makinn kjósi að fyrirgefa ekki brotið. (Matt. 19:9; Hebr. 13:4) En hvað þá um skilnað að borði og sæng? Þar er afstaða Biblíunnar líka skýr. (Lestu 1. Korintubréf 7:10, 11.) Biblían tiltekur ekki neinar ástæður fyrir skilnaði að borði og sæng. Í sjaldgæfum tilfellum hafa giftir vottar þó talið sig tilneydda að skilja að borði og sæng, til dæmis ef þeir hafa talið að lífi sínu eða sambandi við Jehóva væri bráð hætta búin vegna þess að makinn er ofbeldisfullur eða mjög andsnúinn trúnni. *

17. Hvernig geta kristin hjón gert hjónabandið sterkt og varanlegt?

17 Segjum að hjón eigi í erfiðleikum í hjónabandinu og leiti til öldunganna. Þá ættu öldungarnir að spyrja þau hvort þau hafi horft nýlega á myndbandið What Is True Love? og lesið og rætt saman um efni bæklingsins Hamingjuríkt fjölskyldulíf. Hvers vegna? Vegna þess að þar er bent á biblíulegar meginreglur sem hafa hjálpað mörgum að styrkja hjónabandið. Hjón nokkur segja: „Við erum búin að fara saman yfir þennan bækling og við höfum aldrei verið hamingjusamari.“ Systir nokkur hafði verið gift í 22 ár og hjónabandið var að fara út um þúfur. Hún segir: „Við erum bæði skírð en tilfinningalega vorum við ekki á sömu blaðsíðunni. Myndbandið kom á hárréttum tíma. Núna gengur okkur miklu betur.“ Ertu í hjónabandi? Þá skaltu fyrir alla muni fara eftir leiðbeiningum Jehóva um hjónabandið. Það hjálpar þér að lifa í samræmi við hjúskaparheitið – og vera hamingjusamur.

HEIT ÞEIRRA SEM ERU Í SÉRSTAKRI ÞJÓNUSTU Í FULLU STARFI

18, 19. (a) Hvað hafa margir foreldrar í söfnuðinum gert? (b) Hvað má segja um þá sem eru í sérstakri þjónustu í fullu starfi?

18 Fyrr í greininni var rætt um heit sem Jefta og Hanna gáfu Guði. Heitin urðu til þess að dóttir Jefta og sonur Hönnu voru helguð sérstakri þjónustu við tjaldbúðina. Þessi lífsstefna var bæði gefandi og gleðirík fyrir þau. Margir foreldrar í söfnuðinum hafa líka hvatt börnin sín til að þjóna Jehóva í fullu starfi og einbeita sér að því. Þeir sem hafa gert það eiga hrós skilið. – Dóm. 11:40; Sálm. 110:3.

Heit um sérstaka þjónustu í fullu starfi (Sjá 19. grein.)

19 Um þessar mundir eru um 67.000 manns sem tilheyra Heimsreglu votta Jehóva í sérstakri þjónustu í fullu starfi. Sumir starfa á Betel en aðrir vinna við byggingarstörf, eru í farandstarfi, sérbrautryðjendur, trúboðar, kenna við ýmsa skóla safnaðarins eða hafa daglega umsjón með mótshöllum eða húsnæði þar sem skólar safnaðarins eru starfræktir. Þeir hafa allir unnið heit þar sem þeir samþykkja að vinna hver þau störf sem þeim eru falin í þjónustu Jehóva, lifa einföldu lífi og vinna ekki veraldleg störf án þess að fá leyfi til. Það er ekki fólkið sem er sérstakt heldur þjónustan sem það innir af hendi. Það er staðráðið í að halda heit sitt svo lengi sem það er í sérstakri þjónustu í fullu starfi.

20. Hvað ættum við að gera alla daga og hvers vegna?

20 Hve mörg af þeim heitum, sem hér hafa verið rædd, hefurðu gefið Guði? Eitt, tvö eða öll þrjú? Þú gerir þér auðvitað grein fyrir að þú mátt ekki vera kærulaus gagnvart þeim heitum sem þú gefur. (Orðskv. 20:25) Það getur haft alvarlegar afleiðingar að halda ekki heit sín við Jehóva. (Préd. 5:5) Við skulum því líkja eftir sálmaskáldinu sem ávarpaði Jehóva og sagði: „Þá vil ég syngja nafni þínu lof um aldur, efna heit mín alla daga.“ – Sálm. 61:9.

^ gr. 7 Hanna hét Jehóva því að ef hún eignaðist son skyldi hann verða nasírei. Það þýddi að hann yrði helgaður og „frátekinn“ til að þjóna Jehóva alla ævi. – 4. Mós. 6:2, 5, 8.

^ gr. 13 Öldungarnir gera margt til að ganga úr skugga um að þeir sem vilja skírast séu hæfir til þess. Það hlýtur því að vera afar sjaldgæft að skírn sé ógild.

^ gr. 16 Sjá Viðauki „Afstaða Biblíunnar til skilnaðar“ í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“.