Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að hjálpa börnum innflytjenda

Að hjálpa börnum innflytjenda

„Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum.“ – 3. JÓH. 4.

SÖNGVAR: 88, 41

1, 2. (a) Hvað eiga börn innflytjenda oft við að glíma? (b) Hvaða spurningar eru ræddar í þessari grein?

„FORELDRAR mínir eru innflytjendur og allt frá barnæsku talaði ég málið þeirra heima og í söfnuðinum,“ segir Joshua, „en þegar ég byrjaði í skóla vildi ég frekar tala málið sem var talað þar. Eftir fáein ár var ég búinn að skipta alveg yfir. Ég skildi ekkert á samkomum og samsamaði mig ekki menningu foreldra minna.“ Það sem Joshua lýsir er ekkert einsdæmi.

2 Yfir 240.000.000 manna búa ekki í fæðingarlandi sínu. Ertu í þeim hópi og ertu foreldri? Hvernig geturðu þá stuðlað sem best að því að börnin þín læri að elska Jehóva og ,hlýða sannleikanum‘? (3. Jóh. 4) Og hvernig geta aðrir orðið að liði?

FORELDRAR, VERIÐ GÓÐ FYRIRMYND

3, 4. (a) Hvernig geta foreldrar verið börnunum góð fyrirmynd? (b) Til hvers eiga foreldrar ekki að ætlast af börnunum?

3 Foreldrar, það er mikilvægt að þið séuð góð fyrirmynd ef þið viljið að börnin eignist náið samband við Jehóva og hljóti eilíft líf. Ef börnin sjá ykkur ,leita fyrst ríkis Guðs‘ læra þau að reiða sig á að hann sjái þeim fyrir daglegum nauðsynjum. (Matt. 6:33, 34) Lifið einföldu lífi. Leggið meiri áherslu á að þjóna Jehóva en eignast efnislega hluti. Reynið að forðast skuldir. Eignist ,fjársjóð á himni‘, það er að segja velþóknun Jehóva, frekar en efnisleg gæði eða „heiður manna“. – Lestu Markús 10:21, 22; Jóh. 12:43.

4 Verið aldrei svo upptekin að þið hafið ekki tíma til að sinna börnunum. Látið þau vita að þið séuð stolt af þeim þegar þau ákveða að setja Jehóva í fyrsta sætið í stað þess að sækjast eftir fé og frama – handa sjálfum sér eða ykkur. Hugsið ekki sem svo að börnin eigi að sjá til þess að þið getið lifað þægilegu lífi. Það er ekki kristilegt viðhorf. Munið að „ekki eiga börnin að sjá fyrir foreldrunum heldur foreldrarnir fyrir börnunum“. – 2. Kor. 12:14.

FORELDRAR, BRÚIÐ BILIÐ MILLI TUNGUMÁLANNA

5. Hvers vegna þurfa foreldrar að tala við börnin sín um Jehóva?

5 Eins og spáð var streymir fólk „af öllum þjóðtungum“ inn í söfnuð Jehóva. (Sak. 8:23) En ef börnin ykkar skilja málið ykkar ekki vel getur verið erfitt fyrir ykkur að kenna þeim sannleikann. Börnin ykkar eru mikilvægustu biblíunemendur sem þið getið nokkurn tíma haft, og þau þurfa að kynnast Jehóva til að hljóta eilíft líf. (Jóh. 17:3) Þau þurfa að þekkja leiðbeiningar Jehóva og þið þurfið að nota öll viðeigandi tækifæri til að segja þeim frá þeim. – Lestu 5. Mósebók 6:6, 7.

6. Hvaða gagn geta börnin haft af því að læra móðurmál ykkar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Börnin ykkar læra líklega tungumál heimamanna í skólanum og af umhverfi sínu, en móðurmál ykkar læra þau fyrst og fremst ef þið talið oft saman á því máli. Ef börnin kunna málið ykkar getið þið rætt opinskátt um það sem liggur þeim á hjarta. En það hefur líka ýmsa aðra kosti fyrir börnin að vera tvítyngd. Það skerpir hugsun þeirra og eykur félagsfærnina. Það gerir þeim líka kleift að færa út kvíarnar í boðuninni. „Ég hef haft gaman af því að vera í erlendum söfnuði,“ segir Carolina en foreldrar hennar eru innflytjendur. „Og það er frábært að aðstoða þar sem þörfin er meiri.“

7. Hvað getið þið gert ef tungumál verður til hindrunar í fjölskyldunni?

7 Þegar börn innflytjenda tileinka sér mál og menningu samfélagsins kemur fyrir að þau langar ekki til að tjá sig á móðurmáli foreldranna eða geta það jafnvel ekki. Hvað getið þið foreldrarnir gert ef það gerist hjá börnunum ykkar? Getið þið þá lært að minnsta kosti eitthvað í máli heimamanna? Þið eruð mun betur í stakk búin til að ala börnin upp í kristinni trú ef þið skiljið samræður þeirra, og skiljið það sem kemur fram í afþreyingarefni þeirra og heimaverkefnum, og getið átt milliliðalaus samskipti við kennara þeirra. Það kostar auðvitað tíma, erfiði og auðmýkt að læra nýtt tungumál. En hvað mynduð þið gera ef barn ykkar missti heyrnina? Mynduð þið ekki reyna að læra táknmál til að geta átt samskipti við það? Á ekki barn skilið sömu umhyggju ef það á auðveldast með að tjá sig á öðru raddmáli? *

8. Hvernig geturðu hjálpað börnum þínum ef þú hefur takmarkaða kunnáttu í máli heimamanna?

8 Það er ekki raunhæft að ætlast til að allir innflytjendur geti talað hið nýja tungumál barnanna reiprennandi. Það getur gert foreldrunum erfitt um vik að kenna börnunum svo að þau skilji „heilagar ritningar“. (2. Tím. 3:15) En þó að þú sért í þessari stöðu geturðu samt kennt börnunum svo að þau læri að þekkja Jehóva og elska hann. „Mamma var einstæð móðir og skildi ekki sérlega vel málið sem okkur var tamast, og við systkinin kunnum ekki nógu mikið í málinu hennar,“ segir Shan en hann er safnaðaröldungur. „En þegar við sáum hana lesa, grúska, biðja og gera sitt besta til að halda reglu á vikulegri tilbeiðslustund fjölskyldunnar skildum við að það var mjög mikilvægt að kynnast Jehóva.“

9. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum ef þau þurfa að læra á tveim tungumálum?

9 Sum börn þurfa að læra um Jehóva á tveim tungumálum – því sem er talað í skólanum og því sem er talað heima. Sumir foreldrar nota því prentað mál, hljóðritað efni og myndefni á báðum tungumálunum. Ljóst er að foreldrar, sem eru innflytjendur, þurfa að nota mikinn tíma og krafta til að kenna börnunum svo að þau eignist sterkt samband við Jehóva.

HVAÐA TUNGUMÁL ÁTTU AÐ VELJA?

10. (a) Hver þarf að ákveða hvaða söfnuð fjölskyldan sækir? (b) Hvað ætti hann að gera áður en hann tekur ákvörðun?

10 Þegar ,útlendingar‘ búa fjarri öðrum vottum sem tala sama mál og þeir, þurfa þeir að sækja samkomur sem eru haldnar á máli heimamanna. (Sálm. 146:9) En ef haldnar eru samkomur í nágrenninu á móðurmáli ykkar vaknar sú spurning hvor söfnuðurinn henti fjölskyldunni best. Fjölskyldufaðirinn þarf að ákveða það eftir að hafa hugleitt málið vel, lagt það fyrir Jehóva í bæn og ráðfært sig við eiginkonu sína og börn. (1. Kor. 11:3) Hvað þarf hann að taka með í reikninginn? Hvaða meginreglur eiga þar við? Lítum á nokkrar.

11, 12. (a) Hvernig hefur tungumálið áhrif á það sem barnið lærir á samkomum? (b) Hvers vegna geta börn verið treg til að tileinka sér mál foreldranna?

11 Foreldrar þurfa að vega og meta þarfir barnsins af fullu raunsæi. Til að ná góðum tökum á sannleika Biblíunnar þarf barnið auðvitað miklu meira en nokkurra klukkustunda fræðslu í viku á samkomum – óháð því hvert tungumálið er. En það er umhugsunarvert að börn geta lært mikið með því að vera einfaldlega á samkomum ef þær eru haldnar á tungumálinu sem þau skilja best. Þau læra kannski miklu meira en foreldrarnir gera sér grein fyrir. En það er ekki víst að það gerist ef börnin skilja ekki málið til hlítar. (Lestu 1. Korintubréf 14:9, 11.) Og móðurmál barnsins verður ekki endilega mál hugans eða hjartans þegar fram líða stundir. Börn geta lært að boða trúna, svara á samkomum og flytja nemendaverkefni á máli foreldra sinna án þess að orðin komi í rauninni frá hjartanu.

12 Það er ekki aðeins tungumálið sem hefur áhrif á hjarta barnsins. Þannig var það hjá Joshua sem áður er getið. Esther, systir hans, segir: „Í augum barna mynda mál foreldranna, menning og trú eina heild.“ Ef börnin samsama sig ekki menningu foreldranna má búast við að þau séu treg til að tileinka sér mál þeirra – og trú. Hvað geta foreldrar, sem eru innflytjendur, gert?

13, 14. (a) Hvers vegna ákváðu hjón, sem eru innflytjendur, að fjölskyldan skipti um söfnuð? (b) Hvað gerðu foreldrarnir til að viðhalda sterku sambandi við Jehóva?

13 Foreldrar í söfnuðinum taka velferð barnanna fram yfir sínar eigin óskir. (1. Kor. 10:24) Samuel, faðir þeirra Joshua og Estherar, segir: „Við hjónin fylgdumst með börnunum til að kanna á hvaða tungumáli sannleikurinn næði að snerta hjörtu þeirra, og við báðum Jehóva að veita okkur visku. Niðurstaðan var ekki sú sem hentaði okkur hjónunum best. En þegar við sáum að börnin höfðu lítið gagn af samkomunum á móðurmáli okkar ákváðum við að skipta um söfnuð. Við sóttum samkomur saman og tókum þátt í boðuninni. Við buðum líka vinum í nýja söfnuðinum í mat og útivistarferðir með okkur. Þannig kynntust börnin bræðrum og systrum og þau kynntust Jehóva, ekki aðeins sem Guði sínum heldur líka sem föður og vini. Okkur fannst það miklu mikilvægara en að þau næðu sem bestum tökum á móðurmáli okkar.“

14 Samuel heldur áfram: „Við hjónin sóttum líka samkomur á móðurmáli okkar til að viðhalda sterku sambandi við Jehóva. Við vorum býsna upptekin og þreytt. En við þökkum Jehóva fyrir að blessa erfiði okkar og fórnir. Börnin okkar þrjú þjóna Jehóva núna í fullu starfi.“

ÞAÐ SEM UNGA FÓLKIÐ GETUR GERT

15. Hvers vegna fannst Kristinu hún geta þjónað Jehóva betur í innlendum söfnuði?

15 Þegar börnin ná fullorðinsaldri uppgötva þau ef til vill að þau geti þjónað Jehóva enn betur í söfnuði þar sem talað er tungumálið sem þau skilja best. Foreldrarnir ættu ekki að túlka það sem svo að börnin séu að hafna þeim. „Ég skildi móðurmál foreldra minna nokkurn veginn en málið, sem talað var á samkomum, var ofar mínum skilningi,“ segir Kristina. „Þegar ég var 12 ára sótti ég mót sem var haldið á skólamálinu mínu. Þá skildi ég í fyrsta sinn að það var sannleikurinn sem ég var að hlusta á. Það urðu önnur þáttaskil hjá mér þegar ég fór að biðja til Jehóva á skólamálinu mínu. Ég gat talað við hann frá hjartanu.“ (Post. 2:11, 41) Þegar Kristina náði fullorðinsaldri ræddi hún málið við foreldra sína og ákvað síðan að flytjast yfir í söfnuð sem hélt samkomur á máli heimamanna. „Að læra um Jehóva á skólamálinu mínu var mér hvatning til verka,“ segir Kristina. Áður en langt um leið var hún orðin brautryðjandi.

16. Hvers vegna er Nadia ánægð með að hún skyldi halda sig í erlenda söfnuðinum?

16 Þið unga fólk, langar ykkur kannski til að tilheyra innlendum söfnuði? Ef svo er skuluð þið spyrja ykkur hvers vegna. Myndi það styrkja tengsl ykkar við Jehóva að skipta um söfnuð? (Jak. 4:8) Eða langar ykkur til að flytja til að þið þurfið ekki að leggja eins mikið á ykkur eða til að foreldrar ykkar geti ekki fylgst eins vel með ykkur? „Þegar við systkinin komumst á unglingsaldur langaði okkur til að færa okkur yfir í innlenda söfnuðinn,“ segir Nadia en hún starfar nú á Betel. Foreldrar hennar vissu hins vegar að það yrði ekki til þess að efla samband þeirra við Jehóva. „Við erum þakklát fyrir það núna að foreldrar okkar skuli hafa lagt sig fram við að kenna okkur móðurmál sitt og haldið okkur í erlenda söfnuðinum. Það auðgaði líf okkar og gaf okkur meiri möguleika á að hjálpa fólki að kynnast Jehóva.“

HVERNIG GETA AÐRIR ORÐIÐ AÐ LIÐI?

17. (a) Hverjum hefur Jehóva falið það verkefni að ala börnin upp? (b) Hvernig geta foreldrar fengið aðstoð við að ala börnin upp í sannleikanum?

17 Guð hefur falið foreldrunum, ekki afa, ömmu eða nokkrum öðrum, það hlutverk að ala börnin upp í sannleikanum. (Lestu Orðskviðina 1:8; 31:10, 27, 28.) En ef foreldrarnir tala ekki mál heimamanna þurfa þeir ef til vill að fá aðstoð til að ná til hjartna barnanna. Að leita sér slíkrar aðstoðar þarf ekki að merkja að foreldrarnir afsali sér uppeldishlutverkinu heldur getur það verið þáttur í því að ala börnin upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) Foreldrar geta til dæmis beðið öldunga í söfnuðinum um ráð varðandi tilbeiðslustund fjölskyldunnar og um aðstoð til að sjá börnunum fyrir góðum félagsskap.

Bæði foreldrar og börn njóta góðs af félagsskap við trúsystkini. (Sjá 18. og 19. grein.)

18, 19. (a) Hvernig geta aðrir í söfnuðinum hjálpað börnum og unglingum? (b) Hverju verða foreldrarnir samt að halda áfram?

18 Af og til geta foreldrar til dæmis boðið öðrum fjölskyldum að vera með í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Börn og unglingar dafna oft vel undir áhrifum trúsystkina sem boða trúna með þeim og taka þátt í heilnæmri afþreyingu með þeim. (Orðskv. 27:17) „Ég man vel eftir bræðrunum sem tóku mig upp á arma sína,“ segir Shan sem áður er getið. „Ég lærði alltaf eitthvað nýtt þegar þeir aðstoðuðu mig við að undirbúa nemendaverkefni fyrir samkomur. Og ég hafði ánægju af því sem við gerðum saman sem hópur í frístundum.“

19 Þeir sem foreldrar biðja um aðstoð við að kenna börnunum ættu auðvitað alltaf að tala jákvætt um þá og ýta þannig undir virðingu barnanna fyrir þeim. Þeir ættu ekki að yfirtaka uppeldið. Og þeir sem veita aðstoð ættu að forðast hvers kyns hátterni sem einhver utan eða innan safnaðarins gæti mistúlkað og talið siðferðilega vafasamt. (1. Pét. 2:12) Foreldrarnir mega ekki bara fela öðrum það hlutverk að kenna börnunum sannleikann. Þeir verða að fylgjast með þeirri aðstoð sem aðrir í söfnuðinum veita og halda líka sjálfir áfram að kenna börnunum.

20. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að verða góðir þjónar Jehóva?

20 Foreldrar, biðjið Jehóva um hjálp og gerið ykkar besta. (Lestu 2. Kroníkubók 15:7.) Látið vináttusamband barnsins við Jehóva ganga fyrir ykkar eigin hag. Gerið allt sem þið getið til að orð Guðs nái til hjarta barnsins. Missið aldrei trúna á að barnið geti orðið góður þjónn Jehóva. Þegar börnin ykkar fara eftir orði Guðs og fylgja góðu fordæmi ykkar verður ykkur innanbrjósts eins og Jóhannesi postula sem sagði um andleg börn sín: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum.“ – 3. Jóh. 4.

^ gr. 7 Sjá greinina „You Can Learn Another Language!“ í Awake! í mars 2007, bls. 10-12.