Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Elskar þú mig meira en þessa?“

„Elskar þú mig meira en þessa?“

„Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessa?“ – JÓH. 21:15, NW.

SÖNGVAR: 128, 45

1, 2. Hvað gerðist eftir að nokkrir lærisveinanna höfðu verið næturlangt við veiðar?

SJÖ af lærisveinum Jesú höfðu verið við veiðar á Galíleuvatni alla nóttina en ekkert fengið. Jesús, sem var risinn upp frá dauðum, fylgdist með hópnum frá ströndinni. Hann sagði við þá: „,Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.‘ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn.“ – Jóh. 21:1-6.

2 Eftir að Jesús hafði gefið þeim morgunmat sneri hann sér að Símoni Pétri og spurði: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessa?“ Hvað átti Jesús við? Pétur var mikill veiðimaður. Það virðist því vera að Jesús hafi verið að spyrja hann hvað veitti honum mesta ánægju í lífinu. Hafði hann meira yndi af fisknum og útgerðinni en af Jesú og því sem hann kenndi? Pétur svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ (Jóh. 21:15, NW) Pétur reyndist maður orða sinna. Þaðan í frá sannaði hann að hann elskaði Krist með því að leggja hart að sér við að gera fólk að lærisveinum og hann varð klettur í kristna söfnuðinum á fyrstu öld.

3. Fyrir hvaða hættum þurfa þjónar Guðs að vera vakandi?

3 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði við Pétur? Við þurfum að varast að láta kærleika okkar til Krists dvína og láta trufla okkur í þjónustunni við ríki Guðs. Jesús vissi vel hve mikið álag fylgir lífinu í þessum heimi. Í dæmisögunni um sáðmanninn sagði hann að sumir myndu taka við ,orðinu um ríkið‘ og vera kappsamir fyrst um sinn en „áhyggjur heimsins og tál auðæfanna“ myndi síðan „kefja orðið“. (Matt. 13:19-22; Mark. 4:19) Ef við erum ekki á verði geta áhyggjur daglegs lífs tælt hjarta okkar og orðið til þess að við sláum slöku við í þjónustunni við Jehóva. Jesús varaði lærisveina sína við því og sagði: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður.“ – Lúk. 21:34.

4. Hvað getur hjálpað okkur að kanna hve heitt við elskum Krist? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Við sönnum hve heitt við elskum Krist með því að setja verkið, sem hann fól okkur, í fyrsta sæti, rétt eins og Pétur gerði eftir samtalið við hann. Hvernig getum við gengið úr skugga um að við gerum það? Af og til þurfum við að spyrja okkur: Hvað er mér mest umhugað um í lífinu? Hvað veitir mér mesta ánægju, það sem heimurinn býður upp á eða þjónustan við Jehóva? Skoðum í því samhengi þrjú svið sem geta dregið úr kærleika okkar til Krists og andlegra mála ef við höldum þeim ekki innan hóflegra marka – atvinnu, afþreyingu og efnislega hluti.

LÁTTU VINNUNA EKKI GLEYPA ÞIG

5. Hvaða biblíulega skylda hvílir á þeim sem veita fjölskyldu forstöðu?

5 Fiskveiðar voru meira en bara áhugamál hjá Pétri – hann hafði lífsviðurværi sitt af þeim. Þeir sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá nú á tímum vita að þeim ber biblíuleg skylda til að sjá fyrir efnislegum þörfum hennar. (1. Tím. 5:8, Biblían 1981) Þeir þurfa að leggja hart að sér til að rækja þessa skyldu. Á þessum síðustu dögum getur atvinna hins vegar oft verið áhyggjuefni.

6. Hvaða álagi finnur fólk oft fyrir á vinnumarkaðinum?

6 Víða ríkir hörð samkeppni um þau störf sem eru í boði. Þar af leiðandi finnst mörgum launþegum þeir tilneyddir að lengja vinnudaginn, stundum fyrir lægri laun. Auk þess kemur það niður á fólki líkamlega, andlega og tilfinningalega að stöðugt er þrýst á það að afkasta meiru. Starfsfólk, sem er ekki tilbúið til að færa slíkar fórnir fyrir fyrirtækið, á það á hættu að vera sagt upp.

7, 8. (a) Hverjum ber okkur fyrst og fremst að sýna hollustu? (b) Að hverju komst bróðir nokkur í Taílandi varðandi vinnuna sína?

7 Okkur sem erum kristin ber fyrst og fremst að sýna Jehóva hollustu, ekki vinnuveitandanum. (Lúk. 10:27) Atvinna er einfaldlega leið að ákveðnu marki. Við vinnum til að sjá fyrir efnislegum nauðsynjum og framfleyta okkur í boðuninni. En ef við erum ekki á verði getur atvinnan farið að trufla tilbeiðslu okkar. Bróðir í Taílandi segir svo frá: „Ég vann við tölvuviðgerðir og fannst það mjög áhugavert en því fylgdu langir vinnudagar. Ég hafði næstum engan tíma aflögu fyrir andleg mál. Að lokum varð mér ljóst að til að geta sett ríki Guðs í fyrsta sæti þyrfti ég að finna mér annars konar vinnu.“ Hvað gerði þessi bróðir?

8 „Eftir að hafa undirbúið það í heilt ár,“ útskýrir hann, „ákvað ég að gerast götusali og fara að selja ís. Til að byrja með var erfitt að ná endum saman og það dró úr mér kjark. Þegar ég hitti gömlu vinnufélagana hlógu þeir að mér og spurðu hvers vegna mér fyndist betra að selja ís en að vinna við tölvur í loftkældu umhverfi. Ég bað Jehóva að hjálpa mér að halda út og ná því markmiði mínu að geta haft meiri tíma fyrir andlegu málin. Ekki leið á löngu þar til ástandið fór að batna. Ég lærði betur inn á hvað viðskiptavinunum líkaði og varð færari ísgerðarmaður. Fyrr en varði seldist allur ísinn upp á hverjum degi. Raunin var sú að fjárhagurinn varð betri en þegar ég vann við tölvur. Ég varð ánægðari vegna þess að ég losnaði við álagið og áhyggjurnar sem fylgdu fyrra starfi. Síðast en ekki síst finn ég að sambandið við Jehóva er orðið nánara.“ – Lestu Matteus 5:6; Lúkas 11:28.

9. Hvernig getum við haft rétt viðhorf til atvinnu?

9 Guð hefur velþóknun á dugnaði og það er auðgandi að vinna. (Orðskv. 12:14) Við megum samt ekki láta vinnuna gleypa okkur eins og bróðirinn, sem minnst var á, komst að raun um. Jesús sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta [efnislegar nauðsynjar] veitast yður að auki.“ (Matt. 6:33) Til að kanna hvort við sjáum atvinnu og andlegu málin í réttu ljósi getur verið gott að spyrja sig: Finnst mér atvinnan áhugaverð og spennandi en þjónustan við Jehóva hversdagsleg og jafnvel óspennandi vanaverk? Með því að velta fyrir okkur og hugleiða viðhorf okkar til atvinnu og til þjónustunnar við Jehóva getum við betur áttað okkur á hvert okkar hjartans mál er.

10. Hvaða mikilvæga lærdóm kenndi Jesús um það að forgangsraða?

10 Jesús var fullkomin fyrirmynd um að hafa jafnvægi milli veraldlegra mála og andlegra. Eitt sinn heimsótti hann systurnar Maríu og Mörtu. Marta fór strax að matbúa en María kaus að sitja við fætur Jesú og hlusta á hann. Þegar Marta kvartaði yfir því að María skyldi ekki hjálpa til sagði Jesús við hana: „María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ (Lúk. 10:38-42) Jesús kenndi Mörtu mikilvægan lærdóm. Til að láta ekki veraldlegt amstur trufla okkur og til að sanna að við elskum Krist verðum við að velja „góða hlutskiptið“ og láta andlegu málin ganga fyrir.

VIÐHORF OKKAR TIL AFÞREYINGAR

11. Hvað segir Biblían um það að hvílast og slappa af?

11 Við þurfum stundum að slaka á og fá hvíld frá þéttri dagskrá okkar. Í orði Guðs segir: „Ekkert hugnast mönnum betur en að matast og drekka og láta sál sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ (Préd. 2:24) Jesús vissi að það væri mikilvægt að hvílast af og til. Eitt sinn eftir að hafa verið á fullu í boðuninni með lærisveinunum sagði hann: „Komið nú á óbyggðan stað, svo að við séum einir saman, og hvílist um stund.“ – Mark. 6:31, 32.

12. Hvað þurfum við að varast í sambandi við skemmtun og afþreyingu? Nefndu dæmi sem sýnir fram á það.

12 Það er vissulega mikilvægt að slappa af og gera sér dagamun. Sú hætta er þó fyrir hendi að skemmtun og afþreying verði þungamiðjan í lífinu. Á fyrstu öld hugsuðu margir: „Etum ... og drekkum, því að á morgun deyjum við!“ (1. Kor. 15:32) Þetta sama hugarfar er áberandi víða í heiminum nú á dögum. Ungur maður í Vestur-Evrópu fór að sækja samkomur fyrir mörgum árum. En hann var svo upptekinn af skemmtun og afþreyingu að hann hætti að mæta á samkomur og eiga samneyti við votta Jehóva. Með tímanum varð honum þó ljóst að þessi lífsstíll hefði ekkert nema vandamál og vonbrigði í för með sér. Hann byrjaði því aftur að kynna sér Biblíuna og varð að lokum hæfur til að gerast boðberi fagnaðarerindisins. Eftir að hann skírðist sagði hann: „Það eina, sem ég sé eftir, er að hafa glatað svo miklum tíma áður en það rann upp fyrir mér að það veitir miklu meiri ánægju að þjóna Jehóva en að eltast við þá skemmtun sem heimurinn býður upp á.“

13. (a) Lýstu með dæmi hættu sem tengist skemmtun og afþreyingu. (b) Hvað getur hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til skemmtunar og afþreyingar?

13 Markmiðið með afþreyingu ætti að vera að safna kröftum og endurnærast. Hvað þurfum við að verja miklum tíma í afþreyingu til að ná því markmiði? Veltu fyrir þér eftirfarandi líkingu: Mörgum okkar þykir gott að borða eftirrétt af og til en við gerum okkur grein fyrir að ef við lifum á kökum og nammi kemur það niður á heilsunni. Þess vegna borðum við mestmegnis næringarríkan mat. Á sama hátt veikjumst við í trúnni ef við látum lífið snúast um skemmtun og afþreyingu. Til að koma í veg fyrir það látum við þjónustuna við Jehóva eiga fastan sess í lífi okkar. Hvernig getum við skorið úr um hvort við höfum rétt viðhorf til afþreyingar? Við gætum haldið skrá yfir tímann sem við notum í einni viku í andleg mál, svo sem að sækja samkomur, boða trúna og stunda sjálfsnám eða fjölskyldunám. Síðan gætum við borið það saman við hve marga tíma við notuðum þessa sömu viku í afþreyingu, eins og að stunda íþróttir eða áhugamál, horfa á sjónvarpið eða spila tölvuleiki. Hvað leiðir samanburðurinn í ljós? Gætum við þurft að „borða minna af eftirréttum“? – Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.

14. Hvað ætti að leiðbeina okkur þegar við veljum okkur skemmtun og afþreyingu?

14 Einstaklingar og þeir sem veita fjölskyldu forstöðu geta valið afþreyingu eftir vild, svo framarlega sem hún samræmist meginreglum Jehóva sem hann útlistar í Biblíunni. * Heilnæm afþreying er „Guðs gjöf“. (Préd. 3:12, 13) Við gerum okkur auðvitað grein fyrir að það er misjafnt hvers konar afþreyingu fólk velur sér. (Gal. 6:4, 5) En sama hvaða afþreyingu við veljum þurfum við að halda henni innan hóflegra marka. Jesús sagði: „Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ (Matt. 6:21) Þar sem við elskum Jesú viljum við að hugsanir okkar, orð og verk beinist fyrst og fremst að þjónustunni við ríki Guðs en ekki hversdagslegum hlutum. – Fil. 1:9, 10.

BARÁTTA OKKAR GEGN EFNISHYGGJUNNI

15, 16. (a) Hvernig gæti efnishyggjan orðið þjóni Guðs gildra? (b) Hvaða viðvörun gaf Jesús varðandi efnislega hluti?

15 Margir nú til dags eru gagnteknir af nýjustu tískunni, nýjustu tækjunum og þar fram eftir götunum. Við sem þjónum Guði þurfum því reglulega að kanna hvað býr í hjartanu með því að spyrja okkur spurninga sem þessara: Skipta efnislegir hlutir mig svo miklu máli að ég nota meiri tíma í að skoða og hugsa um nýjustu bílana eða tískuna en að búa mig undir samkomur? Er ég orðinn svo upptekinn af hversdagslegum málum að ég nota minni tíma en áður til að biðja eða lesa í Biblíunni? Ef við komumst að raun um að ást okkar á efnislegum hlutum skyggir á kærleika okkar til Krists ættum við að hugleiða þessi orð hans: „Varist alla ágirnd.“ (Lúk. 12:15) Hvers vegna gaf Jesús þessa alvarlegu viðvörun?

16 Hann sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum,“ og bætti við: „Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ Ástæðan er sú að báðir ,herrarnir‘ krefjast óskiptrar hollustu. ,Annaðhvort hötum við annan og elskum hinn eða þýðumst annan og afrækjum hinn,‘ útskýrði Jesús. (Matt. 6:24) Þar sem við erum ófullkomin þurfum við öll að halda áfram að berjast gegn „jarðbundnum girndum“, þar á meðal efnishyggjunni. – Ef. 2:3.

17. (a) Hvers vegna á veraldlega sinnað fólk erfitt með að hafa skynsamlegt viðhorf til efnislegra hluta? (b) Hvað hjálpar okkur að berjast gegn efnishyggjunni?

17 Margir eru svo uppteknir af eigin löngunum og nautnum að þeir eiga erfitt með að hafa skynsamlegt viðhorf til efnislegra hluta. Hvers vegna? Vegna þess að andleg skilningarvit þeirra eru sljó. (Lestu 1. Korintubréf 2:14.) Þegar dómgreindin er farin að brenglast verður erfiðara fyrir þá að greina rétt frá röngu. (Hebr. 5:11-14) Hjá sumum kviknar þar af leiðandi stjórnlaus löngun í efnislega hluti – löngun sem er aldrei hægt að fullnægja. (Préd. 5:9) Sem betur fer er til mótefni við efnishyggjunni: heilnæmur skammtur af orði Guðs, Biblíunni, á reglulegum grundvelli. (1. Pét. 2:2) Jesús hugleiddi andleg sannindi og það hjálpaði honum að standast freistingar. Ef við fylgjum meginreglum Biblíunnar hjálpar það okkur að sama skapi að berjast gegn efnishyggjunni. (Matt. 4:8-10) Þannig sýnum við Jesú að við elskum hann meira en nokkurn efnislegan hlut.

Hvað skiptir mestu máli í lífi þínu? (Sjá 18. grein.)

18. Hvað ætlar þú að gera?

18 Þegar Jesús spurði Pétur: „Elskar þú mig meira en þessa?“ var hann að minna Pétur á að andlegu málin þyrftu að skipa fyrsta sæti í lífinu. Nafnið Pétur þýðir „steinn“ og Pétur stóð sannarlega undir nafni því að hann sýndi mikinn styrk og reyndist traustur. (Post. 4:5-20) Við erum sömuleiðis ákveðin í að elska Krist staðfastlega og halda atvinnu, afþreyingu og efnislegum hlutum innan hóflegra marka. Sýnum með ákvörðunum okkar að okkur er innanbrjósts eins og Pétri sem sagði við Jesú: „Drottinn, þú veist að ég elska þig.“