Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gajus hjálpaði bræðrum sínum

Gajus hjálpaði bræðrum sínum

GAJUS og aðrir kristnir menn, sem voru uppi seint á fyrstu öld, mættu ýmsum erfiðleikum. Ákveðnir menn útbreiddu falskenningar og reyndu að veikja söfnuði og sundra þeim. (1. Jóh. 2:18, 19; 2. Jóh. 7) Maður, sem hét Díótrefes, ófrægði Jóhannes postula og aðra „með ljótum orðum“, neitaði að sýna gestrisni þeim sem ferðuðust í þágu safnaðarins og reyndi að telja aðra á að gera slíkt hið sama. (3. Jóh. 9, 10) Þannig var ástandið þegar Jóhannes skrifaði Gajusi. Postulinn skrifaði bréfið um árið 98 og þetta þriðja bréf Jóhannesar er hluti af Grísku ritningunum.

Gajus hélt trúfastur áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir erfiðleikana sem hann þurfti að þola. Hvernig sýndi hann trúfesti? Hvers vegna ættum við sem lifum núna að líkja eftir Gajusi? Hvernig getur bréf Jóhannesar hjálpað okkur að gera það?

BRÉF TIL ÁSTKÆRS VINAR

Ritari Þriðja Jóhannesarbréfs kallar sjálfan sig ,öldunginn‘. Það var nóg til þess að Gajus, elskað barn hans í trúnni, áttaði sig á að þetta væri Jóhannes postuli. Jóhannes heilsar Gajusi hlýlega sem ,hinum elskaða sem hann ann í sannleika‘. Síðan segist hann vonast til að Gajus sé eins hraustur líkamlega og hann er sterkur í trúnni. Hann ber greinilega hlýjar tilfinningar til Gajusar og hrósar honum innilega. – 3. Jóh. 1, 2, 4, Biblían 1981.

Það er ekki ólíklegt að Gajus hafi verið umsjónarmaður í söfnuðinum en bréfið segir það ekki beint út. Jóhannes hrósar Gajusi fyrir að taka trúsystkini inn á heimili sitt þó að hann þekkti þau ekki. Jóhannes leit á það sem merki um trúfesti Gajusar þar sem gestrisni hefur alltaf verið einkennandi fyrir þjóna Guðs. – 1. Mós. 18:1-8; 1. Tím. 3:2; 3. Jóh. 5.

Það að Jóhannes skuli vera svona þakklátur fyrir gestrisnina, sem Gajus sýndi trúsystkinum, gefur til kynna að kristnir menn hafi ferðast reglulega milli dvalarstaðar Jóhannesar og safnaðanna. Þessir ferðalangar sögðu Jóhannesi greinilega frá því sem þeir höfðu upplifað. Ef til vill var það þannig sem Jóhannes fékk fréttir af söfnuðunum.

Kristnir menn voru mjög ánægðir að fá að gista hjá trúsystkinum þegar þeir ferðuðust. Gistihús höfðu slæmt orð á sér fyrir lélega þjónustu og kynferðislegt siðleysi sem óð þar uppi. Skynsamir ferðalangar gistu því hjá vinum ef mögulegt var og kristnir menn hjá trúsystkinum.

„SAKIR NAFNSINS LÖGÐU ÞEIR AF STAГ

Jóhannes hvatti Gajus til að halda áfram að sýna gestrisni. Hann bað hann að „greiða för [ferðalanganna] eins og verðugt er í Guðs augum“. Að greiða för gestanna þýddi í þessu tilviki að sjá fyrir öllu sem þeir þyrftu þar til þeir kæmu á næsta gististað eða áfangastað. Gajus hafði greinilega gert þetta áður fyrir gesti sína þar sem þeir höfðu sagt Jóhannesi frá kærleika og trú gestgjafa síns. – 3. Jóh. 3, 6.

Gestirnir geta hafa verið trúboðar, sendimenn Jóhannesar eða farandumsjónarmenn. Hvernig sem því var farið ferðuðust þeir í þágu fagnaðarerindisins. Jóhannes sagði: „Sakir nafnsins lögðu þeir af stað.“ (3. Jóh. 7, Biblían 1981) Jóhannes hafði rétt áður minnst á Guð (sjá vers 6) og því virðist vera að orðin „sakir nafnsins“ vísi í nafn Jehóva. Bræðurnir tilheyrðu sem sagt kristna söfnuðinum og verðskulduðu að vel væri tekið á móti þeim eins og Jóhannes benti á þegar hann sagði: „Okkur [ber] að hjálpa þessum mönnum og verða þannig samverkamenn þeirra í þágu sannleikans.“ – 3. Jóh. 8.

HJÁLP VIÐ ERFIÐAR AÐSTÆÐUR

Jóhannes skrifaði Gajusi ekki aðeins til að þakka honum fyrir það sem hann hafði gert. Hann vildi líka hjálpa honum að taka á alvarlegum vanda. Af einhverri ástæðu vildi maður í söfnuðinum, Díótrefes að nafni, ekki sýna kristnum ferðalöngum gestrisni. Hann reyndi jafnvel að aftra öðrum frá því. – 3. Jóh. 9, 10.

Trúfastir kristnir menn hefðu eflaust ekki viljað gista hjá Díótrefesi jafnvel þótt það hefði verið í boði. Hann vildi vera fremstur í söfnuðinum, tók ekki mark á neinu sem Jóhannes postuli sagði og ófrægði hann og aðra með ljótum orðum. Díótrefes setti sig greinilega upp á móti valdi Jóhannesar þó að Jóhannes hafi aldrei kallað hann falskennara. Metnaðargirni hans og ókristilegt hugarfar vakti verulegar efasemdir um trúfesti hans. Frásagan af Díótrefesi sýnir hvernig metnaðargjarnir og hrokafullir einstaklingar geta reynt að hafa sundrandi áhrif á söfnuðinn. Jóhannes sagði því Gajusi og reyndar okkur öllum: „Líktu ekki eftir því sem illt er.“ – 3. Jóh. 11.

GÓÐ ÁSTÆÐA TIL AÐ GERA GOTT

Jóhannes nefnir einnig Demetríus, kristinn mann sem var öðrum góð fyrirmynd, ólíkt Díótrefesi. „Demetríus fær góðan vitnisburð ... Ég ber honum hið sama,“ skrifar Jóhannes, „og þú veist að vitnisburður minn er sannur.“ (3. Jóh. 12) Það getur verið að Demetríus hafi þurft á hjálp Gajusar að halda og að með Þriðja Jóhannesarbréfi hafi postulinn viljað kynna hann og gefa honum meðmæli sín. Demetríus getur sjálfur hafa fært Gajusi bréfið. Hann var einn sendimanna Jóhannesar eða ef til vill farandumsjónarmaður og því er líklegt að hann hafi lagt áherslu á mikilvægi þess sem Jóhannes hafði skrifað.

Hvers vegna hvatti Jóhannes Gajus til að halda áfram að sýna gestrisni fyrst hann var þegar duglegur við það? Fannst postulanum þörf á telja í hann kjark? Hafði hann áhyggjur af því að Gajus yrði hikandi við að bjóða gestum til sín þar sem Díótrefes vildi reka þá úr söfnuðinum sem sýndu gestrisni? Hvað sem því líður vildi Jóhannes uppörva Gajus og sagði: „Sá sem gerir gott heyrir Guði til.“ (3. Jóh. 11) Það er góð ástæða til að gera gott og halda því stöðugt áfram.

Varð bréf Jóhannesar Gajusi hvatning til að halda áfram að vera gestrisinn? Þar sem þetta þriðja bréf Jóhannesar varð hluti af Biblíunni og var varðveitt til að hvetja fleiri til að ,líkja eftir því sem gott er‘ má ætla að svo hafi verið.

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF ÞRIÐJA JÓHANNESARBRÉFI?

Við vitum ekki meira um Gajus, kæran bróður okkar til forna. Við getum samt lært ýmislegt af þessari litlu innsýn sem við höfum fengið í líf hans.

Hvernig getum við sýnt gestrisni?

Í fyrsta lagi hafa trúfastir þjónar Guðs verið fúsir til að ferðast svo að við gætum kynnst boðskapnum, og flest okkar eiga að einhverju leyti þeim að þakka að hafa kynnst sannleikanum. Það ferðast auðvitað ekki allir í söfnuðinum langar leiðir í þágu fagnaðarerindisins. En við getum, líkt og Gajus, stutt og hvatt þá sem gera það, eins og farandhirðinn og konuna hans. Við gætum ef til vill líka aðstoðað trúsystkini okkar sem flytja innanlands eða jafnvel milli landa til að hjálpa til þar sem meiri þörf er á boðberum. Verum því dugleg að sýna gestrisni. – Rómv. 12:13; 1. Tím. 5:9, 10.

Í öðru lagi ætti það ekki að koma okkur á óvart ef einhver setur sig upp á móti þeim sem fara með forystuna í söfnuðinum þó að það sé sjaldgæft. Forysta Jóhannesar var dregin í efa og hið sama er að segja um Pál postula. (2. Kor. 10:7-12; 12:11-13) Hvernig eigum við þá að bregðast við ef álíka vandamál koma upp í söfnuðinum okkar? Páll ráðlagði Tímóteusi: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum. Hann á að vera hógvær er hann agar þá sem skipast í móti.“ Ef við erum mild í framkomu, jafnvel þegar okkur er ögrað, gætu sumir þeirra sem gagnrýna okkur breytt um afstöðu með tímanum. Þá gæti Jehóva líka gefið þeim ,sinnaskipti sem leiðir þá til þekkingar á sannleikanum‘. – 2. Tím. 2:24, 25.

Í þriðja lagi lærum við að trúsystkini okkar, sem þjóna Jehóva dyggilega þrátt fyrir mótlæti, þurfa að heyra að aðrir kunni að meta þau og fá hrós fyrir trúfesti sína. Jóhannes var mjög hvetjandi við Gajus og fullvissaði hann um að hann væri á réttri braut. Öldungar nú á dögum ættu að líkja eftir Jóhannesi og hvetja bræður sína og systur þannig að þau ,lýist ekki‘. – Jes. 40:31; 1. Þess. 5:11.

Bréf Jóhannesar postula til Gajusar er stysta bók Biblíunnar en í grískum texta þess eru aðeins 219 orð. Engu að síður er þetta bréf afar mikils virði fyrir þjóna Guðs nú á dögum.