Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Blessuð séu hyggindi þín“

„Blessuð séu hyggindi þín“

DAVÍÐ, smurður konungur Ísraels til forna, sagði orðin hér að ofan þegar hann hrósaði konu sem hann hitti. Þessi kona var Abígail. Hvað gerði hún til að verðskulda þetta hrós og hvað getum við lært af henni?

Davíð hitti Abígail þegar hann var á flótta undan Sál konungi. Hún var gift Nabal, vellauðugum manni sem átti stórar hjarðir sauðfjár og geita í fjalllendi Suður-Júda. Davíð og menn hans höfðu verið eins og ,varnargarður‘ umhverfis fjárhirða og hjarðir Nabals. Davíð sendi menn til að biðja Nabal að gefa þeim ,það sem hann hefði við höndina‘ af matarbirgðum. (1. Sam. 25:8, 15, 16) Það gat varla talist ósanngjörn beiðni í ljósi þess að Davíð og menn hans höfðu gætt hagsmuna Nabals.

Nabal stóð hins vegar undir nafni, en það merkir „heimskingi“ eða „fífl“. Hann brást ruddalega við og neitaði með fúkyrðum að verða við beiðni Davíðs. Davíð bjó sig því undir að refsa Nabal fyrir að móðga sig og vera ósanngjarn. Nabal og heimilisfólk hans áttu að gjalda fyrir heimsku hans. – 1. Sam. 25:2-13, 21, 22.

Abígail áttaði sig á að það sem Davíð hafði í hyggju myndi hafa alvarlegar afleiðingar. Hún tók því hugrökk til sinna ráða. Með háttvísi beindi hún athygli Davíðs að sambandi hans við Jehóva og lét þennan verðandi konung og menn hans fá meira en nóg af matvælum. Davíð viðurkenndi að Jehóva hefði sent hana til að koma í veg fyrir að hann bakaði sér alvarlega sekt. Hann sagði við Abígail: „Blessuð séu hyggindi þín og þú sjálf sem forðaðir mér frá því að baka mér blóðskuld.“ – 1. Sam. 25:18, 19, 23-35.

Við viljum augljóslega ekki líkjast Nabal sem kunni ekki að meta það góða sem var gert fyrir hann. Og ef við sjáum að eitthvað slæmt er í aðsigi viljum við gera það sem við getum til að koma í veg fyrir það. Við getum tekið undir með sálmaskáldinu sem bað Guð: „Veit mér dómgreind og þekkingu því að ég treysti boðum þínum.“ – Sálm. 119:66.

Þegar við sýnum visku og góða dómgreind má vera að aðrir taki eftir því, hvort sem þeir tjá það með orðum eða ekki. Þeim gæti verið innanbrjósts eins og Davíð sem sagði: „Blessuð séu hyggindi þín.“