Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sækjumst eftir sönnum auði

Sækjumst eftir sönnum auði

„Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini.“ – LÚK. 16:9.

SÖNGVAR: 122, 129

1, 2. Hvers vegna verður alltaf til fátækt í þessu heimskerfi?

Í VIÐSKIPTAHEIMI nútímans ríkir harka og ósanngirni. Fjöldi ungs fólks á erfitt með að finna vinnu og margir hætta lífinu í leit að betra lífi í efnameiri löndum. En jafnvel í velmegunarlöndum er fátækt útbreidd. Og bilið á milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt. Nýlegar tölur sýna að eitt prósent jarðarbúa eigi eins mikinn auð og allir aðrir jarðarbúar til samans. Þó að ekki sé hægt að fullyrða að svo verði er engum blöðum um það að fletta að milljarðar manna búa við mjög bág kjör á meðan aðrir eiga svo mikið að það gæti enst í marga mannsaldra. Jesús benti á þennan harða veruleika þegar hann sagði: „Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur.“ (Mark. 14:7) En hvers vegna er ójöfnuðurinn svona mikill?

2 Jesús vissi að viðskiptaheimurinn myndi ekki breytast fyrr en ríki Guðs tæki völdin. Gráðugur viðskiptaheimur nútímans, sem „kaupmenn jarðarinnar“ í Opinberunarbókinni 18:3 tákna, tilheyrir heimi Satans ásamt stjórnmála- og trúaröflunum. Þjónar Guðs taka engan þátt í stjórnmálum og tilheyra ekki fölskum trúarbrögðum. En fæstir þeirra geta sagt algerlega skilið við viðskiptaheiminn.

3. Hvaða spurningar ætlum við að skoða?

3 Þar sem við erum þjónar Guðs ættum við að skoða eigin viðhorf til viðskiptaheimsins. Við gætum spurt okkur: Hvernig get ég notað efnislegar eigur mínar á þann hátt að það endurspegli trúfesti við Guð? Hvernig get ég tekið sem minnstan þátt í viðskiptum þessa heims? Hvaða dæmi sýna að þjónar Guðs treysta honum algerlega í þessum efnum?

DÆMISAGAN UM SVIKULA RÁÐSMANNINN

4, 5. (a) Í hvaða erfiðu stöðu var ráðsmaðurinn í dæmisögu Jesú? (b) Hvað hvatti Jesús fylgjendur sína til að gera?

4 Lestu Lúkas 16:1-9Dæmisaga Jesú um svikula ráðsmanninn ætti að vekja okkur til umhugsunar. Þegar ráðsmaðurinn hafði verið sakaður um að sóa eigum húsbóndans breytti hann „kænlega“, eða skynsamlega, til að „eignast vini“ sem myndu hjálpa honum þegar hann missti vinnuna. * Að sjálfsögðu var Jesús ekki að hvetja lærisveina sína til að vera svikulir svo að þeir gætu bjargað sér í þessum heimi. Hann tengdi þess konar viðskiptahætti við „börn þessa heims“ en notaði dæmisöguna til að koma ákveðnum boðskap til skila.

5 Jesús vissi að flestir fylgjenda hans þyrftu að sjá fyrir sér í óréttlátum heimi verslunar og viðskipta rétt eins og ráðsmaðurinn í dæmisögunni sem var allt í einu í erfiðri stöðu. Hann segir því: „Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini [Jehóva og Jesú] sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn.“ Hvað getum við lært af orðum Jesú?

6. Hvernig vitum við að viðskiptahættir heimsins voru ekki hluti af fyrirætlun Guðs?

6 Þó að Jesús nefni ekki hvers vegna hann kallar auðinn „hinn rangláta mammón“ er alveg ljóst af Biblíunni að viðskipti í gróðaskyni voru ekki hluti af fyrirætlun Jehóva. Í Edengarðinum sá Jehóva ríkulega fyrir öllum þörfum Adams og Evu. (1. Mós. 2:15, 16) Síðar þegar heilagur andi starfaði með söfnuði andasmurðra kristinna manna á fyrstu öld segir að „enginn þeirra taldi neitt vera sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt“. (Post. 4:32) Jesaja spámaður sagði fyrir að sá tími kæmi að allir menn gætu notið efnislegra gæða jarðarinnar að vild. (Jes. 25:6-9; 65:21, 22) En þangað til þyrftu fylgjendur Jesú að nota „hinn rangláta mammón“ skynsamlega til að sjá fyrir sér, jafnframt því að þóknast Guði.

AÐ NOTA HINN RANGLÁTA MAMMÓN SKYNSAMLEGA

7. Hvaða leiðbeiningar finnum við í Lúkasi 16:10-13?

7 Lestu Lúkas 16:10-13Ráðsmaðurinn í dæmisögu Jesú aflaði sér vina í eiginhagsmunaskyni. En Jesús hvatti fylgjendur sína til að afla sér vina á himnum í óeigingjörnum tilgangi. Hann vildi að við gerðum okkur grein fyrir að við getum sýnt trúfesti okkar við Guð með því að nota ,hverful auðæfi‘, eða þá fjármuni sem við eignumst, á réttan hátt. Hvernig getum við gert það?

8, 9. Hvernig nota sumir fjármuni sína á þann hátt að það endurspeglar trúfesti við Guð?

8 Ein leið til að sýna trúfesti með efnislegum eigum okkar er að styðja alþjóðastarfið sem Jesús sagði fyrir að yrði unnið. (Matt. 24:14) Ung stúlka á Indlandi safnaði smám saman aurum í lítinn peningabauk. Hún neitaði sér jafnvel um leikföng til að geta sett í baukinn. Þegar hún var búin að fylla hann gaf hún peningana til að hægt væri að nota þá í boðunina. Bróðir nokkur á Indlandi ræktar kókoshnetur. Hann færði þýðingastofunni, sem þýðir á malajalam, mikið magn af kókoshnetum. Þar sem þýðingastofan hefði hvort eð er þurft að kaupa kókoshnetur nýtist framlag hans betur og hann notar eigur sínar skynsamlega með þessum hætti. Á svipaðan hátt sjá bræður í Grikklandi Betelfjölskyldunni þar í landi fyrir ólífuolíu, ostum og fleiri matvörum.

9 Bróðir frá Srí Lanka, sem býr nú í öðru landi, lánar húsnæði sitt og landareign heima fyrir undir samkomur og mót auk þess að boðberar í fullu starfi fá að búa þar. Það er fjárhagsleg fórn af hans hálfu en mikil hjálp fyrir boðberana á staðnum sem hafa úr litlu að spila. Í einu landi, þar sem hömlur eru á starfi okkar, opna bræður heimili sín til að nota þau sem ríkissali. Þannig geta brautryðjendur og aðrir með lítil fjárráð haldið samkomur án þess að það sé fjárhagslega íþyngjandi.

10. Hvaða gagn höfum við af því að vera örlát?

10 Dæmin hér að framan sýna hvernig þjónar Guðs eru ,trúir í því smæsta‘. (Lúk. 16:10) Þeir nota efnislegar eigur sínar – sem eru minna virði en andlegur auður – öðrum til góðs. Hvað finnst þessum trúu vinum Jehóva um að færa slíkar fórnir? Þeir vita að með örlæti sínu öðlast þeir ,sannan auð‘. (Lúk. 16:11) Systir ein gefur reglulega framlög til boðunarinnar. Hún segist hafa tekið eftir breytingum í fari sínu vegna þess að hún hefur tamið sér örlæti. Hún segir: „Ég hef tekið eftir að því örlátari sem ég er á efnislegar eigur mínar því örlátari verð ég í garð annarra. Ég er til dæmis fúsari til að fyrirgefa öðrum og er þolinmóðari. Þar að auki á ég auðveldara með að sætta mig við vonbrigði og taka ráðum.“ Margir hafa kynnst því af eigin raun að örlæti er andlega auðgandi. – Sálm. 112:5; Orðskv. 22:9.

11. (a) Hvernig ber það vott um skynsemi að vera örlátur? (b) Á hvaða hátt næst efnislegur „jöfnuður“ meðal þjóna Guðs? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 Við sýnum líka skynsemi þegar við notum efnislegar eigur okkar til að styðja við boðunina með öðrum hætti. Þeir sem eru í ágætum efnum en geta ekki verið í fullu starfi í þjónustu Guðsríkis eða flutt þangað sem þörfin er meiri geta glaðst yfir því að vita að framlög þeirra styðja aðra við boðunina. (Orðskv. 19:17) Við getum stutt boðunarstarfið í fátækari löndum þar sem mikil aukning er og séð boðberunum fyrir ritum með fjárframlögum okkar. Lengi vel þurftu margir bræður okkar í löndum eins og Kongó, Madagaskar og Rúanda að velja á milli þess að eiga mat handa fjölskyldunni og að eignast biblíu, en þær geta kostað viku- eða mánaðarlaun. Með framlögum margra og með því að skipta þeim þannig að það „verði jöfnuður“ hefur söfnuður Jehóva kostað þýðingu á Biblíunni þannig að öll trúsystkini okkar í þessum löndum hafa fengið eigin biblíu sem og biblíunemendur á svæðinu. (Lestu 2. Korintubréf 8:13-15.) Þannig geta bæði þeir sem gefa og þeir sem þiggja notið vináttu Jehóva.

FLÆKJUM OKKUR EKKI Í VIÐSKIPTAKERFI ÞESSA HEIMS

12. Hvernig sýndi Abraham að hann treysti á Guð?

12 Annað sem við getum gert til að eignast vináttu Jehóva er að nota aðstæður okkar til að sækjast eftir „sönnum auði“ í stað þess að flækja okkur í viðskiptakerfi þessa heims. Abraham, sem var trúfastur maður til forna, yfirgaf hlýðinn velmegunina í Úr til að búa í tjöldum vegna þess að hann mat vináttuna við Jehóva mikils. (Hebr. 11:8-10) Hann setti traust sitt alltaf á Guð en ekki á efnislega hluti. (1. Mós. 14:22, 23) Jesús hvatti fólk til að iðka þess konar trú. Hann sagði eitt sinn við ungan ríkan mann: „Ef þú vilt vera fullkominn skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum og þú munt fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ (Matt. 19:21) Unga manninn skorti trú eins og Abraham hafði. En margir hafa lagt allt traust sitt á Guð.

13. (a) Við hverju varaði Páll Tímóteus? (b) Hvernig getum við fylgt ráðum Páls?

13 Tímóteus hafði sterka trú. Páll sagði Tímóteusi að hann væri „góður hermaður Krists Jesú“ og bætti svo við: „Enginn hermaður bendlar sig við önnur störf. Þá þóknast hann ekki þeim sem hefur tekið hann á mála.“ (2. Tím. 2:3, 4) Fylgjendur Jesú nú á dögum fara að ráðum Páls í þeim mæli sem aðstæður þeirra leyfa. Þar á meðal er heill her þjóna Guðs í fullu starfi, eða yfir milljón boðberar. Þeir hafa í huga að „lánþeginn verður þræll lánardrottins síns“ og gæta þess að láta ekki auglýsingar og umheiminn leiða sig í freistni. (Orðskv. 22:7) Satan vildi ekkert frekar en að við notuðum allan tíma okkar og krafta til að þræla í heimi hans. Við gætum tekið ákvarðanir sem fjötra okkur fjárhagslega í mörg ár. Himinhá húsnæðislán, námslán sem tekur langan tíma að greiða niður, háar afborganir af bílum og jafnvel íburðarmikil brúðkaup geta komið mönnum í mikla fjárhagserfiðleika. Það er skynsamlegt að einfalda lífið með því að draga úr útgjöldum og borga niður skuldir. Þá höfum við frelsi til að þjóna Guði í stað þess að vera þrælar viðskiptakerfis þessa heims. – 1. Tím. 6:10.

14. Hvað þurfum við að vera staðráðin í að gera? Nefndu dæmi.

14 Til að lifa einföldu lífi þurfum við að forgangsraða rétt. Hjón nokkur áttu blómlegt framleiðslufyrirtæki. En þau langaði til að starfa sem brautryðjendur aftur og seldu því fyrirtækið, bátinn sinn og fleiri efnislegar eigur. Síðan buðu þau sig fram til að aðstoða við byggingarframkvæmdirnar við aðalstöðvarnar í Warwick í New York. Það var sérstaklega ánægjulegt fyrir þau vegna þess að þá fengu þau að starfa í nokkrar vikur á Betel með dóttur sinni og tengdasyni auk þess að vinna þar með foreldrum eiginmannsins í nokkrar vikur. Brautryðjandasystir í Colorado í Bandaríkjunum fékk hlutastarf í banka. Starfsfólkið var svo ánægt með vinnuna hennar að henni var boðið fullt starf sem hefði þrefaldað laun hennar. En ef hún tæki því gæti hún ekki einbeitt sér eins að boðuninni svo að hún hafnaði þessu kostaboði. Þetta eru aðeins fáein dæmi um þær fjölmörgu fórnir sem þjónar Jehóva færa. Þegar við erum staðráðin í að láta ríki Guðs hafa forgang sýnum við að við metum vináttu hans og andleg verðmæti mun meira en efnislega hluti.

ÞEGAR EFNISLEG VERÐMÆTI BREGÐAST

15. Hvaða verðmæti veita mesta gleði?

15 Efnisleg velmegun er ekki endilega merki um velþóknun Guðs. Jehóva blessar þá sem eru „ríkir að góðum verkum“. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.) Systir, sem heitir Lucia, * frétti að þörf væri á boðberum í Albaníu. Hún flutti þangað frá Ítalíu árið 1993 þó að hún væri ekki búin að fá vinnu og treysti á að Jehóva myndi hjálpa sér. Hún lærði albönsku og hefur aðstoðað meira en 60 manns við að kynnast sannleikanum og láta skírast. Fæstir þjónar Guðs starfa á jafn frjósömum svæðum og Lucia en hvaðeina sem við gerum til að hjálpa öðrum að kynnast sannleikanum og halda sér á veginum til lífsins veitir gleði sem varir að eilífu. – Matt. 6:20.

16. (a) Hvað bíður efnahagskerfis heimsins? (b) Hvaða áhrif ætti vitneskjan um framtíðina að hafa á viðhorf okkar til efnislegra verðmæta?

16 Jesús sagði: „Þegar [hinn rangláti mammón] er uppurinn ...“ ekki ef hann verður uppurinn. (Lúk. 16:9) Banka- og efnahagshrun, sem hafa orðið nú á endalokatímanum, eru smávægileg í samanburði við það sem á eftir að gerast á heimsvísu í náinni framtíð. Allt kerfi Satans – trúarbrögð, stjórnvöld og viðskiptaheimurinn – á eftir að falla. Spámennirnir Esekíel og Sefanía sögðu fyrir að gull og silfur, sem hefur verið uppistaða efnahagskerfisins svo öldum skiptir, verði einskis virði. (Esek. 7:19; Sef. 1:18) Hvernig myndi okkur líða ef við værum komin að leiðarlokum í þessum heimi og sæjum þá að við hefðum fórnað „sönnum auði“ til að eignast sem mest af „hverfulum auðæfum“ þessa heims? Okkur myndi líklega líða eins og manni sem hefur unnið alla ævina til að safna peningum en kemst svo að því að þeir eru falsaðir. (Orðskv. 18:11) Slík verðmæti munu að lokum bregðast. Misstu því ekki af tækifærinu til að nota þau til að „eignast vini“ á himnum. Allt sem við gerum í þágu ríkis Guðs gerir okkur andlega rík.

17, 18. Hvað bíður vina Guðs?

17 Þegar ríki Guðs kemur þarf hvorki að borga húsaleigu né húsnæðislán. Matur verður ókeypis og nóg til af honum. Engin þörf verður á heilbrigðisþjónustu eða lyfjum. Vinir Jehóva á jörðinni fá að njóta þess besta sem jörðin gefur af sér. Gull, silfur og eðalsteinar verða hvorki notaðir til að fjárfesta með eða safna í sjóði, þeir verða okkur aðeins til yndisauka. Gæðaefni úr viði, steini og málmi stendur öllum til boða til að búa sér falleg heimili. Vinir hjálpast að ánægjunnar vegna en ekki til að fá borgað fyrir það. Mannkynið mun njóta allra gæða jarðarinnar í sameiningu.

18 Þetta er aðeins hluti gæðanna sem bíður þeirra sem eignast vini á himnum. Þjónar Jehóva á jörðu munu hrópa af fögnuði þegar þeir heyra Jesú segja: „Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims.“ – Matt. 25:34.

^ gr. 4 Jesús segir ekkert um hvort ásökunin á hendur ráðsmanninum hafi átt við rök að styðjast. Orðalagið í gríska frumtextanum í Lúkasi 16:1 getur einnig bent til þess að logið hafi verið upp á ráðsmanninn. Jesús beinir athyglinni að viðbrögðum ráðsmannsins – ekki ástæðunni fyrir því að hann missti vinnuna.

^ gr. 15 Ævisaga Luciu Moussanet birtist í Vaknið! á ensku 22. júní 2003, bls. 18-22.