Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hann ... láti öll áform þín lánast“

„Hann ... láti öll áform þín lánast“

„Njót gleði í Drottni, þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.“ – SÁLM. 37:4.

SÖNGVAR: 135, 81

1. Hvað þarf ungt fólk að ákveða varðandi framtíðina, en hvers vegna þarf það ekki að örvænta? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÞIÐ unga fólkið eruð örugglega sammála því að áður en maður leggur upp í ferðalag sé skynsamlegt að skipuleggja hvert maður ætlar að fara. Lífið er eins og ferðalag og rétti tíminn til að skipuleggja það er þegar maður er ungur. Það getur auðvitað verið erfitt að skipuleggja framtíðina. Stúlka, sem heitir Heather, segir: „Það er ógnvekjandi. Maður þarf að ákveða hvernig maður ætlar að nota það sem eftir er af ævinni.“ En örvæntið ekki. Jehóva segir við þjóna sína: „Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ – Jes. 41:10.

2. Hvernig vitum við að Jehóva vill að við séum hamingjusöm?

2 Jehóva hvetur ykkur til að skipuleggja framtíðina af skynsemi. (Préd. 12:1; Matt. 6:20) Hann vill að þið séuð hamingjusöm. Það sem við sjáum, heyrum og brögðum á í sköpunarverkinu er til vitnis um það. Hugsið líka um hvernig hann sér um okkur og kennir okkur bestu lífsleiðina. Jehóva segir við þá sem hafna ráðum hans: „Þér ... völduð það sem mér þóknaðist ekki ... þjónar mínir munu gleðjast en von yðar mun bregðast. Þjónar mínir munu hrópa af glöðu hjarta.“ (Jes. 65:12-14) Það er Jehóva til lofs þegar þjónar hans taka skynsamlegar ákvarðanir í lífinu. – Orðskv. 27:11.

ÁFORM SEM VEITA ÞÉR HAMINGJU

3. Hvað vill Jehóva að þú gerir með líf þitt?

3 Hvaða lífsstefnu vill Jehóva að þú veljir? Hann skapaði mennina þannig að þeir séu hamingjusamir ef þeir kynnast honum og þjóna honum trúfastir. (Sálm. 128:1; Lúk. 11:28) Það er gerólíkt dýrunum sem hann skapaði, en þeim nægir bara að éta, drekka og eignast afkvæmi. Guð vill að þú setjir þér önnur markmið í lífinu en þau sem fullnægja þörfum dýranna. Skapari okkar er „Guð kærleikans“, ,hinn sæli Guð‘, sem gerði okkur „eftir sinni mynd“. (2. Kor. 13:11; 1. Tím. 1:11, Biblían 1912; 1. Mós. 1:27) Þú verður hamingjusamur ef þú líkir eftir kærleiksríkum Guði okkar. Hefurðu einhvern tíma fundið fyrir sannleiksgildi þessa vers: „Sælla er að gefa en þiggja“? (Post. 20:35) Þetta eru grundvallarsannindi fyrir okkur mennina. Jehóva vill því að áform þín miði að því að sýna að þú elskir aðra og elskir hann. – Lestu Matteus 22:36-39.

4, 5. Hvað veitti Jesú hamingju?

4 Jesús Kristur setti ykkur unga fólkinu fullkomið fordæmi. Á barnsaldri lék hann sér eflaust og naut lífsins. Í orði Guðs segir að það ,hafi sinn tíma að hlæja og sinn tíma að dansa‘. (Préd. 3:4) Jesús nálægði sig líka Jehóva með því að lesa í orði hans. Þegar hann var 12 ára voru kennararnir í musterinu undrandi á „skilningi hans og andsvörum“ í andlegum málum. – Lúk. 2:42, 46, 47.

5 Jesús óx úr grasi og varð hamingjusamur maður. Hvað gerði hann hamingjusaman? Hann vissi að Guð vildi meðal annars að hann ,flytti fátækum gleðilegan boðskap og boðaði blindum sýn‘. (Lúk. 4:18) Það veitti honum hamingju að gera það sem Guð bað hann um. Sálmur 40:9 lýsir vel tilfinningum hans, en þar segir: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi.“ Jesús hafði ánægju af að fræða fólk um himneskan föður sinn. (Lestu Lúkas 10:21.) Eitt sinn eftir að hann hafði frætt konu nokkra um sanna tilbeiðslu sagði hann við lærisveina sína: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.“ (Jóh. 4:31-34) Það veitti Jesú hamingju að sýna Guði og öðrum kærleika. Það getur líka veitt þér hamingju.

6. Hvers vegna getur verið gott að ræða við reynda þjóna Guðs um framtíðaráform þín?

6 Margir hafa verið brautryðjendur á sínum yngri árum og fundið fyrir gleðinni sem fylgir því. Væri ekki ráð að ræða um áform þín við einhverja þeirra? „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ (Orðskv. 15:22) Þessir bræður og systur gætu sagt þér hvernig þjónustan í fullu starfi veitir menntun sem gagnast manni alla ævi. Jesús hlaut kennslu hjá föður sínum á himnum en hélt áfram að læra þegar hann starfaði hér á jörð. Hann lærði til dæmis hve mikil gleði fylgir því að ná til hjartna fólks með fagnaðarerindið og hve mikil ánægja hlýst af því að halda trúfastur út í prófraunum. (Lestu Jesaja 50:4; Hebr. 5:8; 12:2) Lítum nú á nokkrar hliðar þjónustunnar í fullu starfi sem geta veitt þér mikla ánægju.

BESTA LÍFSSTEFNAN ER AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM

7. Hvers vegna hefur margt ungt fólk ánægju af að gera fólk að lærisveinum?

7 Jesús sagði: „Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum ... og kennið þeim.“ (Matt. 28:19, 20) Ef þú ert að hugsa um að leggja þetta starf fyrir þig velurðu ánægjulega lífsstefnu sem heiðrar Guð. Það tekur tíma að verða fær í þessu, rétt eins og í hverju öðru starfi. Bróðir, sem heitir Timothy, varð brautryðjandi á unglingsárunum. Hann sagði nýlega: „Mér finnst ánægjulegt að þjóna Jehóva í fullu starfi því að þannig sýni ég að ég elska hann. Til að byrja með tókst mér ekki að hefja biblíunámskeið en svo flutti ég á annan stað og á innan við mánuði var ég kominn með nokkra nemendur. Einn þeirra fór að mæta á samkomur. Eftir að hafa sótt Biblíuskólann fyrir einhleypa bræður, * sem stóð í tvo mánuði, var ég sendur á annað svæði þar sem ég hef hafið fjögur biblíunámskeið. Ég hef yndi af að kenna fólki og sjá hvernig heilagur andi breytir lífi þess.“ – 1. Þess. 2:19.

8. Hvað hafa sumir ungir þjónar Guðs gert til að ná til fleira fólks í boðuninni?

8 Sumir ungir þjónar Guðs hafa lært annað tungumál. Jacob býr í Norður-Ameríku en hann skrifar: „Þegar ég var sjö ára átti ég marga víetnamska bekkjarfélaga. Mig langaði að segja þeim frá Jehóva svo að með tímanum ákvað ég að læra tungumál þeirra. Að mestu leyti lærði ég með því að bera saman enska og víetnamska útgáfu Varðturnsins. Ég eignaðist líka vini í víetnömskum söfnuði sem var skammt frá. Ég varð brautryðjandi þegar ég var 18 ára og síðar sótti ég Biblíuskólann fyrir einhleypa bræður. Það hefur nýst mér vel því að núna er ég brautryðjandi í víetnömskum hópi og er eini öldungurinn í honum. Margir Víetnamar eru undrandi yfir því að ég skyldi hafa lært tungumálið þeirra. Þeir bjóða mér inn og margir þiggja biblíunámskeið. Sumir þeirra hafa með tímanum látið skírast.“ – Samanber Postulasöguna 2:7, 8.

9. Hvernig er það starf að gera fólk að lærisveinum góð menntun?

9 Vinnan við að gera fólk að lærisveinum er góð menntun. Maður temur sér góðar starfsvenjur, verður færari í samskiptum og verður öruggur og nærgætinn. (Orðskv. 21:5; 2. Tím. 2:24) En það sem er sérstaklega ánægjulegt við þetta starf er að maður lærir að færa rök fyrir trú sinni út frá Biblíunni. Maður lærir líka að vinna náið með Jehóva. – 1. Kor. 3:9.

10. Hvernig geturðu haft ánægju af því starfi að gera fólk að lærisveinum, jafnvel þar sem fáir sýna áhuga?

10 Maður getur notið þess að gera fólk að lærisveinum jafnvel þótt fáir á svæðinu bregðist vel við fagnaðarerindinu. Þetta snýst um samvinnu. Allur söfnuðurinn leitar að einlægu fólki. Það er kannski bara einn bróðir eða systir sem finnur manneskjuna sem verður að lokum lærisveinn en þar sem allir tóku þátt í leitinni geta allir glaðst. Brandon var brautryðjandi í níu ár á svæði þar sem fáir sýndu áhuga. Hann segir: „Ég hef gaman af boðuninni því að það er starfið sem Jehóva hefur falið okkur. Ég gerðist brautryðjandi fljótlega eftir að ég lauk skólagöngunni. Ég hef ánægju af að hvetja unga bræður í söfnuðinum til að taka framförum og sjá þá gera það. Eftir að ég sótti Biblíuskólann fyrir einhleypa bræður var ég sendur á annað svæði. Að vísu hef ég aldrei fundið neinn á svæðinu sem hefur að lokum látið skírast, en aðrir hafa gert það. Ég er ánægður með að hafa tekið fullan þátt í því starfi að gera fólk að lærisveinum.“ – Préd. 11:6.

HVERT GÆTU ÁFORM ÞÍN LEITT ÞIG?

11. Hvernig hefur margt ungt fólk tekið þátt í heilagri þjónustu?

11 Mörg tækifæri standa til boða í þjónustunni við Jehóva. Margt ungt fólk tekur til dæmis þátt í byggingarstarfi á vegum safnaðarins. Þörf er á hundruðum nýrra ríkissala. Þeir sem byggja þá eiga þátt í heilagri þjónustu sem heiðrar Guð og veitir þeim hamingju. Félagsskapurinn við starfsfélagana er ánægjulegur rétt eins og á öðrum sviðum þjónustunnar við Jehóva. Maður lærir líka mikið af því að taka þátt í byggingarstarfsemi safnaðarins, eins og að passa upp á öryggi, vera vinnusamur og vera samstarfsfús við þá sem hafa umsjón með verkinu.

Margvísleg blessun bíður þeirra sem ákveða að þjóna Jehóva í fullu starfi. (Sjá 11.-13. grein.)

12. Hvernig getur brautryðjandastarfið opnað dyrnar að öðrum tækifærum?

12 Bróðir, sem heitir Kevin, segir: „Allt frá því að ég var lítill strákur hef ég hugsað að einn daginn vildi ég þjóna Jehóva í fullu starfi. Þegar ég var 19 ára varð ég brautryðjandi. Ég sá fyrir mér með því að vinna í hlutastarfi fyrir bróður sem var smiður. Ég lærði að smíða þök og setja upp glugga og hurðir. Síðar tók ég þátt í hjálparstarfi og vann í tvö ár við að endurreisa ríkissali og heimili trúsystkina eftir fellibyl. Þegar ég heyrði um þörfina fyrir að byggja nýja ríkissali í Suður-Afríku sótti ég um og mér var boðið að fara. Hér í Afríku flyt ég milli staða með nokkurra vikna millibili til að vinna við byggingu ríkissala. Hópurinn, sem ég vinn með, er eins og fjölskylda mín. Við búum saman, eigum biblíunámsstundir saman og vinnum saman. Ég hef líka ánægju af því að boða trúna með bræðrum á svæðinu í hverri viku. Áform mín í æsku hafa veitt mér meiri ánægju en ég hefði getað ímyndað mér.“

13. Hvers vegna veitir það ungu fólki ánægju að starfa á Betel?

13 Sumir sem létu verða úr áformum sínum að þjóna Jehóva í fullu starfi eru nú á Betel. Að starfa á Betel er mjög ánægjulegt því að allt sem er gert þar er gert fyrir Jehóva. Betelfjölskyldan hjálpar til við að sjá fyrir andlegri fæðu. Betelíti, sem heitir Dustin, segir: „Þegar ég var níu ára setti ég mér það markmið að þjóna Jehóva í fullu starfi og ég varð brautryðjandi þegar skólagöngunni lauk. Einu og hálfu ári síðar var mér boðið til starfa á Betel og þar lærði ég að vinna við prentvélar og síðar við forritun. Hér á Betel nýt ég þess að fá að heyra nýjustu fréttirnar af boðuninni um allan heim. Ég hef yndi af því að starfa hér því að það sem við gerum hjálpar fólki að nálægja sig Jehóva.“

HVERNIG ÆTLARÐU AÐ SKIPULEGGJA FRAMTÍÐ ÞÍNA?

14. Hvernig geturðu búið þig undir að þjóna Jehóva í fullu starfi?

14 Hvernig geturðu búið þig undir að þjóna Jehóva í fullu starfi? Til að nýtast sem best í þjónustunni þarf maður að þroska með sér kristna eiginleika. Leggðu þig því fram í biblíunámi þínu, hugleiddu orð Guðs og leitastu við að tjá trú þína á samkomum. Meðan þú ert enn í skóla geturðu unnið að því að verða fær boðberi fagnaðarerindisins og viðað að þér reynslu. Lærðu að sýna fólki áhuga með því að spyrja nærgætnislega um viðhorf þess og hlusta síðan á svörin. Þú getur líka boðist til að hjálpa til í söfnuðinum, til dæmis við að þrífa ríkissalinn og halda honum við. Jehóva hefur ánægju af að nota þá sem eru auðmjúkir og fúsir til að aðstoða. (Lestu Sálm 110:3; Post. 6:1-3) Páll postuli bauð Tímóteusi að gerast trúboði vegna þess að bræðurnir „báru honum gott orð“. – Post. 16:1-5.

15. Hvernig geturðu búið þig undir að geta séð fyrir þér?

15 Þeir sem þjóna Jehóva í fullu starfi þurfa yfirleitt að sjá fyrir sér. (Post. 18:2, 3) Kannski gæti stutt nám eða námskeið gert þér kleift að fá hlutastarf sem er í boði á svæðinu þar sem þú býrð. Ræddu við farandhirðinn og brautryðjendur á farandsvæðinu þegar þú skipuleggur framtíðina. Spyrðu þá hvaða atvinna gæti hentað brautryðjendum. Og gerðu eins og Biblían hvetur til: „Fel Drottni verk þín og þá bera áform þín árangur.“ – Orðskv. 16:3; 20:18.

16. Hvernig getur þjónusta í fullu starfi þegar maður er ungur búið mann undir frekari ábyrgð í framtíðinni?

16 Þú mátt vera viss um að Jehóva vilji að þú fáir hamingjuríka framtíð. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:18, 19.) Þegar þú þjónar honum í fullu starfi kynnistu öðrum sem gera það líka og auk þess hjálpar það þér að þroskast í trúnni. Mörgum sem hafa þjónað Jehóva þannig þegar þeir voru ungir finnst það hafa hjálpað sér að eiga hamingjuríkt hjónaband seinna meir. Hjón, sem hafa verið brautryðjendur áður en þau giftust, halda því oft áfram í hjónabandinu. – Rómv. 16:3, 4.

17, 18. Á hvaða hátt þarf hjartað að vera með þegar maður skipuleggur framtíðina?

17 Hjartað þarf að vera með þegar maður skipuleggur framtíðina. Í Sálmi 20:5 segir um Jehóva: „Hann veiti þér það sem hjarta þitt þráir, láti öll áform þín lánast.“ Veltu því fyrir þér hvernig þú vilt nota lífið. Hugsaðu um hvað Jehóva er að gera á okkar tímum og hvernig þú getur þjónað honum. Skipuleggðu síðan líf þitt í samræmi við vilja hans.

18 Það mun veita þér mikla ánægju að taka fullan þátt í þjónustunni við Jehóva því að það er sú lífsstefna sem heiðrar hann. Já, „njót gleði í Drottni, þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir“. – Sálm. 37:4.

^ gr. 7 Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis hefur nú tekið við af þessum skóla.