Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Þolgæði í prófraunum leiðir til blessunar

Þolgæði í prófraunum leiðir til blessunar

„ÞÚ ERT hræðilegur faðir,“ hreytti KGB-maðurinn út úr sér. * „Þú hefur yfirgefið ófríska eiginkonu þína og litlu dóttur þína. Hver mun sjá þeim fyrir mat og annast þær? Afneitaðu trú þinni og farðu heim.“ „Nei, ég yfirgaf ekki fjölskyldu mína,“ svaraði ég. „Þið handtókuð mig! Og fyrir hvaða sakir?“ Foringinn svaraði um hæl: „Það er enginn verri glæpur en að vera vottur.“

Þessi orðaskipti áttu sér stað árið 1959 í fangelsi í borginni Írkútsk í Rússlandi. Mig langar til að segja frá því hvers vegna við Maríja, eiginkona mín, vorum reiðubúin að „líða illt fyrir að gera það sem er rétt“ og hvernig við hlutum blessun fyrir trúfesti okkar. – 1. Pét. 3:13, 14.

Ég fæddist í Úkraínu árið 1933 í þorpinu Zolotníkí. Árið 1937 komu móðursystir mín og eiginmaður hennar í heimsókn frá Frakklandi, en þau voru vottar. Þau gáfu okkur bækurnar Stjórn og Frelsun sem Varðturnsfélagið gaf út. Bækurnar vöktu trú föður míns á Guð. Því miður veiktist hann alvarlega árið 1939, en áður en hann dó sagði hann við móður mína: „Þetta er sannleikurinn. Kenndu börnunum hann.“

SÍBERÍA – NÝTT BOÐUNARSVÆÐI

Í apríl 1951 byrjuðu yfirvöld að senda votta í vestanverðum Sovétríkjunum í útlegð til Síberíu. Við móðir mín og Grígoríj, yngri bróðir minn, neyddumst til að yfirgefa Vestur-Úkraínu. Eftir rúmlega 6.000 kílómetra lestarferð komum við til borgarinnar Túlún í Síberíu. Tveim vikum síðar var Bogdan, eldri bróðir minn, sendur í vinnubúðir í nálægri borg sem heitir Angarsk. Hann hafði verið dæmdur til þrælkunarvinnu í 25 ár.

Við móðir mín og Grígoríj boðuðum trúna í bæjunum í kringum Túlún, en við þurftum að vera úrræðagóð. Við spurðum til dæmis: „Er einhver hér sem vill selja kú?“ Þegar við fundum einhvern sem vildi selja kú nefndum við hve stórkostlega kýr eru hannaðar. Fyrr en varði vorum við farin að tala um skaparann. Um sama leyti skrifaði dagblað nokkurt að vottarnir spyrðu um kýr en væru í raun að leita að sauðum. Og við fundum auðmjúkt fólk sem Biblían líkir við sauði. Við höfðum mikla ánægju af að kenna auðmjúku og gestrisnu fólki sannleika Biblíunnar á þessu óúthlutaða svæði. Í Túlún er nú söfnuður með fleiri en 100 boðberum.

REYNT Á TRÚ MARÍJU

Maríja, konan mín, kynntist sannleikanum í Úkraínu á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þegar hún var 18 ára fór KGB-maður að áreita hana og reyna að neyða hana til að fremja kynferðislegt siðleysi með sér, en hún þverneitaði að láta undan. Dag einn, þegar hún kom heim til sín, kom hún að honum liggjandi á rúminu hennar. Maríja flúði. Maðurinn varð bálreiður og hótaði að fá hana hneppta í fangelsi fyrir að vera vottur. Árið 1952 fór það svo að Maríja var dæmd í tíu ára fangelsi. Henni leið eins og Jósef sem var fangelsaður fyrir að vera ráðvandur. (1. Mós. 39:12, 20) Bílstjórinn, sem ók Maríju frá dómsalnum í fangelsið, sagði við hana: „Vertu ekki hrædd. Margir fara í fangelsi en halda þó reisn sinni.“ Þessi orð gáfu henni styrk.

Maríja var látin erfiða í vinnubúðum skammt frá borginni Gorkíj (nú Nízhníj Novogorod) í Rússlandi frá 1952 til 1956. Henni var skipað að grisja tré, jafnvel þótt það væri nístingskuldi, og það kom niður á heilsunni. En árið 1956 var hún látin laus og lagði þá leið sína til Túlún.

LANGT FRÁ KONU MINNI OG BÖRNUM

Þegar bróðir í Túlún sagði mér að systir væri á leiðinni hjólaði ég niður á rútustöð til að hitta hana og bjóðast til að aðstoða hana með farangurinn. Ég kunni strax vel við Maríju. Það kostaði fyrirhöfn að vinna hjarta hennar – en það tókst. Við giftum okkur árið 1957 og ári síðar fæddist Írína, dóttir okkar. En ánægjustundir okkar saman tóku fljótt enda. Árið 1959 var ég handtekinn fyrir að prenta biblíutengd rit. Ég þurfti að dúsa í einangrun í hálft ár. Til að viðhalda innri friði á þessum tíma bað ég til Jehóva í sífellu, söng ríkissöngva og ímyndaði mér hvernig ég myndi boða trúna ef ég væri frjáls maður.

Árið 1962 þegar ég var í vinnubúðum.

Þegar ég var yfirheyrður í fangelsinu hrópaði sá sem yfirheyrði mig: „Bráðum munum við traðka ykkur vottana niður eins og mýs!“ Ég svaraði: „Jesús sagði að fagnaðarerindið um ríkið YRÐI prédikað um alla jörðina, og enginn getur komið í veg fyrir það.“ Þá greip yfirheyrslumaðurinn til annarra ráða og reyndi að telja mig á að afneita trúnni eins og ég minntist á í upphafi. Þegar hvorki hótanir né önnur brögð báru árangur var ég dæmdur til þrælkunarvinnu í sjö ár í vinnubúðum í grennd við borgina Saransk. Á leiðinni í búðirnar komst ég að því að Olga, yngri dóttir okkar, hafði fæðst. Þó svo að kona mín og dætur væru óralangt í burtu veitti það mér huggun að vita að við hjónin höfðum verið Jehóva trú.

Maríja og dætur okkar, þær Olga og Írína, árið 1965.

Maríja heimsótti mig í Saransk einu sinni á ári þótt ferðin frá Túlún og til baka tæki 12 daga með lest. Á hverju ári færði hún mér ný vinnustígvél. Í skósólunum voru falin nýleg eintök af Varðturninum. Eitt árið var heimsókn Maríju mjög sérstök þar sem hún tók litlu dæturnar okkar tvær með sér. Ímyndaðu þér hve hrærður ég var að sjá þær og fá að vera með þeim!

NÝTT UMHVERFI OG NÝIR ERFIÐLEIKAR

Árið 1966 var ég látinn laus úr vinnubúðunum og við fjölskyldan fluttumst til borgarinnar Armavír sem er nálægt Svartahafi. Þar fæddust synir okkar Jaroslav og Pavel.

Ekki leið á löngu þar til KGB-menn fóru að gera húsleitir hjá okkur í leit að biblíutengdum ritum. Þeir leituðu í hverjum krók og kima, meira að segja í kúafóðrinu. Í eitt skiptið kófsvitnuðu þeir í hitanum og einkennisbúningarnir þeirra voru allir í ryki. Maríja vorkenndi þeim þar sem þeir voru aðeins að fylgja fyrirmælum. Hún gaf þeim ávaxtasafa að drekka og færði þeim fatabursta, skál með vatni og handklæði. Síðar, þegar yfirmaður mannanna kom, sögðu þeir honum hve vel hafði verið komið fram við þá. Þegar þeir fóru kvaddi yfirmaðurinn með brosi og veifaði til okkar. Það gladdi okkur að sjá hversu góð áhrif það getur haft þegar við leggjum okkur fram um að ,sigra illt með góðu‘. – Rómv. 12:21.

Við héldum áfram að boða trúna í Armavír þrátt fyrir húsleitirnar. Við hjálpuðum líka til við að styrkja lítinn hóp boðbera í nálægum bæ sem heitir Kúrganínsk. Það er ánægjulegt að hugsa til þess að nú eru sex söfnuðir í Armavír og fjórir í Kúrganínsk.

Það hafa komið tímabil þar sem við vorum ekki svo sterk í trúnni. En við erum Jehóva þakklát fyrir að hafa notað dygga bræður til að leiðrétta okkur og styrkja í trúnni. (Sálm. 130:3) Það var líka mikil prófraun fyrir okkur að vinna með mönnum sem þóttust þjóna Jehóva en voru í raun útsendarar KGB án þess að við gerðum okkur grein fyrir því. Þeir virtust vera ákafir í trúnni og tóku virkan þátt í boðuninni. Sumir gegndu jafnvel ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. Með tímanum komumst við þó að því hverjir þeir voru í raun og veru.

Árið 1978, þegar Maríja var 45 ára, varð hún aftur ófrísk. Læknarnir óttuðust um líf hennar þar sem hún var hjartveik og reyndu því að telja hana á að fara í fóstureyðingu. Þegar Maríja tók það ekki í mál eltu nokkrir læknar hana með sprautu hvert sem hún fór á spítalanum og reyndu að sprauta hana til að framkalla fæðingu fyrir tímann. Maríja flúði af spítalanum til að vernda ófætt barnið.

KGB skipaði okkur að yfirgefa borgina. Við fluttumst í þorp nálægt Tallinn í Eistlandi sem þá var hluti af Sovétríkjunum. Í Tallinn fæddi Maríja Vítalíj, heilbrigðan son okkar, þvert á spár læknanna.

Þegar fram liðu stundir fluttumst við frá Eistlandi í bæinn Nezlobnaja í suðurhluta Rússlands. Fólk kom hvaðanæva af landinu til að heimsækja nágrannabæina, og við boðuðum trúna þar af varkárni. Fólkið kom þangað af heilsufarsástæðum en þegar það sneri heim höfðu sumir fengið von um eilíft líf.

BÖRNIN OKKAR LÆRÐU AÐ ELSKA JEHÓVA

Við reyndum að glæða með sonum okkar og dætrum kærleika til Jehóva og löngun til að þjóna honum. Við buðum oft í heimsókn trúsystkinum sem höfðu góð áhrif á börnin. Þeirra á meðal var Grígoríj, bróðir minn, en hann þjónaði sem farandhirðir á árunum 1970 til 1995. Öll fjölskyldan naut þess að fá hann í heimsókn því að hann var glaðlyndur og hafði gott skopskyn. Þegar gestir komu í heimsókn fórum við oft í biblíuleiki, og með tímanum fengu börnin okkar miklar mætur á frásögum Biblíunnar.

Synir mínir og eiginkonur þeirra.

Frá vinstri, aftari röð: Jaroslav, Pavel yngri og Vítalíj.

Fremri röð: Aljona, Raja og Svetlana.

Árið 1987 fluttist Jaroslav, sonur okkar, til Ríga í Lettlandi þar sem minni hömlur voru á boðuninni. En þegar hann neitaði að gegna herskyldu var hann dæmdur til eins og hálfs árs fangelsisvistar og sat inni í einum níu fangelsum. Ég hafði sagt honum frá reynslu minni af fangelsisvist og það hjálpaði honum að halda út. Síðar meir gerðist hann brautryðjandi. Árið 1990 vildi Pavel, sonur okkar sem þá var 19 ára, starfa sem brautryðjandi á Sakhalín, eyju norður af Japan. Í fyrstu vildum við ekki að hann færi. Á eyjunni voru ekki nema 20 boðberar og við bjuggum í 9.000 kílómetra fjarlægð. En að lokum féllumst við á að hann færi, og það var góð ákvörðun. Fólkið á eyjunni tók vel við boðskapnum. Á fáeinum árum voru söfnuðirnir þar orðnir átta talsins. Pavel bjó á Sakhalín fram til ársins 1995. Þá var Vítalíj, yngsti sonur okkar, einn eftir heima. Allt frá því að hann var barn hafði hann yndi af að lesa í Biblíunni. Hann gerðist brautryðjandi 14 ára og við feðgarnir störfuðum saman sem brautryðjendur í tvö ár. Það var dásamlegur tími. Hann fluttist síðan að heiman 19 ára til að starfa sem sérbrautryðjandi.

KGB-maður sagði við Maríju árið 1952: „Annaðhvort afneitarðu trú þinni eða þarft að sitja í fangelsi í tíu ár. Þegar þú verður látin laus verður þú orðin gömul, ein og yfirgefin.“ En sú varð ekki raunin. Við fundum fyrir óbrigðulum kærleika Jehóva, sem og kærleika barna okkar og þeirra mörgu sem við höfum hjálpað að finna sannleikann. Við Maríja nutum þeirrar ánægju að heimsækja staðina þangað sem börnin okkar fluttust til að þjóna Jehóva. Við sáum greinilega að biblíunemendur barna okkar voru ákaflega þakklátir fyrir að hafa kynnst Jehóva.

ÞAKKLÁTUR FYRIR GÓÐVILD JEHÓVA

Starfsemi Votta Jehóva hlaut lagalega viðurkenningu árið 1991. Þessi úrskurður blés nýju lífi í boðunina. Söfnuðurinn okkar keypti meira að segja rútu svo að við gætum ferðast til bæjanna og þorpanna í nágrenninu um hverja helgi.

Við hjónin árið 2011.

Ég er mjög ánægður að Jaroslav og Aljona, konan hans, og Pavel og Raja, konan hans, skuli starfa á Betel og að Vítalíj skuli vera í farandstarfi ásamt Svetlönu, konu sinni. Írína, elsta dóttir okkar, býr ásamt fjölskyldu sinni í Þýskalandi. Vladímír, eiginmaður hennar, og synir þeirra þrír eru allir öldungar. Olga býr í Eistlandi og hringir reglulega í mig. Því miður lést Maríja, elskuleg eiginkona mín, árið 2014. Ég get ekki beðið eftir að sjá hana aftur í upprisunni! Nú bý ég í borginni Belgorod og trúsystkinin hér eru mér ómetanlegur stuðningur.

Af áratugalangri þjónustu við Jehóva hef ég lært að það kostar sitt að vera ráðvandur, en í staðinn veitir Jehóva manni innri frið sem er geysiverðmætur. Blessunin, sem við Maríja hlutum fyrir staðfestu okkar, var meiri en ég hefði nokkurn tíma getað ímyndað mér. Áður en Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 voru boðberarnir rétt rúmlega 40.000. Nú eru yfir 400.000 boðberar í löndunum sem tilheyrðu áður Sovétríkjunum! Nú er ég 83 ára og er enn þá öldungur. Jehóva gaf mér alltaf styrk til að halda út. Já, Jehóva hefur blessað mig ríkulega. – Sálm. 13:6.

^ gr. 4 KGB er rússneska skammstöfunin á Ríkisöryggisnefnd Sovétríkjanna (sovésku leyniþjónustunni).