Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að íklæðast hinum nýja manni og viðhalda honum

Að íklæðast hinum nýja manni og viðhalda honum

,Íklæðist hinum nýja manni.‘ – KÓL. 3:10.

SÖNGVAR: 126, 28

1, 2. (a) Hvers vegna erum við fær um að íklæðast hinum nýja manni? (b) Hvaða eiginleikum hins nýja manns er lýst í Kólossubréfinu 3:10-14?

,HINN nýi maður‘ er nefndur tvisvar í Biblíunni. (Ef. 4:24; Kól. 3:10) Þar er átt við ákveðna manngerð sem er ,sköpuð í Guðs mynd‘. Við getum vel verið þess konar manngerð vegna þess að Jehóva skapaði mennina eftir sinni mynd og við erum fær um að endurspegla góða og fagra eiginleika hans. – 1. Mós. 1:26, 27; Ef. 5:1.

2 Stundum eigum við þó í baráttu við rangar langanir vegna þess að við erfðum ófullkomleikann frá foreldrum mannkyns. Umhverfið hefur líka hugsanlega haft sín áhrif á okkur. En Jehóva er miskunnsamur og með hjálp hans getum við orðið sú manngerð sem hann vill að við séum. Við skulum nú líta á nokkra eiginleika hins nýja manns sem Páll postuli lýsir. Þannig getum við vakið með okkur sterkari löngun til að vera eins og Guð vill. (Lestu Kólossubréfið 3:10-14.) Við skoðum einnig hvernig við getum sýnt þessa eiginleika þegar við boðum fagnaðarerindið.

„ÞIÐ ERUÐ ÖLL EITT“

3. Nefndu einn eiginleika hins nýja manns.

3 Eftir að hafa hvatt okkur til að íklæðast hinum nýja manni bendir Páll á að einn áberandi eiginleiki hans sé óhlutdrægni. Hann segir: „Þar er hvorki grískur maður né Gyðingur, umskorinn né óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll né frjáls maður.“ * Af hverju á ekki að gera neinn greinarmun á fólki í söfnuðinum eftir kynþætti, þjóðerni eða stöðu í þjóðfélaginu? Vegna þess að sannir fylgjendur Krists ,eru allir eitt‘. – Kól. 3:11; Gal. 3:28.

4. (a) Hvernig eiga þjónar Jehóva að koma fram við aðra? (b) Hvaða aðstæður geta reynt á einingu þjóna Guðs?

4 Þeir sem hafa íklæðst hinum nýja manni sýna bæði trúsystkinum og öðrum virðingu óháð þjóðfélagsstöðu eða kynþætti. (Rómv. 2:11) Sums staðar í heiminum getur það verið þrautin þyngri. Tökum dæmi frá Suður-Afríku. Þar búa flestir vottar á svæðum sem stjórnvöld höfðu skipt niður eftir kynþáttum – í hverfum ætluðum hvítum, svörtum eða fólki af blönduðum uppruna. Hið stjórnandi ráð ákvað því í október 2013 að gera sérstakar ráðstafanir þar í landi til að hvetja bræður og systur til að opna hjarta sitt enn meir og kynnast hvert öðru betur. (2. Kor. 6:13) Hvað var gert?

5, 6. (a) Hvað var gert í ákveðnu landi til að efla eininguna meðal þjóna Guðs? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hver var árangurinn?

5 Gerðar voru ráðstafanir til að tveir og tveir söfnuðir með boðberum af ólíkum tungumálum eða kynþáttum ættu saman góðar stundir eina og eina helgi. Bræður og systur úr báðum söfnuðunum boðuðu fagnaðarerindið saman, sóttu samkomur saman og þáðu heimboð hvert hjá öðru. Hundruð safnaða tóku þátt í þessu og deildarskrifstofunni barst fjöldi jákvæðra umsagna, jafnvel frá fólki utan safnaðarins. Prestur nokkur sagði til dæmis: „Ég er ekki vottur en ég verð að segja að boðunin hjá ykkur er einstaklega vel skipulögð og þið eruð sameinuð óháð kynþætti.“ Hvaða áhrif hafði þetta samstarf á vottana?

6 Noma er xhósa-mælandi systir. Hún var í fyrstu hikandi við að bjóða hvítum trúsystkinum úr enskumælandi söfnuði inn á látlaust heimili sitt. En eftir að hafa boðað trúna með hvítum vottum og verið gestur á heimili þeirra sagði hún: „Þau eru venjulegt fólk eins og við!“ Þegar komið var að xhósa-mælandi söfnuðinum hennar að bjóða trúsystkinum úr enskumælandi söfnuðinum heim eldaði hún mat og bauð nokkrum gestum. Meðal þeirra var hvítur safnaðaröldungur. „Það snart mig að hann skyldi vera fús til að sitja á litlum plastkassa,“ sagði hún. Fjöldi bræðra og systra hefur eignast nýja vini. Þau eru ákveðin í að notfæra sér þessa ráðstöfun til að halda áfram að kynnast trúsystkinum af ólíkum uppruna.

,HJARTAGRÓIN MEÐAUMKUN OG GÓÐVILD‘

7. Hvers vegna er mikilvægt að sýna meðaumkun?

7 Erfiðleikar af ýmsu tagi eru óhjákvæmilegir meðan heimur Satans stendur. Atvinnuleysi, alvarleg veikindi, ofsóknir, náttúruhamfarir, eignamissir vegna glæpa og fleira í þeim dúr er meðal þess sem við er að glíma. Við þurfum að sýna ósvikna meðaumkun til að styðja hvert annað í þjáningum eða mótlæti. Ef við höfum til að bera hjartagróna meðaumkun sýnum við öðrum góðvild. (Ef. 4:32) Þessir eiginleikar hins nýja manns gera okkur kleift að líkja eftir Guði og hughreysta aðra. – 2. Kor. 1:3, 4.

8. Hvaða góðu áhrif getur það haft að sýna öllum í söfnuðinum meðaumkun og góðvild? Lýstu með dæmi.

8 Hvernig getum við sýnt útlendingum í söfnuðinum okkar, eða þeim sem eiga erfitt uppdráttar, umhyggju í enn ríkari mæli? Við þurfum að vingast við þá og sýna þeim fram á að þeir eigi heima í söfnuðinum. (1. Kor. 12:22, 25) Dannykarl fluttist frá Filippseyjum til Japans. Á vinnustaðnum hans var ekki komið eins vel fram við hann og japanska starfsmenn. Annað var uppi á teningnum þegar hann sótti samkomu hjá vottum Jehóva. „Næstum allir viðstaddra voru japanskir,“ segir hann, „en þeir buðu mig samt hjartanlega velkominn, rétt eins og ég væri gamall kunningi.“ Góðvild bræðra og systra hjálpaði honum að eignast náið samband við Jehóva. Hann lét skírast og er nú safnaðaröldungur. Samöldungar hans segja að hann og Jennifer, konan hans, séu söfnuðinum til blessunar og bæta við: „Þau eru brautryðjendur og lifa mjög einföldu lífi. Þau eru prýðileg fyrirmynd um að leita fyrst ríkis Guðs.“ – Lúk. 12:31.

9, 10. Nefndu dæmi sem sýna hvað hlýst af því að finna til með fólki á starfssvæðinu.

9 Þegar við boðum fagnaðarerindið höfum við prýðistækifæri til að „gera öllum gott“. (Gal. 6:10) Margir vottar reyna að læra nýtt tungumál vegna þess að þeir finna til með innflytjendum. (1. Kor. 9:23) Það hefur haft jákvæð áhrif. Tiffany er brautryðjandi í Ástralíu. Hún lærði svahílí til að geta styrkt svahílí-mælandi söfnuð í Brisbane. Þótt það hafi tekið á að læra nýtt tungumál finnst Tiffany það hafa auðgað líf sitt. Hún segir: „Ef mann langar til að gera boðunina spennandi er um að gera að starfa með erlendum söfnuði. Það er eins og að fara í ferðalag án þess að yfirgefa borgina. Maður finnur fyrir því að bræðralagið er alþjóðlegt og sér eininguna með eigin augum.“

Hvað er þjónum Guðs hvatning til að hjálpa innflytjendum? (Sjá 10. grein.)

10 Fjölskylda í Japan hefur sömu sögu að segja. Dóttirin Sakiko segir: „Upp úr 1990 hittum við oft brasilíska innflytjendur í boðuninni. Við sýndum þeim vers í portúgölsku biblíunni þeirra, svo sem Opinberunarbókina 21:3, 4 eða Sálm 37:10, 11, 29. Þau fylgdust með og vöknaði stundum um augu.“ En fjölskyldan lét ekki þar við sitja. „Þegar við sáum hve mjög þau þyrsti í sannleikann fórum við fjölskyldan að læra portúgölsku,“ segir Sakiko. Síðar átti fjölskyldan þátt í að mynda portúgalskan söfnuð. Á liðnum árum hefur fjölskyldan hjálpað mörgum innflytjendum að kynnast Jehóva. „Það var heilmikil vinna að læra portúgölsku,“ segir Sakiko, „en blessunin er miklu þyngri á metunum. Við erum Jehóva innilega þakklát.“ – Lestu Postulasöguna 10:34, 35.

„ÍKLÆÐIST ... AUÐMÝKT“

11, 12. (a) Hvers vegna er mikilvægt að íklæðast hinum nýja manni af réttum hvötum? (b) Hvað hjálpar okkur að vera auðmjúk?

11 Hvötin að baki því að íklæðast hinum nýja manni má ekki vera sú að sækjast eftir hrósi manna heldur sú að vilja heiðra Jehóva. Höfum í huga að fullkomin andavera syndgaði vegna þess að hún leyfði sér að verða hrokafull. (Samanber Esekíel 28:17.) Við erum ófullkomin svo að það er miklu erfiðara fyrir okkur að forðast óviðeigandi stolt og hroka. Það er samt hægt að íklæðast auðmýkt. Hvað getur hjálpað okkur til þess?

12 Til að vera auðmjúk þurfum við að gefa okkur tíma daglega til að hugleiða það sem við lesum í orði Guðs. (5. Mós. 17:18-20) Það er sérstaklega mikilvægt að íhuga auðmýkt Jesú og það sem hann kenndi. (Matt. 20:28) Hann þvoði meira að segja fætur postula sinna. (Jóh. 13:12-17) Við þurfum líka að biðja oft um anda Guðs til að hjálpa okkur að berjast gegn þeirri tilfinningu að við séum meiri eða betri en aðrir. – Gal. 6:3, 4; Fil. 2:3.

13. Hvaða laun hefur það í för með sér að vera auðmjúkur?

13 Lestu Orðskviðina 22:4Allir þjónar Guðs þurfa að vera auðmjúkir og það hefur líka mikil laun í för með sér. Auðmýkt stuðlar að friði og einingu í söfnuðinum. Þeir sem eru auðmjúkir njóta líka náðar Jehóva og góðvildar. Pétur postuli skrifaði: „Verið ... öll lítillát hvert gagnvart öðru því að ,Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð‘.“ – 1. Pét. 5:5.

„ÍKLÆÐIST ... HÓGVÆRÐ OG LANGLYNDI“

14. Hver er besta fyrirmyndin um hógværð og langlyndi?

14 Nú á dögum virðast margir líta á hógværð og langlyndi sem veikleikamerki. Það er eins fjarri sannleikanum og hugsast getur. Þessir góðu eiginleikar eiga uppruna sinn hjá voldugustu persónu alheims. Jehóva Guð er besta fyrirmyndin um hógværð og langlyndi. (2. Pét. 3:9) Manstu hvernig englarnir, sem voru fulltrúar hans, brugðust við spurningum Abrahams og andmælum Lots? (1. Mós. 18:22-33; 19:18-21) Og umbar hann ekki þrjósku Ísraelsmanna í meira en 1.500 ár? – Esek. 33:11.

15. Hvernig sýndi Jesús að hann var hógvær og langlyndur?

15 Jesús var hógvær. (Matt. 11:29) Hann umbar veikleika fylgjenda sinna og var ákaflega þolinmóður og langlyndur við þá. Meðan hann þjónaði á jörð mátti hann þola óréttmæta gagnrýni trúarlegra andstæðinga sinna. Hann var samt hógvær og langlyndur allt til dauðadags. Hann þoldi óbærilegar kvalir á aftökustaurnum en bað samt föður sinn að fyrirgefa þeim sem líflétu hann. „Þeir vita ekki hvað þeir gera,“ sagði hann. (Lúk. 23:34) Hann er einstakt dæmi um mann sem var hógvær og langlyndur undir álagi og þótt hann væri sárkvalinn. – Lestu 1. Pétursbréf 2:21-23.

16. Hvernig getum við sýnt hógværð og langlyndi?

16 Hvernig getum við verið hógvær og langlynd? Páll nefndi eitt þegar hann skrifaði trúsystkinum sínum: „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ (Kól. 3:13) Það kostar vissulega hógværð og langlyndi að fara eftir þessum fyrirmælum. Við varðveitum hins vegar einingu safnaðarins með því að fyrirgefa.

17. Hvers vegna er mikilvægt að vera hógvær og langlyndur?

17 Það er ekki valfrjálst fyrir kristinn mann hvort hann íklæðist hógværð og langlyndi heldur er það nauðsynlegt til að hljóta eilíft líf. (Matt. 5:5; Jak. 1:21) Síðast en ekki síst heiðrum við Jehóva og hjálpum öðrum að fara eftir ráðum Biblíunnar ef við tileinkum okkur þessa eiginleika. – Gal. 6:1; 2. Tím. 2:24, 25.

„ÍKLÆÐIST ... ELSKUNNI“

18. Hver eru tengslin milli kærleika og óhlutdrægni?

18 Allir eiginleikarnir, sem við höfum rætt hingað til, eru nátengdir kærleikanum. Lærisveinninn Jakob þurfti til dæmis að áminna trúsystkini sín fyrir að hygla ríkum á kostnað fátækra. Hann benti á að það bryti gegn hinu konunglega boðorði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Síðan bætti hann við: „Ef þið farið í manngreinarálit þá drýgið þið synd.“ (Jak. 2:8, 9) Ef við elskum aðra mismunum við ekki fólki eftir menntun, kynþætti eða stöðu í þjóðfélaginu. Óhlutdrægnin má ekki vera yfirborðsleg heldur þarf hún að vera ósvikinn þáttur í manngerð okkar.

19. Hvers vegna er mikilvægt að íklæðast kærleika?

19 Kærleikurinn er líka „langlyndur“ og „hreykir sér ekki upp“. (1. Kor. 13:4) Það kallar á sanna þolinmæði, góðvild og hógværð að halda áfram að boða fólki fagnaðarerindið um ríkið. (Matt. 28:19) Þessir sömu eiginleikar auðvelda okkur líka að eiga góð samskipti við öll trúsystkini okkar í söfnuðinum. Hvaða umbun fylgir því að sýna slíkan kærleika? Hann skapar einingu í söfnuðinum sem er Jehóva til lofs og laðar að fólk sem sýnir sannleikanum áhuga. Það er vel við hæfi að lýsingu Biblíunnar á hinum nýja manni skuli ljúka með þessum orðum: „Íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ – Kól. 3:14.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ „ENDURNÝJAST Í ANDA OG HUGSUN“

20. (a) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur og hvers vegna? (b) Hvaða framtíð blasir við okkur?

20 Við ættum öll að spyrja okkur hvað annað við getum gert til að afklæðast hinum gamla manni og halda okkur frá honum. Við þurfum að biðja ákaft um hjálp Guðs og leggja okkur fram við að sigrast á öllum hugsunum og verkum sem geta komið í veg fyrir að við fáum að ganga inn í ríki Guðs. (Gal. 5:19-21) Við þurfum líka að spyrja okkur hvort við höldum áfram að endurnýjast í anda og hugsun. (Ef. 4:23, 24) Að íklæðast hinum nýja manni og viðhalda honum er áframhaldandi verkefni allra kristinna manna meðan þessi heimur stendur. Hugsaðu þér hve lífið verður stórkostlegt þegar allir sem við þekkjum hafa íklæðst hinum nýja manni fullkomlega!

^ gr. 3 Á biblíutímanum var litið niður á Skýta og þeir ekki taldir siðmenntaðir.