Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar – hjálpið börnunum að hljóta visku svo að þau bjargist

Foreldrar – hjálpið börnunum að hljóta visku svo að þau bjargist

„Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt hin helgu rit en þau geta veitt þér visku svo að þú bjargist.“ – 2. TÍM. 3:15, NW.

SÖNGVAR: 141, 134

1, 2. Hvers vegna hafa sumir foreldrar vissar áhyggjur þegar barn þeirra vill vígjast og skírast?

BIBLÍUNEMENDUR vígjast Jehóva og skírast í þúsundatali. Meðal þeirra er fjöldi unglinga sem hefur alist upp í sannleikanum og valið bestu lífsleiðina. (Sálm. 1:1-3) Ef þú ert foreldri í söfnuðinum hlakkarðu eflaust til þess dags þegar sonur þinn eða dóttir lætur skírast. – Samanber 3. Jóhannesarbréf 4.

2 Þó má vera að þú hafir vissar áhyggjur. Þú hefur ef til vill séð að sumir unglingar, sem skírast, draga síðar í efa að það sé skynsamlegt að lifa eftir lífsreglum Guðs. Sumir hafa jafnvel snúið baki við sannleikanum. Kannski óttastu að barnið þitt byrji að þjóna Guði en að kærleikurinn til sannleikans dofni smám saman. Það gæti farið eins og gerðist hjá sumum í kristna söfnuðinum í Efesus á fyrstu öld en Jesús sagði við þá: „Þú hefur fallið frá þínum fyrri kærleik.“ (Opinb. 2:4) Hvað geturðu gert til að draga úr hættunni að það gerist og hjálpa barninu þínu að ,dafna til hjálpræðis‘? (1. Pét. 2:2) Við skulum leita svars við því með því að skoða sögu Tímóteusar.

„ÞÚ HEFUR ... ÞEKKT HIN HELGU RIT“

3. (a) Hvenær tók Tímóteus trú og hvernig brást hann við því sem honum var kennt? (b) Nefndu þrennt sem Páll hvatti Tímóteus til að gera.

3 Tímóteus kynntist sennilega kristinni trú um árið 47 þegar Páll postuli kom til Lýstru á fyrstu trúboðsferð sinni. Tímóteus var líklega á unglingsaldri þá en hann hlýtur að hafa lagt sig vel fram því að tveim árum síðar tók hann að ferðast með Páli. Um 16 árum síðar skrifaði Páll honum: „Haltu áfram að fylgja því sem þú hefur lært og látið sannfærast um því að þú veist af hverjum þú lærðir það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt hin helgu rit [Hebresku ritningarnar] en þau geta veitt þér visku svo að þú bjargist vegna trúar á Krist Jesú.“ (2. Tím. 3:14, 15, NW) Við tökum eftir að Páll nefnir að Tímóteus þyrfti (1) að þekkja hin helgu rit, (2) sannfærast um það sem hann lærði og (3) öðlast visku svo að hann bjargaðist vegna trúar á Krist Jesú.

4. Hvaða hjálpargögn hafa reynst þér vel til að kenna börnunum meðan þau eru ung? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Kristnir foreldrar vilja að sjálfsögðu að börnin þeirra þekki Biblíuna, bæði Hebresku og Grísku ritningarnar. Börn eru auðvitað ólík en þau geta byrjað mjög ung að læra um fólkið og atburðina sem sagt er frá í Biblíunni. Söfnuður Jehóva hefur látið í té alls konar hjálpargögn sem foreldrar geta notað til að kenna börnunum. Hverju hefurðu aðgang að á þínu máli? Mundu að sterkt samband við Jehóva byggist á biblíuþekkingu.

„LÁTIÐ SANNFÆRAST“

5. (a) Hvað merkir orðið sem er þýtt ,að láta sannfærast‘? (b) Hvernig vitum við að Tímóteus sannfærðist um fagnaðarerindið um Jesú?

5 Það er mikilvægt að þekkja Biblíuna vel. En til að fræða börnin um sannleikann þarf að gera meira en að miðla þeim upplýsingum um fólkið og atburðina sem sagt er frá í Biblíunni. Tímóteus ,lét sannfærast um‘ það sem hann lærði. Á frummálinu merkir orðið, sem er þýtt þannig, að „vera fullviss um“ eða „vera sannfærður og viss um að eitthvað sé rétt“. Tímóteus hafði þekkt Hebresku ritningarnar frá blautu barnsbeini. En síðar fékk hann óyggjandi sannanir fyrir því að Jesús væri Messías og sannfærðist um að svo væri. Með öðrum orðum styrkti sannfæringin þekkingu hans. Tímóteus var alveg sannfærður um fagnaðarerindið þannig að hann lét skírast og slóst í för með Páli á trúboðsferðum hans.

6. Hvernig geturðu hjálpað börnunum að sannfærast um það sem þau læra af Biblíunni?

6 Hvernig geturðu hjálpað börnunum að byggja upp sannfæringu þannig að þau trúi, líkt og Tímóteus gerði? Í fyrsta lagi þarftu að vera þolinmóður. Börnin sannfærast ekki á augabragði, og þau sannfærast ekki bara af því að þú trúir. Börnin þurfa hvert og eitt að „nota skynsemina“ til að sannfærast um sannleika Biblíunnar. (Lestu Rómverjabréfið 12:1.) * Þið foreldrarnir gegnið þar mikilvægu hlutverki, ekki síst þegar börnin spyrja spurninga. Lítum á dæmi.

7, 8. (a) Hvernig kennir kristinn faðir dóttur sinni með þolinmæði? (b) Hvenær hefur þú þurft að sýna svipaða þolinmæði?

7 Thomas á 11 ára dóttur. Hann segir: „Dóttir mín á það til að spyrja: ,Getur verið að Jehóva hafi notað þróun til að mynda lífið á jörð?‘ eða: ,Af hverju tökum við ekki þátt í félagsmálum, til dæmis með því að kjósa, og reynum að bæta samfélagið?‘ Stundum þarf ég að bíta í tunguna á mér til að koma ekki með kreddukennt svar. Sannfæring byggist nefnilega ekki á einum stórum sannleika heldur á mörgum smáum sönnunargögnum.“

8 Eins og Thomas bendir réttilega á kostar það þolinmæði að kenna. Reyndar þurfa allir kristnir menn að vera þolinmóðir. (Kól. 3:12) Thomas veit að það getur þurft að ræða málin oft og mörgum sinnum. Hann þarf að rökræða við dóttur sína út frá Biblíunni svo að hún sannfærist um það sem hún er að læra. Hann segir: „Þegar mikilvæg mál eru annars vegar viljum við hjónin vita hvort dóttir okkar trúir í alvöru því sem hún lærir og hvort henni finnst það rökrétt. Það er gott ef hún spyr spurninga. Ég myndi satt að segja hafa áhyggjur ef hún tæki eitthvað gott og gilt án þess að spyrja nokkurs.“

9. Hvernig geturðu kennt börnunum orð Guðs svo að þau trúi?

9 Ef foreldrarnir kenna börnunum með þolinmæði skilja þau smám saman ,vídd og lengd, hæð og dýpt‘ trúarinnar. (Ef. 3:18) Við getum kennt þeim í samræmi við aldur þeirra og getu. Þegar þau sannfærast um það sem þau læra verða þau færari í að verja trú sína, meðal annars fyrir skólafélögum. (1. Pét. 3:15) Geta börnin þín til dæmis útskýrt með hjálp Biblíunnar hvað gerist við dauðann? Finnst þeim skýringar Biblíunnar rökréttar? * Mundu að þú þarft að vera þolinmóður til að kenna barninu svo að það trúi orði Guðs – en það er erfiðisins virði. – 5. Mós. 6:6, 7.

10. Nefndu einn mikilvægan þátt kennslunnar.

10 Ef þú vilt að barnið þitt trúi er auðvitað mikilvægt að þú sért góð fyrirmynd. Stephanie á þrjár dætur. Hún segir: „Frá því að stelpurnar voru mjög ungar hef ég þurft að spyrja mig: Segi ég þeim frá því hvers vegna ég sé sannfærð um að Jehóva sé til, hann elski okkur og að vegir hans séu réttir? Sjá þær greinilega að ég elska Jehóva? Ég get ekki ætlast til að stelpurnar mínar séu sannfærðar nema ég sé það.“

VISKA TIL AÐ BJARGAST

11, 12. Hvað er viska og hvernig vitum við að hún fer ekki eingöngu eftir aldri?

11 Eins og við höfum séð bjó Tímóteus yfir (1) biblíuþekkingu og var (2) sannfærður um það sem hann trúði. En hvað átti Páll við þegar hann sagði að hin helgu rit gætu veitt honum ,visku svo að hann bjargaðist‘?

12 Í Insight on the Scriptures, 2. bindi, kemur fram að í Biblíunni merki viska meðal annars „að vera fær um að nota þekkingu sína og skilning til að leysa vandamál, forðast hættur eða afstýra þeim, ná vissum markmiðum eða leiðbeina öðrum við það. Viska er andstæða heimsku.“ Í Biblíunni er talað um að heimskan geti sest að í hjarta barnsins. (Orðskv. 22:15) Það er því rökrétt að viska, andstæða heimskunnar, sé merki um þroska. Trúarþroski ræðst ekki eingöngu af aldri heldur meira af því að óttast Jehóva á heilbrigðan hátt og vera tilbúinn til að hlýða boðum hans. – Lestu Sálm 111:10.

13. Hvernig getur ungt fólk sýnt að það búi yfir visku svo að það bjargist?

13 Unglingar, sem hafa tekið út þokkalegan trúarþroska, láta ekki „hrekjast og berast fram og aftur“ af löngunum sínum eða vegna þrýstings frá öðru ungu fólki. (Ef. 4:14) Þeir eru öllu heldur að ,aga hugann til að greina gott frá illu‘. (Hebr. 5:14) Þeir sýna þroska með því að taka viturlegar ákvarðanir, jafnvel þegar foreldrarnir eða aðrir fullorðnir sjá ekki til. (Fil. 2:12) Þess konar viska er nauðsynleg til að bjargast. (Lestu Orðskviðina 24:14.) Hvernig geturðu hjálpað börnunum að öðlast slíka visku? Í fyrsta lagi þarftu að tryggja að börnin viti hvaða gildi þú hefur. Sýndu þeim bæði með orðum þínum og verkum að þú fylgir þeim lífsreglum sem er að finna í Biblíunni. – Rómv. 2:21-23.

Hvers vegna þurfa foreldrar að taka alvarlega þá ábyrgð sína að kenna börnunum? (Sjá 14.-18. grein.)

14, 15. (a) Hvaða mikilvægu mál ætti unglingur, sem langar til að skírast, að hugleiða? (b) Hvernig geturðu hjálpað barninu að íhuga blessunina sem fylgir því að hlýða lögum Guðs?

14 En það er ekki nóg að segja bara börnunum hvað sé rétt og rangt. Þú ættir líka að hjálpa þeim að velta fyrir sér hvers vegna Biblían bannar ýmislegt sem fólk langar stundum til að gera. Hvað sannfærir barnið um að það sé alltaf til góðs að fara eftir lífsreglum Biblíunnar? – Jes. 48:17, 18.

15 Ef barnið þitt langar til að skírast ættirðu að hjálpa því að hugleiða vel og vandlega þá ábyrgð sem fylgir því að vera vottur. Hvernig hugsar það um þessa ábyrgð? Hverjir eru kostirnir við að vera skírður? Hvernig getur það reynt á mann? Hvers vegna eru kostirnir miklu þyngri á metunum? (Mark. 10:29, 30) Það reynir trúlega á þetta eftir skírnina. Þess vegna er mikilvægt að barnið hugsi málið vel áður en það stígur þetta alvarlega skref. Hjálpaðu barninu að hugleiða blessunina sem fylgir því að vera hlýðinn og slæmar afleiðingar þess að hlýða ekki. Þá er líklegt að barnið sannfærist um að það sé því alltaf fyrir bestu að fylgja meginreglum Biblíunnar. – 5. Mós. 30:19, 20.

ÞEGAR SKÍRÐUR UNGLINGUR EFAST

16. Hvað ættu foreldrar að gera ef barnið veikist í trúnni eftir að það skírist?

16 En segjum nú að barnið þitt láti í ljós efasemdir einhvern tíma eftir að það skírist. Kannski finnst unglingnum ýmislegt í heiminum spennandi eða fer að efast um að það sé besta lífsstefnan að fara eftir meginreglum Biblíunnar. (Sálm. 73:1-3, 12, 13) Viðbrögð þín geta haft áhrif á það hvort barnið þitt velur að halda áfram að þjóna Jehóva eða hvort það fjarlægist trúna. Gættu þess að segja barninu ekki stríð á hendur vegna þessa máls, og gildir þá einu hvort það er komið á unglingsaldur eða er miklu yngra. Láttu barnið finna að þú elskir það, styðjir það og viljir hjálpa því.

17, 18. Hvernig geta foreldrar aðstoðað ungling sem efast um trúna?

17 Skírður unglingur hefur auðvitað gefið Jehóva hátíðlegt vígsluheit. Hann hefur lofað honum að láta vilja hans ganga fyrir öllu öðru í lífinu. (Lestu Markús 12:30.) Jehóva tekur þetta loforð alvarlega og allir sem hafa gefið það ættu að gera það líka. (Préd. 5:3, 4) Minntu unglinginn vingjarnlega á það. En fyrst skaltu lesa og hugleiða viðeigandi efni sem söfnuður Jehóva hefur samið handa foreldrum. Það hjálpar þér að sýna barninu þínu fram á að það sé alvörumál að vera vígður og skírður þjónn Jehóva en það hafi jafnframt mikla blessun í för með sér.

18 Góð ráð er meðal annars að finna í viðaukanum „Spurningar sem foreldrar spyrja“ aftast í 1. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga. * Þar segir: „Hugsaðu ekki sem svo að unglingurinn hafi snúið baki við trúnni. Oft býr annað að baki.“ Það gæti verið hópþrýstingur. Unglingurinn gæti verið einmana eða fundist að öðrum unglingum í söfnuðinum gangi betur en honum sjálfum. Í viðaukanum segir áfram: „Mál af þessu tagi hafa lítið með trúarkenningar að gera. Þau tengjast frekar aðstæðum sem gera unglingnum erfitt að iðka trúna – að minnsta kosti þá stundina.“ Í viðaukanum eru síðan gefnar nokkrar tillögur um hvernig kristnir foreldrar geta hjálpað unglingi sem efast um trúna.

19. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að öðlast ,visku svo að þau bjargist‘?

19 Það hvílir mikil ábyrgð á ykkur foreldrum að ala börnin upp „með aga og fræðslu um Drottin“ en það er jafnframt mikill heiður að fá að gera það. (Ef. 6:4) Eins og fram hefur komið felur það bæði í sér að kenna þeim það sem segir í Biblíunni og hjálpa þeim að sannfærast um það sem þau læra. Þau þurfa að hafa svo sterka sannfæringu að þau vígist Jehóva og þjóni honum af heilum hug. Megi orð Jehóva, andi hans og erfiði ykkar foreldranna hjálpa börnunum að öðlast ,visku svo að þau bjargist‘.

^ gr. 6 Rómverjabréfið 12:1 (New World Translation): „Þess vegna hvet ég ykkur, bræður, vegna miskunnar Guðs að bjóða fram líkama ykkar að lifandi fórn, heilagri og Guði þóknanlegri, að nota skynsemina til að þjóna honum.“

^ gr. 9 Námsverkefnin „Hvað kennir Biblían?“ eru prýðileg hjálpargögn til að auðvelda bæði börnum og fullorðnum að skilja og útskýra sannindi Biblíunnar. Þau er að finna á jw.org á fjölda tungumála undir BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BIBLÍUNÁMSGÖGN.

^ gr. 18 Sjá endurskoðaða útgáfu bókarinnar á erlendum málum.