Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían og framtíð þín

Biblían og framtíð þín

ÍMYNDAÐU ÞÉR að þú sért á göngu á dimmum vegi seint um kvöld. Þó að sólin sé löngu sest villistu ekki vegna þess að þú ert með gott vasaljós. Þegar þú beinir því niður sérðu vel það sem er rétt fyrir framan þig og þegar þú beinir því fram lýsir sterkur geislinn upp veginn framundan.

Að vissu leyti er Biblían eins og þetta vasaljós. Í greinunum á undan skoðuðum við hvernig orð Guðs getur hjálpað okkur að takast á við vandamál daglegs lífs í þessum óstöðuga heimi. En Biblían gerir meira en það. Hún gefur okkur skýra sýn inn í framtíðina því að hún gerir okkur kleift að sjá og fylgja vegi sem leiðir til varanlegrar hamingju og lífsfyllingar. (Sálmur 119:105) Hvernig gerir hún það?

Skoðum tvö dæmi um hvernig kennsla Biblíunnar gagnast okkur nú og að eilífu. Hún segir okkur 1 hvað gefi okkur tilgang í lífinu og 2 hvernig við getum eignast varanlega vináttu við skaparann.

1 TILGANGUR Í LÍFINU

Biblían gefur okkur áreiðanleg ráð til að kljást við vandamál okkar. En hún er þó annað og meira en sjálfshjálparbók. Hún hvetur okkur til að einblína ekki einungis á eigin vandamál heldur að sjá heildarmyndina. Aðeins með því móti getur líf okkar haft raunverulegan tilgang.

Tökum þessa meginreglu Biblíunnar sem dæmi: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Hefurðu einhvern tíma hjálpað einhverjum efnislega? Eða hefurðu hlustað á vin létta á hjarta sínu og gefið þannig af sjálfum þér? Fannst þér ekki ánægjulegt að auðvelda einhverjum öðrum lífið með þessum hætti?

Það veitir okkur sanna gleði að gefa án þess að vænta nokkurs í staðinn. Rithöfundur nokkur skrifaði: „Það er nánast ómögulegt að gefa af sjálfum sér án þess að fá margfalt tilbaka – það er að segja ef maður gefur án þess að reikna með að fá eitthvað í staðinn.“ Og þegar við gefum af sjálfum okkur – sérstaklega þeim sem geta ekki endurgoldið okkur – er okkur sannarlega umbunað. Við erum þá hluti af heildarmynd og vinnum náið með sjálfum skaparanum en hann lítur svo á að við lánum honum þegar við sýnum öðrum slíka góðvild. (Orðskviðirnir 19:17) Hann kann vissulega að meta það sem við gerum fyrir þá sem minna mega sín og hann lofar að umbuna okkur með eilífu lífi í paradís á jörð. Það eru sannarlega spennandi framtíðarhorfur! – Sálmur 37:29; Lúkas 14:12-14. *

Það sem meira er, Biblían kennir að við getum fundið sannan tilgang í lífinu með því að tilbiðja Jehóva, hinn eina sanna Guð. Í orði hans erum við hvött til að lofa hann og heiðra og hlýða honum – rétt eins og hann verðskuldar. (Prédikarinn 12:13; Opinberunarbókin 4:11) Þegar við gerum það tekst okkur að gera nokkuð sem er undravert: Við höfum áhrif á tilfinningar skaparans. Hann hvetur hvert og eitt okkar: „Öðlastu visku ... og gleddu hjarta mitt.“ (Orðskviðirnir 27:11) Hugsaðu þér! Við gleðjum hjarta himnesks föður okkar með því að taka ákvarðanir byggðar á meginreglum Biblíunnar. Hann gleðst af því að honum er annt um okkur og vill að við gerum það sem okkur er til góðs með því að fylgja leiðbeiningum hans. (Jesaja 48:17, 18) Er hægt að hugsa sér betri tilgang í lífinu en að tilbiðja skapara alheims og nota lífið þannig að við gleðjum hann?

2 VINÁTTA VIÐ SKAPARANN

Biblían kennir okkur einnig hvernig við getum eignast vináttu við Guð. „Nálægið ykkur Guði,“ segir hún, „og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jakobsbréfið 4:8) Stundum efumst við kannski um að almáttugur skaparinn vilji vera vinur okkar. En Biblían fullvissar okkur um að ef við ‚leitum Guðs‘ munum við ‚finna hann‘ því að ‚hann er eigi langt frá neinum af okkur‘. (Postulasagan 17:27) Ef við förum eftir ráðum Biblíunnar og eignumst vináttu Guðs hefur það mikil áhrif á framtíðarhorfur okkar. Hvernig þá?

Hugleiddu þetta: Ekkert okkar getur af eigin rammleik umflúið dauðann – versta óvin okkar. (1. Korintubréf 15:26) Guð er hins vegar eilífur. Hann deyr aldrei og hann vill líka að vinir sínir lifi að eilífu. Jehóva óskar þeim sem leita hans að njóta lífsins um alla framtíð. Biblían lýsir því á einfaldan en fallegan hátt með þessum orðum: „Hjörtu yðar lifi að eilífu.“ – Sálmur 22:26.

Hvernig getum við byggt upp eilífa vináttu við Guð? Með því að halda áfram að læra um hann af orði hans, Biblíunni. (Jóhannes 17:3; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Leitaðu hjálpar hans við að skilja Biblíuna. Í henni erum við fullvissuð um að ef við biðjum Guð í einlægni um visku muni hann veita okkur hana. * (Jakobsbréfið 1:5) Farðu síðan eftir því sem þú lærir. Þannig verður orð Guðs „lampi fóta [þinna] og ljós á vegum [þínum]“, héðan í frá og að eilífu. – Sálmur 119:105.

^ gr. 8 Hægt er að fá frekari upplýsingar varðandi loforð Guðs um eilíft líf í paradís í 3. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin er út af Vottum Jehóva.

^ gr. 13 Vottar Jehóva bjóða upp á ókeypis biblíunámskeið sem getur hjálpað þér að skilja Biblíuna betur. Til að fá nánari upplýsingar um slíkt námskeið geturðu skoðað myndskeiðið Hvernig fer biblíunámskeið fram? Farðu inn á jw.org/is og sláðu inn heiti myndskeiðsins í leitargluggann.

Guð er eilífur og hann vill líka að vinir sínir lifi að eilífu.