Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stjörnuspeki og spásagnir – innsýn í framtíðina?

Stjörnuspeki og spásagnir – innsýn í framtíðina?

STJÖRNUSPEKI

Stjörnuspeki er aðferð til að spá fyrir um framtíðina þar sem gengið er út frá því að stjörnurnar, tunglið og reikistjörnurnar hafi markverð áhrif á líf fólks. Stjörnuspekingar fullyrða að staðsetning stjarna í himingeimnum á fæðingardegi manna móti persónuleika þeirra og framtíð.

Stjörnuspeki er vinsæl þó að hún sé ævaforn og eigi rætur að rekja til Babýlonar til forna. Samkvæmt könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2012, var þriðjungur aðspurðra þeirrar skoðunar að stjörnuspeki væri „nokkuð vísindaleg“ og einn af hverjum tíu sagði að stjörnuspekin væri „mjög vísindaleg“. En er hún það? Nei. Hvers vegna ekki?

  • Plánetur og stjörnur búa ekki yfir krafti sem hefur áhrif á menn, eins og stjörnuspekingar halda fram.

  • Stjörnuspár eru oft svo almennt orðaðar að þær gætu átt við hvern sem er.

  • Útreikningar stjörnuspekinga byggjast á þeirri fornu trú að reikistjörnurnar snúist um jörðina. En staðreyndin er sú að þær snúast um sólina.

  • Spám stjörnuspekinga fyrir sama einstakling ber ekki saman.

  • Stjörnuspekin skiptir fólki í 12 flokka, eða stjörnumerki dýrahringsins, eftir fæðingardegi þess. Með tímanum hefur afstaða jarðar breyst gagnvart fastastjörnunum sem stjörnumerkin eru nefnd eftir. Þess vegna hafa þessir flokkar riðlast.

Stjörnumerkin eiga að segja til um persónueinkenni hvers og eins. En þeir sem eru fæddir á sama degi hafa ekki allir sömu skapgerð – fæðingardagurinn segir ekkert um eiginleika þeirra. Í stað þess að horfa á hvaða eiginleika maður hefur dæma stjörnuspekingar hegðun manna eftir fyrirfram ákveðnum hugmyndum. Eru það ekki vissir fordómar?

SPÁSAGNIR

Frá fornu fari hefur fólk leitað spásagna. Spásagnamenn lásu sumir hverjir í innyfli dýra og manna eða það hvernig hani goggar í matinn sinn. Aðrir spáðu í bolla. Núna er vinsælt að nota Tarotspil, kristalkúlur, teninga og fleira til þess að spá fyrir fólki eða lesa í framtíð þess. Eru slíkar aðferðir áreiðanlegar til að sjá framtíðina fyrir? Nei. Hvers vegna ekki?

Þegar spáð er fyrir fólki með mismunandi aðferðum koma gjarnan ólíkar niðurstöður. Og jafnvel þegar sömu aðferð er beitt stangast niðurstöðurnar á. Maður skildi ætla að ef maður leitaði til tveggja spámanna með sömu spurningu og með sömu spil gæfu þeir sama svarið. En oft er raunin ekki sú.

Margir sem efast um aðferðir og hvatir spámanna segja að kristalkúlur og spil séu bara leikmunir og að sá sem spái lesi úr viðbrögðum fólks frekar en úr hlutunum. Til dæmis notar klókur spásagnamaður almennar spurningar og er vakandi fyrir svörum og viðbrögðum sem geta sagt honum eitthvað um skjólstæðinginn. Til þess að gera sjálfan sig trúverðugri notar spásagnamaðurinn upplýsingarnar sem skjólstæðingurinn gefur honum óafvitandi. Eftir að hafa áunnið sér traust hafa sumir spámenn hagnast vel á fólki.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Stjörnuspeki og spásagnir gefa í skyn að framtíð okkar sé fyrirfram ákveðin. En er hún það? Biblían segir að við getum kosið hverju við trúum og hvað við gerum og að val okkar hafi áhrif á framtíð okkar. – Jósúabók 24:15.

Þeir sem tilbiðja Guð hafa aðra ástæðu til þess að varast stjörnuspeki og spásagnir – Guð fordæmir hvers kyns kukl. Í Biblíunni segir: „Á meðal ykkar má enginn finnast sem ... leitar goðsvara með hlutkesti, enginn sem les óorðna atburði úr skýjum eða úr bikar, enginn galdramaður, enginn sem fer með særingar, leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum. Því að hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð.“ – 5. Mósebók 18:10-12.