Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þögult vitni um nákvæman spádóm

Þögult vitni um nákvæman spádóm

Í MIÐRI RÓMABORG STENDUR SIGURBOGI SEM LAÐAR AÐ FERÐAMENN ÚR ÖLLUM HEIMSHORNUM. BOGINN VAR REISTUR TIL HEIÐURS TÍTUSI, EINUM ÁSTSÆLASTA KEISARA RÓMAVELDIS.

Á Títusarboganum eru tvær stórar lágmyndir sem lýsa merkum viðburði í sögu mannkyns. Margir vita þó ekki af tengslum þessa minnismerkis og Biblíunnar. Títusarboginn er þögult vitni um hve nákvæmir spádómar Biblíunnar eru.

DÆMD BORG

Rómaveldi teygði sig frá Bretlandi og Gallíu (sem nú heitir Frakkland) og náði alla leið til Egyptalands snemma á fyrstu öld. Ríkið bjó við stöðugleika og velsæld sem aldrei fyrr. Einn afskekktur kimi var þó valdhöfum Rómar sífellt til ama – skattlandið Júdea sem var aldrei til friðs.

Í bókinni Encyclopedia of Ancient Rome segir: „Fá landsvæði undir yfirráðum Rómar einkenndust af jafn sterkri og gagnkvæmri óbeit og Júdea. Gyðingum var í nöp við hina útlendu herra sem báru litla virðingu fyrir erfðavenjum þeirra, og Rómverjar undu illa þvermóðsku Gyðinga.“ Margir Gyðingar vonuðu að upp risi pólitískur messías sem ræki burt hina hötuðu Rómverja og endurreisti Ísrael í sinni fornu dýrð. Árið 33 lýsti Jesús Kristur hins vegar yfir að miklar hörmungar biðu Jerúsalemborgar.

Jesús sagði: „Þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ – Lúkas 19:43, 44.

Orð Jesú virðast hafa komið flatt upp á lærisveina hans. Tveim dögum síðar horfðu þeir yfir musteri borgarinnar og einn þeirra sagði: „Meistari, sjáðu, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“ Steinarnir í musterinu voru engin smásmíði. Sagt er að sumir þeirra hafi verið 11 metra langir, 5 metra breiðir og 3 metra háir! Jesús svaraði samt: „Þeir dagar koma að allt sem hér blasir við verður lagt í rúst, ekki steinn yfir steini eftir.“ – Markús 13:1; Lúkas 21:6.

Jesús bætti við: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þau sem í Júdeu eru til fjalla, þau sem í borginni eru flytjist burt og þau sem eru á ekrum úti fari ekki inn í hana.“ (Lúkas 21:20, 21) Rættust orð Jesú?

BORG LÍÐUR UNDIR LOK

Þrjátíu og þrjú ár liðu og andúð Gyðinga á rómversku herraþjóðinni hafði síst minnkað. En árið 66 var Gyðingum nóg boðið þegar Gessíus Flórus, landstjóri Rómverja í Júdeu, tók fé úr hinni helgu fjárhirslu musterisins. Áður en langt um leið þyrptust uppreisnarmenn Gyðinga til Jerúsalem, brytjuðu niður setulið Rómverja og lýstu yfir sjálfstæði frá Róm.

Um þrem mánuðum síðar kom rúmlega 30.000 manna lið Rómverja til Jerúsalem undir forystu Cestíusar Gallusar í þeim tilgangi að berja niður uppreisnina. Rómverjar lögðu fljótt til atlögu inn í borgina og tóku að grafa undan ytri múr musterisins. En síðan hörfaði liðið frá borginni án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Uppreisnarmenn Gyðinga ráku flóttann himinlifandi. Þegar stríðandi fylkingar voru á bak og burt yfirgáfu kristnir menn borgina og forðuðu sér til fjalla handan Jórdanar, eins og Jesús hafði sagt þeim að gera. – Matteus 24:15, 16.

Árið eftir lögðu Rómverjar aftur í herferð til Júdeu, nú undir forystu Vespasíanusar hershöfðingja og Títusar, sonar hans. En árið 68, skömmu eftir að Neró keisari dó, sneri Vespasíanus aftur til Rómar til að taka við keisaraembætti. Títus varð eftir og hélt hernaðinum áfram með um 60.000 manna lið.

Í júní árið 70 skipaði Títus hermönnum sínum að fella öll tré í nærsveitum Jerúsalem og reisa girðingu úr oddhvössum staurum kringum hana. Girðingin var 7 kílómetra löng. Í september voru Rómverjar búnir að ræna borgina ásamt musterinu, brenna hana og rífa niður stein fyrir stein eins og Jesús hafði spáð. (Lúkas 19:43, 44) Varlega áætlað er talið að „á bilinu fjórðungur milljónar til hálf milljón manna hafi týnt lífi í Jerúsalem og landinu öllu“.

STÓRBROTINN SIGUR

Títus sneri heim til Ítalíu árið 71 og íbúar Rómaborgar tóku höfðinglega á móti sigurvegaranum. Borgarbúar hylltu hann allir sem einn í einhverri stórbrotnustu skrúðgöngu sem farin hefur verið í höfuðborginni.

Mannfjöldinn horfði aðdáunaraugum á herfangið sem gengið var með um stræti Rómar. Það horfði með hrifningu á hertekna báta og stórfenglega vagna með leikurum og leikmyndum sem lýstu bardögum úr stríðinu. Þar voru einnig myndir af gripum sem rænt hafði verið úr musterinu í Jerúsalem.

Títus tók við keisaradómi af Vespasíanusi, föður sínum, árið 79 en dó óvænt aðeins tveim árum síðar. Dómitíanus, bróðir hans, tók við embætti af honum og lét fljótlega reisa sigurboga honum til heiðurs.

GILDI SIGURBOGANS

Títusarboginn í Róm.

Hundruð þúsunda manna heimsækja Rómartorgið ár hvert og virða Títusarbogann fyrir sér. Sumir líta á hann sem mikilfenglegt listaverk, í augum annarra vitnar hann um forna frægð Rómaveldis en sumir sjá hann sem minnisvarða um fall Jerúsalem og eyðingu musterisins.

Títusarboginn hefur þó enn meira gildi fyrir þá sem lesa Biblíuna af áhuga. Hann er þögult vitni um að spádómar Biblíunnar eru áreiðanlegir og nákvæmir, og hann staðfestir að þeir eru innblásnir af Guði. – 2. Pétursbréf 1:19-21.