Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þekkir þú Jehóva eins og Nói, Daníel og Job gerðu?

Þekkir þú Jehóva eins og Nói, Daníel og Job gerðu?

„Illmenni skilja ekki hvað rétt er en þeir sem leita Drottins skilja allt.“ – ORÐSKV. 28:5.

SÖNGVAR: 126, 150

1-3. (a) Hvað hjálpar okkur að vera Guði trú á þessum síðustu dögum? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

ENDIR hinna síðustu daga nálgast óðum. Illskan færist stöðugt í vöxt og illir menn ,gróa sem grasið‘. (Sálm. 92:8) Það kemur því ekki á óvart að margir hafni siðferðisreglum Guðs. Hvernig getum við „verið hrekklaus sem börn“ en samt haft „dómgreind sem fullorðnir“ þar sem við búum við þetta ástand? – 1. Kor. 14:20.

2 Svarið er að finna í versinu sem þessi grein er byggð á, en þar segir meðal annars: „Þeir sem leita Drottins skilja allt,“ það er að segja allt sem þarf til að þóknast honum. (Orðskv. 28:5) Svipuð hugmynd kemur fram í Orðskviðunum 2:7, 9. Þar segir að Jehóva ,geymi hinum ráðvöndu gæfuna‘, eða „viskuna“ eins og sumar biblíur orða það. Fyrir vikið geta þeir ,skilið hvað réttlæti er, réttur og réttsýni, skilið sérhverja braut hins góða‘.

3 Nói, Daníel og Job öfluðu sér þess konar visku. (Esek. 14:14) Og það gera þjónar Guðs nú á dögum líka. Hvað með þig? ,Skilur þú allt‘ sem þarf til að þóknast Jehóva? Lykillinn er að þekkja hann vel. Með það í huga skulum við skoða (1) hvernig Nói, Daníel og Job kynntust Guði, (2) hvernig þeir nutu góðs af því að þekkja hann og (3) hvernig við getum byggt upp trú eins og þeir.

NÓI GEKK MEÐ GUÐI Í ILLUM HEIMI

4. Hvernig kynntist Nói Jehóva og hvað hlaut hann fyrir vikið?

4 Hvernig kynntist Nói Jehóva? Frá því snemma í sögu mannkyns hafa trúfastir karlar og konur fyrst og fremst kynnst Guði á þrjá vegu: Þau hafa virt fyrir sér sköpunarverkið, lært af öðrum trúum þjónum hans og upplifað blessunina sem hlýst af því að lifa í samræmi við réttlátar meginreglur hans. (Jes. 48:18) Með því að virða fyrir sér sköpunarverkið hefur Nói séð fjöldann allan af sönnunum fyrir tilvist Guðs en einnig kynnst eiginleikum hans, ,mætti og guðdómstign‘. (Rómv. 1:20) Þar af leiðandi trúði Nói ekki aðeins að Guð væri til heldur byggði líka upp sterka trú á hann.

5. Hvernig kynntist Nói fyrirætlun Guðs með mennina?

5 Trúin ,kemur af því að heyra‘. (Rómv. 10:17) Hvernig heyrði Nói um Jehóva? Eflaust lærði hann margt af ættingjum sínum. Þeirra á meðal var Lamek, trúfastur faðir hans, en ævi hans og Adams skaraðist. (Sjá mynd í upphafi greinar.) Einnig má nefna Metúsala, afa hans, og Jared, langalangafa hans, en hann var samtíða Nóa í 366 ár. * (Lúk. 3:36, 37) Ef til vill hefur Nói lært af þessum mönnum og eiginkonum þeirra um upphaf mannkyns, um fyrirætlun Guðs að réttlátir menn fylltu jörðina og um uppreisnina í Eden en Nói gat sjálfur séð afleiðingarnar af henni. (1. Mós. 1:28; 3:16-19, 24) Hvað sem því líður snart það sem Nói lærði hjarta hans og það var honum hvatning til að þjóna Guði. – 1. Mós. 6:9.

6, 7. Hvaða von styrkti trú Nóa?

6 Von styrkir trúna. Ímyndaðu þér hvernig Nóa hefur liðið þegar hann komst að raun um að nafn hans fól í sér von, en það er talið merkja „hvíld“ eða „huggun“. Lamek var innblásið að segja: „Hann [Nói] mun veita okkur styrk í erfiði og striti handa okkar á jörðinni sem Drottinn lýsti bölvun yfir.“ (1. Mós. 5:29) Nói vonaði á Guð. Rétt eins og Abel og Enok trúði hann á ,niðjann‘ sem átti að merja höfuð höggormsins. – 1. Mós. 3:15.

7 Nói skildi ekki til fulls spádóminn sem er skráður í 1. Mósebók 3:15. Hann vissi þó að í honum fólst von um björgun. Þetta loforð samræmdist boðskap Enoks en hann sagði einnig fyrir að Guð myndi eyða illum mönnum. (Júd. 14, 15) Boðskapur Enoks, sem fær lokauppfyllingu í Harmagedón, hefur án efa styrkt trú Nóa og von.

8. Hvernig var það Nóa til verndar að þekkja Guð vel?

8 Hvernig naut Nói góðs af því að þekkja Guð vel? Þekkingin, sem Nói aflaði sér, veitti honum trú og guðlega visku en það verndaði hann, ekki síst fyrir því að gera eitthvað sem myndi særa Jehóva. Þar sem Nói „gekk með Guði“ umgekkst hann til dæmis ekki óguðlega menn. Hann lét ekki blekkjast af illu öndunum sem tóku á sig mannslíkama. Ofurmannlegir kraftar þeirra hafa örugglega vakið aðdáun hjá óguðlegu og trúgjörnu fólki. Vera má að það hafi jafnvel farið að tilbiðja þá. (1. Mós. 6:1-4, 9) Nói vissi líka að mönnunum var sagt að fjölga sér og fylla jörðina. (1. Mós. 1:27, 28) Hann hefur því áttað sig á að kynmök kvenna og holdgaðra andavera voru bæði óeðlileg og röng. Og hann hefur eflaust fengið það staðfest þegar börn þeirra urðu afbrigðileg. Þegar fram liðu stundir varaði Guð Nóa við því að hann myndi láta flóð koma yfir jörðina. Nói trúði þessari viðvörun og smíðaði því örk sem varð honum og fjölskyldu hans til bjargar. – Hebr. 11:7.

9, 10. Hvernig getum við líkt eftir trú Nóa?

9 Hvernig getum við byggt upp trú líkt og Nói hafði? Mestu máli skiptir að við séum góðir biblíunemendur, tökum til okkar það sem við lærum og látum síðan þekkinguna móta okkur og leiðbeina. (1. Pét. 1:13-15) Þannig getur trúin og guðleg viska verndað okkur gegn slóttugum brögðum Satans og áhrifum anda heimsins. (2. Kor. 2:11) Margir í heiminum hafa unun af ofbeldi og siðleysi og láta lífið snúast um að fullnægja holdlegum löngunum. (1. Jóh. 2:15, 16) Þeir sem eru veikir í trúnni gætu smitast af viðhorfum umheimsins og farið að hunsa sannanirnar fyrir því að endir þessa illa heims sé nærri. Það er eftirtektarvert að þegar Jesús bar okkar tíma saman við daga Nóa beindi hann athyglinni ekki að ofbeldi eða siðleysi heldur að þeirri hættu að verða sinnulaus. – Lestu Matteus 24:36-39.

10 Spyrðu þig: Sýni ég með lífi mínu að ég þekki Jehóva í raun og veru? Er trúin mér hvatning til að lifa í samræmi við réttlátar meginreglur hans og líka til að segja öðrum frá þeim? Svörin við þessum spurningum hjálpa þér að komast að raun um hvort þú ,gangir með Guði‘ líkt og Nói gerði.

DANÍEL SÝNDI GUÐLEGA VISKU Í HINNI HEIÐNU BABÝLON

11. (a) Hvað segir það okkur um uppeldi Daníels hve heitt hann elskaði Guð? (b) Hverju langar þig til að líkja eftir í fari Daníels?

11 Hvernig kynntist Daníel Jehóva? Foreldrar Daníels hafa eflaust kennt honum að elska Jehóva og ritað orð hans. Og það gerði hann allt sitt líf. Hann kafaði djúpt í Ritningarnar, jafnvel þegar hann var kominn á efri ár. (Dan. 9:1, 2) Daníel hafði kynnst Jehóva náið. Hann þekkti líka vel samskipti Guðs við Ísraelsþjóðina, eins og sjá má af einlægri og iðrunarfullri bæn hans í Daníel 9:3-19. Hvernig væri að taka sér smástund til að lesa þessa bæn og hugleiða hana? Veltu fyrir þér hvað hún segir um þann mann sem Daníel hafði að geyma.

12-14. (a) Hvernig sýndi Daníel guðlega visku? (b) Hvernig hlaut Daníel blessun fyrir að vera hugrakkur og Guði trúr?

12 Hvernig naut Daníel góðs af því að þekkja Guð vel? Lífið í hinni heiðnu Babýlon var síður en svo auðvelt fyrir trúfastan Gyðing. Jehóva sagði til dæmis við Gyðingana: „Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til.“ (Jer. 29:7) En á sama tíma fór hann fram á að þeir sýndu honum óskipta hollustu. (2. Mós. 34:14) Hvað gerði Daníel kleift að finna rétta jafnvægið? Viskan frá Guði hjálpaði honum að átta sig á meginreglunni um að sýna veraldlegum yfirvöldum undirgefni sem er skilyrðum háð. Öldum síðar kenndi Jesús þessa sömu meginreglu. – Lúk. 20:25.

13 Veltum fyrir okkur hvað Daníel gerði þegar gefin var út opinber tilskipun sem bannaði fólki um 30 daga skeið að biðja til nokkurs guðs eða manns annars en konungsins. (Lestu Daníel 6:8-11.) Daníel hefði getað afsakað sig og sagt: „Þrjátíu dagar eru nú engin eilífð.“ En hann lét ekki tilbeiðsluna á Guði lúta í lægra haldi fyrir tilskipun konungs. Hann hefði auðvitað getað beðið til Jehóva þar sem enginn sæi til. En hann vissi að margir höfðu séð hann biðja daglega. Daníel ákvað því að gefa engum minnsta tilefni til að ætla að hann hefði hætt að tilbiðja Jehóva, jafnvel þótt það stofnaði lífi hans í hættu.

14 Jehóva blessaði Daníel fyrir að fylgja samvisku sinni og taka hugrakka ákvörðun. Hann bjargaði honum fyrir kraftaverk frá grimmilegum dauðdaga. Fyrir vikið var nafn Jehóva kunngert allt til fjarlægustu hluta medísk-persneska heimsveldisins. – Dan. 6:26-28.

15. Hvernig getum við byggt upp trú líkt og Daníel hafði?

15 Hvernig getum við byggt upp trú líkt og Daníel hafði? Það er ekki nóg að lesa í orði Guðs til að eignast sterka trú. Við þurfum líka að skilja það sem við lesum. (Matt. 13:23) Við viljum vita hvernig Jehóva lítur á málin en til þess þurfum við að skilja meginreglur Biblíunnar. Við þurfum því að hugleiða það sem við lesum. Auk þess er mikilvægt að biðja til Guðs oft og innilega, ekki síst þegar við verðum fyrir prófraunum eða öðrum erfiðleikum. Jehóva gefur okkur örlátlega visku og styrk þegar við biðjum um það í trú. – Jak. 1:5.

JOB FYLGDI MEGINREGLUM GUÐS Í BLÍÐU OG STRÍÐU

16, 17. Hvernig kynntist Job Guði?

16 Hvernig kynntist Job Jehóva? Job var ekki Ísraelsmaður. Hann var þó fjarskyldur ættingi Abrahams, Ísaks og Jakobs en Jehóva hafði leyft þeim að kynnast sér og fyrirætlun sinni með mannkynið. Með einhverjum ótilgreindum hætti hafði mikið af þessari dýrmætu þekkingu borist til Jobs. (Job. 23:11, 12) „Ég þekkti þig af afspurn,“ sagði hann við Jehóva. (Job. 42:5) Og Jehóva sagði sjálfur að það sem Job hafði sagt um hann væri satt. – Job. 42:7, 8.

Trú okkar styrkist þegar við virðum fyrir okkur sköpunarverkið og kynnumst eiginleikum Jehóva betur. (Sjá 17. grein.)

17 Job kynntist líka mörgum af eiginleikum Guðs með því að virða fyrir sér sköpunarverkið. (Job. 12:7-9, 13) Bæði Elíhú og Jehóva notuðu síðar sköpunarverkið til að minna Job á hve lítilmótlegur maðurinn er í samanburði við mikilleika Guðs. (Job. 37:14; 38:1-4) Orð Jehóva snertu hjarta Jobs. Hann sagði við Jehóva: „Nú skil ég að þú getur allt, ekkert, sem þú vilt, er þér um megn ... [ég] iðrast í dufti og ösku.“ – Job. 42:2, 6.

18, 19. Hvernig sýndi Job að hann þekkti Jehóva vel?

18 Hvernig naut Job góðs af því að þekkja Guð vel? Job hafði einstakan skilning á meginreglum Guðs. Hann þekkti Jehóva vel og lagði sig fram um að þóknast honum. Job vissi til dæmis að hann gat ekki sagst elska Guð og á sama tíma komið illa fram við náungann. (Job. 6:14) Hann setti sig ekki á háan hest heldur sýndi hann öllum bróðurkærleika hvort sem þeir voru ríkir eða fátækir. „Var það ekki skapari minn sem skapaði þrælinn í móðurlífi?“ spurði hann. (Job. 31:13-22) Job lét greinilega ekki fyrri frama og auðæfi brengla viðhorf sitt til sjálfs sín eða annarra. Þannig var hann gerólíkur mörgum sem eru ríkir og valdamiklir í heiminum.

19 Job var staðráðinn í að hafna hvers kyns skurðgoðadýrkun. Hann vissi að falsguðadýrkun, þar á meðal að helga líf sitt efnislegum auðæfum, væri það sama og að afneita „Guði í upphæðum“. (Lestu Jobsbók 31:24-28.) Hann leit á hjónabandið sem heilagt samband karls og konu. Hann gerði jafnvel sáttmála við augu sín að líta mey ekki girndarauga. (Job. 31:1) Höfum í huga að á tímum Jobs umbar Guð fjölkvæni. Job hefði því getað tekið sér aðra konu hefði hann viljað það. * En hann leit eflaust til þeirrar fyrirmyndar sem Guð gaf í Eden þegar hann stofnsetti hjónabandið. Svo virðist sem Job hafi kosið að lifa eftir þeirri fyrirmynd. (1. Mós. 2:18, 24) Um 1.600 árum síðar kenndi Jesús áheyrendum sínum að þeir ættu að halda sig við þessar sömu réttlátu meginreglur varðandi hjónaband og siðferði. – Matt. 5:28; 19:4, 5.

20. Hvernig getur það að þekkja Jehóva og meginreglur hans vel hjálpað okkur að velja góðan félagsskap og heilnæma afþreyingu?

20 Hvernig getum við byggt upp trú líkt og Job hafði? Enn og aftur er lykillinn að þekkja Jehóva vel og láta þekkinguna á honum leiðbeina okkur á öllum sviðum lífsins. Sálmaskáldið Davíð sagði til dæmis að Jehóva ,hati þann sem elskar ofríki‘ og Davíð varaði við því að umgangast sviksama menn. (Lestu Sálm 11:5; 26:4.) Hvað segja þessi vers þér um hugsunarhátt Jehóva? Hvaða áhrif ætti sú vitneskja að hafa á það hvernig þú forgangsraðar, notar Netið og velur þér félagsskap og afþreyingu? Svörin við þessum spurningum geta leitt í ljós hve vel þú þekkir Jehóva. Við viljum ekki að þessi illi heimur hafi áhrif á okkur. Við þurfum því að leggja okkur fram um að ,aga hugann‘, ekki bara til að geta greint muninn á réttu og röngu heldur líka á því sem er skynsamlegt og óskynsamlegt. – Hebr. 5:14; Ef. 5:15.

21. Hvað gerir okkur kleift að „skilja allt“ sem við þurfum til að þóknast föður okkar á himnum?

21 Þar sem Nói, Daníel og Job leituðu Jehóva af öllu hjarta lét hann þá finna sig. Hann hjálpaði þeim að „skilja allt“ sem þarf til að þóknast honum. Fordæmi þessara réttlátu manna sannar að það stuðlar að sannri velgengni að fara eftir vilja Jehóva. (Sálm. 1:1-3) Spyrðu þig: Þekki ég Jehóva eins vel og Nói, Daníel og Job gerðu? Ljós sannleikans skín nú æ skærar og þess vegna geturðu þekkt hann jafnvel enn betur en þessir trúföstu menn. (Orðskv. 4:18) Kafaðu því djúpt í orð Guðs. Hugleiddu það sem þú lest. Og biddu um heilagan anda. Þannig eignastu æ nánara samband við föður þinn á himnum og getur sýnt visku og skynsemi í óguðlegum heimi nútímans. – Orðskv. 2:4-7.

^ gr. 5 Enok, langafi Nóa, var einnig meðal þeirra sem ,gengu með Guði‘. En „Guð tók hann“ 69 árum áður en Nói fæddist. – 1. Mós. 5:23, 24.

^ gr. 19 Hið sama má segja um Nóa. Hann átti aðeins eina eiginkonu þó svo að fjölkvæni tíðkaðist allt frá því skömmu eftir uppreisnina í Eden. – 1. Mós. 4:19.