Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haltu áfram að styrkja þinn andlega mann

Haltu áfram að styrkja þinn andlega mann

„Lifið í andanum.“ – GAL. 5:16.

SÖNGVAR: 22, 75

1, 2. Hvað uppgötvaði bróðir nokkur og hvað gerði hann í málinu?

ROBERT skírðist á unglingsaldri en tók sannleikann ekki beint alvarlega. Hann segir: „Ég þjónaði Jehóva bara til málamynda en gerði þó aldrei neitt rangt. Það leit út fyrir að ég væri sterkur í trúnni. Ég sótti allar samkomur og var aðstoðarbrautryðjandi nokkrum sinnum á ári. En það var ekki allt sem sýndist.“

2 Robert áttaði sig ekki á hvað var að fyrr en eftir að hann gifti sig. Þau hjónin styttu sér stundir við að spyrja hvort annað biblíuspurninga. Konan hans var vel heima í Biblíunni og átti auðvelt með að svara spurningunum. En Robert átti oft í vandræðum með að svara og þótti það skammarlegt. „Það var eins og ég vissi ekki neitt,“ segir hann og hugsaði með sér að hann yrði að gera eitthvað í málinu fyrst hann ætti að fara með trúarlega forystu í fjölskyldunni. Og hann lét hendur standa fram úr ermum. Hann segir: „Ég rannsakaði og rannsakaði Biblíuna og fór að sjá heildarmyndina. Ég fór að skilja Biblíuna og síðast en ekki síst eignaðist ég náið samband við Jehóva.“

3. (a) Hvaða lærdóm má draga af sögu Roberts? (b) Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?

3 Það má draga dýrmætan lærdóm af sögu Roberts. Þó að við höfum vissa biblíuþekkingu og sækjum samkomur reglulega er það ekki nóg eitt sér til að gera okkur að andlegum manneskjum. Eins má vera að við höfum styrkt okkar andlega mann að vissu marki en þegar við lítum í eigin barm sjáum við að við getum gert enn betur. (Fil. 3:16) Til að taka enn meiri framförum skulum við leita svara við þrem spurningum: (1) Hvernig getum við rannsakað hvort við séum í rauninni andlegar manneskjur? (2) Hvernig getum við þroskað okkar andlega mann enn betur? (3) Hvernig er það til góðs í daglega lífinu að vera andleg manneskja?

RANNSÖKUM SJÁLF OKKUR

4. Hverjir þurfa að taka til sín leiðbeiningarnar í Efseusbréfinu 4:23, 24?

4 Þegar við fórum að þjóna Guði gerðum við alls konar breytingar sem höfðu mikil áhrif á líf okkar. Og breytingunum var ekki lokið þegar við skírðumst. Okkur er sagt að „endurnýjast í anda og hugsun“. Gríska sögnin, sem er þýdd „endurnýjast“, gefur til kynna áframhaldandi ferli. Við þurfum því að endurnýjast stöðugt í anda og hugsun. (Ef. 4:23, 24) Þar sem við erum ekki fullkomin þurfum við öll að vinna stöðugt að því að breyta okkur. Þeir sem hafa þjónað Jehóva lengi þurfa líka að leggja sig fram við að viðhalda sterku sambandi við hann. – Fil. 3:12, 13.

5. Hvaða spurninga getum við spurt okkur til að kanna hvort við erum andlega sinnuð?

5 Hvort sem við erum ung eða gömul þurfum við að gera heiðarlega sjálfsrannsókn. Við getum spurt okkur: Sé ég einhverjar breytingar hjá sjálfum mér sem benda til þess að ég sé að styrkja minn andlega mann? Er ég sífellt að líkjast Kristi betur? Endurspeglar hugarfar mitt og framkoma á samkomum að ég sé andleg manneskja? Um hvað tala ég mest og hvað leiðir það í ljós varðandi langanir mínar? Hvað segja námsvenjur mínar, klæðaburður og viðbrögð við leiðbeiningum um mig? Hvernig bregst ég við freistingum? Er ég orðin fullþroska kristin manneskja? (Ef. 4:13) Spurningar sem þessar geta hjálpað okkur að leggja mat á andlegan vöxt okkar.

6. Hvaða hjálp getum við þurft til að rannsaka okkar andlega mann?

6 Við getum í sumum tilvikum þurft hjálp til að rannsaka hvernig samband við eigum við Jehóva. Páll postuli bendir á að ,jarðbundinn maður‘ skilji ekki að hann sé að gera eitthvað rangt í augum Guðs. Andlegur maður skilur hins vegar sjónarmið Guðs og veit að sá jarðbundni er á rangri braut. (1. Kor. 2:14-16; 3:1-3) Ef einhver í söfnuðinum fer að hugsa eins og heimurinn eru öldungarnir, sem hafa huga Krists, oft fljótir að koma auga á það og reyna að leiða hann aftur inn á rétta braut. Hvað gerum við ef öldungur bendir okkur á að við séum komin út á hálan ís? Förum við eftir leiðbeiningunum? Ef við gerum það sýnum við að okkur langar til að þroska okkar andlega mann. – Préd. 7:5, 9.

AÐ STYRKJA SINN ANDLEGA MANN

7. Hvers vegna er ekki nóg að hafa biblíuþekkingu til að vera andleg manneskja?

7 Höfum hugfast að biblíuþekking ein sér nægir ekki til að gera okkur að andlegum manneskjum. Salómon konungur þekkti vilja Jehóva mjög vel og mörg af spakmælum hans er að finna í Biblíunni. En þegar fram liðu stundir reyndist hann ekki andlegur maður og var ekki trúr Jehóva. (1. Kon. 5:9, 10; 11:4-6) Hvað þurfum við þá annað en biblíuþekkingu? Við þurfum að halda áfram að styrkja okkar andlega mann. (Kól. 2:6, 7) Hvernig förum við að því?

8, 9. (a) Hvað hjálpar okkur að standa stöðug í trúnni? (b) Hvert er markmiðið með námi og hugleiðingu? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

8 Páll hvatti kristna menn á fyrstu öld til að ,snúa sér að fræðslunni fyrir lengra komna‘, það er að segja að þroskast í trúnni. (Hebr. 6:1) Hvað geturðu gert til að fara eftir ráðum Páls? Þú getur meðal annars farið vel yfir bókina Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“. Þannig glöggvarðu þig enn betur á því hvernig þú getur fylgt meginreglum Biblíunnar. Ertu búinn að fara yfir þessa bók? Þá geturðu valið þér annað námsrit sem getur hjálpað þér að standa stöðugur í trúnni. (Kól. 1:23) Hugleiðir þú hvernig þú getur farið eftir því sem þú lest og ræðirðu það við Jehóva í bæn?

9 Höfum hugfast að markmiðið með námi og hugleiðingu ætti að vera að byggja upp innilega löngun til að þóknast Jehóva og hlýða lögum hans. (Sálm. 40:9; 119:97) Við þurfum jafnframt að hafna öllu sem getur tálmað okkur að þroska hinn andlega mann. – Tít. 2:11, 12.

10. Hvað geta unglingar gert til að styrkja sinn andlega mann?

10 Ertu unglingur? Hefurðu þá skýr markmið í þjónustu Jehóva? Bróðir, sem starfar á Betel, er vanur að spjalla við skírnþega fyrir dagskrá á svæðismótum. Margir skírnþeganna eru á unglingsaldri. Bróðirinn spyr þá hvaða markmið þeir hafi sett sér í þjónustu Jehóva. Svör margra gefa til kynna að þeir hafi skýra mynd af því sem þá langar til að gera í þjónustu Jehóva, til dæmis að þjóna í fullu starfi eða starfa þar sem vantar fleiri boðbera. En stöku sinnum virðist einn og einn unglingur ekki geta svarað spurningunni. Getur það bent til þess að hann hafi ekki séð þörfina á að setja sér markmið í þjónustu Jehóva? Ef þú ert unglingur skaltu spyrja þig: Sæki ég bara samkomur og tek þátt í boðuninni af því að foreldrar mínir vilja það? Eða legg ég mig fram um að eiga persónulegt samband við Jehóva? Við ættum auðvitað öll að hafa markmið í þjónustu Jehóva, á hvaða aldri sem við erum. Þannig styrkjum við okkar andlega mann. – Préd. 12:1, 13.

11. (a) Hvað þurfum við að gera til að vera andlega sinnuð? (b) Hverjum er sagt frá í Biblíunni sem við getum líkt eftir?

11 Þegar við höfum komið auga á hvar við getum bætt okkur þurfum við að vinda okkur í að gera nauðsynlegar breytingar. Það er ákaflega mikilvægt að vera andleg manneskja. Málið snýst hreinlega um líf og dauða. (Rómv. 8:6-8) En við þurfum ekki að vera fullkomin til að vera þroskuð í trúnni. Andi Jehóva getur styrkt okkur svo að við getum bætt okkur. En við þurfum að leggja okkar af mörkum. John Barr, sem sat í hinu stjórnandi ráði, ræddi einu sinni um Lúkas 13:24 og sagði þá: „Mörgum tekst þetta ekki [að komast inn um þröngu dyrnar] af því að þeir leggja sig ekki alla fram um að verða nógu sterkir.“ Við þurfum að líkja eftir Jakobi sem glímdi við engil og hætti ekki fyrr en engillinn hafði blessað hann. (1. Mós. 32:26-28) Þó að biblíunám geti verið skemmtilegt megum við ekki búast við að Biblían sé eins og skáldsaga sem er skrifuð til skemmtilestrar. Við þurfum að leggja það á okkur að leita uppi andleg sannindi sem við getum nýtt okkur.

12, 13. (a) Hvað hjálpar okkur að fara eftir Rómverjabréfinu 15:5? (b) Hvernig getum við nýtt okkur sögu og leiðbeiningar Péturs postula? (c) Hvað geturðu gert til að þroska þinn andlega mann? (Sjá rammann „ Hvernig geturðu styrkt þinn andlega mann?“)

12 Heilagur andi gefur okkur kraft til að breyta um hugsunarhátt ef við leggjum okkur fram. Með hjálp hans lærum við smám saman að hugsa eins og Kristur. (Rómv. 15:5) Andinn hjálpar okkur enn fremur að uppræta rangar langanir og temja okkur eiginleika sem Guð hefur velþóknun á. (Gal. 5:16, 22, 23) Gefstu ekki upp þó að þú finnir að hugurinn beinist að efnislegum hlutum eða röngum löngunum. Haltu áfram að biðja Jehóva um heilagan anda og hann hjálpar þér þá að beina huganum aftur að því sem er rétt. (Lúk. 11:13) Mundu eftir Pétri postula. Honum tókst ekki alltaf að hugsa eins og andlegur maður. (Matt. 16:22, 23; Lúk. 22:34, 54-62; Gal. 2:11-14) Hann lagði þó ekki árar í bát. Með hjálp Jehóva tókst honum smám saman að tileinka sér huga Krists. Við getum það líka.

13 Pétur útlistaði reyndar síðar hvaða eiginleika við ættum að þroska með okkur. (Lestu 2. Pétursbréf 1:5-8.) Við bætum okkar andlega mann þegar við ,leggjum alla stund á‘ að temja okkur eiginleika eins og sjálfsaga, þolgæði og bróðurelsku. Væri ekki þjóðráð að spyrja sjálfan sig á hverjum degi: Hvað get ég gert í dag til að þroska minn andlega mann?

AÐ FYLGJA MEGINREGLUM BIBLÍUNNAR Í DAGSINS ÖNN

14. Hvaða áhrif hefur það á líf okkar að vera andlegar manneskjur?

14 Ef við hugsum eins og Kristur hefur það áhrif á tal okkar, framferði okkar í vinnu og skóla og daglegar ákvarðanir. Þessar ákvarðanir endurspegla að við erum að reyna að líkja eftir Kristi. Þar sem við erum andlegar manneskjur viljum ekki að neitt spilli sambandi okkar við föðurinn á himnum. Að hafa sama hugarfar og Kristur hjálpar okkur að standast freistingar sem verða á vegi okkar. Áður en við tökum ákvarðanir veltum við fyrir okkur hvaða meginreglur í Biblíunni geti hjálpað okkur. Hvað hefði Kristur gert við þessar aðstæður? Hvað myndi Jehóva vilja? Við þurfum að venja okkur á að hugsa þannig. Lítum á nokkrar hugsanlegar aðstæður sem geta komið upp og áttum okkur á meginreglu sem getur hjálpað okkur að taka skynsamlega ákvörðun í hverju tilfelli.

15, 16. Hvernig getur það að hugsa eins og Kristur hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir þegar við (a) veljum okkur maka? (b) veljum okkur félagsskap?

15 Að velja sér maka. Meginregluna er að finna í 2. Korintubréfi 6:14, 15. (Lestu.) Eins og Páll segir á andleg manneskja ekki samleið með jarðbundinni manneskju. Hvernig er hægt að heimfæra þessa meginreglu á það að velja sér maka?

16 Félagsskapur. Meginreglu Biblíunnar er að finna í 1. Korintubréfi 15:33. (Lestu.) Andlega sinnuð manneskja blandar ekki geði við þá sem geta haft neikvæð áhrif á samband hennar við Guð. Veltu fyrir þér hvernig hægt sé að heimfæra þessa meginreglu á ýmsar aðstæður. Hvernig á hún til dæmis við um samfélagsmiðla? Eða hvað ættirðu að gera ef þér yrði boðið að taka þátt í tölvuleik sem er spilaður við ókunnuga á Netinu?

Stuðla ákvarðanir þínar að því að þú styrkir þinn andlega mann,? (Sjá 17. grein.)

17-19. Hvernig getur andlegt hugarfar hjálpað þér (a) að forðast allt sem aftrar þér að styrkja andlegt hugarfar? (b) að setja þér markmið í lífinu? (c) að útkljá deilur?

17 Starfsemi sem aftrar okkur að styrkja andlegt hugarfar. Í Hebreabréfinu 6:1 er að finna vissa viðvörun. (Lestu.) Hvað er átt við með „breytni sem leiðir til dauða“ eða „dauðum verkum“ sem okkur ber að forðast? (Biblían 1981) Það eru verk sem stuðla ekki að andlegu hugarfari. Þessi meginregla getur hjálpað okkur að svara mörgum spurningum sem upp koma, eins og: Er þetta mér til góðs eða ills? Ætti ég að fjárfesta í þessari viðskiptahugmynd? Hvers vegna ætti ég ekki að starfa með samtökum sem hafa það markmið að breyta heiminum?

Stuðla ákvarðanir þínar að því að þú setjir þér markmið í þjónustu Jehóva? (Sjá 18. grein.)

18 Markmið í þjónustu Jehóva. Jesús gaf góð ráð í fjallræðunni um markmið sem við getum sett okkur. (Matt. 6:33) Andleg manneskja setur ríki Guðs í fyrsta sæti. Þessi meginregla hjálpar okkur að svara spurningum eins og: Ætti ég að fara í háskóla eftir að hafa lokið almennu framhaldsnámi? Ætti ég að taka ákveðnu atvinnutilboði?

Stuðla ákvarðanir þínar að því að þú sért friðsamur? (Sjá 19. grein.)

19 Deilur. Leiðbeiningar Páls til kristinna manna í Róm geta hjálpað okkur þegar okkur greinir á við aðra. (Rómv. 12:18) Við líkjum eftir Kristi þannig að við reynum að ,hafa frið við alla menn‘. Hver eru viðbrögð okkar þegar ósætti verður? Eigum við erfitt með að láta undan eða erum við þekkt fyrir að stuðla að friði? – Jak. 3:18.

20. Hvers vegna langar þig til að styrkja þinn andlega mann?

20 Þetta eru aðeins fáein dæmi sem sýna hvernig meginreglur Biblíunnar hjálpa okkur að taka ákvarðanir sem vitna um að við látum anda Guðs leiða okkur. Daglegt líf okkar verður ánægjulegra ef við erum andlega sinnuð. Robert, sem var nefndur í byrjun greinarinnar, segir: „Ég varð betri eiginmaður og faðir eftir að ég eignaðist raunverulegt samband við Jehóva. Ég var sáttur og hamingjusamur.“ Við getum upplifað eitthvað svipað ef við leggjum okkur fram um styrkja okkar andlega mann. Þá verður lífið ánægjulegra núna og við getum „höndlað hið sanna líf“ sem er fram undan. – 1. Tím. 6:19.