Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÚR SÖGUSAFNINU

Fagnaðarerindið boðað með opinberum fyrirlestrum á Írlandi

Fagnaðarerindið boðað með opinberum fyrirlestrum á Írlandi

ÞEGAR skipið siglir inn Belfast Lough koma farþegarnir, sem standa á þilfari skipsins, auga á grænar hlíðarnar í morgunsólinni. Þetta er í maí árið 1910 og Charles T. Russell er á meðal farþeganna. Þetta er í fimmta sinn sem hann kemur til Írlands. Tvö stór farþegaskip í smíðum koma í ljós þegar hann nálgast höfnina, óheillaskipið Titanic og systurskip þess, Olympic. * Á hafnarbakkanum handan við slippinn bíður hópur biblíunemenda eftir bróður Russell.

Um 20 árum áður leitaði bróðir Russell leiða til að boða fagnaðarerindið út um allan heim og ákvað því að fara í boðunarferðir utan Bandaríkjanna. Hann hóf fyrstu ferð sína á því að heimsækja Írland í júlí 1891. Vel má vera að hann hafi minnst lýsingar foreldra sinna á heimalandi þeirra þegar hann horfði á sólsetrið þar sem hann nálgaðist strandlengju Queenstown (nú Cobh) um borð í skipinu City of Chicago. Þegar bróðir Russell og ferðafélagar hans fóru um snyrtilega bæi og fallegar sveitir gerðu þeir sér grein fyrir að hér var akurinn „tilbúinn til uppskeru“.

Bróðir Russell fór alls sjö ferðir til Írlands. Áhuginn, sem vaknaði í fyrstu ferðinni, varð greinilega til þess að nokkur hundruð manns, jafnvel nokkur þúsund, komu til að hlusta á hann í seinni ferðunum. Í annarri ferðinni, í maí 1903, voru opinberar samkomur í Belfast og Dyflinni auglýstar í dagblöðum. Russell segir að „áheyrendurnir hafi hlustað af athygli“ á fyrirlesturinn „Hið eiðbundna fyrirheit“ sem fjallaði um trú Abrahams og þær blessanir sem bíða mannkyns í framtíðinni.

Vegna áhugans á Írlandi kom Russell einnig við þar í þriðju ferð sinni til Evrópu. Fimm bræður tóku á móti honum á bryggjunni í Belfast einn aprílmorgun árið 1908. Um kvöldið komu „um 300 skynsamir áheyrendur“ á fyrirlesturinn „Heimsveldi Satans kollvarpað“ sem auglýstur hafði verið. Árás frá andstæðingi í áheyrendafjöldanum var svarað fljótt og vel með rökum úr Biblíunni. Í Dyflinni mætti harðari andstæðingur. Hann hét O’Connor og var ritari KFUM. O’Connor reyndi að snúa áheyrendunum, sem voru yfir 1.000 talsins, gegn biblíunemendunum. Hvernig fór?

Reynum að sjá fyrir okkur hvernig þessi samkoma gæti hafa farið fram. Maður, sem hefur áhuga á að finna sannleika Biblíunnar, ákveður að mæta á opinberan fyrirlestur sem er auglýstur í dagblaðinu The Irish Times. Hann á erfitt með að finna sæti í yfirfullum salnum. Maðurinn hlustar hugfanginn á gráhærðan, skeggjaðan ræðumann í síðum svörtum frakka. Á meðan ræðumaðurinn flytur fyrirlesturinn gengur hann um sviðið og útskýrir með handatilburðum hvern ritningarstaðinn á fætur öðrum og maðurinn byrjar að skilja sannleika Biblíunnar. Rödd ræðumannsins berst til allra í salnum þó að hann hafi ekkert hátalarakerfi og hann heldur athygli áheyrenda í eina og hálfa klukkustund. Eftir ræðuna spyr fólkið spurninga og fær svör. Ræðumanninum er ögrað með spurningum frá O’Connor og félögum hans en hann ver boðskapinn fagmannlega með hjálp Biblíunnar. Áheyrendurnir klappa fyrir svörum hans. Þegar salurinn róast gengur áhugasami maðurinn til bræðranna til að læra meira. Að sögn sjónarvotta kynntust margir sannleikanum á þennan hátt.

Í maí 1909 sigldi bróðir Russell frá New York með skipinu Mauretaniu. Þetta var fjórða ferð hans og hann tók með sér bróður Huntsinger, sem var hraðritari, til að geta notað tímann vel og lesið honum fyrir greinar í Varðturninn á leiðinni yfir hafið. Um 450 manns mættu á opinbera fyrirlesturinn sem bróðir Russell flutti í Belfast. Vegna plássleysis þurftu um 100 viðstaddra að standa.

Bróðir Charles T. Russell um borð í Lusitaniu.

Fimmta ferðin, sem nefnd er í byrjun greinar, var með sama móti. Eftir opinbera fyrirlesturinn í Dyflinni fékk þekktur guðfræðingur, sem kom með O’Connor, svör frá Biblíunni við spurningum sínum, áheyrendum til mikillar skemmtunar. Daginn eftir fóru ferðalangarnir með póstskipi til Liverpool og þaðan með hinni frægu Lusitaniu til New York. *

Opinber fyrirlestur auglýstur í The Irish Times 20. maí 1910.

Í sjöttu og sjöundu ferð sinni, árið 1911, flutti bróðir Russell einnig fyrirlestra sem auglýstir voru fyrir fram. Um vorið tóku 20 biblíunemendur í Belfast á móti 2.000 gestum sem hlustuðu á fyrirlesturinn „Líf eftir dauðann“. O’Connor mætti á fyrirlesturinn í Dyflinni ásamt enn öðrum presti með spurningar en áheyrendurnir fögnuðu svörunum sem þeir fengu út frá Biblíunni. Um haustið sama ár heimsótti Russell fleiri staði á Írlandi og samkomurnar voru vel sóttar. O’Connor og 100 aðrir ófriðarseggir ætluðu enn og aftur að trufla samkomuna í Dyflinni, en áheyrendurnir studdu ræðumanninn af ákafa.

Jafnvel þótt bróðir Russell hafi tekið forystuna í að flytja opinbera fyrirlestra á þessum tíma viðurkenndi hann að „enginn maður væri ómissandi“ því að „þetta er ekki verk manna heldur Guðs“. Auglýstir opinberir fyrirlestrar – fyrirrennari helgarsamkomunnar – voru frábær tækifæri til að kynna sannleika Biblíunnar. Hver var árangurinn? Fagnaðarerindið var boðað með opinberum fyrirlestrum og stofnaðir voru söfnuðir í fjölmörgum borgum á Írlandi. – Úr sögusafninu í Bretlandi.

^ gr. 3 Titanic sökk innan tveggja ára.

^ gr. 9 Lusitaniu var sökkt með tundurskeyti suður af Írlandi í maí 1915.